DRÁTTARBRAUTIN

 

mér hefur verið falið
að flytja yður þessi tíðindi
án þess ég ætli sjálfum mér
að uppskeru nein fríðindi
ég hef verið hér ég hef villst þar
og jafnvel víðar
það var enginn ekki neinn
þessa nótt á dráttarbrautinni
né heldur síðar

 

ætlist ekki til
of mikils af neinum
verið sáttir við hvað lítið
sem yður leggst til í fánýtum greinum
ég hef nafnaskrár og skjalfest gögn
þeim skjátlaðist ekki þeir lugu
það var enginn ekki neinn
þessa nótt á dráttarbrautinni
nema fyrir flugu

 

gjafir eru af örlæti
yður gefnar lengur en skemur
þó þurfið ekki að viðra
neinar þakkir sem því nemur
sjálfsagt er að þegja ef illvígar þrætur
kunna að þíðast
það var enginn ekki neinn
þessa nótt á dráttarbrautinni
né heldur síðast

 

margt er haft fyrir satt
sumt með litlum rökum
annað jafnt haldið
uppspuni af skyldum sökum
ef brautin er út í hött bönnuð
er þér gert að bíða
samt var engin nema þá fyrir
náð þarna á dráttarbrautinni
né heldur víðar

 

settu öll þessi brot
saman ef viltu finna
það sem engum reynist þó hollt
né hamingjudrjúgt að sinna
en sjáirðu hvert stefnir hvar
þarftu síður að kvíða
við vorum öll þarna hvert og eitt
þetta kvöld á dráttarbrautinni
hvað sem það átti að þýða

 

taktu ekki í mál
að tala svo aðrir heyri
þessir háværu verða ekki
af því heilsusamlega fleiri
spurðu brotinn spegil þinn
hvort sporin séu dags hríðar
hann svarar: ævintýrin lúta
lögmálum eigin framvindu
sem þau líða

 

hver sannleikurinn verður
hlýtur að lúta einhverjum lögum
fólkinu til öryggis
þó flíka megi sætbeiskum sögum
það sem fer því og kemur best fávísu aumu
er því forfært á söguspjöld
þeir voru sem urðu að vera
þar sem var þeirra þörf þetta kvöld

 

sofandi hunda
er synd og skömm að vekja
úrillan illa tengdan
getur orðið vonlaust að spekja
sjálfum einum getur sérhver kennt
er bitin þau svíða
það var ég og næstum líka þú
þessa nótt á dráttarbrautinni
nema hvað það var miklu síðar

 

ég kom þar til að vera
þetta kvöld á öðrum tíma
úr fjarlægum heimi lítt kunnum
ég var þó hvers manns gríma
en tungurnar votar og vélgengar
fóru talsvert víðar
þjóðin var öll niðurkomin
þetta kvöld á dráttarbrautinni
mér er það kunnugt ég bý þar

 

segðu mér meira
af þessu málstola æði
öll ræða er mönnum bönnuð
þó vilja berast apókrýf fræði
vængjuð árum létt sem lifa
til að líða
það voru engin og ekki neinn
þessa nótt á dráttarbrautinni
en þeir náðu ekki í það

 

spurðu bara viljirðu
vita - þú hefur þá reynt
og getur í raun verið sáttur
þó svo svörin fari enn leynt
málhölt sár einhverrar subbu
mig skulu ekki svíða
þeir voru enginn og ekki neinn
þessa nótt á dráttarbrautinni
þarf nokkur að kvíða

 

þau sárin sem sofa hvað dýpst
munu ekki mikið svíða
það þarf ekki að rifja upp neitt
um þessa nótt á dráttarbrautinni
eða hvern skal níða

 

ég átti mér draum
en hann endaði bratt í birkilautinni
hvers órar munu vera
þeir sem um eilífð skulu dvelja á dráttarbrautinni

 

(höf : Megas)