III.2.

 

Í yfirlýsingu Alberts K. Skaftasonar 16. janúar 1997 um upplýsingagjöf sína til talsmanns dómfellda, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, segir meðal annars eftirfarandi:

 

"Ég sagði Ragnari frá því að þegar eftir að ég hefði verið handtekinn á Seyðisfirði fyrir jólin 1975 hefðu lögreglumenn farið að spyrja mig um það hvort ég myndi eftir slagsmálum á Hamarsbraut í Hafnarfirði og sama gerðist í flugvélinni á leiðinni til Reykjavíkur. Þar sem ég hafði ekki svör við spurningum þeirra, þar sem ég mundi ekki slík atvik með þeim hætti að ég gæti skýrt þau fyrir lögreglu með neinni nákvæmni, þá leiddu lögreglumenn mig með því að spyrja hvort atvik gætu ekki hafa verið með þessum hættinum eða hinum. Hafði ég tilhneigingu til að játa tilgátum lögreglu. Sem dæmi má nefna að er ég var eitt sinn spurður um líkflutninga nefndi lögreglan ýmsa kirkjugarða til sögunnar sem hugsanlega felustaði og játaði ég öllum tilgátunum. Rannsóknarmenn urðu fyrstir til að nefna við mig hvort ekki gæti verið að ég hafi verið á Volkswagen-bifreið í janúar 1974 í stað Toyota-bifreiðarinnar sem ég hafði nefnt. Lögreglan leiddi mig sem sagt í frásögnum mínum með því að nefna möguleika til sögunnar. Voru jafnvel tengdir saman atburðir sem ég mundi ekki í samhengi, heldur aðskilda. Ég var mjög minnislaus á þessum tíma. Ég hafði um langt skeið notað fíkniefni og því oft erfitt að greina einn atburð frá öðrum úr liðnum tíma.

 

Ragnar hefur sýnt mér lyfjaskrá, sem segir að ég hafi fyrst fengið lyf í fangelsinu 3. janúar 1976, en þangað kom ég 23. des. 1975. Þetta er ekki rétt. Mér voru gefin lyf strax fyrsta kvöldið. Um lyfjagjöf er það að segja að ég fékk ekki að vita hvaða lyf mér voru gefin, en þau voru mulin við lyfjagjöfina.

 

Ragnar hefur vakið athygli mína á því að mikill snjór hafi verið aðfararnótt 27. janúar 1974 í Hafnarfirði og nágrenni. Ég man ekki eftir að hafa keyrt út í Hafnarfjarðarhraun í snjó. Ekki minnist ég þess að rannsóknarmenn hafi spurt mig um snjó í hrauninu.

 

Um þátt Gunnars Jónssonar er þess að geta að ég nefndi ekki nafn hans til sögunnar, heldur nefndi lögreglan það að fyrra bragði við mig. Í sambandi við komu Gunnars Jónssonar til landsins til yfirheyrslu var ég handtekinn og hafður í klefa í u.þ.b. sólarhring í Lögreglustöðinni í Reykjavík. Ég var ekki einungis yfirheyrður fyrir dómi heldur einnig af lögreglu við þetta tækifæri. Þegar kom til samprófunar milli mín og Gunnars Jónssonar virtist mér sem Gunnar myndi ekki neina atburði sem um var spurt.

 

Þá skýrði ég Ragnari frá því að með mig hefði verið farið fyrir Geir Vilhjálmsson, sálfræðing, og átti hann að bæta minni mitt með einhvers konar slökunaræfingum. Var allt sem þá gerðist tekið upp á hljóðband. Einnig var farið með mig inná Klepp þar sem geðlæknir, líklega yfirlæknir, dáleiddi mig einnig í þeim tilgangi að fá mig til að muna liðna atburði. Hvorug þessara aðgerða mun hafa borið nokkurn árangur. Ég mundi ekkert frekar.

 

Fangavörður sat stundum inná klefa og talaði við mig um málið. Eitt sinn spurði fangavörður mig inná klefa hvernig stæði á því að ég gæti ekki munað eftir að hafa flutt lík og sagði ég þá eitthvað á þá leið, að ef til vill hefðu þeir bútað líkið í hluta. Er það skýringin á frásögnum um fleiri poka en einn. Fangavörðurinn bar þetta í rannsóknarmenn. Eftir að ég var laus komst ég að því að þetta hafði einnig komist í fjölmiðla.

 

Í yfirheyrslum sögðu rannsóknarmenn hvað eftir annað, að ég myndi sleppa betur ef ég aðstoðaði við að koma sök á aðra sakborninga. Einnig hótuðu rannsóknarlögreglumenn því er ég var í gæsluvarðhaldi, að ég yrði látinn dúsa þar ef ég segði ekki frá.

 

Ég get ekki staðhæft, að ég hafi verið að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði aðfararnótt 27. janúar 1974."