II.2.

II.2.A.

 Lögreglunni var tilkynnt 29. janúar 1974 um hvarf Guðmundar Einarssonar, en ekki hafði spurst til hans frá því hann varð viðskila við félaga sína á dansleik í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði nokkru fyrir miðnætti laugardaginn 26. sama mánaðar. Áður en þetta var tilkynnt lögreglunni höfðu aðstandendur Guðmundar auglýst eftir honum og vinir leitað hans án árangurs. Hjálparsveitir leituðu að Guðmundi um nokkurra daga skeið á svæði frá Fossvogi og suður um Hafnarfjörð, en þar sem snjólag var um 60 cm var ekki leitað á óbyggðum svæðum utan vega. Árangur varð heldur ekki af þessari leit. Á næstu dögum gaf sig fram við lögreglu vitnið Elínborg Rafnsdóttir og kvaðst hafa séð Guðmund úr bifreið, þar sem hann var á ferð um Strandgötu í Hafnarfirði við annan mann um kl. 2 aðfaranótt 27. janúar. Önnur vitni gáfu sig einnig fram og kváðust hafa séð úr bifreið til manns, sem svipaði til lýsingar á Guðmundi, þar sem hann var einn síns liðs og mikið ölvaður á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði móts við Hverfisgötu. Vitnum þessum bar ekki fyllilega saman um tímasetningu. Taldi annað þeirra, Sveinn Vilhjálmsson, þetta hafa gerst um kl. 2.15 til 2.30, en hitt, Smári Kjartan Kjartansson, nálægt kl. 3.00. Að öðru leyti en þessu virðist ekkert hafa orðið ágengt um sinn við að upplýsa hvarf Guðmundar.

 II.2.B.

 Erlu Bolladóttur var gert að sæta gæsluvarðhaldi frá 13. desember 1975 vegna rannsóknar á fjársvikum, sem hún var grunuð um að eiga hlut að með Sævari Marinó Ciesielski. Í dómi sakadóms Reykjavíkur segir frá því að lögreglan hafi fyrst tekið skýrslu af Erlu um hvarf Guðmundar Einarssonar 20. sama mánaðar, en tilefnið verið að lögreglunni hafi borist til eyrna að sambýlismaður Erlu, Sævar, kynni að hafa verið riðinn við hvarf Guðmundar. Að fengnum leiðbeiningum um heimild til að víkjast undan vitnisburði vegna tengsla við Sævar skýrði Erla lögreglunni svo frá, að hún hafi verið á dansleik að kvöldi 26. janúar 1974, en haldið þaðan í samkvæmi með fólki, sem hafi síðan ekið henni um kl. 3.30 til 4.00 um nóttina að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði, þar sem hún bjó í kjallaranum með Sævari. Þar hafi hún ekki orðið vör við neinn og haldið rakleitt inn í svefnherbergi, þar sem hún kveikti fyrst ljós. Hún hafi farið beint í rúmið, en tekið þá eftir að lakið var farið af því. Hún hafi sofnað fljótlega, en vaknað skömmu síðar við þrusk fyrir utan glugga og nokkru þar á eftir við umgang í kjallaranum, sem hún taldi hljóma eins og fleiri væru á ferð og bæru eitthvað þungt. Kvaðst Erla hafa farið fram úr rúminu og inn í stofu, en ekki gert vart við sig. Hafi hún heyrt til manna í þvottahúsi eða geymslu, þar sem þeir hafi rætt saman án þess að hún greindi orðaskil. Hún hafi þekkt raddir tveggja þeirra, sem hafi verið Sævar og Kristján Viðar Viðarsson. Rödd þriðja mannsins hafi hún hins vegar ekki þekkt. Hún kvaðst þessu næst hafa farið að dyrum þvottahússins og séð þaðan Sævar, Kristján og þriðja manninn í geymsluherbergi inn af því. Á milli þeirra hafi verið eitthvað stórt og þungt, umvafið ljósu laki. Hún hafi ekki séð hvað var í lakinu, en verið þó viss um að það væri líkami manns, sem lægi á bakinu með hnén kreppt að maganum. Sitjandi mannsins hafi staðið út í lakið, þar sem myndast hafi bleytublettur og gosið upp eins konar saurlykt. Erlu kvað sér hafa brugðið mjög við. Kristján og síðan Sævar hafi orðið varir við hana. Þeir hafi lyft manninum upp og haldið hvor undir sinn enda, en þriðji maðurinn tekið undir hann miðjan. Sævar hafi ýtt við henni og þeir borið manninn út úr húsinu, en Sævar svo komið til baka, dregið hana inn í svefnherbergi og lagt upp í rúm. Hann hafi sagt henni að hún skyldi aldrei segja neitt, þótt hún yrði spurð. Að því gerðu hafi hann farið út úr húsinu. Erla kvaðst telja að hún hafi sofnað eftir þetta, en daginn eftir hafi hún fundið lakið, sem áður var getið, í sorptunnu við húsið og hafi verið saurblettur á því.

 Erla gaf vitnaskýrslu fyrir sakadómi Reykjavíkur síðar sama dag, 20. desember 1975, þar sem hún greindi sjálfstætt á sama veg frá atvikum og vann eið að framburði sínum. Þá gaf hún á ný lögregluskýrslu 20. febrúar 1977, þar sem hún ítrekaði fyrri framburð og greindi meðal annars frá því, að þriðji maðurinn, sem svo er nefndur hér að framan, hafi verið Tryggvi Rúnar Leifsson. Þann 23. mars sama árs gaf hún aftur rækilega skýrslu fyrir dómi, sem var í meginatriðum á sama veg og áður greinir.

 II.2.C.

 Lögreglan tók fyrst skýrslu af Sævari Marinó Ciesielski vegna hvarfs Guðmundar Einarssonar 22. desember 1975, en Sævar sætti þá gæsluvarðhaldi vegna fyrrnefndrar rannsóknar á fjársvikamáli. Við skýrslutöku var staddur réttargæslumaður Sævars. Segir um skýrslutöku þessa í dómi sakadóms, að í upphafi hafi Sævar ítrekað verið spurður um hvarf Guðmundar, en hann neitað allri vitneskju um það. Honum hafi þá verið bent á að Erla Bolladóttir hafi gefið skýrslu um vitneskju sína um þetta efni og greint frá því að hann væri viðriðinn málið. Hafi Sævar þá kannast við það, en ekki viljað greina nánar frá atvikum. Í samráði við réttargæslumanninn hafi upphaf skýrslu Erlu verið lesið fyrir Sævar, en hann hafi fljótlega óskað eftir að lestrinum yrði hætt og fallist á að skýra sjálfur frá hlutdeild sinni í hvarfi Guðmundar. Hann hafi síðan skýrt í aðalatriðum frá þeim atburði að Guðmundur, Kristján Viðar Viðarsson og Tryggvi Rúnar Leifsson hafi allir komið að Hamarsbraut 11 seint að nóttu síðla í janúar 1974, en tímasetningar minntist hann vegna þess að hann hafi þá verið nýkominn úr för erlendis vegna kaupa á fíkniefnum. Átök hafi orðið í íbúðinni og lokið með því, að Guðmundur hafi beðið bana. Hann hafi hringt í Albert Klahn Skaftason, sem hafi komið á bifreið föður síns, og hafi þeir flutt lík Guðmundar í bifreiðinni út í hraun sunnan Hafnarfjarðar, þar sem líkið var urðað. Frekari skýrsla var ekki tekin af Sævari þessu sinni. Er það skýrt með því að langt hafi verið liðið á leyfilegan yfirheyrslutíma, svo og að réttargæslumaður hans hafi óskað eftir frestun.

 Lögreglan tók á ný skýrslu af Sævari 4. janúar 1976 og var réttargæslumaður hans viðstaddur skýrslugerðina. Þessu sinni greindi Sævar frá því að skömmu eftir áramót 1973 og 1974 hafi hann komið heim til sín að Hamarsbraut 11 að næturlagi. Kristján og Tryggvi hafi verið við húsið og farið inn með honum, en Erla ekki verið heima. Rétt á eftir hafi Sævar heyrt dynk úr geymslu og farið þangað. Þar hafi Kristján og Tryggvi verið ásamt manni, sem lá á gólfinu og búið var að breiða lak yfir. Sævar hafi farið aftur fram um nokkra stund, en þegar hann kom aftur í geymsluna hafi þeir Kristján og Tryggvi verið að ljúka við að vefja lakinu um manninn og binda utan um. Erla hafi komið að þeim í sama mund. Maðurinn hafi síðan verið borinn út í bifreið, sem Albert hafi komið á og beðið í. Manninum hafi verið komið fyrir í aftursætinu og þeir Kristján og Tryggvi sest hvor sínum megin við hann, en Sævar við hlið ökumannsins. Ekið hafi verið í nánd við álverið í Straumsvík og þar til vinstri af aðalveginum, en þó ekki langt. Þeir hinir hafi tekið manninn í lakinu og horfið með hann út í myrkrið. Sævar hafi ekki séð hvert þeir fóru og hafi þeir verið nokkra stund í burtu. Eftir þetta hafi Sævari verið ekið að Hamarsbraut eða starfsmannahúsi við Kópavogshælið.

 Sævar gaf aftur skýrslu hjá lögreglunni 6. janúar 1976 og var réttargæslumaður hans staddur við upplestur hennar. Frásögn Sævars af atvikum var þá á annan veg en að framan greinir að því leyti, að þegar hann hafi komið að Hamarsbraut að næturlagi síðast í janúar 1974 hafi Kristján og Tryggvi verið við húsið ásamt þriðja manni, sem Sævar kannaðist ekki við. Þeir hafi ruðst inn með honum óboðnir og elt hann inn í svefnherbergi, þar sem Kristján og Tryggvi hafi haft í hótunum við hann þegar hann reyndi að vísa þeim út. Einhver orðaskipti hafi orðið þar og ókunni maðurinn gert sig líklegan til að hverfa á braut, en Kristján þá ráðist á hann og slegið í andlitið með krepptum hnefa. Sævar hafi forðað sér inn í stofu og heyrt dynk og smell úr svefnherberginu. Hann hafi séð ókunna manninn falla á gólfið við dyr milli svefnherbergisins og stofunnar. Kristján og Tryggvi hafi farið að stumra yfir manninum og hafi Sævar heyrt Kristján segja að hann væri dáinn. Þeir Kristján og Tryggvi hafi dregið eitthvað eftir gólfinu úr svefnherberginu og inn í geymslu, en síðan hafi Kristján skipað sér að hringja í Albert og segja honum að koma strax, sem Sævar hafi gert. Eftir það hafi Sævar tekið eftir því að lakið væri horfið af rúminu í svefnherberginu, en Kristján og Tryggvi hafi verið í geymslunni um stund. Þeir hafi síðan farið þrír út úr húsinu og Albert komið í þann mund á bifreið föður síns af gerðinni Volkswagen, sem þeir settust upp í. Þeir hafi ekið að afleggjara að álverinu, en snúið þar við og farið út af veginum til hægri skömmu síðar, þar sem Sævar gaf Albert hass í pípu. Eftir það hafi þeir haldið aftur að Hamarsbraut, þar sem Sævar, Kristján og Tryggvi hafi farið inn í húsið, en Albert beðið í bifreiðinni. Kristján og Tryggvi hafi farið inn í geymslu, en Sævar á salernið og orðið þá var við að Erla væri komin heim. Sævar hafi síðan gengið að geymslunni og orðið við boði Tryggva um að binda hnút á enda laksins, sem hafði þá verið vafið um mannslíkama, en í sama mund hafi Erla komið að þeim. Kristján og Tryggvi hafi þá hvor tekið undir sinn enda líkamans og borið hann út, en Sævar hafi komið Erlu í rúmið og sagt henni að segja engum frá því, sem hún hefði séð. Kristján og Tryggvi hafi farið í bifreiðinni með Albert, en Sævar orðið eftir um sinn, þar til Albert kom einn aftur og ók honum í Kópavog.

 Sævar mun fyrst hafa komið fyrir dóm vegna þessa þáttar málsins 11. janúar 1976. Skýrði hann þá svo frá, að Kristján og Tryggvi hafi ruðst ásamt ókunna manninum inn í íbúðina að Hamarsbraut, þrátt fyrir mótmæli Sævars, og deilur þá hafist, sem enduðu með áflogum. Hafi ókunni maðurinn verið rotaður og Sævar sparkað í kjálka hans, þar sem hann hafi legið eða verið á hnjánum á gólfinu. Eftir þetta hafi maðurinn velt sér við og reynt að standa upp, en síðan verið borinn meðvitundarlaus inn í geymslu. Sævar neitaði allri vitneskju um hvað orðið hafi af manninum eftir þetta.

 Á dómþingi 11. mars, 9. júní og 7. september 1976 mun Sævar ekki hafa haft neitt frekar fram að færa um þennan þátt málsins.

 Í skýrslu hjá lögreglunni 30. september 1976 greindi Sævar nokkuð frá ferðum sínum að kvöldi 26. janúar 1974 og næstu nótt fram að því að hann hafi komið að Hamarsbraut 11. Sagðist hann meðal annars hafa verið um hríð við áfengisneyslu með vinkonu sinni í starfsmannabústað við Kópavogshælið. Þangað hafi Kristján komið í leigubifreið og reynt að fá hjá honum peningalán, en Kristjáni hafi verið kunnugt um peningaeign hans á þessu tímabili vegna sölu fíkniefna. Hann hafi neitað um lánið og Kristján horfið á braut. Hann hafi síðan farið að óttast að Kristján kynni að fara á Hamarsbraut og leita þar peninga. Hann hafi því farið þangað sjálfur í leigubifreið um miðnætti og hitt Kristján og Tryggva á leið út úr húsinu ásamt manni, sem hann vissi nú að hafi verið Guðmundur. Þeir hafi allir farið inn í íbúðina, þar sem Guðmundur hafi í kjölfar orðaskipta ætlað að ráðast að Sævari. Hafi þá komið til slagsmála milli Kristjáns og Guðmundar. Sævar kvaðst hafa vikið strax frá og lokað að sér á salerni, en farið þaðan fram eftir nokkra stund þegar hann varð þess var að Kristján og Tryggvi leituðu hans. Þegar hann hafi komið fram á ný hafi hann séð Guðmund liggjandi á gólfinu undir laki. Kristján hafi sagt að Guðmundur væri dáinn, en Guðmundur hefði tekið sig hálstaki og myndi hann ekki hvað gerðist. Sævar kvað Guðmund hafa þessu næst verið dreginn inn í þvottahús, en hann hafi ásamt Kristjáni og Tryggva farið í leigubifreið á nætursölu. Þegar þeir hafi komið aftur á Hamarsbraut hafi Erla verið stödd þar. Þeir þremenningar hafi ákveðið að fara burt með lík Guðmundar og hafi Sævar hringt í Albert til að fá aðstoð hans. Meðan Alberts var beðið hafi Sævar sagt Erlu hvað hafi gerst. Albert hafi blikkað ljósum bifreiðarinnar þegar hann kom að húsinu og Kristján farið út að ræða við hann, en Albert hafi síðan komið með Kristjáni inn í anddyri. Albert og Tryggvi hafi hjálpast að við að bera líkið út í bifreiðina. Sævar hafi komið út þegar Albert var að loka farangursgeymslu bifreiðarinnar og hafi þeir svo ekið á stað í námunda við álverið í Straumsvík, þar sem Kristján og Tryggvi hafi horfið út í myrkrið með líkið. Þeir hafi komið aftur eftir um tuttugu mínútur og haft lakið meðferðis. Sævari hafi verið ekið aftur á Hamarsbraut, þar sem hann setti lakið í sorptunnu, en eftir orðaskipti við Erlu hafi hann farið aftur í Kópavog, þar sem hann hafi gist um nóttina.

 Í lögregluskýrslu 5. október 1976 greindi Sævar nokkuð ítarlega frá því hvernig hann hafi ásamt Kristjáni og Albert sótt lík Guðmundar í Hafnarfjarðarhrauni í ágúst 1974 og flutt það að næturlagi í Fossvogskirkjugarð, þar sem þeir hafi grafið það.

 Í lögregluskýrslu af Sævari 9. mars 1977, svo sem greint er frá henni í dómi sakadóms, er atvikum þessa þáttar málsins lýst nokkuð ítarlega og í meginatriðum á sama veg og að framan greinir. Verður því aðeins getið hér þess helsta, sem var þar með öðrum hætti en í fyrri skýrslum. Um komu Kristjáns í starfsmannabústað við Kópavogshælið að kvöldi 26. janúar 1974 skýrði Sævar þessu sinni svo frá, að Kristján hafi þá verið farþegi hjá Albert í bifreið föður þess síðarnefnda, en hún hafi verið af gerðinni Volkswagen og svört að lit. Með þeim í bifreiðinni hafi verið Tryggvi og Gunnar nokkur Jónsson. Eftir brottför Kristjáns kvaðst Sævar sem fyrr hafa farið með leigubifreið að Hamarsbraut 11 og hafi þá Kristján, Tryggvi og Albert allir verið staddir þar inni ásamt Gunnari og Guðmundi, en rangt væri í fyrri skýrslum að hringt hafi verið frá Hamarsbraut eftir leigubifreið eða til Alberts, því að síminn þar hafi verið lokaður. Slagsmál hafi brotist út og Kristján, Tryggvi og Albert allir veist að Guðmundi, en Gunnar hafi ekki komið þar nærri. Eftir átökin hafi komið í ljós að Guðmundur væri látinn. Þeir hafi ekki farið með líkið í þvottahús eða geymslu, heldur beint út í bifreiðina, sem Albert hafði til umráða, og ekki hulið líkið laki. Í byrjun hafi verið reynt að setja líkið í farangursgeymslu, en síðan hafi það verið sett fyrir aftan framsætin. Þá kvaðst Sævar ekki minnast þess að hafa hitt Erlu að Hamarsbraut 11 þessa nótt.

 Í skýrslu fyrir sakadómi 29. mars 1977 lýsti Sævar viðkomu Kristjáns í starfsmannahúsi við Kópavogshælið að kvöldi 26. janúar 1974 í meginatriðum á sama veg og í síðastgreindri lögregluskýrslu. Hann kvaðst muna óglöggt eftir þeim atburðum, sem gerðust í kjölfarið þá um nóttina. Hann taldi sig hafa farið með leigubifreið að Hamarsbraut um kl. 2.00 og hafi þá verið staddir þar Kristján, Tryggvi, Albert, Gunnar og maður, sem hann kannaðist ekki við en þekkti af mynd sem Guðmund. Átök hafi orðið skömmu síðar milli Guðmundar annars vegar og hins vegar Kristjáns, Tryggva og ef til vill Alberts. Sævar kvaðst sjálfur ekki hafa átt hlut að átökunum, heldur hafi hann lokað sig inni á salerni og fyrst komið þaðan út þegar Kristján kallaði til hans. Guðmundur hafi þá legið á gólfinu látinn.

 Að fram komnu því, sem að framan greinir úr skýrslunni 29. mars 1977, hvarf Sævar frá öllu, sem hann hafði áður borið um þennan þátt málsins. Bar hann því við að hann hafi verið staddur í starfsmannahúsi við Kópavogshæli alla aðfaranótt 27. janúar 1974 og ekki komið þá að Hamarsbraut 11. Allar skýrslur hans fyrir lögreglu og dómi væru rangar að því leyti, sem annað væri þar sagt. Sævar kvaðst hafa verið beittur ofbeldi af rannsóknarmönnum og fangavörðum og látinn játa á sig sakir, en staðhæfingar hans í þessum efnum eru greindar nánar í kafla II.5.A. hér á eftir. Að öðru leyti sagðist Sævar alltaf hafa haldið fram sakleysi sínu, en hann hafi ekki getað annað en gefið fyrri skýrslur sínar, þar sem þess hafi verið krafist.

 II.2.D.

 Skýrsla vegna þessa þáttar málsins var fyrst tekin af Kristjáni Viðari Viðarssyni fyrir lögreglu 23. desember 1975, en á þeim tíma afplánaði hann fangelsisdóm að Litla Hrauni. Í þessari fyrstu skýrslu kvaðst Kristján hafa kannast við Guðmund Einarsson, þar sem þeir hafi eitt sinn verið skólabræður, en ekkert vita um hvarf hans eða afdrif. Þetta ítrekaði Kristján fyrir dómi sama dag og taldi sig hafa verið að vinna í Vestmannaeyjum á þeim tíma, sem Guðmundur hvarf.

 Í lögregluskýrslu 28. desember 1975 greindi Kristján frá því að seint í janúar 1974, sennilega aðfaranótt sunnudags, hafi hann komið að Hamarsbraut 11 með Sævari, Tryggva og einhverjum ókunnum þriðja manni og hafi Erla ekki verið heima. Þar hafi orðið átök, sem hófust í svefnherbergi en bárust fram í stofu og gang. Kristján kvaðst ekki vera viss um hverjir hafi staðið í átökunum, en taldi sennilegast að það hafi verið Tryggvi og ókunni maðurinn. Um lyktir átakanna gat hann ekki borið, en minntist þess að hafa þar á eftir ekið um Hafnarfjörð með Sævari og Tryggva án ókunna mannsins. Þeir hafi farið aftur á Hamarsbraut og Sævar og Tryggvi eitthvað verið að bjástra í þvottahúsi eða geymslu. Kristján sagðist ekki hafa séð hvað þeir voru að gera, en þó fundist þeir vera með stóran poka. Erla hafi komið þar að og verið "mjög hissa og skrítin". Kristján hafi rætt við hana að ósk Sævars, en umræðna minntist hann ekki. Næst mundi Kristján eftir því að lítil gul bifreið Alberts af japanskri gerð hafi verið komin að húsinu, hann hafi sest í aftursæti og Sævar og Tryggvi komið einhverju þungu fyrir í farangursgeymslu aftan í henni. Þeir hafi síðan ekið á stað í námunda við álverið í Straumsvík og Sævar og Tryggvi tekið þar eitthvað út úr farangursgeymslunni og horfið í um stundarfjórðung. Kristján kvaðst ekki minnast annarra atburða næturinnar, en hann hafi verið undir áhrifum áfengis.

 Kristján gaf á ný skýrslu hjá lögreglunni 3. janúar 1976. Þá bar hann að Sævar hefði orðið undir í átökum við ókunna manninn í stofunni að Hamarsbraut 11 og kallað á hjálp. Þeir Tryggvi hafi hjálpað Sævari, en Kristján þó aðeins þannig, að hann hafi togað í manninn. Lýsti Kristján átökunum svo, að Tryggvi hafi lagst ofan á ókunna manninn og haldið honum niðri, en Sævar sparkað margsinnis í hann, oftast í höfuðið. Átökin hafi borist um íbúðina, en Kristján kvaðst ekki hafa séð þau frekar. Á þessu stigi skýrslunnar kvað Kristján ókunna manninn hafa verið skólabróður sinn í barnaskóla, Guðmund Einarsson, og lýsti Kristján klæðaburði hans. Kristján kvaðst ekki minnast aðdragandans að því að Guðmundur hafi verið með þeim í för, en rámaði óljóst í að hann sjálfur hafi ekið með öðrum um Hafnarfjörð þessa nótt og tekið Guðmund upp í, hugsanlega í bifreið Alberts eða leigubifreið. Tilefni átakanna kunni að hafa verið að Guðmundur hafi nefnt þá "dópista". Fyrrnefnt bjástur Sævars og Tryggva hafi verið við að vefja einhverju ljósu utan um eitthvað, sem gæti hafa verið mannslíkami, en Erla hafi komið að þeim meðan á því stóð. Hann hafi hafnað bón Sævars og Tryggva um að hjálpa þeim við að bera þetta út í bifreið Alberts, en farið út í hana. Hún hafi verið af gerðinni Volkswagen og svört að lit.

 Hinn 11. janúar 1976 kom Kristján fyrir dóm. Segir í dómi sakadóms að hann hafi skýrt þar sjálfstætt frá málsatvikum og hafi framburður hans verið á sama veg og fyrir lögreglu 3. sama mánaðar. Hann greindi jafnframt frá því að þeir Tryggvi hafi hitt Guðmund í brekkunni, sem liggi upp úr Hafnarfirði, annaðhvort fótgangandi eða í bifreið, en hann var óviss um hvort Sævar hafi verið með þeim. Hann minntist þess að hafa séð Sævar sparka í síðu og höfuð Guðmundar, þar sem sá síðarnefndi lá á stofugólfinu að Hamarsbraut 11, en síðan hafi athugun leitt í ljós að Guðmundur væri látinn. Farið hafi verið með lík Guðmundar út í Hafnarfjarðarhraun, þar sem það hafi verið látið í gjótu og stórum steini velt yfir, en ákvörðun um þetta hafi Sævar tekið.

 Kristján kom aftur fyrir dóm 22. mars 1976 ásamt réttargæslumanni sínum. Hann lýsti þá nokkrum orðum hvernig hann hafi greint Erlu frá hræðilegu slysi og mannsláti þegar hún hafi komið að Hamarsbraut 11 umrædda nótt. Hann kvað þá Tryggva hafa neytt fíkniefnisins LSD næsta dag og rætt um að þeir hafi ekki verið í Hafnarfirði um nóttina, þar hafi enginn dáið og ekkert gerst.

 Kristján gaf skýrslu hjá lögreglunni 7. apríl 1976. Segir í héraðsdómi að hann hafi sjálfur óskað eftir að gefa skýrsluna. Hann hafi sagt fyrri skýrslur sínar að mestu réttar, en nú vildi hann greina frá öllum sannleikanum, eins og hann örugglega myndi. Hann kvað þá Tryggva hafa farið með Sævari að kvöldi 26. janúar 1974 í leigubifreið að starfsmannahúsi við Kópavogshælið, þar sem sá síðastnefndi hafi orðið eftir, en þeir Tryggvi hafi haldið áfram suður í Hafnarfjörð. Hafi Sævar greitt ökugjaldið og þeir sammælst um að hittast við tiltekið veitingahús í Hafnarfirði. Skammt frá veitingahúsinu hafi Kristján og Tryggvi hitt Guðmund, en Sævar hafi ekki komið og þeir því haldið heim til hans. Þar hafi þeir hitt Sævar og farið allir fjórir inn. Sævar og Guðmundur hafi fljótlega farið að deila og Guðmundur ráðist á Sævar, þar sem hann reyndi að forða sér undan Guðmundi. Tryggvi hafi gengið á milli þeirra og Sævar komist inn á salerni, þar sem hann lokaði að sér. Sævar hafi viljað láta Guðmund fara, en hann neitað að hverfa úr íbúðinni. Kristján kvaðst þá hafa ætlað að víkja Guðmundi út, en litið undan og Guðmundur þá komið aftan að sér og tekið sig hálstaki. Sagðist Kristján ekki hafa getað losnað frá Guðmundi. Hafi hann hræðst, þrifið hníf úr slíðri á belti sínu og stungið aftur fyrir sig í Guðmund. Við það hafi hann losnað, en Guðmundur þó elt sig og síðan fallið á gólfið. Guðmundi hafi síðan verið komið fyrir í þvottahúsinu, meðvitundarlausum eða látnum. Kristján kvaðst eftir þetta hafa ekið með Sævari og Tryggva um Hafnarfjörð í leigubifreið, en farið síðan aftur á Hamarsbraut, þar sem þeir hafi komist að raun um að Guðmundur væri dáinn. Þeir hafi ákveðið að losa sig við líkið og hringt í Albert. Meðan þeir biðu hans hafi þeir vafið líkið ljósu klæði. Þeir Kristján, Sævar og Tryggvi hafi síðan borið líkið út í svarta Volkswagen bifreið Alberts. Kristján kvaðst hafa sest í aftursæti og tekið á móti líkinu frá Sævari og Tryggva. Líkið hafi verið á gólfinu framan við aftursætið og þeir ekið með það út fyrir veg skammt frá álverinu, en í gagnstæða átt af Reykjanesbraut. Kristján kvaðst hafa með Sævari og Tryggva borið líkið út í djúpa hraunsprungu, þar sem það hafi verið hulið grjóti. Eftir þetta hafi Albert ekið þeim Tryggva heim til Kristjáns.

 Aftur gaf Kristján skýrslu hjá lögreglunni 22. júní 1976 að eigin ósk. Kvaðst hann þá ekki hafa stungið Guðmund með hnífi, heldur hafi hann ásamt Sævari og Tryggva lent í átökum við Guðmund, sem hann lýsti nánar líkt og áður segir. Greindi Kristján síðan með áþekkum hætti og í fyrri skýrslum frá för sinni, Sævars og Tryggva um Hafnarfjörð, símhringingu til Alberts, umbúnaði á líkinu og flutning þess út í Hafnarfjarðarhraun.

 Kristján var inntur skýringa fyrir dómi 17. september 1976 á misræminu milli tveggja síðastgreindu lögregluskýrslna hans um hvernig Guðmundi hafi verið ráðinn bani. Verður ekki séð að skýring hafi þá fengist.

 Samkvæmt dómi sakadóms átti lögreglumaður viðtal við Kristján 19. september 1976 og gerði skýrslu um samtal þeirra, sem Kristján staðfesti næsta dag að viðstöddum réttargæslumanni sínum. Í skýrslunni greindi Kristján með öllu nánari hætti en í fyrri skýrslum frá aðdraganda átaka við Guðmund, sem hann rakti til þess að Sævar hafi stolið veski hans að Hamarsbraut 11, og átökunum sjálfum, sem hann kvað hafa lokið með hnífstungu, svo sem hann lýsti í fyrrgreindri lögregluskýrslu 7. apríl 1976. Sagði Kristján meðal annars að Guðmundur hafi gripið um tölu á frakka Kristjáns og slitið hana af þegar hann féll í gólfið eftir hnífstunguna, en sár eftir hana hafi verið ofan við belti. Hafi lagt vondan þef af sárinu, einna líkast saurlykt en þó sterkari. Kvað Kristján þefinn af þessu hafa verið svo mikinn að hann hafi ásamt Sævari og Tryggva farið út um stund. Þegar þeir komu aftur hafi Erla verið komin heim og hann átt orðaskipti við hana. Þeir þremenningar hafi búið um líkið og meðal annars orðið að kreppa það saman til að koma því í lak eða voð, sem Sævar lagði til. Albert hafi komið á bifreið, Sævar fyrst í stað átt orðaskipti við hann einn og þeir síðan borið líkið út í hana. Þeir hafi komið líkinu fyrir sunnan við álverið í Straumsvík, en Tryggva hafi þá tekist að ná frakkatölu Kristjáns, sem áður var getið, úr krepptum hnefa Guðmundar.

 Í annarri lögregluskýrslu um samtal 19. september 1976, sem Kristján staðfesti að viðstöddum réttargæslumanni sínum 21. sama mánaðar, greindi hann frá því hvernig hnífnum, sem hann hafi beitt í átökum við Guðmund, hafi verið fargað að frumkvæði Sævars í ágúst 1974. Þá var tekin lögregluskýrsla af Kristjáni 14. október 1976, þar sem skráð var frásögn hans um hvernig lík Guðmundar kunni að hafa verið fært í Fossvogskirkjugarð um svipað leyti. Þann 22. október 1976 gaf Kristján enn skýrslu hjá lögreglunni, þar sem honum var greint frá því að tæknirannsókn á frakka hans hafi leitt í ljós að engin tala hafi verið slitin þar af. Kvað þá Kristján töluna hafa rifnað af leðurjakka, sem hann hafi verið í undir frakkanum, en jakkann hafi hann lánað manni nokkrum í febrúar 1974 og ekki fengið hann aftur. Ítrekaði hann frásögn sína um hvernig talan hafi verið rifin af fatnaði hans í átökum við Guðmund og hvernig Tryggvi hafi afhent honum hana.

 Í lögregluskýrslu 14. mars 1977 skýrði Kristján frá samvistum sínum við Gunnar Jónsson, Tryggva og Albert að kvöldi 26. janúar 1974, svo og kaupum þeirra þá á fíkniefninu LSD og neyslu þess. Í skýrslunni fullyrti Kristján að frásögn sín um að hann hafi stungið Guðmund með hnífi væri ósönn ásamt lýsingu á lykt frá sárinu.

 Kristján gaf ítarlega skýrslu á dómþingi 25. mars 1977 að viðstöddum verjanda sínum. Hann kvað sakargiftir á hendur sér í I. kafla ákærunnar 8. desember 1976 vera réttar að frátöldu því, að hann hafi ekki stungið Guðmund með hnífi. Hann kvaðst hafa verið við neyslu áfengis og fíkniefna á heimili sínu að kvöldi 26. janúar 1974 og hafi verið þar staddir Albert og Gunnar, þegar Tryggvi kom þangað. Hafi þeir haldið þaðan um miðnætti í svarti bifreið, af gerðinni Volkswagen, sem faðir Alberts hafi átt. Þeir hafi komið við um kl. 1.00 til 1.30 í starfsmannabústað við Kópavogshælið, þar sem Kristján hafi reynt árangurslaust að fá peningalán hjá Sævari fyrir áfengi. Við brottför Kristjáns þaðan hafi Sævar sagst vera á heimleið, en þeir hafi þó ekki mælt sér mót á ákveðnum stað. Kristján kvaðst hafa farið með Tryggva, Albert og Gunnari í bifreiðinni til Hafnarfjarðar, þar sem þeir Tryggvi hafi farið út úr bifreiðinni rúmlega kl. 2.00. Þeir hafi verið þar á gangi kringum veitingahúsið Skiphól og ætlað síðan að leita eftir fari til Reykjavíkur. Þeir hafi hitt Guðmund í sömu erindagerðum og þeir þrír farið að bifreið Alberts, sem hafi neitað að aka þeim. Hafi þeir eftir þetta enn reynt að stöðva bifreiðir, en Tryggvi orðið viðskila við þá Guðmund um stund. Meðal annars minntist Kristján bifreiðar, sem hafi hægt ferðina í námunda við þá Guðmund. Þegar ekki tókst að stöðva bifreið hafi þeir haldið þrír að Hamarsbraut 11 til að hitta Sævar og fá peningalán. Hafi enginn verið þar heima, en Sævar komið að húsinu þegar þeir voru staddir við það og með tregðu hleypt þeim inn. Stuttu síðar hafi Albert og Gunnar einnig komið. Innan skamms hafi deila komið upp milli Sævars, Tryggva og Guðmundar um kaup á áfengisflösku. Hafi Kristján í kjölfarið séð Tryggva slá Guðmund í gólfið og leggjast ofan á hann, en Sævar hafi þá sparkað í höfuð Guðmundar og horfið rakleitt inn á salerni. Tryggvi hafi sleppt Guðmundi, sem hafi í reiði ráðist að Kristjáni í svefnherberginu og meðal annars tekið hann taki um höfuðið aftan frá. Kristján hafi losað sig, veitt Guðmundi nokkur högg og hann fallið við það, en ekki staðið upp aftur. Eftir þetta hafi Gunnar farið að frumkvæði Kristjáns og Sævars. Hafi Albert einnig vikið af vettvangi og sagst vilja aka Gunnari heim. Kristján kvaðst síðan hafa gætt að Guðmundi og ekki fundið æðaslátt á honum. Hann hafi síðan ásamt Sævari og Tryggva fært Guðmund inn í þvottahús af ótta við að Erla kæmi að honum í svefnherberginu. Þeir hafi svo þrír farið út, náð í leigubifreið og farið á nætursölu, en komið til baka að Hamarsbraut eftir um hálfa klukkustund. Hafi þeir þá ákveðið að fela lík Guðmundar og búið um það í laki, sem Sævar sótti, en í þann mund hafi Erla komið heim. Kristján kvaðst hafa sagt henni hvað gerðist. Albert hafi komið aftur meðan það samtal stóð yfir, Sævar hafi rætt við hann og hann farið aftur út og beðið þeirra í bifreiðinni. Þeir hafi síðan borið líkið út í hana, reynt fyrst að koma því í farangursgeymslu en sett það svo á gólfið aftan við framsæti. Ekið hafi verið með líkið út í Hafnarfjarðarhraun gegnt álverinu. Því hafi verið komið þar fyrir með nánar tilteknum hætti í hraungjótu og það hulið með steinhellum. Kannaðist Kristján ekki við að líkið hafi á síðari stigum verið flutt þaðan og kvað skýrslu sína um það hjá lögreglunni 14. október 1976 ranga.

 

Á dómþingi 28. mars 1977 var Kristján inntur eftir skýringum á misræmi milli skýrslna hans fyrir dómi 25. sama mánaðar og 11. janúar 1976. Hann sagði síðari skýrslu sína vera réttari í öllum atriðum, sem þar bar á góma.

 

Kristján kom á ný fyrir dóm 19. apríl 1977. Kvað hann það hafa rifjast upp fyrir sér að þegar hann stóð utan við húsið að Hamarsbraut 11 ásamt Tryggva og Guðmundi aðfaranótt 27. janúar 1974 hafi Albert komið að þeim, en ekki Sævar, svo sem hann hafi minnt við skýrslugjöf 25. mars 1977. Kristján sagðist hafa þá skriðið inn um þvottahúsglugga og opnað húsið. Gunnar hafi svo komið rétt á eftir og loks Sævar.

 

Kristján kom að eigin ósk enn fyrir dóm 27. september 1977. Sagðist hann ekkert vita um hvarf Guðmundar Einarssonar, en aðspurður um ástæður fyrir fyrri skýrslum hans í málinu sagði hann lögregluna hafa farið fram á að hann gæfi þær og hann ekki talið sér heimilt að neita því. Hann hafi verið yfirheyrður með öðrum ákærðu án þess að skýrslur væru teknar og þeir verið látnir hjálpast að við að muna eftir atburðum, sem gerðust ekki. Hann hafi ekki verið staddur í Hafnarfirði aðfaranótt 27. janúar 1974, heldur heima hjá sér. Síðdegis þann 26. hafi hann farið á tiltekna kvikmynd og komið síðan við hjá nafngreindum kunningja með ráðagerð um að fara á skemmtistað, en hún ekki náð fram að ganga, þar sem kunninginn hafi ekki getað veitt honum peningalán.

 

II.2.E.

 

Tryggvi Rúnar Leifsson var handtekinn vegna málsins 23. desember 1975. Í lögregluskýrslu þann dag kvaðst hann ekkert vita um hvarf Guðmundar Einarssonar. Hann bar á sama veg fyrir dómi síðar þann dag og var þá gert að sæta gæsluvarðhaldi.

 

Samkvæmt dómi sakadóms var lögregluskýrsla þessu næst tekin af Tryggva 9. janúar 1976. Sagðist hann þá muna að á þeim tíma, sem um ræði í málinu, hafi hann eitt sinn verið staddur í húsi með Sævari og Kristjáni ásamt þriðja manni, sem hann þekkti ekki en Kristján var kunnugur. Tryggvi gat ekki greint frá því hvar þetta hafi verið eða hver hafi þar ráðið húsum, en herbergjaskipan lýsti hann að nokkru. Ósamkomulag hafi komið upp, að Tryggvi taldi milli Kristjáns og þess ókunna. Hafi þeir í byrjun skipst á fúkyrðum, en átök síðan orðið. Sævar hafi rétt á eftir verið kominn í átök við ókunna manninn og kallað á hjálp. Tryggvi kvaðst hafa komið Sævari til hjálpar og fengið högg, en hann hafi síðan slegið ókunna manninn þannig að hann féll í gólfið. Ókunni maðurinn hafi reynt að standa upp og Sævar þá komið að og sparkað í höfuð hans, en eftir það hafi hann ekki hreyft sig. Sævar hafi hugað að manninum og sagt hann vera dáinn. Þeir hafi síðan borið manninn inn í geymslu. Tryggvi kvaðst ekki muna frekar eftir atvikum að svo komnu.

 

Tryggvi kom fyrir dóm 11. janúar 1976 og skýrði sjálfstætt frá atvikum á sama veg og að framan greinir. Hann minntist einskis frekar um málið þegar hann kom aftur fyrir dóm 22. mars sama árs. Á dómþingi 30. apríl 1976 skýrði hann á ný frá atvikum á sama hátt og í fyrrgreindri lögregluskýrslu og var þá réttargæslumaður hans viðstaddur. Tryggvi kom enn fyrir dóm 20. júní og 17. september 1976. Í fyrra skiptið mun hann ekkert hafa verið spurður um efnisatriði málsins, en síðara skiptið virðist aðeins hafa komið fram að hann myndi ekki eftir nánar tilteknum atriðum, sem leitað var svara hans um.

 

Á dómþingi 30. mars 1977 neitaði Tryggvi sakargiftum í I. kafla ákæru 8. desember 1976. Hann kvaðst aldrei hafa komið að Hamarsbraut 11, hvorki aðfaranótt 27. janúar 1974 né við annað tækifæri, og væri óhugsandi að hann hafi verið með Kristjáni og Sævari þegar þau atvik gerðust, sem greindi í ákærunni. Sagði Tryggvi að fyrrgreindar skýrslur hans fyrir dómi og lögreglu væru rangar. Þær hafi verið fengnar meðal annars með endurteknum yfirheyrslum langtímum saman, þar sem hart hafi verið lagt að honum að játa á sig sakir og honum hótað langvarandi gæsluvarðhaldi. Hann hafi loks játað á sig verknaðinn með því hugarfari að það sanna kæmi í ljós þegar málið yrði lagt fyrir dómara. Bókun eftir Tryggva um þetta á dómþinginu 30. mars 1977 er að finna í heild sinni í kafla III.5.A. hér á eftir.

 

Í skýrslu Ásgeirs Karlssonar læknis um geðrannsókn á Tryggva sagði meðal annars að Tryggvi hafi í viðtali sagt það hafa komið flatt upp á sig að vera settur í gæsluvarðhald vegna þessa máls, því að hann hafi talið sig ekkert um það vita. Hafi hann komist í mikið uppnám, misst svefn í eina 4 sólarhringa og haft ofskynjanir, sem nánar er lýst í skýrslu Ásgeirs. Tryggvi hafi síðan fengið róandi lyf og talið að "ruglið hafi runnið af sér á nokkrum dögum". Tryggvi hafi sagt að þrátt fyrir yfirheyrslur hafi ekkert rifjast upp fyrir sér um hvarf Guðmundar fyrr en eftir um mánaðar varðhaldsvist. Endurminningar hans væru næsta óljósar og sundurlausar, en hann teldi sig þó muna orðið greinilega eftir að hafa verið með tveimur öðrum mönnum í átökum við Guðmund og hafi annar þeirra sparkað í andlit Guðmundar, þar sem hann lá á gólfinu. Þeir hafi síðan farið með lík Guðmundar á einhvern stað í námunda við Hafnarfjörð.

 Á dómþingi 30. mars 1977 kannaðist Tryggvi við að hafa sagt framangreint við Ásgeir.

 II.2.F.

 Albert Klahn Skaftason gaf skýrslu sem vitni hjá lögreglunni 23. desember 1975. Þar kvaðst hann hafa verið töluvert í félagsskap Kristjáns, Sævars og Tryggva á tímabilinu, þegar atvik í þessum þætti málsins gerðust, og ekið þeim oft í bifreið föður síns, gulri fólksbifreið af gerðinni Toyota. Eitt sinn að nóttu til, sem gæti hafa verið aðfaranótt 27. janúar 1974, hafi hann komið á bifreiðinni að heimili Sævars, en aðdragandann að því mundi hann ekki. Hann hafi setið í bifreiðinni þegar Sævar kom þar að og bað hann um að opna farangursrými hennar. Sævar hafi síðan farið aftur inn í húsið og komið út á ný með Kristjáni og Tryggva. Þeir hafi haft með sér poka, sem þeir hafi komið fyrir í farangursrýminu, og hafi mátt merkja að hann væri þungur. Albert kvaðst hafa séð illa hvað gerðist vegna myrkurs og þess að afturendi bifreiðarinnar, þar sem farangursgeymslan var, hafi snúið að húsinu. Kristján og Tryggvi hafi sest inn í bifreiðina og Sævar litlu síðar. Hafi síðan verið ekið suður fyrir álverið í Straumsvík. Þar hafi þeir þremenningar tekið eitthvað úr farangursgeymslunni og farið með það út í myrkrið. Þeir hafi komið til baka nokkru síðar tómhentir. Albert kvað Sævar hafa sagt á leiðinni þaðan að lík hafi verið í pokanum, en hann ekki trúað því.

 Albert kom fyrir dóm sama dag, þar sem skýrsla var tekin af honum sem sakborningi. Staðfesti hann þar framangreinda frásögn. Var honum í kjölfarið gert að sæta gæsluvarðhaldi. Hann kom aftur fyrir dóm 11. janúar 1976, þar sem hann mun hafa skýrt sjálfstætt frá atvikum á sama veg og áður greinir.

 Á dómþingi 6. febrúar og 7. mars 1976 voru bókaðar stuttar frásagnir eftir Albert. Fyrra skiptið kvaðst hann vera viss um að hann hafi ekið umrætt sinn eftir veginum að Sædýrasafninu við Hafnarfjörð, en síðara skiptið sagðist hann vera viss um að hann hafi ekið tvívegis með lík fyrir Kristján, Sævar og Tryggva.

 Hinn 19. mars 1976 gaf Albert lögregluskýrslu sem vitni. Í upphafi skýrslunnar sagði hann framangreinda frásögn sína í skýrslu 23. desember 1975 vera um atburð, sem gerðist 14. september 1974. Aftur á móti hafi hann aðfaranótt 27. janúar 1974 flutt eitthvað heiman frá Sævari með honum, Kristjáni og Tryggva. Sævar hafi beðið sig símleiðis um að koma og heitið sér hassi að launum, en hann hafi þá haft til umráða gamla Volkswagen bifreið föður síns. Kvaðst Albert hafa orðið við þessari bón og komið á bifreiðinni að heimili Sævars, sem hafi komið út og beðið sig um að bíða. Eftir skamma stund hafi Kristján, Sævar og Tryggvi komið út með langan og þungan poka úr ljósu lérefti, sem þeir hafi reynt án árangurs að setja í farangursgeymslu bifreiðarinnar, en lagt síðan á gólfið aftan við framsætið, þannig að pokinn bognaði til beggja enda. Kristján og Tryggvi hafi sest í aftursætið og orðið að hafa fæturna á pokanum, en Sævar sest í framsætið stuttu síðar. Þeir hafi svo ekið að og frá Sædýrasafninu og loks stöðvað, þar sem farþegarnir þrír hafi farið út og haft með sér pokann. Þeir hafi gengið út í hraun í átt að álverinu í Straumsvík. Sagðist Albert hafa síðan ekið aftur heim til Sævars, en sér hafi á þessum tíma verið ókunnugt um hvað hafi verið í pokanum.

 Í lögregluskýrslu 21. september 1976 kvaðst Albert hafa ekið bifreiðinni aftur á bak að húsinu að Hamarsbraut 11 og hafi hann ekki farið þar út úr bifreiðinni. Lík Guðmundar hafi verið sett inn í bifreiðina hægra megin og einnig tekið þar út þegar komið var á áfangastað.

 Albert gaf ítarlega lögregluskýrslu 5. október 1976. Þar sagði hann að Sævar hafi hringt í sig að næturlagi í janúar 1974 og beðið sig um að koma til að aka með lík. Albert hafi neitað þessu og Sævar þá ekki rætt frekar um líkið en beðið hann allt að einu um að koma til að aka fyrir sig gegn því að fá hass. Albert hafi komið á Volkswagen bifreiðinni, lagt henni við Hamarsbraut og hringt þar á dyrabjöllu eða bankað. Sævar hafi komið til dyra og bannað honum að koma inn, en beðið hann um að koma með bifreiðina að kjallaratröppunum. Það hafi Albert gert og hafi vinstri hlið bifreiðarinnar þá snúið að húsinu. Eftir nokkra bið hafi Sævar komið og beðið sig um að opna farangursgeymslu bifreiðarinnar, en síðan hafi Kristján og Tryggvi komið út og borið á milli sín eitthvað, sem vafið var í lak sem bundið var um til beggja enda. Þeir hafi árangurslaust reynt að koma þessu inn í farangursgeymsluna, en síðan hafi það verið sett inn í bifreiðina vinstra megin. Lýsing Alberts á ökuferðinni í kjölfarið var í meginatriðum á sama veg og í fyrrgreindri skýrslu 19. mars 1976 að öðru leyti en því, að hann taldi að eftir athugun á svæði við Sædýrasafnið hafi þeir ekið eftir Reykjanesbraut að aðkeyrslunni að álverinu í Straumsvík, snúið þar við og beygt síðan til hægri út af veginum móts við álverið, þar sem ekið hafi verið um 500 metra eftir vegi. Þar hafi farþegarnir farið með flutninginn út í hraunið. Þá kvað hann Sævar hafa komið til baka með lak úr þeirri för þremenninganna og hélt hann að Sævar hafi sett það í sorptunnu að Hamarsbraut 11 þegar þangað var komið aftur. Loks greindi Albert frá óljósum endurminningum um aðra för út í hraunið, þar sem Tryggvi og Sævar hafi sótt eitthvað í plastpoka, en síðan hafi þeir ekið út á Álftanes og gröf verið tekin þar við hliðina á bifreiðinni.

 Í lögregluskýrslu 6. október 1976 kvað Albert síðastgreinda frásögn sína um flutning á líki út á Álftanes hafa verið ímyndun sína, en honum gengi erfiðlega að rifja þessa atburði upp, því að hann byrgði endurminningar inni af ótta við refsingu, auk þess að hann hafi frá barnsaldri neytt margvíslegra fíkniefna og eiturlyfja, sem kynni að eiga þátt í að minni hans væri óskýrt. Hann væri þó viss um að hann hafi tekið þátt í þessu. Í annarri lögregluskýrslu sama dag lýsti hann för með Kristjáni, Sævari og Tryggva út í hraun, þar sem lík hafi verið sótt í plastpoka og síðan flutt í Fossvogskirkjugarð, en þar hafi það verið grafið. Þessari sömu för lýsti Albert mun nánar í lögregluskýrslu 11. október 1976, en í það skipti kvaðst hann vera nokkurn veginn viss um að Tryggvi hafi ekki átt þar hlut að máli.

 Albert gaf skýrslu hjá lögreglunni 22. febrúar 1977. Þar kvaðst hann ekki muna fyrir víst hvernig hann hafi ekið bifreiðinni að húsinu á Hamarsbraut 11 umrætt sinn, en líklega hafi hann ekið áfram að því og stöðvað skammt frá útidyrunum. Hann lýsti atvikum, sem gerðust í kjölfarið aðfaranótt 27. janúar 1974, í meginatriðum á sama veg og í lögregluskýrslu 5. október 1976. Hann kvað þó líkið hafa verið sett inn í bifreiðina hægra megin frá, auk þess að hann bætti nú við frásögn af því að Tryggvi hafi tekið sig hálstaki aftan frá í bifreiðinni þegar þeir voru lagðir af stað eftir að líkinu hafði verið komið fyrir í Hafnarfjarðarhrauni. Þá hélt Albert fast við fyrri framburð sinn um flutning á líkinu í Fossvogskirkjugarð á síðari stigum, en kvaðst nú vera viss um að Tryggvi hafi verið með í þeirri för, að minnsta kosti framan af.

 Dagana 4. og 5. mars 1977 gaf Albert ítarlega skýrslu hjá lögreglunni og að nokkru fyrir dómi. Í upphafi lögregluskýrslu kvaðst hann nú ætla að segja allan sannleikann í málinu. Hann sagðist að kvöldi 26. janúar 1974 hafa verið staddur á heimili Kristjáns með húsráðandanum, Tryggva og Gunnari Jónssyni og hafi þar verið neytt áfengis og fíkniefna, þar á meðal LSD, sem hann og Gunnar hafi sótt á tiltekinn stað. Þegar leið á kvöldið hafi þeir farið á Volkswagen bifreiðinni á milli nokkurra skemmtistaða, þar sem Kristján og Tryggvi hafi reynt að stela veskjum eða afla fjár á annan hátt, en ekkert orðið ágengt. Þá hafi vantað peninga og því farið að starfsmannabústað við Kópavogshælið til að hitta Sævar og fá lán hjá honum. Kristján hafi farið þar einn að húsinu, en komið til baka eftir stutta stund og sagt að Sævar hafi neitað sér um lán. Eftir þetta hafi þeir haldið til Hafnarfjarðar og komið þangað um það leyti, sem dansleikjum var að ljúka. Kristján og Tryggvi hafi farið þar út til að reyna að ná veskjum af drukknum mönnum, en Albert kvaðst þá hafa lagt bifreiðinni skammt frá og þeir Gunnar beðið í henni. Kristján og Tryggvi hafi komið aftur til þeirra 15 eða 20 mínútum síðar og með þeim talsvert drukkinn maður, sem Albert kvaðst ekki hafa þekkt. Þeir hafi komið upp í bifreiðina og hafi þá verið ekið að Hamarsbraut 11. Myrkur hafi verið í íbúð Sævars og Erlu. Hafi Kristján farið þar inn og opnað húsið og þeir hinir komið í kjölfarið. Þar inni hafi þeir rætt um kaup á áfengisflösku. Sævar hafi komið skömmu síðar og verið hissa á veru þeirra þar, en ekki þó reynt að vísa þeim út. Einhver hafi þá spurt ókunna manninn hvort hann ætti pening fyrir áfengisflösku, hann hafi færst undan svari og stympingar þá hafist. Maðurinn hafi reynt að verja sig, en fljótlega verið yfirbugaður. Kristján, Sævar og Tryggvi hafi allir ráðist á manninn og barið þar til hann féll meðvitundarlaus á gólfið. Atlagan hafi verið hrottafengin, en staðið stutt. Albert kvað Gunnar hafa verið annars staðar í íbúðinni meðan á þessu stóð og ekki hafa tekið þátt í átökunum. Eftir að þeim lauk hafi annaðhvort Gunnar sjálfur viljað fara eða aðrir viljað koma honum út og hafi Albert því ekið honum heim. Albert kvað ókunna manninn hafa legið á gólfinu þegar hann hélt brott frá Hamarsbraut 11 og hafi hann ekki vitað til að hann væri alvarlega slasaður eða látinn. Albert sagðist hafa komið þangað aftur um hálftíma síðar, lagt bifreiðinni í stæði og bankað á dyr. Sævar hafi komið fram og beðið sig um að færa bifreiðina að kjallaratröppunum og bíða í henni. Þangað hafi svo Sævar komið og beðið hann um að opna farangursgeymslu bifreiðarinnar, en Kristján og Tryggvi síðan komið út með lík mannsins vafið í hvítt léreftsstykki eða lak. Eftir að reynt hafi verið að koma líkinu í farangursgeymsluna hafi það verið sett á gólfið framan við aftursæti bifreiðarinnar. Albert lýsti síðan ferðinni með líkið í meginatriðum á sama hátt og í fyrri skýrslum sínum. Hann sagði þó þessu sinni að ekið hafi verið 2 eða 3 kílómetra frá Reykjanesbraut að þeim stað, þar sem líkið hafi verið urðað, svo og að Kristján, Sævar og Tryggvi hafi ekkert haft meðferðis þegar þeir komu aftur að bifreiðinni þar á staðnum. Þá lýsti Albert einnig í einstökum atriðum ferð sinni í ágúst 1974 með Kristjáni, Sævari og Tryggva, þegar lík Guðmundar var flutt úr hrauninu í kirkjugarð í Hafnarfirði. Í lok skýrslunnar kvaðst Albert breyta fyrri framburði sínum á þann veg, sem að framan greinir, en Kristján, Sævar og Tryggvi hafi gefið honum í skyn að öruggara væri fyrir hann að skýra ekki frá því, sem hann vissi um málið. Hann kvað frásögn sína þessu sinni vera allan sannleikann, eins og hann best gæti munað, og væru fyrri skýrslur hans rangar að því leyti, sem þær væru á annan veg.

 Albert gaf skýrslu fyrir dómi 21. mars 1977, sem var í nær öllum aðalatriðum samhljóða síðastgreindri frásögn hans. Á dómþingi var honum sýnd mynd af Guðmundi Einarssyni. Staðfesti hann að þetta væri ókunni maðurinn, sem hann hafi sagt frá í skýrslum sínum, og bætti því við að þegar atvik málsins gerðust hafi honum fundist Kristján þekkja þennan mann. Í skýrslunni bar Albert á nokkuð annan veg um hvar hann og Gunnar hafi verið staddir þegar átökin stóðu yfir að Hamarsbraut 11. Þessu sinni sagði hann þá hafa séð átökin, en hvorki tekið þátt í þeim né hvatt til þeirra. Loks ítrekaði Albert að nokkru fyrri skýringar sínar á því misræmi, sem orðið hafi á milli einstakra skýrslna hans um atvik málsins.

 Á dómþingi 3. maí 1977 gaf Albert mun nánari skýrslu um atvik málsins að því er varðaði þátt Gunnars. Var þessi skýrsla á sama veg og fyrri frásögn Alberts að því leyti, sem hún snertir meginatriði málsins.

 II.2.G.

 Gunnar Jónsson gaf fyrst skýrslu um þennan þátt málsins á dómþingi 2. maí 1977, en nokkru áður hafði orðið uppvíst um dvalarstað hans erlendis og kom hann hingað til lands í fylgd lögreglumanna til að bera vitni. Í skýrslu sinni kvaðst Gunnar þekkja Albert og kannaðist hann jafnframt við ljósmyndir af Kristjáni, Sævari og Tryggva, sem voru lagðar fyrir hann innan um myndir af nokkrum fjölda annarra manna. Hann sagðist muna eftir því að hafa verið á ferð í bifreið með Albert, hugsanlega í tilviki sem hann minntist frá seinni hluta janúar 1974, þegar tveir menn hafi verið þar í aftursæti og minnti hann að annar þeirra hafi verið Kristján eða Sævar. Hann mundi ekki eftir erindagerðum þeirra, en taldi líklegast að þeir hafi verið á ferð milli skemmtistaða að leita einhvers manns. Hann minntist þess ekki sérstaklega að komið hafi verið við í starfsmannahúsi við Kópavogshælið. Gunnar mundi eftir því að einhvern tíma um þetta leyti hafi hann verið að næturlagi í bifreið með Albert í Hafnarfirði og þeir numið staðar neðarlega í brekkunni á Reykjavíkurvegi. Hann minnti endilega að einhverjir fleiri hafi verið með þeim í bifreiðinni, en gat ekki borið hverjir það hafi verið. Þá sagði Gunnar að sér fyndist að þá nótt hafi þeir Albert farið inn í eitthvert hús, að hann minnti í kjallaraíbúð, og væri honum minnisstæður stigi upp á loft í húsinu, sem blasti við þegar inn var komið. Í samhengi við frásögn af skýrslu Gunnars um þetta efni er tekið fram í dómi sakadóms, að fyrir skýrslugjöfina hafi verið farið með Gunnar að Hamarsbraut 11 og hafi hluti húsnæðisins þá komið honum kunnuglega fyrir sjónir. Um skýrslu Gunnars segir að öðru leyti, að hann hafi munað eftir einhverju þrasi á þessum stað, en um tilefnið gat hann ekki borið og ekki sagðist hann minnast þaðan átaka.

 Gunnar kom aftur fyrir dóm 3. maí 1977, þar sem farið var yfir framburð Alberts og Gunnar jafnframt spurður um málsatvik. Segir í upphafi frásagnar um þessa skýrslugjöf að Gunnar hafi sagt mikið hafa rifjast upp fyrir sér um atvik að kvöldi 26. janúar 1974 og nóttina þar á eftir. Í skýrslunni kvað Gunnar vel geta verið að hann hafi komið á heimili Kristjáns umrætt kvöld, en þá hafi hann verið að aka með Albert á milli skemmtistaða og Kristján og Tryggvi verið með þeim. Hann minntist þess að þeir síðastnefndu hafi ætlað að útvega áfengi, en ekki tekist það. Þá minntist hann þess að ekið hafi verið að Kópavogshælinu, en um tilganginn gat hann ekki borið. Hann sagðist fastlega minna að Kristján hafi farið þar inn, hugsanlega til að hitta Sævar, en þeir hinir hafi beðið í bifreiðinni. Eftir þetta hafi þeir ekið til Hafnarfjarðar og stöðvað í brekkunni á Reykjavíkurvegi, þar sem hann hafi beðið í bifreiðinni með Albert, en Kristján og Tryggvi farið út, að Gunnar taldi til að útvega áfengi. Eftir einhverja stund hafi Kristján og Tryggvi komið aftur og með þeim einhver maður, sem Gunnar gat ekki lýst. Hann minnti að Kristján og Tryggvi hafi viljað fá far fyrir sig og umræddan mann, en Albert neitað því og þeir farið þaðan. Eftir að hafa lagt einhvern krók á leið sína hafi þeir Albert haldið að húsinu, sem rætt hafi verið um í fyrri skýrslu hans. Gunnar minnti að Albert hafi fyrst farið einn út til að athuga hvort einhver væri heima, en komið svo aftur og þeir farið saman að húsinu, þar sem útihurð í kjallara hafi staðið opin og ljós verið kveikt á gangi. Gunnar sagðist hafa hitt þar Kristján og Tryggva, en honum fannst Sævar hafa komið jafnvel seinna. Þar hafi einnig verið maður, sem hann lýsti lítillega og taldi vera sama mann og kom að bifreiðinni þá skömmu áður. Þegar honum var sýnd mynd af Guðmundi í tengslum við þetta kvað hann hana vel geta verið af manninum, en var þó ekki alveg viss. Gunnar sagði eitthvað hafa verið rætt þar um kaup á áfengisflösku og minnti hann að Kristján hafi stjakað við manninum, sem áður getur, eins og til að leggja áherslu á orð sín um að hann legði til fé í áfengiskaup. Hann mundi eftir að upp úr þessu hafi orðið átök og hafi hann þá farið fljótlega í burtu með Albert, sem hafi ekið honum heim.

 Á dómþingi 4. maí 1977 voru Gunnari kynntar skýrslur Kristjáns, Sævars og Tryggva. Greindi hann þá mun nánar en áður segir frá nokkrum atriðum. Daginn eftir kom Gunnar aftur fyrir dóm og voru skýrslur hans þá lesnar í heyranda hljóði. Hann bætti því þá við að sig minnti mjög fastlega að honum hafi verið sagt aðfaranótt 27. janúar 1974 að maðurinn, sem áður er getið, hafi fallið á borð og rotast í átökunum, sem hann varð var við. Í lokin vann síðan Gunnar eið að framburði sínum.

 Í dómi Hæstaréttar greinir frá því að lögreglumennirnir Gísli Guðmundsson og Torfi Jónsson hafi farið 23. apríl 1977 til Spánar til að hafa samband við Gunnar, en hann hafi komið hingað til lands í fylgd þeirra 29. sama mánaðar. Gísli og Torfi hafi komið fyrir dóm 11. janúar 1980 og svarað þar spurningum verjenda Sævars og Tryggva. Gísli og Torfi hafi þar borið að þeir hafi afhent Gunnari bréf frá dómaranum, sem sat í forsæti sakadóms í málinu, en ekki rætt um málið við hann. Lögregluvörður hafi verið hafður um Gunnar meðan þessi rannsókn hafi staðið yfir. Þeir sögðust ekki vita til að Gunnar hafi rætt við Albert fyrir skýrslugjöf sína eða á meðan á henni stóð. Lögreglumennirnir kváðust hvorugir hafa verið viðstaddir þegar Gunnar vann eið að framburði sínum, en Torfi kvað Gunnar hafa fundið að þessu við sig og sagst sennilega ekki mundu hafa unnið eiðinn ef hann hefði verið viðstaddur. Torfi kvaðst ekki vita til þess að Gunnar hafi tjáð sig munnlega eða skriflega um framburð sinn eftir að hann gaf skýrslur sínar í málinu. Þá segir í dóminum að lögreglumennirnir hafi verið samsaga um að ekki hafi verið farið með Gunnar að Hamarsbraut 11 áður en fyrsta skýrslan hafi verið tekin af honum.

 II.2.H.

 Samprófanir fóru fram fyrir dómi milli þeirra, sem getið hefur verið hér að framan, svo sem hér segir:

 Tryggvi og Albert voru samprófaðir 30. apríl 1976. Fékkst ekki samræmi í framburð þeirra.

 Kristján og Erla voru samprófuð 28. mars 1977. Kristján kvað það geta verið rétt, sem Erla segði, en að öðru leyti héldu þau bæði við fyrri framburð sinn um atriði, sem bar á milli þeirra.

 Kristján og Albert voru samprófaðir 28. mars 1977. Að því leyti, sem bar þá á milli framburðar þeirra um meginatriði málsins, náðist samræmi um að Kristján færi rétt með í frásögn sinni um að þeir Kristján, Tryggvi og Guðmundur hafi gengið að Hamarsbraut 11 aðfaranótt 27. janúar 1974, en Albert ekki ekið þeim þangað, eins og hann hafði sagt í skýrslu sinni. Einnig minntist Kristján þess að Tryggvi hafi tekið Albert hálstaki í bifreiðinni þegar lokið hafi verið við að koma líki Guðmundar fyrir í Hafnarfjarðarhrauni. Þá bar þeim og saman um þá leið, sem ekin hafi verið frá Reykjanesbraut út í hraunið við þetta tækifæri.

 Tryggvi og Erla voru samprófuð 31. mars 1977 í kjölfarið á því að sá fyrrnefndi dró til baka játningu sína um sök í þessum þætti málsins. Erla hélt fast við framburð sinn og staðhæfði jafnframt að Tryggvi hefði komið oftar að Hamarsbraut 11, en því neitaði hann eindregið.

 Tryggvi og Kristján voru samprófaðir 31. mars 1977 og héldu báðir fast við framburð sinn.

 Tryggvi og Albert héldu báðir fast við framburð sinn í samprófun 31. mars 1977.

 Tryggvi og Sævar voru samprófaðir 31. mars 1977. Tryggvi kvaðst þá ekki geta fullyrt að hann hafi ekki verið með Kristjáni og Albert að kvöldi 26. janúar 1974, enda hafi hann verið svo mikið með þeim. Sævar sagðist telja að Tryggvi hafi verið í bifreið hjá Albert þegar Kristján vitjaði hans í starfsmannabústað við Kópavogshælið þetta kvöld, en Sævar hafi séð Tryggva og Gunnar heima hjá Kristjáni fyrr um kvöldið. Kvaðst Tryggvi þá ekkert geta fullyrt um þetta, en hann hafi á þessu tímabili lítið verið með öðrum ákærðu. Samræmi náðist ekki að öðru leyti í framburði þeirra Tryggva og Sævars.

 Sævar og Albert voru samprófaðir 31. mars 1977. Sævari var þá kynntur framburður Alberts um þátt Sævars í málinu og kvað hann frásögn Alberts ranga um allt nema að reynt hafi verið að fá hjá sér peningalán í starfsmannabústað við Kópavogshælið. Albert hélt hins vegar fast við framburð sinn.

 Sævar og Erla voru samprófuð 1. apríl og 5. júlí 1977 og hélt hvort þeirra fast við þann endanlega framburð sinn, sem áður greinir.

 Samprófun fór fram milli Sævars og Kristjáns 1. apríl 1977, eftir að Kristján hafði fyrir dómi lýst sakargiftir á hendur sér í I. kafla ákæru 8. desember 1976 réttar í nær öllum atriðum og eftir að Sævar hafði lýst fyrir dómi að hann hafi ekki komið að Hamarsbraut 11 aðfaranótt 27. janúar 1974. Kristján hélt fast við fyrri framburð sinn, en Sævar kvaðst "sér vitandi" ekki hafa verið að Hamarsbraut 11 umrædda nótt.

 Albert og Gunnar voru samprófaðir 3. maí 1977. Í dómi sakadóms er ekki getið sérstaklega um hvað fengist hafi fram með þeirri samprófun.

 Kristján og Gunnar voru samprófaðir 4. maí 1977. Gerði hvorugur þeirra athugasemdir við framburð hins.

 Sævar og Gunnar voru samprófaðir 4. maí 1977 og héldu báðir fast við fyrri framburð sinn.

 Tryggvi og Gunnar voru samprófaðir 4. maí 1977. Þeir héldu báðir fast við fyrri framburð sinn.

 II.2.I.

 Elínborg Jóna Rafnsdóttir greindi í vitnaskýrslu frá því, að hún hafi verið að aka um í Hafnarfirði með vinkonu sinni Sigríði Magnúsdóttur aðfaranótt 27. janúar 1974, þegar maður, sem þær þekktu sem Guðmund Einarsson, hafi ásamt öðrum manni reynt að stöðva bifreið þeirra á Strandgötu. Sigríður ók bifreiðinni og hafi hún ákveðið að aka áfram, því að þeim hafi ekki litist á samferðamann Guðmundar, en honum lýsti Elínborg meðal annars með því að telja hann hafa verið svipaðan Guðmundi að hæð. Við skýrslutöku hjá lögreglunni 22. janúar 1977 voru lagðar fyrir hana 8 eða 9 ljósmyndir úr myndasafni og valdi hún mynd af Kristjáni, sem hún kvað líkjast mest samferðamanni Guðmundar. Við sakbendingu taldi Elínborg afar líklegt að maður, sem reyndist vera Kristján, hafi verið í för með Guðmundi umrætt sinn, en sá maður hafi þó verið grennri. Hún sagði mennina að öðru leyti vera eins og að andlit samferðamanns Guðmundar hafi sérstaklega verið sér minnisstætt, einkum þykkar varir hans.

 Í vitnaskýrslu bar Sigríður í öllum meginatriðum á sama veg og Elínborg um þessi atvik. Þá valdi Sigríður mynd af Kristjáni úr safni 5 til 10 ljósmynda, sem lagðar voru fyrir hana við skýrslutöku hjá lögreglunni 22. janúar 1977. Hún benti jafnframt á Kristján við sakbendingu, en fannst þó mæla gegn því, að um sama mann væri að ræða, að Kristján væri feitari en sá, sem hún hafi séð með Guðmundi.

 Helga Gísladóttir, sem var húsráðandi í fyrrnefndum starfsmannabústað við Kópavogshælið, kvaðst í vitnaskýrslu hafa kynnst Sævari mjög náið eftir að hann kom úr för erlendis í janúar 1974. Hafi Sævar komið til hennar á hverri nóttu meðan á sambandi þeirra stóð, í viku til tíu daga, en ekki haft langa viðdvöl hverju sinni. Henni var ekki minnisstætt kvöldið 26. janúar 1974 eða nóttin þar á eftir og minntist hún ekki sérstaklega gesta, sem nafngreindir höfðu verið í málinu í tengslum við dvöl Sævars hjá henni það kvöld. Þá bar Helga að Sævar hafi eitt sinn sagt sér að hann hafi orðið manni að bana. Nánari skýringar hans á þessu hafi ekki verið marktækar, en hann þó tekið fram að þetta hafi gerst erlendis. Hún kvaðst einnig hafa frétt af því að Sævar hafi stært sig af því að hafa drepið mann og talað um að auðvelt væri að láta menn hverfa.

 Á meðan málið var rekið fyrir Hæstarétti kom Helga Gísladóttir á ný fyrir dóm og skýrði svo frá, að haustið 1979 hafi hún fengið bréf frá Sævari. Í því hafi hann óskað eftir að hún kæmi að Litla Hrauni, þar sem hann dvaldi þá í gæsluvarðhaldi, til að ræða við sig. Helga kvaðst hafa fargað bréfinu og ekki sinnt þessari ósk. Í október eða nóvember sama árs hafi síðan kona að nafni Andrea Þórðardóttir, sem Helga kvaðst ekki vera kunnug, hringt til hennar og borið henni bón frá Sævari um að hún breytti framburði sínum og segði hann hafa komið í starfsmannahúsið við Kópavogshælið að kvöldi 26. janúar 1974 og dvalist þar óslitið alla nóttina. Tók Helga nú fram fyrir dómi að Sævar hafi farið frá Kópavogshælinu umrætt kvöld um kl. 23.30 og komið þangað aftur um kl. 4.30 um nóttina.

 Andrea Þórðardóttir kom einnig fyrir dóm á meðan málið var rekið fyrir Hæstarétti. Hún kvaðst hafa flutt fræðsluerindi og staðið fyrir skemmtunum að Litla Hrauni. Þar hafi Sævar komið að máli við sig og beðið sig um að koma boðum til Helgu Gísladóttur um að hún staðfesti í bréfi til sín að hann hafi dvalist hjá henni alla aðfaranótt 27. janúar 1974. Andrea sagðist hafa hringt til Helgu og fært henni þessi skilaboð, að hana minnti um vorið 1979, en Helga ekki viljað sinna þessu.

 Hinrik Jón Þórisson kvaðst í vitnaskýrslu þekkja Sævar, Erlu, Kristján og Albert og hafa umgengist þá Sævar og Kristján mikið á árunum 1974 og 1975, meðal annars í tengslum við fíkniefni. Í skýrslu Hinriks greindi meðal annars frá því að Sævar hafi verið handtekinn í byrjun febrúar 1974 og hafi hann einum eða tveimur dögum síðar flutt inn til Erlu að Hamarsbraut 11, þar sem Hinrik kvaðst hafa búið um hálfs mánaðar skeið í boði hennar en án vitundar Sævars. Hafi Erla verið mjög taugaveikluð og ekki viljað vera ein. Óreiða hafi verið í íbúðinni og sagðist Hinrik fljótlega hafa tekið þar til. Blóð hafi verið víða inni í svefnherbergi, meðal annars á legubekk og tveir nokkuð stórir blettir í gólfteppi. Kvaðst Hinrik hafa spurt Erlu hvaða blettir þetta væru og hún sagt þá vera blóð. Hann hafi þá spurt hvort átök hafi átt sér þar stað, en hún svarað að blóðið væri úr kjöti, sem Sævar hafi steikt sér. Hinrik sagði að ekki hafi tekist að hreinsa blóð úr gólfteppinu eða legubekknum og hafi renningur verið settur á gólfið til að hylja blettinn og teppi yfir legubekkinn.

 Framangreind skýrsla Hinriks var kynnt Erlu. Hún sagði það alrangt að hann hafi búið hjá henni, en hann hafi hins vegar gist hjá henni nótt og nótt. Hún minntist hvorki sérstakrar óreiðu í íbúðinni né að Hinrik hafi tekið þar til. Erla kvaðst heldur ekki muna eftir blóðblettum, en hana rámaði þó í að Hinrik hafi snemma árs 1974 minnst á einhverja slíka bletti við sig og hún ekki hugsað frekar út í það. Hún neitaði því að renningur hafi verið á gólfteppinu að Hamarsbraut 11, en kvað teppi hafa verið á legubekk, sem hún sagðist vera nokkuð viss um að engir blóðblettir hafi verið í.

 Einar Gunnar Bollason, bróðir Erlu, sagði í vitnaskýrslu að íbúðin að Hamarsbraut 11, sem faðir þeirra átti, hafi verið seld í mars 1974. Hafi Erla rýmt íbúðina þegar komið var að afhendingu hennar. Kvaðst Einar hafa þurft að taka úr íbúðinni ýmislegt, sem skilið hafi verið eftir, og sjá um þrif. Hafi hann ekki orðið var við neitt, sem benti til átaka í íbúðinni, og minntist þess ekki að hafa séð þar blóðbletti.

 Páll Rúnar Elíson greindi í vitnaskýrslu frá því að hann hafi afplánað refsidóm að Litla Hrauni í ágúst 1976 og hafi Tryggvi þá sætt gæsluvarðhaldi þar. Sagðist Páll hafa tvívegis rætt við Tryggva um málið og hafi Halldór Fannar Ellertsson verið viðstaddur annað skiptið. Tryggvi hafi talað mjög frjálslega um málið og ekki virst hafa neinu að leyna. Hafi Tryggvi sagst hafa verið staddur í húsi í Hafnarfirði með Guðmundi og hafi komið þar til átaka vegna hótana Guðmundar um að ljóstra einhverju upp. Tryggvi hafi sagt að hann hafi ráðist á Guðmund og slegið hann niður, en Sævar síðan sparkað í höfuð hans þegar hann reyndi að rísa upp. Guðmundur hafi ekki hreyft sig og þeir fært hann inn í einhvern skáp. Þeir hafi orðið skelkaðir og tekið inn LSD, en Tryggvi hafi sagst hafa orðið ringlaður af því. Tryggvi hafi þó munað eftir að lík Guðmundar hafi verið sett í jeppa og ekið hafi verið burt með það. Páll kvað Tryggva ekki hafa getið Kristjáns í þessari frásögn.

 Framangreind skýrsla Páls var kynnt Tryggva, sem kvað hana vera alger ósannindi.

 Halldór Fannar Ellertsson, sem Páll Rúnar Elíson kvað hafa hlýtt á samtal sitt við Tryggva, kannaðist ekki við frásögn Páls af samtalinu. Halldór kvaðst hafa rætt oft við Tryggva um hvarf Guðmundar. Tryggvi hafi sagt að ekki væru öll kurl komin til grafar í málinu, en að öðru leyti hafi hann lítið sagt annað en að halda fram sakleysi sínu, sem hann hafi talið að leitt yrði í ljós fyrir dómi.

 Guðmundur Edwin Þór Björnsson sagðist í vitnaskýrslu hafa verið staddur í samkvæmi á heimili Kristjáns, að hann minnti skömmu eftir hvarf Guðmundar. Þar hafi Kristján sagt að hann hafi látið Guðmund hverfa og greint aðspurður frá því að líkið hafi verið sett í hraunið við afleggjara af Reykjanesbraut til Grindavíkur.

 Í dómi sakadóms er greint frá því að samkvæmt lögregluskýrslu 13. janúar 1977 hafi íbúar á miðhæð og í risi að Hamarsbraut 11 ekkert getað borið um atvik málsins og heldur ekki næstu grannar. Íbúar á miðhæðinni hafi sagt að nokkrum sinnum hafi borist til þeirra hávaði úr kjallaranum að kvöldi eða nóttu til, en þá hafi gjarnan verið stappað í gólfið og hávaðinn án undantekninga hætt.

 Vegna fyrrgreindra staðhæfinga um harðræði og ólögmætar aðgerðir við rannsókn málsins, sem Sævar og Tryggvi héldu fram þegar þeir drógu til baka játningar sínar um að hafa átt hlut að hvarfi Guðmundar, komu eftirtaldir fyrir dóm til skýrslugjafar: Ari Ingimundarson fangavörður, Eggert Norðdahl Bjarnason rannsóknarlögreglumaður, Gunnar Marinó Marinósson varðstjóri í Síðumúlafangelsi, Högni Ófeigur Einarsson fangavörður, Jóhann Gunnar Friðjónsson fangavörður, Kjartan Kjartansson fangavörður, Sigurbjörn Víðir Eggertsson rannsóknarlögreglumaður og Skúli Ævar Steinsson fangavörður. Auk þess svaraði Örn Höskuldsson dómarafulltrúi tilteknum fyrirspurnum bréflega. Um þessar skýrslur er fjallað sérstaklega í kafla II.5.A. hér á eftir.

 Að öðru leyti en að framan greinir gáfu vitnaskýrslur í þessum þætti málsins Auður Úlfarsdóttir Jacobsen, Ómar Aðalsteinsson, Kristján Pétursson, Sigríður Gísladóttir, Sæmundur Jóhannsson, Viggó Guðmundsson, Bárður Ragnar Jónsson, Magnea Jóhanna Matthíasdóttir, Ingiríður Finnsdóttir, Stella Esther Kristjánsdóttir, Jónína Ingibjörg Gísladóttir, Lilja Hjartardóttir, Hulda Kristín Gissurardóttir og Alfreð Hilmarsson. Er ekki ástæða til að víkja hér frekar að skýrslum þeirra.

 II.2.J.

 Í dómi sakadóms er greint frá því að á árunum 1976 og 1977 hafi verið farið að minnsta kosti 40 skipti til leitar að líki Guðmundar og hafi Kristján, Sævar, Tryggvi og Albert oft verið með leitarmönnum. Leitartilraunir báru engan árangur.

 Árangurslaust mun hafa verið leitað að legubekk, sem vitnið Hinrik Jón Þórisson kvað hafa verið að Hamarsbraut 11 í febrúar 1974 og áður er getið. Þá mun hafa verið talið tilgangslaust að leita á sorphaugum að laki, sem hermt var að sett hafi verið í sorptunnu eftir að lík Guðmundar hafði verið vafið í það við flutning.

 Samkvæmt vottorði Pósts og síma í Hafnarfirði 1. mars 1977 var sími að Hamarsbraut 11 á nafni föður Erlu. Samkvæmt skrá 24. október 1973 hafi verið ógreidd skuld vegna símans og hafi hún verið óbreytt samkvæmt skrá 1. febrúar 1974, en þar hafi síðan verið ritað að skuldin hafi verið greidd 6. sama mánaðar. Sagði síðan í vottorðinu: "Samkvæmt þessu hefði síminn átt að vera lokaður dagana 26. og 27. janúar 1974, en það skal tekið skýrt fram, að alls ekki er hægt að fullyrða, að svo hafi verið. Liggja til þess ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi er algengt, að símnotandi fær síma sinn opnaðan gegn loforði um greiðslu á vissum tíma, í öðru lagi gæti sími verið opnaður í misgripum, og í þriðja lagi ganga það margir um þann stað, þar sem opnunin fer fram, og aðeins er um eitt handtak að ræða, að síminn gæti hafa verið opnaður af einhverjum."

 Í dómi sakadóms er greint frá árangurslausri könnun lögreglunnar í byrjun árs 1977 á því hvort hægt væri að upplýsa um ferðir leigubifreiða í tengslum við þennan þátt málsins.

 Leðurjakki, sem Kristján kvaðst hafa verið í og misst tölu af í átökum við Guðmund aðfaranótt 27. janúar 1974, komst í vörslur lögreglunnar við rannsókn málsins. Reyndist vanta tölu á jakkann.

 Rannsókn var gerð í Þýskalandi á frakka Kristjáns, nokkrum hlutum úr Volkswagen bifreiðinni, sem talið var að lík Guðmundar hafi verið flutt í, og teppi af gólfi kjallaraíbúðarinnar að Hamarsbraut 11 til að leita að blóði. Samkvæmt skýrslu um rannsóknina 21. september 1976 fundust leifar að mannsblóði í þessum munum. Hægt var að greina að blóðið í frakkanum væri úr blóðflokki A, en ekki var unnt að greina blóðflokk í öðrum sýnum. Óvíst var um blóðflokk Guðmundar, en með athugun á hárum, sem fundust í bursta og voru talin vera af höfði hans, þótti sýnt að blóðflokkur hans hafi verið A eða AB. Enginn ákærðra í þessum þætti málsins reyndist vera með blóð úr A flokki.

 II.2.K.

 Í röksemdum sakadóms Reykjavíkur fyrir niðurstöðu í þessum þætti málsins er vísað til þess að Kristján, Sævar og Tryggvi hafi mjög fljótlega eftir að lögreglurannsókn hófst 20. desember 1975 skýrt frá því að þeir hafi verið staddir í húsi með fjórða manni, sem Kristján bar að hafi verið Guðmundur Einarsson, og hafi þar orðið átök, sem leiddu til dauða hans. Fyrir miðjan janúar 1976 hafi legið fyrir afdráttarlausar játningar þeirra þriggja um þetta, bæði fyrir dómi og lögreglu, og bar þeim saman í veigamiklum atriðum. Kristján, Sævar og Albert hafi einnig skýrt frá flutningi á líki Guðmundar út í hraun, en Tryggvi hafi ekki munað eftir því. Kristján og Sævar hafi sífellt breytt frásögnum sínum um átökin við Guðmund og flutning líksins, en þótt þær hafi verið reikular hafi þeim þó alltaf borið saman um að átök hafi orðið, sem leiddu til dauða Guðmundar.

 Tryggvi hafi hins vegar horfið frá þessum framburði á dómþingi 30. mars 1977, Sævar hafi horfið frá sínum framburði fyrir dómi þann 29. sama mánaðar og Kristján á dómþingi 29. september sama árs, eftir að hafa meðal annars haldið fast við framburð sinn í samprófunum. Allir þrír hafi haldið fram að fyrri frásögn þeirra af atvikum málsins hafi komið frá rannsóknarmönnum og fengist með þvingunum og hótunum. Þeir hafi sætt illri og löglausri meðferð af hendi rannsóknarmanna og fangavarða. Um þetta segir í dóminum:

 

 "Rannsókn dómsins á þessum kæruatriðum hefur ekki rennt stoðum undir þessar fullyrðingar. Á hinn bóginn hefur ýmislegt komið fram í gögnum málsins um, að gott samband hafi yfirleitt verið milli ákærðu og rannsóknarmanna.

 Ákærði Kristján Viðar kom fyrir dóm 22. mars 1976 að viðstöddum réttargæslumanni sínum og skýrði þá frá þætti sínum í átökunum. Bar hann engar ásakanir fram vegna fyrri yfirheyrslna.

 Ákærði Sævar Marinó skýrði fyrst frá aðild sinni að máli þessu hjá rannsóknarlögreglu á allra fyrstu dögum rannsóknarinnar, eða hinn 22. desember 1975. Gaf hann skýrslu í framhaldi af því hinn 4. janúar 1976, og var réttargæslumaður hans viðstaddur í bæði skiptin. Engar kvartanir eða athugasemdir komu fram vegna þessara yfirheyrslna. Ásakanir ákærða Sævars Marinós á hendur rannsóknarmönnum og fangavörðum lúta að því er virðist að atvikum, sem gerðust löngu síðar, og verður vart séð, að hverju þvinganir hefðu þá átt að miða, þar sem játning ákærða lá fyrir.

 Ákærði Tryggvi Rúnar gaf sjálfstæða skýrslu um mál þetta fyrir dómi hinn 30. apríl 1976, þar sem hann skýrði frá þætti sínum í málinu að viðstöddum réttargæslumanni, og hafði þá engar kvartanir fram að færa.

 Ekki verður annað ráðið af skýrslum rannsóknarlögreglu um mál þetta en ákærðu hafi skýrt frá málsatvikum sjálfstætt og hver í sínu lagi.

 Eftir að ákærðu breyttu framburðum sínum, héldu þeir því fram, að þeir hefðu verið annars staðar en að Hamarsbraut 11 umrædda nótt, en engar sannanir eða líkur hafa komið fram um það.

 Þar sem ákærðu hafa ekki fært fram nein haldbær rök til stuðnings breytingum á fyrri framburðum sínum, verður breytingunum hafnað. Framburðir þeirra í upphafi rannsóknar fyrir dómi verða lagðir til grundvallar við úrlausn málsins og jafnframt höfð hliðsjón af efnislegum framburðum þeirra um málið við meðferð dómsins á því." 

Í dóminum var talið sannað með framburði vitna, sem báru kennsl á Kristján af myndum og við sakbendingu, og framburði Kristjáns sjálfs, að hann hafi verið á ferð um Strandgötu í Hafnarfirði með Guðmundi um kl. 2.00 aðfaranótt 27. janúar 1974. Þá þótti sannað með framburði Kristjáns, sem ætti stoð í framburði Alberts og Gunnars, hver aðdragandinn hafi verið að því að hann hitti Guðmund, hvernig þeir hafi farið ásamt Tryggva að Hamarsbraut 11 og hvers vegna þeir hafi gert það. Þá þótti sannað með sama hætti og með framburði Sævars að hann hafi komið heim til sín og hitt þar fyrir Kristján, Tryggva, Albert, Gunnar og Guðmund.

 Um átökin milli Kristjáns, Sævars og Tryggva annars vegar og Guðmundar hins vegar var ekki talið við annað að styðjast en framburð þessara ákærðu sjálfra, svo og framburð Alberts og Gunnars, en framburður Erlu um hvað hún hafi séð að Hamarsbraut 11 síðar um nóttina styddi frásögn þeirra. Í dóminum var vísað til þess að Kristján, Sævar, Albert og Gunnar hafi allir borið að átökin hafi átt upptök sín í neitun Guðmundar um að leggja fé til áfengiskaupa. Kristján og Tryggvi hafi barið Guðmund með hnefunum þar til hann féll í gólfið. Þá hafi Kristján, Tryggvi og Sævar allir borið að sá síðastnefndi hafi sparkað í höfuð Guðmundar eftir að hann var fallinn. Þótti ekki unnt að slá því föstu hver þessara þriggja hafi veitt Guðmundi áverkann, sem leiddi til dauða, en allir hafi þeir beitt hann líkamlegu ofbeldi og enginn þeirra komið honum til hjálpar. Þá var vísað til þess að þeim hafi borið saman um að þeir hafi farið burt frá Hamarsbraut 11 um stund eftir átökin, en Erla hafi borið að enginn hafi verið þar þegar hún kom heim. Framburður Kristjáns, Sævars og Erlu hafi í meginatriðum verið samhljóða um hvernig þeir tveir fyrstnefndu og Tryggvi hafi búið um lík Guðmundar og borið það út úr húsi. Einnig hafi framburður Kristjáns, Sævars og Alberts verið í meginatriðum samhljóða um hvernig ákveðið hafi verið að leyna verknaðinum og þeir hafi flutt lík Guðmundar út í hraunið sunnan Hafnarfjarðar í bifreið Alberts. Þá var vísað til þeirrar rannsóknar á blóði, sem fannst í fatnaði, bifreið og gólfteppi og áður er getið. Segir síðan í dómi sakadóms:

"Með eigin játningum ákærðu Kristjáns Viðars, Sævars Marinós og Tryggva Rúnars og öðrum gögnum málsins, sem hér að framan hafa verið rakin, telst lögfull sönnun fram komin fyrir því, að ákærðu hafi veist að Guðmundi Einarssyni með líkamlegu ofbeldi og misþyrmt honum svo, að hann hlaut bana af, en síðan falið lík hans."

Þótti þetta atferli Kristjáns, Sævars og Tryggva varða við 211. gr. almennra hegningarlaga, en svo sem áður greinir var Albert sakfelldur í þessum þætti málsins fyrir að hafa brotið gegn 2. mgr. 112. gr. sömu laga með því að tálma rannsókn á þessu broti þremenninganna.

 II.2.L.

 Í dómi Hæstaréttar var um þennan þátt málsins vísað til þess að þrjú vitni hafi borið að Guðmundur Einarsson hafi verið á götu í Hafnarfirði aðfaranótt 27. janúar 1974 og hafi tvö vitnanna sagt hann hafa verið með manni, sem þau töldu vera Kristján. Kristján, sem hafi verið kunnugur Guðmundi, hafi lýst fundum þeirra og Tryggva þegar í skýrslu 3. janúar 1976, staðfestri fyrir dómi 11. sama mánaðar, svo og för þeirra að Hamarsbraut 11, þangað sem Sævar, Albert og Gunnar hafi komið. Gögn um dvöl Sævars í starfsmannahúsi við Kópavogshælið þóttu samræmast þessari frásögn. Þá var vísað til þess að fyrir miðjan janúar 1976 hafi Kristján, Sævar og Tryggvi allir viðurkennt að þeir hafi verið staddir að Hamarsbraut 11 fyrrnefnda nótt ásamt manni, sem Kristján hafi borið að hafi verið Guðmundur og hinir tveir töldu vera þann sama. Samkvæmt skýrslum allra þriggja hafi komið til átaka milli þeirra og Guðmundar, sem hafi leitt til dauða hans. Þeir hafi einnig lýst í framburði sínum flutningi á líki Guðmundar. Albert og Gunnar hafi lýst dvöl Kristjáns, Sævars og Tryggva að Hamarsbraut 11 sömu nótt og átökum þeirra þar við mann, sem þeir töldu vera Guðmund. Erla hafi borið að Kristján, Sævar og Tryggvi hafi verið á vettvangi, svo og hvers hún hafi orðið áskynja um athafnir þeirra. Jafnframt var vísað til samprófana, sem hafi farið fram, svo og þess að Erla hafi ekki dregið til baka framburð sinn um atferli Kristjáns, Sævars og Tryggva að Hamarsbraut 11.

 Í dóminum eru raktar breytingarnar, sem Kristján, Sævar og Tryggvi gerðu á framburði sínum við meðferð málsins fyrir dómi í mars og september 1977, svo og að nokkru leyti ávirðingar þeirra um harðræði og ólögmæta rannsóknarhætti. Þótti ekki verða séð að játningar hafi verið fengnar með ólögmætum aðferðum. Tiltekinn tími hafi liðið frá því játningarnar komu fram og voru staðfestar fyrir dómi og þar til þær voru dregnar til baka. Með vísan til alls þessa þótti bera að leggja játningar Kristjáns, Sævars og Tryggva til grundvallar, enda þótti ekki mark takandi á afturköllunum þeirra. Játningarnar þóttu fá stoð í framburði Alberts, Gunnars og Erlu, svo og öðrum gögnum, sem greindi í héraðsdómi. Var af þessu leidd sú niðurstaða Hæstaréttar, sem greinir hér áður í kafla I.4.