Endurrit

úr gerðabók Hæstaréttar 15. júlí 1997 

 ---ooo000ooo---

Endurupptökubeiðni

í hæstaréttarmálinu nr. 214/1978:

Ákæruvaldið

gegn

Kristjáni Viðari Viðarssyni

Sævari Marinó Ciesielski

Tryggva Rúnari Leifssyni

Albert Klahn Skaftasyni

Erlu Bolladóttur og

Guðjóni Skarphéðinssyni

 

Um ofangreinda beiðni fjalla hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Arnljótur Björnsson, Garðar Gíslason, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson, ásamt Allan V. Magnússyni héraðsdómara, sem er kvaddur til samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1973 um Hæstarétt Íslands, sbr. 4. gr. laga nr. 67/1982. Vegna ákvæða 5. töluliðar 6. gr. laga nr. 75/1973 og e. liðar og g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, taka hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen ekki þátt í meðferð málsins.

 

Með bréfi 23. nóvember 1994 leitaði Sævar Marinó Ciesielski eftir endurupptöku málsins fyrir Hæstarétti. Af hálfu ákæruvalds hefur verið fjallað um erindið í samræmi við 1. mgr. 187. gr. laga nr. 19/1991. Hinn 16. desember 1994 var Ragnar Halldór Hall hæstaréttarlögmaður settur til að gegna störfum ríkissaksóknara við meðferð þess, eftir að Hallvarður Einvarðsson ríkissaksóknari hafði vikið sæti, sbr. 30. gr. laganna. Í bréfi hins setta ríkissaksóknara til réttarins 12. desember 1995 var lagt til, að beiðninni yrði hafnað. Að ósk Sævars og ákvörðun Hæstaréttar var Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður skipaður talsmaður hans vegna beiðninnar 30. janúar 1996. Í greinargerð talsmannsins, sem barst Hæstarétti 21. febrúar 1997, er þess krafist með vísan til 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 að málið verði tekið upp á ný og Sævar sýknaður af kröfum ákæruvaldsins vegna brots gegn 218. gr. og 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 samkvæmt 1. lið I. kafla ákæru 8. desember 1976, gegn sömu ákvæðum samkvæmt I. kafla ákæru 16. mars 1977 og gegn 1. mgr. 148. gr. sömu laga samkvæmt II. kafla þeirrar ákæru.

 

Aðrir dómfelldir í málinu hafa ekki leitað eftir endurupptöku fyrir sitt leyti.

Af hálfu ákæruvalds er í umsögn, sem barst Hæstarétti 22. maí 1997, lagt til að beiðni um endurupptöku málsins verði hafnað.