HP fjallar um umfangsmestu sakamál aldarinnar:

 

Leirskáldin í lögreglunni

 

Hvarf tveggja manna á árinu 1974 varð tilefni umfangsmestu sakamála tuttugustu aldarinnar á Íslandi. Nær tíu mánuðir liðu milli þessara atburða og þeir voru af mjög ólíkum toga, áttu eiginlega það eitt sameiginlegt að mennirnir fundust aldrei. Einmitt það eiga þessi mál þó einnig sameiginlegt með hvarfi tuga annarra manna á síðari helmingi aldarinnar án þess að sakamál hafi sprottið af.

Helgarpósturinn hefur fjallað um ný sjónarhorn á Guðmundar og Geirfinnsmálum í síðustu tölublöðum. Þessi nærri aldarfjórðungs gömlu sakamál eru nú aftur í sviðsljósinu vegna kröfu Sævars Ciesielskis um endurupptöku málanna. Hann telur sig og aðra sakborninga hafa verið dæmda saklausa og krefst sýknu og bóta. Vönduð heimildamynd Sigursteins Mássonar, Aðför að lögum, og ný skýrsla Ragnars Aðalsteinssonar, hafa líka sýnt þessi mál í nýju ljósi.

Ragnar Hall, settur ríkissaksóknari í endurupptökumálinu skilaði áliti sínu til Hæstaréttar í lok maí og í framhaldi af því tekur Hæstiréttur svo ákvörðun um hvort málið verður tekið fyrir að nýju. Hinar nýju upplýsingar eru bæði svo margvíslegar og yfirþyrmandi að vandséð er að hjá endurupptöku verði komist. Það benda sem sagt allar líkur til að Guðmundar og Geirfinnsmál verði aftur í fréttum næstu mánuði og jafnvel ár.

Helgarpósturinn hefur þess vegna ákveðið að rifja upp þessi gömlu sakamál fyrir lesendum sínum jafnframt því sem gerð verður grein fyrir nýjum upplýsingum og nýjum sjónarmiðum. Langflestir sjá þessa atburði nú í nýju ljósi og þær upplýsingar sem fram hafa komið á síðari árum, bæði um staðreyndir málsins - eða kannski staðleysur - og ekki síður um málsmeðferðina kynnu að hafa afdrifaríkar afleiðingar. Hér er ekki einungis átti við breyttar niðurstöður dómstóla, heldur kynnu margir þeirra sem stóðu að rannsókninni á sínum tíma að eiga refsingu yfir höfði sér, takist að færa sönnur á margvísleg lögbrot sem þeir eru nú sakaðir um í sambandi við rannsóknina.

En við skulum byrja á byrjuninni. Nú hverfum við aftur til upphafsins árið 1974, rifjum upp það sem gerðist og kynnum helstu persónur til sögunnar.

 

Hvarf Guðmundar Einarssonar

Guðmundur Einarsson, 18 ára piltur, hvarf aðfaranótt sunnudagsins 27. janúar 1974. Hann fór á dansleik í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði ásamt nokkrum vinum sínum. Að dansleik loknum sást hann ásamt öðrum manni, sennilega eldri og nokkru lágvaxnari, á Strandgötunni í Hafnarfirði. Þetta var um tvöleytið á aðfaranótt sunnudagsins. Auk þess getur verið að hann hafi sést á Reykjavíkurvegi þegar klukkan var að nálgast þrjú. Það er þó ekki óyggjandi. Síðan hefur ekkert spurst til Guðmundar Einarssonar.

Það voru hjónin Kristrún Steindórsdóttir og Þórður Marteinsson sem ráku Alþýðuhúsið á þessum tíma. Kristrún sá Guðmund undir lok dansleiksins. Hann var þá mjög drukkinn og á tali við annan mann, heldur lágvaxnari. Kristrún sá myndir af Guðmundi í blöðum þegar lýst var eftir honum og var þess fullviss að myndin væri af manninum sem hún sá. Ekki var leitað til Kristrúnar við rannsókn málsins á sínum tíma og er því vitnisburður hennar nýr.

Vinkonurnar Elínborg Rafnsdóttir og Sigríður Magnússdóttir óku um Strandgötuna um tvöleytið og sáu þá Guðmund Einarsson ásamt öðrum manni, lágvaxnari. Þeir virtust vera að leita sér að fari og reyna að stöðva bíla en voru báðir svo ölvaðir að vinkonurnar ákváðu að taka þá ekki upp í.

Elínborg og Sigríður þekktu Guðmund báðar, þannig að ekki leikur vafi á því að það var hann sem þarna var á ferð. Guðmundur var illa klæddur, í jakka en engri yfirhöfn. Fylgdarmaður hans var á skyrtunni og hélt á jakkanum undir hendinni.

Þetta er það síðasta sem vitað er með fullri vissu um ferðir Guðmundar Einarssonar. Tveir (eða þrír) menn sáu mann sem lýsingin gat átt við á Reykjavíkurvegi nokkru síðar, sennilega milli hálfþrjú og þrjú. Sá maður var ölvaður og hálfdatt fyrir bílinn. Vitnisburður þeirra er nokkuð óljós og því er alls ekki unnt að fullyrða að Guðmundur hafi verið þar á ferð. En hafi það verið hann, var hann einn.

Guðmundi Einarssyni hefur í grófum dráttum verið þannig lýst að hann hafi verið tiltölulega reglusamur á þeirra tíma mælikvarða. Hann mun hafa skvett í sig og farið á böll um helgar en hann hugðist hefja iðnám innan skamms og virðist alls ekki hafa getað talist í hópi óregluunglinga. Guðmundur var myndarlegur piltur, vel að manni og tiltölulega hávaxinn, um 1,80 á hæð.

Þegar Guðmundur kom ekki fram var lýst eftir honum. Miðað við þær upplýsingar sem fyrir lágu var helst gert ráð fyrir því að hann hefði verið á heimleið. Guðmundur bjó hjá foreldrum sínum í Blesugróf og jafnvel var gert ráð fyrir að hann hefði stytt sér leið yfir hraun og torfærur. Við leit virðist helst hafa verið gert ráð fyrir þeim möguleika að hann hefði orðið úti. Leitin bar þó engan árangur. Smám saman fyrntist yfir málið og í desember 1974 var Guðmundur skráður látinn í gögnum Hagstofunnar.

 

Hvarf Geirfinns Einarssonar

Kringumstæður við hvarf Geirfinns Einarssonar voru allt aðrar og vöktu strax grunsemdir um glæp. Undir slíkum kringumstæðum skapast fljótt sögusagnir og samsæriskenningar. Sumar þeirra voru rannsakaðar nokkuð og virtist lögreglumönnum í Keflavík sem þeir hefðu fundið möguleg tengsl við smygl á spíra sem allmikið var stundað á þessum árum. Veitingahúsið Klúbburinn lá undir grun um að hafa selt smyglað áfengi og fljótlega fengu sögusagnir um tengsl Geirfinns og Klúbbmanna byr undir báða vængi. Þessar sagnir urðu síðar til þess að skapa þann pólitíska þrýsting sem nú er talið að jafnvel hafi skipt sköpum um rannsókn málsins.

Geirfinnur Einarsson fór tvær ferðir að heiman frá sér að kvöldi 19. nóvember 1974. Í bæði skiptin fór hann til að hitta mann, menn eða fólk, sem hann þekkti ekki. Fyrri ferðin varð árangurslaus. Sá, þeir eða þau sem hann ætlaði að hitta komu ekki á tilsettum tíma og Geirfinnur fór heim aftur. Hann var nýkominn heim þegar síminn hringdi. Geirfinnur heyrðist segja í símann:

- Ég kom... Ég kem.

Eftir þetta símtal fór Geirfinnur öðru sinni að heiman Þá var klukkan rétt um það bil hálfellefu. Eftir það hefur hann ekki sést. Bíllinn hans fannst skammt frá Hafnarbúðinni.

Um sama leyti og hringt var til Geirfinns kom maður inn í Hafnarbúðina og fékk að hringja. Strax frá upphafi var gert ráð fyrir að sá maður hefði hringt í Geirfinn. Fyrir því er þó auðvitað engin bein sönnun. Þrennt styður þessa tilgátu. Tímasetningum ber saman. Símtölin voru bæði mjög stutt. Maðurinn sem fékk að hringja í Hafnarbúðinni var ókunnur afgreiðslustúlkunni. Hann var með öðrum orðum að líkindum ekki Keflvíkingur. Það kemur heim og saman við að Geirfinnur þekkti ekki þann sem hann átti stefnumót við.

Þetta eru í sem stystu máli staðreyndir málsins. Það hefur aldrei verið sannað að maðurinn sem hringdi í Hafnarbúðinni hafi hringt í Geirfinn þótt yfirgnæfandi líkur bendi til þess. Það sem síðan hefur verið talið hafa gerst hefur heldur ekki verið sannað.

 

Spennandi framhaldssaga

Hvarf Geirfinns bar að með þeim hætti að nánast hvert mannsbarn í landinu sannfærðist strax í upphafi um að hann hefði verið myrtur. Lýsingar fjölmiðla á atburðum þriðjudagskvöldsins 19. nóvember 1974 hefðu sem best getað verið klipptar út úr sakamálasögu. Á þessum tíma voru framhaldssögur enn við lýði í blöðum og útvarpi og fólk vant því að þurfa að bíða til næsta dags eða næstu viku eftir framhaldinu. Og fólk beið spennt eftir framhaldinu.

Fyrstu vikurnar hélt sagan reyndar áfram nokkurn veginn eftir óskum hlustenda og lesenda. Lögreglan í Keflavík rannsakaði málið. Teiknaðar voru myndir af manninum sem fékk að hringja í Hafnarbúðinni og loks var listakona fengin til að móta höfuð mannsins í leir. Lögreglan hélt því fram að bæði teikningar og leirhausinn væru unnin eftir lýsingum sjónarvotta. Síðar kom á daginn að þetta var hreinn uppspuni. Sumar teikningarnar voru gerðar eftir ljósmynd af Magnúsi Leópoldssyni og svo leirhausinn eftir teikningunum.

Ef við höldum áfram líkingunni við sakamálasögu, var eins og lögreglan hefði stolist til að lesa nokkra kafla í viðbót. Því miður var löggan að stelast til að lesa í vitlausri bók.

Stúlkan sem vann í Hafnarbúðinni hélt því strax fram að leirhausinn væri ekkert tiltakanlega líkur manninum sem fékk að hringja en lögreglan lét það ekki á sig fá. Myndir af leirhausnum voru birtar í öllum fjölmiðlum nema útvarpinu. Leirhausinn fékk nafn sem þjóðin man enn í dag, Leirfinnur. Jafnvel voveiflegustu atburðir fá ekki haggað kímnigáfu landans.

 

Sögusagnir fóru á kreik

Og óhjákvæmilega fóru sögusagnir á kreik. Ein þeirra, eða öllu heldur einn flokkur þeirra, tengdist Leirfinni. Þessar sögur gengu út á það að Geirfinnur hefði verið einhvers konar milligöngumaður milli áfengissmyglara og Klúbbsins. Framkvæmdastjóri Klúbbsins var enginn annar en Magnús Leópoldsson, öðru nafni Leirfinnur að áliti fjölmargra.

Sögur gengu líka, reyndar alllöngu síðar, um tengsl Framsóknarflokksins við Klúbbinn og þessi smyglmál. Að minnsta kosti einhverjir innan lögreglunnar virðast hafa lagt trúnað á þessar sögur, eða a.m.k. sögurnar um tengsl Geirfinns og Klúbbmanna. Það er í þessar sögusagnir sem ber að leita eftir skýringum á handtöku fjórmenninganna í janúar 1976. Þetta voru þeir Einar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen.

En enn var af nógu að taka í söguefni. Það var ekki einungis að hvarf Geirfinns bæri að með dularfullum hætti, fjölskyldulíf hans var líka þannig að þar gátu vaknað grunsemdir. Eiginkona Geirfinns hafði sem sé haldið fram hjá honum um nokkurt skeið. Slíkt er klassískt tilefni morðs í sakamálasögum.

 

Þjóðin svikin um framhaldið

Fyrstu vikurnar eftir hvarf Geirfinns, rannsakaði lögreglan í Keflavík málið en án sýnilegs árangurs. Framan af lofaði rannsóknin reyndar góðu og blöðin gátu birt frásagnir af því að rannsóknin beindist nú í einhverjar ákveðnar áttir, t.d. að tveimur bílum, eða þá smygli á spíra.

En svo kom þar að ekkert markvert gerðist. Lögreglunni hætti að miða áfram. Tíminn leið. Þjóðin var svikin um næsta lestur framhaldssögunnar í næstum heilt ár og í hugum margra var farið að fyrnast yfir hvarf Geirfinns Einarssonar. Þeir sem enn mundu eftir Guðmundi Einarssyni voru vafalaust búnir að sætta sig við það fyrir löngu að hann hefði einfaldlega orðið úti og af einhverjum ástæðum aldrei fundist. Annað eins hafði gerst áður og átti eftir að gerast oft aftur.

 

Á skakkri launaskrá

12. og 13. desember 1975 voru Sævar Ciesielski og Erla Bolladóttir handtekin fyrir að svíkja tæpa milljón út úr pósti og síma sumarið 1974. Aðferðin var svo einföld og snilldarleg að hálf þjóðin dáðist að þeim í laumi fyrir hugvitið. Erla hafði unnið hjá stofnuninni og gerði sér þá grein fyrir þeirri einföldu staðreynd að þegar peningar voru símsendir á milli póshúsa var ekki haft fyrir því að hringja til baka í það pósthús sem hringt hafði til að ganga úr skugga um að upplýsingarnar væru réttar.

Þetta þýddi að í rauninni gat hver sem var hringt í hvaða pósthús sem var, kynnt sig sem starfsmann annars pósthúss og tilkynnt um símaávísun. Svo seinir voru forráðamenn Pósts og síma að átta sig, að þessu var ekki breytt fyrr en eftir að Sævar og Erla höfðu leikið sama leikinn öðru sinni, - nokkrum mánuðum síðar.

Nú, þegar liðin eru nærri 22 ár frá þessari handtöku sem markaði upphaf rannsóknar og dóms í þessum svokölluðu Guðmundar og Geirfinnsmálum, virðist í rauninni augljóst að lögreglumennirnir og sakadómarinn sem önnuðust rannsóknina voru á skakkri launaskrá. Þeir hefðu sennilega helst átt að vera á skáldalaunum. Eftir á má það svo kallast kaldhæðni örlaganna að eitt "höfuð"verk þessara "skálda", Leirfinnur, skyldi gerður úr efni sem lélegur skáldskapur hefur einatt verið kenndur við.

 

Skáldskapurinn og raunveruleikinn

Jafnvel þótt gengið væri út frá því, - sem raunar engar líkur benda til,- að þau ungmenni sem dæmd voru í fangelsi í lok þessa ferlis hafi í raun og veru drepið bæði Guðmund og Geirfinn er nokkuð ljóst að það gerðist ekki eins og frá er sagt í gögnum málsins. Þær frásögur eru skáldskapur. Og það sem meira er, þær eru skáldskapur lögreglu og sakadómara. Það voru ekki sakborningar sem spunnu þessar sögur upp.

Sannanir fyrir þessu blasa við og það er af nógu að taka. Í síðasta blaði var vikið að pyndingum og lyfjagjöf. Í rauninni eru skýrslurnar sjálfar sennilega auðveldasta sönnunin. Sakborningar sem voru í einangrun og höfðu enga möguleika til að bera sig saman, breyttu framburði sínum hvað eftir annað á sama tíma og sögðu lengst af líkar sögur. Það voru sögurnar sem lögreglan skáldaði.

Lögreglan bjó nefnilega við þau óþægindi í starfi að þurfa að samsama skáldsögur sínar raunveruleikanum að nokkru leyti. Það þurfa rithöfundar yfirleitt ekki. Til dæmis varð að strika Tryggva Rúnar út úr handritinu að drápi Geirfinns vegna þess að í raunveruleikanum var hann úti á sjó þetta kvöld. Margoft þurfti að skipta um leikmuni. Toyotabíl var skipt út úr allt að því fullskrifuðu handriti og Volkswagen bjalla skrifuð inn í staðinn, vegna þess að í ljós kom að Toyotabíllinn hafði enn ekki verið keyptur. Og þegar síminn á leiksviðinu reyndist lokaður þurfti aftur að umskrifa handritið.

Jón Daníelsson