IV.7.

 

Talsmaður dómfellda vísar til þess að beinlínis sé tekið fram í héraðsdómi að játningar ákærðu hafi verið aðalsönnunargögn málsins ásamt því, sem unnt hafi verið að finna til styrktar játningunum. Í máli, þar sem eingöngu sé byggt á játningu sakbornings, skipti miklu hvernig hún hafi verið fengin. Meðal atriða, sem líta verði til í því sambandi, sé að dómfellda hafi verið haldið í einangrun frá desember 1975 og hafi hann ekki fengið að fara út undir bert loft fyrr en í september 1977. Honum hafi árum saman verið haldið undir áhrifum lyfja, sem fangaverðir hafi skammtað. Hann hafi sætt ómannlegri og vanvirðandi meðferð í gæsluvarðhaldi og líkamlegu ofbeldi. Hann hafi ekki notið reglunnar um að teljast saklaus þar til sekt yrði sönnuð eða notið vafans í sönnunarfærslu. Hann hafi ekki verið dæmdur af sjálfstæðum og óhlutdrægum dómstóli eða notið réttlátrar málsmeðferðar eða raunhæfrar varnar. Hann hafi ekki fengið að leggja spurningar fyrir vitni eða aðra ákærðu. Gögn honum til hagsbóta hafi ekki verið lögð fram. Honum hafi ekki verið kynnt framlögð gögn eða framburður annarra. Þá hafi játningar verið dregnar til baka við meðferð málsins, en dómfelldi hafi alltaf haldið fram sakleysi sínu þegar á hann hafi verið hlustað. Í nýjum gögnum sé að finna upplýsingar, sem ekki hafi áður legið fyrir, bæði um meðferð málsins og atvik þess. Með nýjum gögnum um málsatvik hafi verið hnekkt ýmsum meginatriðum, sem hafi verið lögð til grundvallar við mat á sönnun um sekt dómfellda. Með þessu og öllu öðru framangreindu telur talsmaður dómfellda að sýnt hafi verið fram á að ætla megi að málið hefði farið á annan veg ef ný gögn, sem nú hafi verið lögð fram, hefðu legið fyrir við upphaflega meðferð málsins og farið hefði verið að lögum við rannsókn og meðferð þess. Sé því fullnægt skilyrðum a. og b. liða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til endurupptöku málsins.

 

Af hálfu ákæruvalds er því haldið fram að langflestar athugasemdir, sem talsmaður dómfellda hafi gert varðandi rannsókn og dómsmeðferð málsins, varði atriði, sem augljóslega hafi legið fyrir þegar það hafi verið flutt og dæmt á sínum tíma. Slík atriði geti ekki orðið grundvöllur ákvörðunar um endurupptöku og þarfnist ekki sérstakrar umfjöllunar. Þá kveðst ríkissaksóknari telja ljóst að meginsjónarmiðið að baki beiðni dómfellda um endurupptöku sé það að rannsóknarmenn hafi knúið hann og aðra sakborninga til að gefa skýrslur um atburði, sem rannsóknarmennirnir hafi talið hafa gerst. Þessar skýrslur hafi verið þvingaðar fram með yfirgangi rannsóknarmanna og fangavarða. Í tengslum við þetta telur ríkissaksóknari óhjákvæmilegt að líta til þess að dómfelldi hafi í fjögur tiltekin skipti í janúar og maí 1976 gefið upplýsingar í lögregluskýrslu um vitneskju, sem hann hafi sagst búa yfir um aðild annarra að hvarfi Geirfinns Einarssonar. Í skýrslu fyrir dómi 22. desember sama árs hafi dómfelldi hins vegar viðurkennt eigin aðild að hvarfi Geirfinns, svo og að hafa borið rangar sakir á aðra í því sambandi. Dómfelldi hafi gefið ítarlega skýrslu um sama efni fyrir dómi 20. til 22. júní 1977 og áréttað aðild sína að hvarfi Geirfinns við samprófanir 5. og 11. júlí sama árs og í bréfi til sakadóms 12. þess mánaðar. Játningu þessa efnis hafi dómfelldi síðan dregið til baka með bréfi 5. september 1977 og á dómþingi 13. sama mánaðar. Þá bendir ríkissaksóknari á að dómfelldi hafi gefið skýrslur hjá lögreglunni 22. desember 1975, 4. janúar, 6. janúar og 30. september 1976 og 9. mars 1977, þar sem hann hafi alltaf játað aðild að hvarfi Guðmundar Einarssonar. Í skýrslu fyrir dómi 29. mars 1977 hafi dómfelldi í upphafi játað aðild að hvarfi Guðmundar, en síðan horfið frá því. Ríkissaksóknari vísar til þess að dómfelldi hafi þannig viðurkennt aðild sína að hvarfi Geirfinns löngu áður en hann hafi horfið frá játningu um aðild að hvarfi Guðmundar. Eftir að hafa horfið 29. mars 1977 frá játningunni varðandi hvarf Guðmundar hafi dómfelldi gefið margar og langar skýrslur fyrir dómi um aðild sína að hvarfi Geirfinns og sammæli sitt við aðra sakborninga um að varpa grun í því máli á aðra menn ef til yfirheyrslu þeirra kæmi. Er því haldið fram af hálfu ákæruvalds að staðhæfingar dómfellda um að hann hafi verið þvingaður til játninga séu í hæsta máta ótrúverðugar í ljósi framangreinds. Talsmaður dómfellda geri enga tilraun til að skýra hvers vegna dómfelldi hafi ekki dregið til baka skýrslur sínar í sambandi við hvarf Geirfinns um leið og hann hafi dregið til baka skýrslur varðandi hvarf Guðmundar úr því hann telji játningar í báðum þessum þáttum málsins fengnar með sömu ólöglegu aðferðunum. Þessu til viðbótar bendir ríkissaksóknari á að eftir breytinguna 29. mars 1977 á fyrri framburði varðandi aðild að hvarfi Guðmundar hafi dómfelldi borið að hann hafi verið staddur hjá Helgu Gísladóttur alla aðfaranótt 27. janúar 1974. Í sambandi við þetta vísar ríkissaksóknari til þess að Helga hafi margsinnis verið yfirheyrð í tengslum við málið, síðast hinn 11. janúar 1980, en hún hafi þá eins og endranær borið að dómfelldi hafi farið frá henni um kl. 23.30 að kvöldi 26. janúar 1974 og komið aftur um kl. 4.30 næstu nótt. Við þessa síðustu skýrslugjöf Helgu hafi komið fram, svo ekki verði um villst, að dómfelldi hafi fengið aðra til að freista þess að fá hana til að breyta framburði sínum á þann veg að hann hafi verið hjá henni alla nóttina. Telur ríkissaksóknari að hafa verði þetta í huga þegar metnar séu staðhæfingar dómfellda um ólögmætar aðgerðir lögreglunnar, ákæruvalds og dómara við rannsókn og meðferð málsins. Að öðru leyti kveður ríkissaksóknari mjög alvarlegar athugasemdir hafa verið bornar fram í greinargerð dómfellda í garð þeirra lögreglumanna, dómara og fulltrúa ákæruvalds, sem hafi komið að rannsókn málsins. Þeim sé gefið að sök að hafa hver í sínu lagi og sameiginlega beitt sakborninga í málinu refsiverðri harðneskju og þvingunum til að fá þá til að játa á sig afbrot, sem varði þyngstu viðurlögum samkvæmt almennum hegningarlögum. Ný gögn til stuðnings slíkum ásökunum séu harla fátækleg, en málstaður dómfellda sé að mestu leyti settur fram sem gagnrýni á forsendur dómara fyrir niðurstöðu um mat á sönnunargögnum. Telur ríkissaksóknari að ekki séu lagaskilyrði til að verða við kröfu um endurupptöku, þegar virtar séu allar röksemdir dómfellda og talsmanns hans.