Eintak, 20. janúar 1994

Fangaverðirnir voru hundarnir sem rannsóknarmennirnir siguðu

Hlynur Þór Magnússon hóf störf í Síðumúlafangelsinu um það leyti sem fjöldi gæsluvarðhaldsfanga vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálanna náði hámarki. Í janúar og febrúar 1976 voru fjórir menn sem tengdust Klúbbnum hnepptir í varðhald, Magnús Leópoldsson, Valdemar Olsen, Sigurbjörn Eiríksson og Einar Bollason. Fyrir sátu í haldi Sævar Ciesielski, Kristján Viðar Viðarsson, Tryggvi Rúnar Leifsson og Erla Bolladóttir. Verið var að fjölga fangavörðum og herða gæsluna enda var þetta fólk talið stórhættulegir glæpamenn. Þau fjögur síðastnefndu fengu harða dóma en hinum var sleppt eftir þriggja mánaða dvöl og voru dæmdar skaðabætur fyrir að hafa setið inni saklausir.
11. febrúar kom Hlynur til starfa og í minningunni sér hann fyrir sér hernaðarástand innandyra í Síðumúlanum. Rannsóknin var að komast á fullt skrið og mikil spenna í loftinu. Hann segir að svo hafi virst sem rannsóknarmennirnir hafi verið í veiðihug. Hann rekur þessa spennu til þeirra og hún hafi skilað sér áfram til fangavarðanna.
Hlynur segir að þetta ástand hafi orðið tl þess að ofangreindir sakborningar hafi verið beittir harðræði við rannsókn málsins og skipulega hafi verið reynt að brjóta þá niður. Hann staðfestir flest af því sem Sævar hélt fram um meint harðræði í viðtali EINTAK í síðustu viku og sömuleiðis við rannsókn sem fram fór árið 1979 þar sem niðustaðan varð sú að Sævari hafi eitt sinn verið greiddur kinnhestur, punktur. Hlynur var hins vegar ekki kallaður til vitnis á þeim tíma.
Haft var samband við fleiri fangaverði sem störfuðu í Síðumúlafangelsinu á þeim tíma sem sakborningar voru vistaðir þar. Flestir neituðu að tjá sig nokkuð um málið en einn þeirra, sem ekki vill láta nafns síns getið, tók undir frásögn Hlyns að öllu leyti.

En hvers vegna segir Hlynur frá?
,,Það sem gerðist lá á mér."

Hvers vegna varstu ekki látinn bera vitni við harðræðisrannsóknina?
,,Ég hreinlega veit það ekki en það var aldrei nefnt við mig."

Kom aldrei til álita hjá þér að gefa þig fram sem vitni?
,,Ég sá engan tilgang með því, enda hefði ég þá staðið einn og ekki uppskorið annað en að gera mér sjálfum bölvun með því. Ekki síst í ljósi þess sem aðrir fangaverðir stóðu frammi fyrir sem sögðu frá örlitlu broti af því sem raunverulega gerðist. Þeir voru fluttir til í störfum og lentu í vandræðum."

Voru sakborningarnir beittir harðræði?
,,Já"

Í hverju fólst það?
,,Ég get nefnt sem dæmi að Sævari var haldið vakandi með barsmíðum og látum. Slökkvarinn í klefa hans var tengdur þannig að ekki var hægt að slökkva ljósið. Hann var hræddur með þvi að fangverðir gerðu sig líklega til að drekkja honum í þvottavaski með því að kaffæra hann. Þannig var spilað á vatnshræðslu hans. Svo var stundum komið fram við þetta fólk af kvikindis- og skepnuskap. Menn trúðu því að þetta væru mjög illvígir glæpamenn og því helgaði tilgangurinn meðalið. Rannsóknarmennirnir og fangaverðirnir trúðu því að það væri öllum fyrir bestu að klára rannsóknina og hugsuðu sem svo að nauðsyn bryti lög, eins og stundum er sagt. Skipulega var reynt að brjóta sakborningana niður og nánast allt var talið réttlætanlegt til að leysa málið sem fyrst og þá var sama hvaða aðferðum var beitt til þess. Ég vil taka það fram að fangaverðir beittu ekki harðræði að eigin frumkvæði heldur kom það frá rannsóknarmönnunum. Fangaverðirnir voru hundarnir sem þeir siguðu."

Var fangavörðum uppálagt að vinna trúnað sakborninganna og upplýsa hvað þeir segðu?
,,Já. Þau fyrirmæli komu frá rannsóknarmönnunum að þeir skiptu sér á sakborningana og veiddu upp úr þeim upplýsingar. Erla Bolladóttir kom í minn hlut."

Vissu fangaverðirnir að með því væru þeir að brjóta reglur?
,,Ég geri ráð fyrir því en gátu varla neitað í þessari stöðu. Þeir hlutu að hlýða fyrirmælum að ofan."

Voru föngum visvítandi færð röng skilaboð?
,,Já, alls konar hlutum var logið að þeim í því skyni að brjóta þá niður og fá þá til að játa."

Voru sakborningar einhvern tíma hafðir í fótjárnum?
,,Það kom einhvern tíma fyrir að Sævar væri hafður í fótjárnum en ég man ekki hvort það átti við um fleiri."

Var skipulega haldið vöku fyrir þeim?
,,Já, það var gert. Haldið var uppi hávaða og látum með því að berja hurðir og veggi klefanna að utan. Þegar ég var nýbyrjaður að vinna í Síðumúlanum var þetta til dæmis gert við klefa Sævars, bæði til að halda fyrir honum vöku og eins til að hræða hann. Svo var nánast allt tekið af honum, tóbak, skriffæri, bækur og fleira. Það miðaði allt að því að knýja fram játningar."

Hvernig fór lyfjagjöf fram?
,,Á morgnana voru lyf sett í þar til gerð box fyrir hvern fanga með hólfum eftir því hvenær dagsins átti að gefa þau. Reynt var að mylja flest lyfin svo fangarnir gætu ekki geymt þau uppi í sér. Þeir voru meira og minna á lyfjum, fyrst og fremst þó róandi. Í sumum tilvikum voru þetta gríðarlegir skammtar og ég er ekki í nokkrum vafa um að það hafði áhrif á dómgreind þeirra."

Fengu fangaverðirnir fyrirmæli um að beita sakborningana harðræði?
,,Ég get ekki nákvæmlega sagt hvernig því var komið á framfæri. Rannsóknarmennirnir komu á hverjum degi og lögðu þá línurnar, ræddu fram og aftur hvaða taktík skyldi beitt. Ég þori ekki að segja til um hvað kom frá þeim og hvað frá yfirmönnunum í fangelsinu."

Veistu til þess að rannsóknarmennirnir hafi sjálfir beitt harðræði við yfirheyrslur?
,,Ég held að það sé óhætt að segja að það hafi ekki verið mikið um það. Þeir sem siga hundunum láta þá um sitt verk."

Tókstu einhvern tíma sjálfur þátt í að beita harðræði?
,,Nei."

Varðstu vitni að þvi?
,,Ég var ekki beint vitni að því öðruvísi en að það var sífellt verið að ræða það í húsinu, einkum á vaktaskiptum. Það fór því ekkert milli mála hvar var að gerast, til dæmis þegar Sævar var kaffærður."

Þannig að menn töluðu sín á milli um meðferðina á föngunum?
"Mikil ósköp. Það vissu allir um þetta og það fór ekki framhjá nokkrum manni."

Ertu sannfærður um að það sem þú heyrðir hafi verið rétt?
,,Já, ég er alveg sannfærður um það."

Hafði meðferðin á sakborningum áhrif á játningar þeirra, að þínu mati?
,,Ég er ekki í minnsta vafa um það, enda játuðu þeir út og suður og miklu meira en þurfti. Þetta fólk var orðið svo ruglað af dvölinni þarna inni. Kristján játaði til dæmis á sig morð á Færeyingi uppi á Grettisgötu en þegar farið var að rannsaka það fannst hvorki tangur né tetur sem benti til þess að hann hefði verið til og hvað þá myrtur. Rannsóknarmennirnir þurftu því að draga ýmsar játningar frá áður en málið var lagt fyrir dóm."

Hefðir þú sjálfur játað á þig rangar sakir til að sleppa úr einangruninni ef þú hefðir þurft að þola sömu meðferð og sakborningarnir í þessum málum?
,,Ég get ekki sett mig í þeirra spor og get því ekki sagt til um það."

Hvernig horfir þessi tími við þér eftir á að hyggja?
,,Það sem ég upplifði sýndi mér fram á aðstæður geta umbreytt mönnum. Í Síðumúlafangelsinu unnu venjulegir ágætismenn sem umbreyttust við múgsefjunina sem skapaðist. Allir trúðu á sekt þessara ungmenna og þau voru almennt álitin harðsvíraðir glæpamenn. Litið var svo á að því sem næst allt væri leyfilegt til að fá sem fyrst botn í rannsóknina. Við þessar aðstæður hefði verið erfitt fyrir einn mann að rísa upp og segja frá hvað gerðist innan veggja fangelsins."

Hlynur kom fram í viðtali við Mannlíf fyrir sex árum og hafði þá svipaða sögu að segja en þá skilaði saga hans sér ekki út í þjóðfélagsumræðuna, hvað sem gerist nú. ,,Þetta viðtal var mér mikill léttir því að þessi andskoti hafði legið á mér. Síðan hef ég lítið leitt hugann að þessum málum. Mér er ekki vel við að vera að ræða þetta núna en samvisku minnar vegna get ég ekki látið hjá líða að svara þegar ég er spurður."
Mistök þeirra sem stjórnuðu harðræðisrannsókninni fólust kannski fyrst og fremst í því að spyrja ekki og því rann hún út í sandinn. Einn maður gegn múgsefjuninni mátti sín lítils en réttu spurningarnar hefðu kannski opnað augu manna.