Dagur- Tíminn, 5. nóvember 1996

Saklaus í Síðumúla

Magnús Leópoldsson, fasteignasali, varði hluta af deginum í gær í Síðumúlafangelsi, illræmdasta mannvirki borgarinnar. Þar sat hann - saklaus - í 105 daga í gæsluvarðhaldsvist síðvetra 1976. Magnús segir sögu sína í viðtalsbók með Jónasi Jónassyni, „Saklaus í klóm réttvísinnar". Dagur-Tíminn ræddi við Magnús í fangelsinu.

Þegar okkur ber að garði stendur Magnús við ,,skipstjórastól" fangelsisins, en þar sátu fangaverðir forðum og fylgdust með „Útivist" fanga í litlum fangelsisgarði. Magnús fékk aldrei afnot af þessum garði, en þurfti að híma í 5-6 fermetra fangaklefa númer 6 á fjórða mánuð - 105 daga og 105 nætur. Hann vissi ekki um þau réttindi sín að fá að bregða sér út í útiloftið. Enginn benti honum á það.

Vakinn af værum blundi og sakaður um mannsmorð
Klukkan var að verða 6 að morgni þess 26. janúar 1976, þegar þrír borgaralega klæddir lögreglumenn brunuðu á ómerktum bíl suður í Kópavog. Þeir staðnæmdust við fjölbýlishúsið Lundarbrekku 10. Þar hringdu þeir dyrabjöllu hjá fjölskyldi Magnúsar, sem þá var framkvæmdarstjóri Klúbbsins, og konu hans, Bjarkar Valsdóttur. Dyrnar hjá fjölskyldunni ljúkast upp og frammi fyrir fílefldum löggæslu-mönnum stendur 9 ára gömul ljóshærð hnáta, Valdís Magnúsdóttir. Mennirnir sem voru komnir til að sækja föður hennar, æddu framhjá barninu og beint inn að rúmi þeirra hjóna til að handtaka bóndann.
Valdís var stödd í gær í Síðumúlafangelsinu ásamt föður sínum, ennfremur Jónasi Jónassyni rithöfundi og fulltrúum Vöku-Helgafells, sem sendi í gær frá sér bókina ,,Saklaus í klóm réttvísinnar."

Enginn svarar fyrir mistökin
Magnús Leopoldsson féllst á að ræða þessa bitru daga við Jónas Jónasson rithöfund til að gera bók. Og nú liggur verk þeirra opið fyrir allra augum og er hið forvitnilegasta aflestrar. Hvernig gat íslenskt réttarkerfi lokað inni fjóra alsaklausa menn? Ljóst er af lestri bókarinnar að hér urðu lögreglunni á stór mistök. Rannsóknarmenn reyndust klúðra herfilega málsrannsókn og fara offari í gjörðum sínum Enginn þeirra hefur þó nokkru sinni þurft að svara fyrir gerðir sínar og sumir þeirra eru enn að sýsla með lög og löggæslu.

Klefi 6 í Síðumúlafangelsi
Magnús sýnir fréttamanni gamla klefann sinn, klefa 6. Þar er kominn ýmis ,,lúxus" sem ekki var þar að finna fyrir tuttugu árum. Þar var ekkert annað en stutt rúmfleti með ómerkilegri dýnu sem var hjúpuð þykku og óþjálu plastefni, stólkollur og borðplata. Efst á veggnum er þykkt gler sem ekki sér í gegnum en hleypir einhverju dagsljósi inn. Bjalla er í klefum, sem notuð var ef menn vildu komast á salerni. Biðin gat orðið margra tíma löng eftir að fangavörður aumkaði sig yfir fangann, sagði Magnús okkur.
Magnús segir að lögreglumennirnir hafi ekið sér beina leið í Síðumúlafangelsið. Þar var hann fyrst settur í klefa 11, sem nú er reyndar horfinn undir setustofu. Síðar fór hann í ,,sinn klefa", klefa 6.

Í læstum fangaklefa með Magnúsi
Blaðamaður og Magnús setjast inn á samsvarandi klefa og númer 11 og hurðin lokast að baki þeim með dynk og slagbrandi fyrir utan. Tilfinningin er ömurleg. Jafnvel í 5 mínútur.
,,Ég þrjóskaðist við að skúra gólfið í þessum klefa í nokkra daga. Mér fannst það ekki vera mitt verk. Gólfið var fljótlega orðið útvaðið í ló, ryki og skít, þetta kom með loftinu að utan með loftræstikerfinu. Mér er sagt að þetta séu stórhættuleg efni fyrir ónæmiskerfi fólks," segir Magnús. Loftljósið í klefanum er iðandi af flugnaskít og varpar daufri birtu niður í klefann. Hér er greinilega vandlega hugsað fyrir því að brjóta menn niður á sem allra fljótlegastan hátt.
Magnús Leópoldsson segir að það sé ótrúlegt að hafa lent í þessari lífsreynslu. Ísland telur sig réttarríki, en hann hafi upplifað fullkomið óréttlæti og fangavist sem var slík, að Íslendingar hefðu gangrýnt hana harðlega, hefði hún átt sér stað í Rússlandi eða öðrum löndum.
,,Ég var strax þennan morgunn sakaður um að hafa valdið dauða Geirfinns Einarssonar tveim árum fyrr. Þessu var haldið að mér, en aldrei var ég ákærður. Sjálfur vissi ég auðvitað um sakleysi mitt," sagði Magnús.

,,Stálheppinn að sitja inni!"
Hann segir að tveir fangaverðir Síðumúlfangelsins hafi umgengist sig nokkurn veginn eins og eðlilegan mann. Hann gerði kröfur um að fá sæng og ritföng til sín, en segist að öðru leyti ekki hafa haft sig mikið í frammi. Hann fékk líka lesefni að vali fangavarðar eftir nokkurn tíma í prísundinni.
,,Ég heyrði engar fréttir en einn fangavarðanna sagði mér að það væri allt að verða vitlaust í þjóðfélaginu, ég væri stálheppinn að sitja inni! Hann var að vitna til hatursræðu Sighvatar Björgvinssonar, þar sem hann réðst með ótrúlegu offorsi að Ólafi Jóhannessyni, dómsmálaráðherra, og bendlaði hann við meint lögbrot í Klúbbnum, sem Sighvatur taldi að ráðherra væri að hylma yfir. Nú er Sighvatur að verða formaður í stjórnmálaflokki sínum og ættu menn af því tilefni að skoða þessa 20 ára gömlu þingræðu verðandi formanns," sagði Magnús.

Léttist um 13 kíló
Fangavistin varð Magnúsi erfið bæði á sál og líkama. Hann var 29 ára gamall, vel á sig kominn, 76 kíló að þyngd þegar hann var fangelsaður. Þegar hann fékk frelsið á ný um vorið, var hann 63 kíló. Magnús fékk að tala við lögmann sinn 15 mínúntur á viku, Mikið var um yfirheyrslur á nóttunni, lögreglurannsókn án þess að lögmaður væri viðstaddur, og allt gert til að reyna að flækja framburðinn.
,,Mjög fljótlega lá fyrir fjarvistarsönnun mín, en hún dugði ekkert, það var samsæri í gangi sem lögreglan reyndi eftir megni að láta ganga upp, þrátt fyrir að vitað væri að ég hafði hvergi nærri þessum atburðum komið," sagði Magnús.

Blaðamenn voru mataðir
Magnús segir að hlutur blaðamanna hafi verið vægast sagt ömurlegur í máli þeirra fjögurra sem fangelsaðir voru saklausir.
,,Blöðin og blaðamennirnir létu mata sig ótrúlega. Þegar maður skoðar þetta eftir á undrast maður að það er eins og enginn blaðamaður hafi haft sjálfstæðar skoðanir á þessum tíma. Og það er athyglisvert að ýmsir þeir sem að málum komu, blaðamenn og rannsóknarmenn, eru í ýmsum háum stöðum í þjóðfélaginu í dag," sagði Magnús.
Magnús þekkti engan hinna ákærðu persónulega, utan Sigurbjarnar Eiríkssonar í Klúbbnum, þegar ósköpin dundu yfir, en Sigurbjörn var yfirmaður Magnúsar í veitingahúsinu. Einar Bollason kannaðist við Magnús af afspurn og Valdimar Ólsen sömuleiðis. Magnús segir að Sigurbjörn hafi aldrei jafnað sig eftir þetta áfall og verið mikill sjúklingur síðan. Réttarríkið Ísland hafi nánast afgreitt hann með frumhlaupi sínu.
Jónas Jónasson rithöfundur og stjórnandi hinna vinsælu kvöldrabbsþátta í útvarpinu fékk Magnús í viðtöl sem vöktu mikla athygli, tvö föstudagskvöld í röð. Í framhaldinu fékk Jónas Magnús til að opna sig eftir 20 ára þögn og koma fram í bók þar sem mistök réttarkerfisins eru grimmilega afhjúpuð.
Jónas segist ekki hafa þekkt Magnús Leópoldsson fyrir og það hafi verið erfitt að fá hann til að opna hug sinn. Hann segist skilja það. „Ég fann að þetta hafði gríðarleg áhrif á þau hjónin að rifja upp þessa atburði. Sársaukinn er alltaf fyrir hendi undir niðri," sagði Jónas.