GÖGN MÁLSINS

 

Flestir núlifandi Íslendingar sem komnir eru til vits og ára hafa heyrt minnst á "Geirfinnsmálið". Þessi undarlegu mannshvörf sem urðu að stærsta sakamáli síðustu aldar á Íslandi og létu engan ósnortinn. Tveir menn hverfa árið 1974, einn í Hafnarfirði, hinn í Keflavík. Eftir hvarfið í Keflavík verður rannsókn málsins smám saman að morðrannsókn, sem hefst eiginlega við skýrslutöku í óskyldu máli, ári síðar. Fyrra mannshvarfið verður einnig að morðmáli í þeirri rannsókn sem nú er hafin og sömu aðilar grunaðir.

Á einn eða annan hátt urðu flestir varir við rannsókn málsins, enginn slapp við þá umræðu sem fór af stað og þær kenningar sem komu fram um raunverulega atburðarás.


Íslenzka rannsóknarlögreglan virtist hvað eftir annað vera komin í ógöngur eða strand í þessari erfiðu rannsókn. Stærsta áfallið var þegar fjórir saklausir menn voru settir á bak við lás og slá vegna þess sem virtist vera samantekin ráð hinna grunuðu. Hvernig þau ráð voru samantekin og á hvaða forsendum þau urðu nægjanleg ástæða til þess að læsa saklausa inni í fleiri mánuði er ekki síður undarlegt en margt annað í þessari rannsókn.


Hafa ber í huga að íslensk rannsóknarlögregla var fremur óvön málum af þessari stærðargráðu og lítt búin tækjum til að tryggja sönnunargögn, en sérstaklega í þessu máli var ekki um þau að ræða, hvorki til að sakfella né sýkna.

Sakargiftir þessa umfangsmikla sakamáls voru því byggðar á vitnisburði varðhaldsfanga sem sumir hverjir voru í slöku andlegu ástandi, það virtist heldur ekki lagast við áralanga einangrun og lyfjagjafir. Samræmi í framburði vitna var minnst sagt ónákvæmt og aldrei fannst tangur né tetur af týndu mönnunum þrátt fyrir margar leitarferðir með grunuðum.

Þegar la fr á leitina að lausninni, fremur en leitina að þessum horfnu einstaklingum urðu yfirvöld jafnt og almenningur óþreyjufull eftir endanlegum sannleika í málinu. Segja má að hann hafi að lokum verið töfraður fram af landsfrægum þýzkum njósnaveiðara, Karl Shutz að nafni.

Skýrslur málsins ásamt framlagi Schutz var síðan lagt fyrir Sakadóm Reykjavíkur í formi margliða fjöldaákæru þar sem aðild grunaðra var áætluð og þeir sakfelldir og hlutu þunga dóma fyrir. Hæstiréttur staðfesti dómana eftir áfrýjun.

Eftir sem áður eru nefnd fórnarlömb glæpsins ófundin og engin(n) hefur komið fram og bent á dvalarstað þeirra.Kom sannleikur málsins nokkurn tíma í ljós?

Ein leiðin til að svara þeirri spurningu er að setja sig í spor dómaranna og líta á málsgögnin hlutlausum augum.

13-09-2008

G.Einarsson