II.5.

II.5.A.

Sævar Marinó Ciesielski dró til baka fyrri skýrslur sínar varðandi sakarefni í I. kafla ákæru 8. desember 1976 á dómþingi 29. mars 1977, svo sem áður greinir. Um skýringar hans á þessu var í þinghaldinu meðal annars bókað eftirfarandi: "Ég var upphaflega látinn játa á mig sakir, beittur líkamlegu ofbeldi af rannsóknarmönnum, einnig af fangavörðum, hótað af Tryggva Rúnari og Kristjáni Viðari. Erla hótaði að fremja sjálfsmorð í júlímánuði 1976 við samprófun í fangelsinu við Síðumúla. Samprófunin stóð öðru hverju í 8 daga, og lengst í 6 tíma í einu. Var Erla höfð þar til að koma vitinu fyrir mig. Sigurbjörn sagði við mig, að ef ég játaði ekki að hafa verið á Hamarsbraut 11 þessa nótt, myndi ég fá lífstíðaröryggisgæslu. Sigurbjörn Víðir sagði það vera orð "nafngreind manns, og lét sá maður" orð falla í maímánuði og sagðist lofa mér því, að ég fengi að týnast í amerísku fangelsi, ef ég játaði ekki á mig sakir í "Guðmundar- og Geirfinnsmáli". Daginn eftir að ég fór í samprófun með Tryggva Rúnari og Kristjáni Viðari, var höfð samprófun, þar sem Sigurbjörn Víðir lét Tryggva Rúnar Leifsson ráðast á mig, og barði hann mig svolítið til. Síðan, er ég átti að fara inn í fangaklefa, réðst Sigurbjörn Víðir á mig, sló mig í andlitið í viðurvist Ara Ingimundarsonar, fangavarðar, tók mig á loft og fleygði mér í stól í yfirheyrsluherberginu. Í júlímánuði, júlílok, kom fangavörður, Skúli Steinsson að nafni, og biður mig að koma fram með sér. Ég spurði, hvað það væri, og sagði hann mig mundu komast að því og ef ég kæmi ekki með góðu, yrði ég beittur ofbeldi, en það var ávallt þeirra orðatiltæki, þegar ég var látinn fara í yfirheyrslur. Gekk ég fram, og þegar ég kem að sturtuherbergi, segir hann mér að bíða aðeins, tekur mig síðan hálstaki og dregur mig inn í sturtuherbergið og lætur renna í vask og gólfklút í vaskinn. Reyndi hann að dýfa mér ofan í, en tókst það ekki í fyrstu, en fékk þá Jóhann, fyrrverandi lögreglumann, til að aðstoða sig. Skúli spurði, með hverjum ég hefði farið til Keflavíkur og hvert ég hefði farið með Guðmund Einarsson út í hraun. Eftir allar vatnsdýfingarnar var ég orðinn þjakaður og var farinn að hljóða. Þá hætta þeir og fleygja mér inn í klefa, en þetta hafði þá staðið í góða stund. Ekki hafði ég lengi verið í klefanum, er Skúli Steinsson kemur á ný, tekur mig með ofbeldi og heldur áfram sama leiknum og áður, þar til ég var allur orðinn blautur og farinn að hljóða. Ekki veit ég, hversu lengi þetta stóð, en loks kom varðstjóri, Guðjón að nafni, og kvað þetta gott í bili. Var ég síðan látinn inn í klefa. Daginn, sem fjórmenningarnir voru handteknir í Geirfinnsmálinu, sagði ég við einn rannsóknarmannanna, "að ég gæti ekki sagt, að ég hefði farið út á bát og ekki heldur, að ég hefði farið með þessum mönnum til Keflavíkur." Hann sagði þá við mig: "Farðu inn í klefa og hengdu þig". Við Gunnar Marinósson sagði hann: "Lánaðu honum reipi, svo hann geti hengt sig"."

 

Tryggvi Rúnar Leifsson dró til baka fyrri skýrslur sínar varðandi sakarefni í I. kafla ákæru 8. desember 1976 á dómþingi 30. mars 1977, svo sem áður greinir. Var eftirfarandi bókað eftir honum í þinghaldinu til skýringar á þessari breytingu: "Þegar ég var tekinn fyrst 23. desember 1975 heima hjá mér, var borin upp á mig þessi sök, að ég hefði í samráði við Kristján Viðar Viðarsson og Sævar Marinó Ciesielski orðið Guðmundi Einarssyni að bana. Síðan var ég yfirheyrður. Mér varð mikið um þetta, þar sem ég var saklaus í þessu máli. Ég gat ekki sofið og mér var neitað um svefntöflur. Síðan liðu 2-3 dagar, þar til þurfti að sprauta mig niður, til að ég gæti sofið, enda var ég kominn með óráð. Ég vil taka það fram, að upp úr þessu voru borin á mig tvö önnur stórmál, að ég hafi átt að verða stúlku að bana í Vík í Mýrdal og einhverjum manni í Ólafsvík, átti það að hafa verið haustið 1974. Ég tel mig alls ekki hafa verið kominn í fullt jafnvægi, þegar ég var tekinn í yfirheyrslur dag eftir dag, sem oft vöruðu í 12 tíma. Ekkert kom annað til umræðu en að ég ætti að játa þetta mál, sem upp á mig var borið. Það var alveg sama, hvað ég sagði, þeir tóku ekki mark á því. Ég átti bara að játa að hafa verið með fyrrgreindum mönnum við nefndan verknað. Fyrstu dagana átti ég að skýra frá því sjálfur, hvernig þetta atvikaðist. Sagði "einn rannsóknarmanna", að ég fengi að rotna í 2 ár í Síðumúla. Það væri hægt að halda mér þann tíma. Í þessum yfirheyrslum voru yfirleitt þrír, Örn Höskuldsson, Sigurbjörn Víðir Eggertsson og Eggert Bjarnason. Áfram héldu hótanirnar, og sögðu þeir, að ég yrði dæmdur fyrir þetta, því það væru allir búnir að játa og bentu á mig. Loks kom að því, að ég sá mér ekki annað fært en að játa á mig þátttöku í verknaðinum, þar sem mér fannst það skynsamlegra, úr því sem komið var. Fannst mér yfirheyrslurnar með þeim hætti, að ég játaði þetta með því hugarfari, að hið sanna kæmi í ljós, þegar málið kæmi fyrir dómara."

 

Í tilefni af framangreindu fór fram rannsókn fyrir dómi, þar sem teknar voru skýrslur af rannsóknarmönnum og fangavörðum, svo sem hér á eftir greinir.

 

Eggert Norðdahl Bjarnason rannsóknarlögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi 31. mars 1977. Þar sagðist hann ekki kannast við neitt af því, sem greindi í bókun 29. sama mánaðar um meðferð Sævars í Síðumúlafangelsi, eða kannast við að Sævar hafi verið beittur líkamlegu ofbeldi við rannsókn málsins eða hótunum um það. Sævar hafi alltaf verið yfirheyrður sjálfstætt og skýrt frá af fúsum og frjálsum vilja, en spurningar hafi oft verið endurteknar, svo sem venja væri við yfirheyrslur. Sævar hafi að öllu jöfnu verið prúður og viðræðugóður, en þó nokkuð oft hafi hann kallað rannsóknarmenn öllum illum nöfnum. Hafi Sævar nokkrum sinnum gert sig líklegan til að hlaupast á brott úr yfirheyrslum og hafi þá orðið taka hann og koma honum aftur í sæti sitt. Eitt sinn hafi Sævar hlaupist á brott utan dyra og hafi Örn Höskuldsson elt hann uppi og fellt til jarðar, en hann hafi síðan verið færður aftur í fangelsið. Um þau atriði, sem höfð voru eftir Tryggva á dómþingi 30. mars 1977, sagðist Eggert minnast þess að Tryggvi hafi verið eitthvað miður sín í Síðumúlafangelsi milli jóla og nýárs 1975 og haft á orði hvort sú líðan hans gæti verið samviskubit, sem hann hafi ekki fundið fyrir fyrr. Eggert kvað Tryggva hafa skýrt sjálfstætt frá málsatvikum og af frjálsum vilja og hafi Tryggvi aldrei verið beittur hótunum, sem hann gæti borið um. Eggert sagði það vera rangt, sem Tryggvi hafi haldið fram um að lögreglan hafi upplýst sig um herbergjaskipan að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði áður en lýsing á henni hafi verið höfð eftir sér í lögregluskýrslu 9. janúar 1976, heldur hafi Tryggvi lýst þessu sjálfstætt. Þá skýrði Eggert frá því að við rannsókn á fjársvikamáli, sem beindist að Erlu og Sævari, hafi vaknað grunur um að þau kynnu að vera viðriðin dauða Guðmundar Einarssonar, en rannsóknarlögreglumenn hafi áður heyrt orðróm í þá átt. Þessi grunur hafi styrkst við skýrslutöku af Erlu 20. desember 1975 og rannsókn málsins þá haldið áfram.

Skýrsla var tekin aftur af Eggert Bjarnasyni á dómþingi 27. september 1977 að frumkvæði verjanda Tryggva. Að ósk verjandans var í fyrsta lagi lögð spurning fyrir Eggert um ástæðu þess að Tryggvi hafi verið yfirheyrður ein 30 skipti án þess að lögreglumenn hafi bókað nokkuð um hvað gerst hafi. Því svaraði Eggert á þann hátt að hann efaðist um að Tryggvi hafi verið færður til yfirheyrslu svo oft, en hann rengi ekki að hafa talað við Tryggva í þessum mæli. Eggert kvaðst minna að slík samtöl hafi oft farið fram að beiðni Tryggva, en ekki vegna sinna óska um að fá að ræða við hann. Sérstakar skýrslur hafi ekki verið gerðar um slík samtöl. Aðspurður í öðru lagi um ástæðu þess að vottar hafi ekki verið við skýrslutökur af Tryggva sagði Eggert að ekki hafi verið venja að vottur væri staddur við sjálfa skýrslutökuna, heldur væri vottur fenginn til þess ýmist að hlusta á þegar skýrsla væri lesin fyrir skýrslugjafa eða þegar skýrslugjafi væri spurður um hvort allt væri rétt eftir sér haft. Þegar Sigurbjörn Víðir Eggertsson hafi verið vottur á skýrslum í þessu máli hafi hann þó verið staddur við skýrslutöku, að því er Eggert taldi sig best muna. Aðspurður í þriðja lagi um tilgang ferða lögreglumanna inn í klefa Tryggva í Síðumúlafangelsi og hvað farið hafi þeim á milli sagðist Eggert ekki muna eftir að hafa gert slíkt.

Sigurbjörn Víðir Eggertsson rannsóknarlögreglumaður kvaðst í skýrslu fyrir dómi 31. mars 1977 ekki kannast við að hafa minnst nokkurn tímann á að Sævar yrði settur í lífstíðaröryggisgæslu, en Sævar hafi talað mikið um þetta sjálfur og greinilega óttast það. Þá kannaðist Sigurbjörn Víðir ekki við að hafa nokkurn tímann heyrt ummæli um að Sævar fengi að týnast í amerísku fangelsi ef hann játaði ekki á sig sakir. Sigurbjörn Víðir skýrði frá því að Sævar og Tryggvi hafi eitt sinn við samprófun farið að bera sakir hvor á annan. Hafi þeir lent í orðahnippingum og Tryggvi þrifið í skyrtu Sævars að framanverðu. Sigurbjörn Víðir kvaðst hafa stöðvað Tryggva strax og hafi Sævar ekkert meiðst, en þar með hafi samprófun verið lokið. Sagði Sigurbjörn Víðir það vera algerlega ósatt að hann hafi ráðist á Sævar, svo sem haft var eftir Sævari á dómþingi 29. mars 1977, en einu skiptin, sem hann hafi orðið að snerta Sævar, hafi verið þegar Sævar hafi ætlað að hlaupa út úr yfirheyrslum. Sævar hafi verið mjög misjafn við yfirheyrslur. Hann hafi stundum verið prúður, en stundum mjög æfur og kallað rannsóknarmenn öllum illum nöfnum. Oftast hafi þó farið vel á með þeim. Samprófun milli Sævars og Sigurbjörns Víðis leiddi ekki til árangurs.

Sigurbjörn Víðir Eggertsson kom á ný fyrir dóm 27. september 1977 að frumkvæði verjanda Tryggva, sem óskaði þar eftir svörum hans við sömu spurningum og lagðar voru samdægurs fyrir Eggert Bjarnason og áður er getið. Svar Sigurbjörns Víðis við fyrstu spurningunni var á þá leið að hann héldi að það kæmi ekki til að Tryggvi hafi verið yfirheyrður ein 30 skipti án þess að lögreglumenn gerðu skýrslu um það, heldur hafi þetta verið viðtöl samkvæmt beiðni Tryggva. Ekki hafi verið venja að gera skýrslur um yfirheyrslur nema eitthvað nýtt kæmi þar fram eða skýrslugjafi vildi bæta einhverju við og í skýrslum hafi yfirleitt ekki verið getið um önnur atriði. Svar Sigurbjörns Víðis við annarri spurningunni var efnislega á sama veg og fyrrgreint svar Eggerts Bjarnasonar við sömu spurningu. Sigurbjörn Víðir svaraði þriðju spurningunni, sem laut að tilgangi ferða lögreglumanna inn í fangaklefa Tryggva og samræður þeirra, á þann hátt að Tryggvi hafi oft leitað til fangavarða til að koma á framfæri ósk um að fá að tala við sig, en slíkar samræður hafi bæði snúist um málið og persónuleg málefni Tryggva.

Ari Ingimundarson fangavörður í Síðumúlafangelsi kvaðst í skýrslu fyrir dómi ekki kannast við þau atriði, sem höfð voru eftir Sævari í fyrrgreindri bókun. Ari kvaðst ekki hafa orðið sjónarvottur að því ofbeldi, sem Sævar hermdi þar að Sigurbjörn Víðir Eggertsson hafi beitt sig, eða vita til að slíkt hafi gerst. Hann sagðist ekki hafa orðið var við að Sævar hafi verið beittur ofbeldi eða hótun um slíkt í fangelsinu. Ari sagðist ekkert geta borið um það, sem haft var eftir Tryggva á dómþingi 30. mars 1977, enda hafi hann ekki verið staddur við yfirheyrslur í málinu.

Gunnar Marinó Marinósson varðstjóri í Síðumúlafangelsi bar fyrir dómi að hann kannaðist ekki við það, sem haft væri eftir Sævari í bókun á dómþingi 29. mars 1977. Sagðist hann aldrei hafa orðið var við að Sævar sætti illri meðferð í gæsluvarðhaldsvist sinni í fangelsinu. Í tilefni af ummælum, sem höfð voru eftir Tryggva á dómþingi 30. mars 1977, kannaðist Gunnar við að hafa verið vottur á lögregluskýrslu Tryggva 9. janúar 1976. Hann sagði það vera öruggt að hann hafi verið viðstaddur þegar Tryggvi undirritaði skýrsluna og staðfesti hana rétta, en minntist þess ekki hvort hann hafi hlýtt á upplestur hennar. Gunnar kvaðst yfirleitt ekki hafa verið viðstaddur yfirheyrslur í þessu máli.

Högni Ófeigur Einarsson fangavörður í Síðumúlafangelsi kvaðst fyrir dómi hafa verið viðstaddur þegar Tryggvi lýsti rétta lögregluskýrslu sína 9. janúar 1976 og undirritaði hana. Hann sagðist ekki hafa verið staddur við skýrslutökuna af Tryggva, heldur hafa ritað undir skýrsluna sem vottur að lokinni yfirheyrslu.

Jóhann Gunnar Friðjónsson fangavörður í Síðumúlafangelsi sagðist í skýrslu sinni fyrir dómi ekki kannast við neitt það, sem haft væri eftir Sævari í bókun á dómþingi 29. mars 1977. Jóhann sagðist ekki hafa verið staddur við yfirheyrslur í málinu. Hann kvað Sævar hafa verið prýðisfanga og gert það, sem beðið hafi verið um, en helst hafi þó þurft að ítreka við Sævar að þrífa sig og klefa sinn. Jóhann kannaðist ekki við að hafa veitt Skúla Steinssyni aðstoð við að dýfa Sævari ofan í vask eða vita til að það hafi verið gert. Hann sagðist ekki vita til þess að nokkru sinni hafi komið til átaka þegar Sævar hafi átt að fara í bað. Hann minntist þess þó að Skúli hafi eitt sinn haldið utan um Sævar á leið úr klefa til baðherbergis, en kvaðst ekki hafa orðið var við að Sævar hafi verið beittur neinu ofbeldi.

Kjartan Kjartansson fangavörður kvaðst í skýrslu fyrir dómi hafa starfað í Síðumúlafangelsi frá því snemma í janúar og fram í apríl eða maí 1976. Hann sagðist ekki geta borið af eigin raun um þau atriði, sem höfð voru eftir Sævari á dómþingi 29. mars 1977, en hann minntist þess að hafa heyrt talað um þau ummæli, sem greint er frá í niðurlagi fyrrgreindrar bókunar frá því þinghaldi. Kjartan sagðist ekki hafa verið viðstaddur yfirheyrslur og því ekki geta borið af eigin raun um hvort Sævar hafi verið beittur líkamlegu ofbeldi, en hann hafi heyrt að yfirheyrslur voru ákaflega hávaðasamar. Hann kvaðst ekki vita til að Sævar hafi sætt ofbeldi í fangelsinu eða verið hótað ofbeldi. Hann hafi hins vegar orðið var við að fangaverðir virtust yfirheyra Sævar eða blanda sér að óþörfu í mál hans. Kjartan nefndi sérstaklega í því sambandi Skúla Steinsson og Högna Einarsson, en sagðist ekki vita til að þetta hafi verið gert að beiðni rannsóknarmanna. Sagði Kjartan að sér fyndist Sævar hafa að ástæðulausu sætt meira harðræði í fangelsinu en aðrir ákærðu í málinu, en Sævar hafi frá sjónarhorni fangavarðar hegðað sér afburða vel. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að Sævar hafi tregast við að þrífa sig eða klefa sinn. Þá gat Kjartan um atvik, sem hann greindi þannig frá að hann hafi eitt sinn verið staddur við yfirheyrsluherbergi Síðumúlafangelsis eftir að Eggert Bjarnason og Sigurbjörn Víðir Eggertsson hafi lokið við að yfirheyra Sævar. Hafi þá Gunnar Guðmundsson yfirfangavörður gengið mjög berserkslega inn í yfirheyrsluherbergið og hafi komið þaðan vægast sagt allmikill hávaði. Sagði Kjartan að enginn nærstaddra fangavarða hafi virst hafa kjark til að opna inn í herbergið og hafi hann því gert það sjálfur. Ekki hafi hann séð að Gunnar væri staddur í hættu, en Sævar hafi hins vegar virst vera svínbeygður, enda hafi hann kallað á Gunnar að stilla sig. Kjartan kvað Gunnar hafa skipað sér að loka tafarlaust og hafi hann ekki heyrt að fleira hafi gerst í herberginu. Kjartan sagði sér vera ókunnugt um atriði, sem greindi í bókun eftir Tryggva á dómþingi 30. mars 1977.

Skúli Ævar Steinsson fangavörður kvaðst í skýrslu fyrir dómi hafa starfað í Síðumúlafangelsi á meðan Sævar var þar í gæsluvarðhaldi á árinu 1976. Skúli sagði að mjög illa hafi gengið að fá Sævar til að þrífa sig og klefa sinn. Hann minntist tilviks þegar Sævar hafi neitað að þrífa sig og klefann og kvaðst þá hafa tekið utan um Sævar, farið með hann inn á bað og lokað hann þar inni. Hafi Sævar farið í bað og síðan þrifið klefa sinn, en eftir þetta hafi hann alltaf sinnt boðum Skúla um þrif. Skúli kvað Sævar ekki hafa verið beittan neinu harðræði í umrætt sinn og hafi þar ekki verið minnst á málin, sem beindust að Sævari, enda ekki í verkahring hans. Skúli taldi lýsinguna, sem höfð var eftir Sævari á dómþingi 29. mars 1977 um meðferðina í fangelsinu, fjarri öllu lagi.

Í dómi sakadóms kemur fram að Örn Höskuldsson dómarafulltrúi hafi verið beðinn um að tjá sig um ásakanir, sem fram voru komnar af hendi ákærðu. Í bréfi Arnar af þessu tilefni 22. ágúst 1977 sagði meðal annars: "Sævar Marinó reyndi í þinghaldi hinn 11. janúar að bera fyrir sig, að hann hefði verið þvingaður til þess að játa á sig sakir í "Guðmundarmálinu". Ég tók ekkert mark á framburði hans, þar sem ég vissi betur, en ég var viðstaddur, þegar hann skýrði fyrst frá, og svo var einnig hans réttargæslumaður Jón Oddsson hrl., og á honum að vera manna best kunnugt um, að framburður Sævars er rangur. Ég tek fram, að ég ber fullkomið traust til lögreglumannanna og hefi ekki nokkra ástæðu til þess að ætla, að þeir gæti ekki settra reglna við yfirheyrslur. Ef ég hefði eitthvað átt að finna að störfum þeirra í sambandi við málsrannsóknir þessar, þá var það helst, að þeir dekruðu of mikið við sökunauta, því þeir voru hlaupandi í fangelsið jafnt á nóttu sem degi, því mjög mikið var um, að sökunautar létu hringja í þá." Þá greinir frá því í dóminum að Örn hafi með bréfum 22. og 27. september 1977 svarað sömu spurningum og lagðar voru fyrir Eggert Bjarnason og Sigurbjörn Víði Eggertsson að ósk verjanda Tryggva eins og áður segir. Um fyrstu spurninguna kvaðst Örn engu geta svarað um ástæðu þess að Tryggvi hafi verið yfirheyrður ein 30 skipti án þess að skýrsla væri gerð um það, en alltaf hafi verið bókað um yfirheyrslur hans sjálfs yfir Tryggva og vottur viðstaddur þær. Erindi lögreglumanna við Tryggva í slíkum tilvikum gætu hafa verið margvísleg, þótt ekki væri um yfirheyrslu að ræða, svo sem til að spyrja hvort hann hefði eitthvað nýtt fram að færa. Tryggvi hafi jafnframt oft beðið lögreglumenn um viðtöl, sem gætu hafa farið fram í yfirheyrsluherbergi þótt þau kæmu ekki málsrannsókn beint við, meðal annars til að koma skilaboðum til fjölskyldu sinnar. Varðandi aðra spurninguna sagði í svari Arnar að ekki hafi tíðkast að hafa votta viðstadda lögregluyfirheyrslur, en til þeirra væri alltaf kallað til að votta undirskrift skýrslu. Um þriðju spurninguna kvaðst Örn hafa farið inn í klefa til Tryggva í Síðumúlafangelsi. Oftast hafi þetta gerst að beiðni Tryggva. Tryggvi hafi þá yfirleitt viljað sýna sér myndir, sem hann hafi teiknað eða málað, og oft viljað gefa sér þær. Kvaðst Örn ekki minnast þess að hafa farið í klefa til Tryggva nema samkvæmt beiðni hans, en yfirheyrslur hafi ekki farið þar fram.

 

Afstaða sakadóms til framangreindra atriða kemur fram í hluta dómsforsendna, sem tekinn er upp orðrétt í öðru samhengi í kafla II.2.K. hér að framan. Eins og þar sést nánar var talið að rannsókn dómsins hafi ekki rennt stoðum undir framangreindar fullyrðingar Sævars og Tryggva um ólögmætar rannsóknaraðferðir og harðræði í gæsluvarðhaldsvist eða fullyrðingar Kristjáns svipaðs efnis, sem komu fram á dómþingi 29. september 1977. Var vísað til þess að á hinn bóginn hafi ýmislegt komið fram, sem benti til að samband milli þessara ákærðu og rannsóknarmanna hafi yfirleitt verið gott. Kristján hafi skýrt frá sínum þætti í átökum við Guðmund Einarsson á dómþingi 22. mars 1976 að viðstöddum réttargæslumanni sínum og engar ásakanir borið fram vegna fyrri yfirheyrslna. Sævar hafi skýrt lögreglunni frá hlut sínum í átökum við Guðmund 22. desember 1975 og 4. janúar 1976 og hafi réttargæslumaður hans verið viðstaddur bæði skiptin. Engar kvartanir eða athugasemdir hafi komið fram varðandi þær yfirheyrslur, en ásakanir Sævars í garð rannsóknarmanna og fangavarða virtust lúta að atvikum, sem hafi gerst löngu síðar. Yrði vart séð að hverju þvinganir hafi þá átt að miða, þegar játning Sævars lá orðið fyrir. Tryggvi hafi gefið sjálfstæða skýrslu fyrir dómi um hlut sinn í málinu 30. apríl 1976 og hafi réttargæslumaður hans verið viðstaddur. Tryggvi hafi ekki fært þá fram neinar kvartanir. Þá þótti ekki annað verða ráðið af lögregluskýrslum en að ákærðu hafi skýrt sjálfstætt frá málsatvikum og hver í sínu lagi.

 

Í dómi Hæstaréttar greinir frá því að eftir uppsögu héraðsdóms hafi farið fram frekari lögreglurannsókn að ósk Sævars vegna harðræðis, sem hann taldi sig hafa verið beittan við rannsókn málsins. Hafi dómsmálaráðuneytið 30. maí 1979 falið vararannsóknarlögreglustjóra ríkisins að annast framhaldsrannsóknina sem rannsóknarlögreglustjóri, en efni rannsóknarinnar hafi verið markað og fyrirmæli gefin um hana í bréfi ríkissaksóknara 23. ágúst sama árs. Framhaldsrannsóknin hafi farið fram 5. september til 8. október 1979 og hafi skýrslur þá verið teknar af fangavörðum og ýmsum þeim, sem fóru með rannsókn málsins. Í megindráttum hafi þessir menn skýrt frá með sama hætti og við rannsókn málsins fyrir héraðsdómi, en þó hafi komið fram nokkur ný atriði. Við framhaldsrannsóknina hafi jafnframt verið teknar skýrslur af séra Jóni Bjarman fangapresti og Kristjáni, Sævari og Erlu, auk þess að athuganir hafi verið gerðar á aðbúnaði fanga í Síðumúlafangelsi. Segir síðan eftirfarandi í dómi Hæstaréttar:

 

"Af gögnum máls verður ráðið, að við samprófun hinna ákærðu Sævars, Kristjáns og Erlu 5. maí 1976 hafi nafngreindur fangavörður lostið ákærða Sævar kinnhest. Um aðdraganda þessa eru skýrslur óljósar, en þær benda til þess, að ákærði Sævar hafi verið æstur og órór við yfirheyrslu þessa.

 

Þá er þess að geta, að fangavörður, sem starfaði í fangelsinu að Síðumúla, kvaðst hafa "heyrt" einhverja "pústra" í tvö skipti, þegar verið var að yfirheyra ákærða Sævar. Annar fangavörður taldi sig hafa verið á næturvakt, að því er ætla verður í janúar 1976. Hafi þá tveir nafngreindir fangaverðir farið inn í klefa, m.a. ákærða Sævars, að fyrirmælum yfirfangavarðar í því skyni að halda Sævari vakandi og hafi þeir "tuskað" hann til. Einnig hafi nafngreindur fangavörður valdið hávaða í grennd við klefa Sævars í því skyni að varna honum svefns, að því er vitnið telur. Þá hafi slökkvari verið óvirkur og hafi eigi verið hægt að slökkva ljós í klefa Sævars. Viðkomandi fangaverðir og rannsóknarmenn hafa alfarið neitað, að þessar frásagnir séu réttar."

 

Í forsendum fyrir niðurstöðu Hæstaréttar um I. kafla ákæru 8. desember 1976 segir síðan í þessu sambandi:

 

"Svo sem greint er hér að framan, hafa ákærðu Sævar og Tryggvi staðhæft, að rannsóknarmenn og fangaverðir hafi beitt þá harðræði í því skyni að knýja þá til játninga. Ákærði Kristján ber hins vegar fyrir sig, að rannsóknarmennirnir hafi haft óeðlileg áhrif á þá ákærðu í því skyni að samræma framburði þeirra.

 

Þegar hin rækilega rannsókn bæði fyrir og eftir uppsögu héraðsdóms varðandi meint harðræði og ólögmæta rannsóknarhætti er virt, verður ekki séð, að játningar ákærðu hafi verið fengnar með ólögmætum aðferðum af hálfu þeirra, er fóru með rannsókn málsins. Kinnhestur sá, sem sannað er, að fangavörður hafi lostið ákærða Sævar, var greiddur honum 5. maí 1976 við samprófun, alllöngu eftir að þessi ákærði játaði atferli sitt að Hamarsbraut 11.

 

Játningar hinna ákærðu komu fram í skýrslum þeirra í janúar 1976 og voru endurteknar síðar bæði fyrir rannsóknarlögreglu og á dómþingum að viðstöddum verjendum þeirra Kristjáns og Tryggva"

Í forsendum fyrir niðurstöðu Hæstaréttar um I. kafla ákæru 16. mars 1977 var vitnað til framangreindrar umfjöllunar um rannsóknir fyrir og eftir uppkvaðningu héraðsdóms vegna áburðar ákærðu á hendur rannsóknarmönnum og fangavörðum. Þóttu þessar umfangsmiklu rannsóknir ekki leiða í ljós að þeir annmarkar væru á rannsókn málsins, sem gætu valdið því að játningar Kristjáns og Sævars yrðu ekki út af fyrir sig lagðar til grundvallar við úrlausn í þessum þætti málsins.

 

II.5.B.

 

Í tengslum við II. kafla ákæru 16. mars 1977 varðandi rangar sakargiftir greindi Kristján Viðar Viðarsson frá því á dómþingi 13. maí sama árs að nokkru áður en hann gaf skýrslu hjá lögreglunni 23. janúar 1976 hafi Örn Höskuldsson dómarafulltrúi rætt við sig í fangaklefa í Síðumúlafangelsi og sagt sér að skýra frá því, sem hann vissi um svokallað Geirfinnsmál. Einnig hafi Örn spurt hvort hann þekkti Einar Bollason. Lögreglumennirnir Eggert Bjarnason og Sigurbjörn Víðir Eggertsson hafi rætt við sig um málið og sagt hann hafa farið til Keflavíkur þegar Geirfinnur hvarf. Þá hafi Gunnar Guðmundsson yfirfangavörður sagt að Kristján hafi farið í bifreið til Keflavíkur með Erlu, Sævari og þriðja manni, sem hafi ekki verið nafngreindur. Kristján kvað Sigurbjörn Víði hafa spurt sig um Klúbbinn og hvort hann hafi farið þar upp í bifreið til Keflavíkur. Hann hafi ekki minnst ferðar þangað, en talið þó alveg skaðlaust að segja það. Hafi þá átt að fá hann sjálfan til að segja frá því í hvernig bifreið hafi verið farið og hann þá sagt í rútu eða sendibifreið. Honum hafi verið skýrt frá því að Erla hafi sagt að Einar hafi verið ökumaðurinn. Kristján kvaðst að öllu þessu gerðu hafa gefið skýrsluna 23. janúar 1976 til að fá frið til að rifja upp svokallað Guðmundarmál. Staðháttum hafi verið lýst fyrir sér við skýrslutökuna. Hann hafi verið spurður um sjóferð, en neitað að skýra frá því, þar sem hann hafi ekki munað eftir slíkri ferð. Kristján sagði að á næstu dögum hafi Sigurbjörn Víðir sagt sér að fleiri manns hafi borið að hann hafi farið til Keflavíkur með Einari, Magnúsi Leópoldssyni, Valdimar Olsen og Sigurbirni Eiríkssyni, auk nafngreinds manns, Sævars og Erlu. Örn Höskuldsson hafi nefnt við sig Valdimar og nafngreinda manninn, auk Einars. Högni Einarsson fangavörður hafi nefnt Magnús við sig. Hann kvaðst ekki hafa þekkt Einar eða Sigurbjörn Eiríksson í sjón. Honum hafi verið sýndar ljósmyndir af mönnum og hann verið beðinn um að benda á mynd af Einari. Hann hafi bent á ranga mynd og þá verið sagt hver væri sú rétta. Honum hafi einnig verið sýnd ljósmynd af Sigurbirni Eiríkssyni. Í lögregluskýrslunni 27. janúar 1976 hafi komið fram ýmislegt, sem lögreglumenn hafi sagt sér, þar á meðal að hann hafi farið í sjóferð og hvernig bifreiðir hafi verið á vettvangi. Kristján kvað Örn Höskuldsson hafa komið inn í klefa til sín og sagt að menn sæktust eftir lífi hans. Hafi Örn sagst ekki geta tekið ábyrgð á hvað gæti gerst, en Kristján gæti komið í veg fyrir það með framburði sínum. Þá sagði Kristján að fangaverðir hafi farið upp á þak fangelsisins til að mynda hávaða og barið í veggi til að spilla svefnfriði. Högni Einarsson hafi komið inn í klefa tvisvar á nóttu til að spyrja hvort hann þekkti Magnús. Örn Ármann Sigurðsson fangavörður hafi sagt að Kristján hafi fengið ókeypis áfengi í Klúbbnum, enda myndu starfsmenn þar þekkja hann. Kristján kvaðst hafa verið veikur fyrir. Hann hafi fengið áfall í sambandi við svokallað Guðmundarmál, verið máttlaus alla daga og ekki getað sofið vegna láta í fangavörðum. Hann hafi verið orðinn alveg ruglaður og farið margsinnis fram á að fá að ræða við sálfræðing eða geðlækni, en því hafi fyrst verið sinnt þegar vararíkissaksóknari hafi krafist þess við skýrslugjöf hans fyrir dómi. Kristján sagðist hafa margneitað að gefa skýrslu um sjóferð eða aðild Einars, Magnúsar, Sigurbjörns og Valdimars að málinu, en Örn Höskuldsson hafi gefið sér frest til kvölds 27. janúar 1976 til að gefa hana. Hann hafi ekki vitað hvað ætti að gerast, en fangaverðir hafi verið farnir að koma inn í klefa og dingla kylfum framan í menn. Hann hafi verið hræddur og því látið undan til að kaupa sér frið, til að geta hugsað um svokallað Guðmundarmál og vegna þess að hann hafi verið farinn að trúa því, sem honum var sagt. Kristján kvaðst hafa fengið frið eftir að hafa gefið skýrsluna 27. janúar 1976. Stuttu síðar hafi hann í samtali við lögreglumennina Sigurbjörn Víði og Magnús Magnússon óskað eftir að draga skýrsluna til baka, en því hafi ekki verið sinnt fyrr en 2. mars 1976.

 

Eggert Norðdahl Bjarnason rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóm til skýrslugjafar í tilefni af framangreindu, en hann mun hafa tekið skýrslur 23. og 27. janúar, 10. febrúar og 18. mars 1976 af Kristjáni, sem bar þar sakir á Einar, Magnús, Sigurbjörn og Valdimar. Eggert kvað Kristján hafa skýrt sjálfstætt frá málsatvikum í þessum skýrslum sínum, nefnt fyrrgreinda menn og borið þá sökum. Eggert minnti að hann hafi farið að spyrja Kristján um ferð til Keflavíkur eftir ábendingu Sævars. Kristjáni hafi verið sýnd mynd af Einari Bollasyni, sem hann hafi sagst kannast við og nafngreint. Kristján hafi skýrt frá því að systir Valdimars hafi verið með sér í skóla og að hann þekkti Valdimar. Kristján hafi sagt að allir þekktu Sigurbjörn Eiríksson. Eggert kvað Kristjáni hafa verið sýndar ljósmyndir af ýmsum mönnum og hafi hann þá bent á myndir af Einari, Sigurbirni og Valdimar, sem hann sagði tengda svokölluðu Geirfinnsmáli. Kristjáni hafi einnig verið sýnd mynd af Geirfinni, sem hann hafi sagst kannast við en ekki vita nafnið á. Eggert kvaðst ekki muna hvort Kristján hafi bent á mynd af Magnúsi. Eggert sagði Kristjáni aldrei hafa verið lögð orð í munn um hvað hann ætti að segja um þátt Einars, Magnúsar, Sigurbjörns og Valdimars í málinu, heldur hafi Kristján skýrt sjálfstætt frá, eins og greini í skýrslum hans. Eggert og Kristján voru samprófaðir fyrir dómi, en af því varð ekki árangur.

 

Sigurbjörn Víðir Eggertsson rannsóknarlögreglumaður, sem tók skýrslu af Kristjáni 20. apríl 1976 og var vottur við fyrrnefnda skýrslugjöf Kristjáns hjá Eggert Bjarnasyni, sagði í skýrslu fyrir dómi að Kristján hafi verið spurður um málsatvik og skýrt frá þeim sjálfstætt, eins og fram komi í lögregluskýrslunum. Sigurbjörn Víðir kvað Kristján ekki hafa fengið neinar ábendingar frá lögreglumönnum þegar hann skýrði frá því að Einar, Magnús, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar væru viðriðnir málið. Hafi Kristján ýmist nefnt nöfn þessara manna eða bent á myndir af þeim innan um myndir af fleiri mönnum. Við samprófun milli Sigurbjörns Víðis og Kristjáns kannaðist sá fyrrnefndi ekki við að Kristján hafi verið leiddur við yfirheyrslur. Í tilefni af staðhæfingu Kristjáns um að sér hafi verið sagt að Einar hafi verið á rauðri bifreið tiltekinnar gerðar í Keflavík kvað Sigurbjörn Víðir lögreglunni hafa verið ókunnugt um bifreiðaeign Einars á því stigi rannsóknar. Varðandi frásögn Kristjáns um ferðir fangavarða upp á þak Síðumúlafangelsisins sagði Sigurbjörn Víðir fangaverði hafa farið upp á þakið kvöld eitt um miðnætti í janúar eða febrúar 1976. Hafi þá verið hvassviðri og heyrst hljóð eins og gengið væri á þakinu. Fangaverðir hafi farið út til að kanna þetta, þar á meðal upp á þakið. Þá kannaðist Sigurbjörn Víðir ekki við að fangaverðir hafi farið inn í klefa að ósk lögreglunnar til að leggja spurningar fyrir ákærðu í málinu.

 

Gunnar Guðmundsson forstöðumaður Síðumúlafangelsis kvaðst fyrir dómi ekki minnast þess að hafa sagt Kristjáni að hann hafi farið til Keflavíkur með Sævari, Erlu og nafngreindum manni. Gunnar kannaðist hvorki við frásögn Kristjáns um ónæði, sem honum hafi verið gert í fangelsinu, né viðtöl fangavarða við hann. Þá kannaðist Gunnar ekki við að lögreglan hafi beðið fangaverði um aðstoð við yfirheyrslur. Gunnar sagðist oft hafa þurft að vera á vinnustað langt fram eftir kvöldi, aðallega vegna ástands Sævars og Kristjáns. Kristján hafi ýmist verið þunglyndur eða æstur og hafi hann oft þurft að vera hjá Kristjáni af þeim sökum. Samprófun milli Gunnars og Kristjáns leiddi ekki til árangurs.

 

Högni Ófeigur Einarsson fangavörður í Síðumúlafangelsi gaf skýrslu fyrir dómi. Högni kvaðst í skýrslu sinni ekki kannast við að hafa rætt um Magnús við Kristján, hann sagðist ekki vita til þess að ákærðu hafi verið gert ónæði í fangelsinu og kannaðist ekki við að fangaverðir hafi yfirheyrt þau. Samprófun milli Högna og Kristjáns var árangurslaus.

 

Örn Ármann Sigurðsson fangavörður í Síðumúlafangelsi gaf skýrslu fyrir dómi. Örn skýrði frá því að í fangelsinu hafi hann oft rætt við Kristján, sem hafi haft ríka þörf til að ræða við einhvern um mál sín, svo og um andlegt og líkamlegt ástand sitt. Hann kvaðst ekki kannast við þau ummæli, sem Kristján hafi eftir sér. Vel mætti vera að hann hafi þó látið slík orð falla, en Kristján sliti þau þá úr samhengi. Orðin hafi fallið í viðræðum að gefnu tilefni frá Kristjáni og ekki sem hótun. Þá kvað Örn það vera rétt hjá Kristjáni að auður klefi hafi verið milli klefa Kristjáns og Sævars í Síðumúlafangelsi, en hann kannaðist ekki við að fangaverðir eða aðrir hafi verið þar viljandi með hávaða. Sagði Örn í tengslum við þetta að hljóðbært hafi verið í fangelsinu. Hann kvaðst aldrei hafa heyrt rætt um að fangaverðir hafi farið upp á þak fangelsisins til að raska ró fanga. Fangaverðir hafi haft kylfur á sér, en ekki minntist hann þess að hafa nokkru sinni séð þá veifa kylfum framan í ákærðu. Þá sagðist Örn ekki hafa orðið var við að lögreglumenn hafi rætt einslega við fanga nema að ósk fanganna sjálfra.

 

Í dómi sakadóms segir að Örn Höskuldsson dómarafulltrúi hafi verið beðinn um að tjá sig um fyrrgreindar fullyrðingar Kristjáns. Er í dóminum tekið orðrétt upp úr bréfi Arnar 22. ágúst 1977, þar sem segir meðal annars: "Ég get ekki tjáð mig neitt um framferði fangavarða í Síðumúlafangelsi, en leyfi mér að benda á, að það hlýtur að vera illmögulegt að beita einhvern mann harðræði innan fangelsisins, þar sem þar er svo hljóðbært. Um stappið á þakinu er það að segja, að það á sér skýringu og gæti það atvik hafa kveikt hugmynd hjá Kr.V.V. Kvöld eitt heyrðist fangavörðum eins og gengið væri eftir þaki fangelsisins og fóru strax upp á þak til þess að athuga, hvað um væri að vera. Þar var ekkert, og virtist eina skýringin vera sú, að vindur hefði haft þessi áhrif, en töluvert rok var. Umgang þennan á þakinu heyrðu m.a. þeir Eggert Bjarnason og Sigurbjörn Víðir Eggertsson svo og Kristján Viðar Viðarsson, en hann var þá í yfirheyrslu hjá Eggert í hornherbergi. Lögreglumennirnir sögðu mér frá þessu strax næsta dag. ... Þegar Erla Bolladóttir og Sævar Marinó höfðu sagt okkur sitt í hvoru lagi sömu söguna um Keflavíkurferðina, þá reyndum við strax að leita staðfestingar á sögunni, m.a. með því að reyna að hafa upp á bifreiðum þeim, sem Erla sagðist hafa fengið far með til borgarinnar umrætt sinn. Einnig fór ég undirritaður inn í klefa til Kristjáns Viðars og spurði hann, hvort hann hefði einhvern tímann farið með Erlu og Sævari til Keflavíkur. Hann sagðist aldrei til Keflavíkur komið hafa. Ég sagði honum þá, að hann myndi verða yfirheyrður á næstunni um það, og fór síðan út. Það er fjarstæða, að Kristján hafi fengið nöfn fjórmenninganna uppgefin hjá lögreglumönnunum. Reynslan af tilburðum Sævars í "Guðmundarmálinu" var lexía, sem hefði komið í veg fyrir alla slíka óvarfærni."

 

Eins og áður greinir í kafla II.4.F. var í dómi sakadóms hafnað þeim staðhæfingum Kristjáns, sem raktar eru hér að framan. Sagði þar að ekki yrði tekinn til greina framburður hans um að rannsóknarmenn og fangaverðir hafi ráðið því hvert yrði efni skýrslna hans um aðild Einars, Magnúsar, Sigurbjörns og Valdimars að málinu. Að þessu er ekki vikið sérstaklega í dómi Hæstaréttar.

 

II.5.C.

 

Í niðurlagi dóms Hæstaréttar sagði eftirfarandi:

 

"Rannsókn sakamáls þessa er hin umfangsmesta á landi hér á síðari árum. Rangir og reikulir framburðir ýmissa þeirra, er rannsókn beindist gegn, ollu þeim, sem með rannsóknina fóru, miklum örðugleikum. Liggur geysimikil vinna í rannsókn málsins, og var m.a. freistað að beita þar ýmsum tækniúrræðum, er að haldi mættu koma. Í fáein skipti verður eigi séð, að þess hafi verið gætt að benda sökuðum manni, sem yfirheyrður var fyrir rannsóknarlögreglu, á ákvæði 1. málsgr. 40. gr. laga nr. 74/1974, og við hefur borið, að yfirheyrsla hafi staðið samfellt lengur en 6 klukkustundir, sbr. 3. málsgr. 40. gr. sömu laga. Stöku sinnum bera bókanir ekki með sér, að reynt hafi verið að kveðja til réttargæslumenn eða verjendur við yfirheyrslu, þar sem slíkt hefði verið rétt. Vegna ummæla í málflutningi hér fyrir dómi þykir ástæða til að taka fram, að fangavörðum er eigi heimilt að hafa afskipti af rannsókn opinbers máls að eigin frumkvæði. Það er ámælisvert, að fangavörður laust einn hinna ákærðu kinnhest við yfirheyrslu, en ráðið verður af gögnum máls, að framkoma fangans við rannsóknarmenn í umrætt skipti hafi verið vítaverð."