Hvers vegna vefur um „Mál 214“?

Tryggvi Hübner skrifar:

Flestir hafa einhverntíman heyrt minnst á Geirfinns- og Guðmundarmál. Dularfyllstu sakamál Íslandssögunnar, segja sumir. Mál þessi skóku íslenskt samfélag á árunum 1974-1980, svo að á köflum hrikti verulega í. Sjálfur var ég 17 ára gamall árið 1974 og fylgdist með rannsókn þessara mála í gegnum fjölmiðla eins og aðrir. Þrátt fyrir gríðarmikinn fréttaflutning af þróun rannsóknarinnar á þessum árum fannst mér það gjarnan svo að fréttirnar vektu yfirleitt upp fleiri spurningar en þær svöruðu. Dag eftir dag, mánuð eftir mánuð, árum saman var yfirheyrt og rannsakað. Allt fram á síðustu stundu bættust við játningar og upplýsingar sem álitnar voru vendipunktar í málinu. Þeir sem muna þessa tíma vita að samúð þjóðarinnar var öll með rannsóknarmönnum. Þeir voru að kljást við glæpamenn af áður óþekktri stærðargráðu á Íslandi. Þessvegna kom það ekki svo mjög á óvart þegar leitað var aðstoðar að utan. Þegar vestur-þýskur rannsóknarlögreglumaður á eftirlaunum kom til starfa við málið gaf það þjóðinni nýja von. Von um að fá skýr svör við þeim ótalmörgu spurningum sem fréttir af málinu höfðu vakið upp. Ekki hafði ég sjálfur neinn sérstakan áhuga á þessu á þessum tíma. Og þó. Á því tímabili sem „fjórmenningarnir“ sátu alsaklausir í einangrun í Síðumúla, spilaði ég í hljómsveit sem útnefnd var „bjartasta vonin“ af blaðamönnum. Cabaret hét hún og var ein aðal hljómsveitin í Klúbbnum meðan „klær réttvísinnar" læstust um Magnús Leopoldsson. Erlu Bolladóttur þekkti ég frá unglingsárum og þótti merkilegt að venjuleg stúlka eins og hún skyldi flækjast inn í slíkt mál, og vera jafnvel „primus motor“ í þessu óheyrilega glæpagengi. Einn þeirra sem setið höfðu saklausir í gæsluvarðhaldi vegna Geirfinnsmálsins, Einar Bollason, var, og er, kvæntur Sigrúnu frænku minni.
„Martröð létt af þjóðinni“ var haft eftir dómsmálaráðherra á útsíðu Morgunblaðsins 3. feb. 1977. Og víst er um það að mörgum var mikill léttir, því í blaðinu miðju var frásögn á nokkrum opnum af blaðamannafundi Karls Schütz, þar sem kynnt var „lausn Geirfinnsgátunnar.“ Það var því með nokkurri eftirvæntingu að Mogginn var opnaður þann daginn. En ég neita því ekki að vonbrigði mín voru nokkur með lausn Karls Schütz. Mest vegna þess að stærstu spurningunni var að mínu viti ekki svarað á sannfærandi hátt. Ég hafði alltaf staðið í þeirri meiningu að rannsókn Geirfinnsmálsins snerist um að finna „sambandsmann“ Geirfinns, huldumanninn „Leirfinn.“ Samkvæmt lausn Schütz var þessi maður Kristján Viðar Viðarsson. Gott og vel, en hvernig gat staðið á því að útlit hans samræmdist enganveginn hinni nákvæmu lýsingu vitna og sjónarvotta sem sáu „Leirfinn"? Samkvæmt lausn Schütz fóru Sævar og Kristján Viðar saman inn í Hafnarbúðina þegar seinna símtalið við Geirfinn fór fram, kl. 22:07 þann 19. nóvember 1974. Blaðamaður nokkur sem var á fundinum benti á að tveir svo ólíkir menn í útliti hlytu að vekja nokkra athygli. Ekki stóð á svari hjá rannsóknarforingjanum. „Þetta sýnir hve fólk gleymir miklu á stuttum tíma“ var svar Schütz og þar með skýring hans á þeim vandamálum sem rannsóknin stóð frammi fyrir eftir framburð lykilvitna við sakbendingu. Sumarið 1980 hitti ég Erlu Bolladóttur á förnum vegi og spurði hana að sjálfsögðu útí þessi mál. Hún reyndist ófáanleg til að tjá sig neitt um þetta við mig. „Ég veit ekkert. Hér eru 45 kíló af lygi“ var allt og sumt sem hún hafði að segja og benti mér á 3 stóra pappakassa sem innihéldu málsskjöl Hæstaréttarmálsins nr. 214/1978. Fóru leikar svo að ég tók að mér að geyma málsgögnin meðan Erla afplánaði fangelsisdóm sinn, enda hafði tekist með okkur mikill og einlægur vinskapur sem vissulega hafði áhrif á mitt hugarfar við lestur þessara 27 bóka. Lygin hafði í öllu falli reynst Erlu Bolladóttur illa. Og mér fannst hún hreint og beint hafa „logiskan“ metnað til að úthýsa lyginni úr sínu lífi. Gat það verið að hún vissi í raun ekki meira um þessi mannshvörf en t.d. Jón Jónsson úti í bæ..., eða Karl Schütz? ...(Svo einhverjir séu nefndir.) Á næstu árum las ég síðan málsgögnin fram og aftur, og óneitanlega jókst furða mín eftir því sem meira var lesið. Þess ber að geta að málsgögn þessi eru um það bil 10.000 síður, þ.e. sá hluti þeirra sem heimilaður hefur verið aðgangur að. Á þessum tíma var nokkrum vandkvæðum bundið að ræða þessi mál við fólk. Einhugur virtist ríkja hjá þjóðinni um að þessir bíræfnu þrjótar fengju makleg málagjöld og öllum spurningum um málin hefði verið svarað. Sjálfur lá ég ekki á þeirri skoðun minni að rannsókn Geirfinnsmálsins hefði aldrei komist á sporið, og var fyrir bragðið varpað á dyr úr ófáum partíum, enda vafalaust verið argasti gleðispillir að flestra áliti og var enda nánast fullkomlega áhugalaus um flest önnur mál en þetta. Loks var svo komið að ég sá mér ekki annað fært en að steinhætta að ræða þetta. Síðan þetta var hafa nokkrar bækur verið skrifaðar um málið, einnig ótal blaðagreinar og heimildarmynd fyrir sjónvarp er í burðarliðnum. Og með því að Sævar Ciesielski hóf formlega baráttu sína fyrir endurupptöku málsins fannst mér ófært annað en með einhverjum hætti að koma minni skoðun á framfæri. Í september 1995 gaf ég því út hljómplötuna „Betri ferð“, sem er tileinkuð baráttu Sævars fyrir endurupptöku málsins. Fljótlega varð ég var við að hljómgrunnur fyrir vitrænni umræðu um þessi mál var annar og meiri en fyrir 15-20 árum. Bæði var það að fólki virtist runninn mesti refsimóðurinn - allir höfðu afplánað sína dóma og einnig að komin var til leiks ný kynslóð sem einungis þekkti þessi mál sem sagnfræði úr „Öldinni okkar“ eða álíka heimildum.
Snemma árs 1996 voru haldnir nokkrir óformlegir umræðufundir áhugamanna um endurupptöku þessa máls. Meðal þess sem þar kom til tals var að opna upplýsingavef á Internetinu. Gefa þar með þeim sem muna eftir þessu kost á dálítilli upprifjun, og hinum sem yngri eru tækifæri til að kynna sér málið og taka þátt í þeirri umræðu sem fer í hönd. En líklegt verður að teljast að nokkuð verði fjallað um endurupptökubeiðni Sævars Ciesielskis þegar settur ríkissaksóknari skilar áliti sínu og síðan þegar Hæstiréttur tekur ákvörðun um málið. Greinargerð Ragnars Aðalsteinssonar, skipaðs talsmanns Sævars, hefur verið lögð fram, og gefur málstað Sævars óneitanlega aukið vægi. Heimildarmynd Sigursteins Mássonar mun einnig gera sitt til að fá fram umræðu.
Á áðurnefndum umræðufundum áhugamanna um „Mál 214“ var ákveðið að það kæmi í hlut undirritaðs að koma þessum vef á legg. Nokkrir svitadropar hafa vissulega runnið sína leið síðan þá. Uppistaðan í vefnum eru blaðagreinar frá síðustu 2-3 árum, ásamt lagaákvæðum um endurupptöku opinberra mála (XXII kafli), skoðanir og hugleiðingar nokkurra einstaklinga og tenglar yfir í sambærileg mál erlendis, svo eitthvað sé nefnt. Leitast hefur verið við að fá heimild hjá öllum höfundum efnis til birtingarinnar, og er það meining undirritaðs að þær séu fengnar, og efnið sniðið að þeim skilyrðum sem sett hafa verið. Hafi orðið misbrestur á þessu eru viðkomandi eigendur höfundarréttar beðnir vinsamlegast að hafa samband svo hægt sé að lagfæra það. Eru öllum þessum höfundum hér með færðar bestu þakkir fyrir framlag sitt. Mestur er þó tvímælalaust þáttur Styrmis Guðlaugssonar sem skrifaði margar greinar um málið í Eintak og Morgunpóstinn á árunum 1994-1995. Nokkrir vefhönnuðir komu að verkinu og eru þeir helstir: Reynir Þór Hübner og Pétur Björnsson. Sérstakur hugmyndafræðingur við vefhönnun var Bragi Halldórsson. Fá þeir allir bestu þakkir fyrir sitt framlag.

Vefur þessi er allur unninn í sjálfboðavinnu.

Mörgum kann að þykja þær skoðanir nokkuð einlitar sem hér koma fram. Ástæða þess er einfaldlega sú að þeir sem eru þeirrar skoðunar að þessi sakamál séu leyst á eðlilegan hátt hafa haft sig minna í frammi en hinir sem gagnrýna dómsniðurstöður. Því er rétt að taka fram að aðstandendur þessa vefs fagna öllum umræðum um þessi mál. Hér á vefnum er tækifæri til að tjá skoðanir sínar og eru allir hvattir til að koma rökstuddum skoðunum sínum á framfæri.

Virðingarfyllst:
Tryggvi Hübner
tjh@vortex.is