Dómarar við Hæstarétt Íslands:

Skildu ekki grundvöll

sakamálaréttarfarsins

- Heimildamynd Sigursteins Mássonar hristi rækilega upp í mörgum Íslendingum. Margt af því sem fram kom í myndinni er einnig að finna í greinargerð Ragnars Aðalsteinssonar sem Sævar Ciesielski hefur nú gefið út á bók. Þar er þó margt ítarlegra og Ragnar hefur einnig fengið aðgang að fleiri gögnum en Sigursteinn.

 

Segja má að ekki standi steinn yfir steini í íslenska réttarkerfinu eftir ítarlega rannsókn Ragnars Aðalsteinssonar á Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Ekki einungis færir Ragnar fram fjöldann allan af nýjum gögnum og upplýsingum til stuðnings kröfu Sævars Ciesielskis um endurupptöku málanna heldur er niðurstaða hans í sem stystu máli sú að dómarnir hafi aldrei byggst á neinu öðru en játningum sem fengnar voru fram með andlegum og líkamlegum pyndingum. Lögregla og saksóknari stungu undan sönnunargögnum sem hefðu getað sannað sakleysi og skráðu aðeins það sem hentaði við yfirheyrslur. Kórónan á þessu íslenska miðaldakerfi er svo Hæstiréttur Íslands sem misskildi grundvallarreglur sakamálaréttarfars.

 

Fjölmargar lagagreinar voru þverbrotnar hvað eftir annað á þeim rúmlega fjórum árum sem liðu frá því að Sævar Ciesielski var handtekinn þann 12. desember 1975 þar til Hæstiréttur kvað upp dóm sinn 22. febrúar 1980. Síðan hafa komið fram upplýsingar um pyndingar. Í greinargerð Ragnars koma fram nýjar upplýsingar sem benda til að lyfjagjöf hafi verið notuð markvisst til að fá sakborninga til að játa.

 

Nýir vitnisburðir

Sumt af þeim nýju gögnum sem Ragnar Aðalsteinsson hefur nú lagt fyrir Hæstarétt hefur vissulega verið kunnugt um nokkurn tíma. Þetta eru þó ný gögn í þeim skilningi að hér er um að ræða upplýsingar sem hafa komið fram eftir að Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu 1980. Ragnar lagði fyrir Hæstarétt allnokkra nýja vitnisburði sem benda til sakleysis sakborninganna eða eru að minnsta vísbending um að atburðir hafi ekki getað gerst með þeim hætti sem dómarnir gerðu ráð fyrir.

Nefna má vitnisburði hjónanna sem ráku Alþýðuhúsið í Hafnarfirði. Þar var Guðmundur Einarsson á dansleik kvöldið sem hann hvarf. Svo vildi til að þau bjuggu nánast í næsta húsi við Hamarsbraut 11 þar sem Guðmundur átti að hafa látið lífið.

Eftir dansleikinn í Alþýðuhúsinu fóru hjónin heim til sín. Þau fóru þó ekki strax að sofa heldur unnu fram eftir nóttu við uppgjör og bókhald. Þau eru þess bæði fullviss að engin umferð hafi verið við Hamarsbraut 11 og þau urðu heldur ekki vör við neinn hávaða sem þó hefði verið óhjákvæmilegur ef þangað hefði fólk komið á leið í partí.

 

Ekki Kristján Viðar

Ein af meginstoðum dómanna vegna Guðmundarmálsins var vitnisburður tveggja stúlkna sem sáu Guðmund Einarsson ásamt öðrum manni í Strandgötunni í Hafnarfirði eftir að dansleiknum lauk. Þær voru látnar bera kennsl á Kristján Viðar Viðarsson við sakbendingu. Að sögn Gísla Guðmundssonar rannsóknarlögreglumanns sem sá um sakbendinguna hafði hún litla þýðingu vegna þess að þegar hún fór fram höfðu þegar birst myndir af Kristjáni í blöðum.

Hitt skiptir þó meira máli að stúlkurnar voru leyndar því að Kristján Viðar var töluvert hærri en Guðmundur. Það var gert með því að láta hann standa í röð nemenda í lögregluskólanum sem allir voru um 1,90 á hæð. Þetta skiptir meginmáli. Stúlkurnar tvær voru þess nefnilega fullvissar allan tímann að maðurinn sem þær sáu með Guðmundi Einarssyni í Strandgötunni hefði verið lægri vexti en Guðmundur. Guðmundur var sjálfum um 1,80 á hæð. Vitnisburður Elínborgar Rafnsdóttur og Sigríðar Magnúsdóttur er þannig allt í einu orðinn nýtt gagn í málinu. Hann sannar nefnilega að það gat ekki hafa verið Kristján Viðar sem þær sáu með Guðmundi í Strandgötunni.

 

Líkamlegar pyndingar

Nýr vitnisburður Hlyns Þórs Magnússonar, sagnfræðings og kennara, sannar það sem vissulega hefur margoft komið fram áður, að sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu voru beittir bæði líkamlegum og andlegum pyndingum. Hlynur, var fangavörður í Síðumúlafangelsi á þessum tíma. Hann nefnir einkum tvennt í þessu sambandi. Skúli Steinsson fangavörður kaffærði Sævar Ciesielski í vatni. Hlynur varð ekki vitni að þessu sjálfur en heyrði aðra fangaverði tala um það.

Vitnisburður Hlyns á í rauninni að nægja til að taka af öll tvímæli um að Sævar hafi í raun og veru verið látinn sæta þessari meðferð.

 

Járnaðir og "strekktir"

Það hlýtur að flokkast undir líkamlegar pyndingar að vera járnaður á höndum og fótum vikum saman. Sama er að segja um það þegar fangar í Síðumúlafangelsinu voru látnir liggja flatir á gólfinu og fótjárnin fest við rúmfót en handjárnin við borðfót. Bæði rúmflet og borð voru að sjálfsögðu vendilega fest í gólfið.

Það var bannað á þessum tíma að setja gæsluvarðhaldsfanga í fótajárn, því síður var heimilt að slíkt væri notað sem refsing eða til enn frekari niðurlægingar.

Í Síðumúlafangelsinu kallaðist það að menn væru strekktir, þegar þeir voru fastir í þessari stellingu. Af einhverjum ástæðum hefur hérlendis yfirleitt verið látið nægja að tala um "harðræði". Pyndingar virðast aðeins eiga sér stað í útlöndum. Sá lesandi sem efast um að "strekking" sé pyndingaraðferð gæti beðið maka sinn að binda sig á höndum og fótum, festa böndin við t.d. tvo miðstöðvarofna og skreppa svo í bíó.

 

Sálrænar pyndingar

Munurinn á milli líkamlegra og sálrænna pyndinga getur verið nokkuð óljós. Þannig má t.d. spyrja hvort það hafi haft fremur líkamleg eða sálræn áhrif á sakborninga að vera settir í reykingabann, fá ekki að hafa sæng, heldur verða að liggja undir grófu ullarteppi og hafa ljós logandi í klefanum allan sólarhringinn. Öllum þessum aðferðum var beitt við sakborningana og raunar miklu fleirum. Nefna má að nú skýrir Erla Bolladóttir frá því að fangavörður hafi "þuklað" sig að næturlagi inni í klefa sínum.

Framkoma lögreglumanna, dómara og fangavarða í garð sakborninganna var líka þess eðlis að tala má um sálrænar pyndingar. Svo virðist sem allir sem að málinu komu hafi frá upphafi verið sannfærðir um sekt fanganna. Af þeim gögnum sem nú liggja fyrir má kannski orða það svo að sakborningarnir hafi verið álitnir "almennt sekir", ef ekki um þessi tilteknu manndráp þá um einhverja aðra glæpi. Fangaverðir og lögreglumenn virðast jafnvel hafa verið þeirrar skoðunar að sakborningarnir væru sekir strax með því einu að vera til.

 

Sönnunargögn látin hverfa

Húsrannsókn var gerð heima hjá Sævari eftir handtöku hans í desember 1975. Ekki er margt skráð um þá rannsókn. Lögregla tók þó í sína vörslu allmikið af skjölum sem hún hugðist rannsaka. Öll þau skjöl hurfu síðan og raunar er sömu sögu að segja um ýmsa hluti sem voru í eigu Sævars á þessum tíma. Virðist einna helst sem lögreglan hafi gert búslóð hans upptæka. Sævar hefur aldrei fengið neitt af þessu aftur hvort sem því hefur verið hent eða einstakir lögreglumenn slegið eign sinni á einhverja eigulega muni.

Hvort eitthvað í skjölum Sævars kynni að hafa haft sönnunargildi í málunum er auðvitað ómögulegt að segja nú. En sé tekið tillit til framgöngu rannsóknaraðilanna í þessum málum að öðru leyti, má segja að meiri líkur bendi til að þarna hafi verið að finna einhverjar upplýsingar sem gætu bent til sakleysis. Svo mikið virðist ljóst að þarna hafi ekki fundist upplýsingar sem bentu til sektar Sævars. Þá hefðu þessi gögn að líkindum ekki "týnst".

Fjölda gagna var stungið undir stól. Nefna má fíkniefnarannsókn sem gerð var á því tímabili sem Guðmundur Einarsson hvarf. Hluti þess máls var gerður að umtalsefni í síðasta blaði. Þá má nefna svonefnda Keflavíkurrannsókn sem Kristján Pétursson og Haukur Guðmundsson áttu þátt í. Gögn þeirrar rannsóknar munu á sínum tíma hafa verið afhent embætti ríkissaksóknara en Ragnari Aðalsteinssyni hefur sem kunnugt er verið meinaður aðgangur að gögnum sem þar er að finna.

 

Fengu ekki að verja sig

Framkvæmd réttarhaldanna yfir sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálum virðist hafa verið með fádæmum. Í héraði var réttarhaldið lengst af fyrir luktum dyrum. Viðstaddir voru löngum einungis dómararnir og fulltrúar ákæruvaldsins. Sakborningar fengu ekki að vera viðstaddir réttarhöldin nema í undantekningartilvikum og verjendur voru ekki boðaðir nema þegar verið var að rétta yfir skjólstæðingum þeirra. Þó var þetta í raun allt eitt og sama málið.

Engir verjendur voru viðstaddir þegar Gunnar Jónsson var yfirheyrður. Hann var sóttur til Spánar til að bera vitni og virðist beinlínis hafa verið komið úr landi aftur áður en verjendur gætu spurt hann.

Það er þó lögbundinn réttur sakborninga að fá að verja sig. Í því felst meðal annars réttur til að kynna sér gögn málsins og einnig réttur til að spyrja vitni eða láta spyrja þau. Það er ágætt dæmi um það hvernig þessa réttar var gætt fyrir héraðsdómi að tíu dögum eftir að dómurinn var kveðinn upp, skrifaði Jón Oddsson, lögmaður Sævars bréf til ríkissaksóknara og fór þess á leit að Sævar fengi til aflestrar eintak af gögnum málsins!!!

Og ekki batnaði ástandið þegar málið kom fyrir Hæstarétt. Þar var Sævar aldrei látinn gefa skýrslu.

 

Fölsuð gögn fyrir Hæstarétt

Eitt af þeim málsgögnum sem fylgdu málinu til Hæstaréttar var endurrit úr fangelsisdagbók Síðumúlafangelsins sem upphaflega var lagt fyrir héraðsdóm að beiðni Jóns Oddssonar. Endurritið var undirritað af Gunnari Guðmundssyni forstöðumanni fangelsisins sem tók fram að með undirskrift sinni staðfesti hann að það væri rétt.

Endurritið var reyndar ekki rétt heldur falsað. Þegar Ragnar Aðalsteinsson lét gera nýtt endurrit kom í ljós að sleppt hafði verið öllu því sem gat komið sér illa fyrir ákæruvaldið og lögregluna. Ragnar nefnir 25 dæmi um slíkt í greinargerð sinni og mun þó ekki allt upp talið.

 

Játningar fengnar með lyfjum?

Við rannsóknir Ragnars Aðalsteinssonar á fangelsisdagbókum hefur komið í ljós að svo virðist sem fangaverðir hafi sjálfir ákveðið lyfjagjöf eða gefið lyf samkvæmt fyrirmælum rannsóknarmanna og virt að vettugi fyrirmæli læknis um lyfjagjöf. Meðan á rannsókninni stóð voru sakborningum gefin hugbreytingarlyf, lyf sem hafa veruleg áhrif á hugsun, gera fólk hálfsljótt og meðfærilegt.

Vanabindandi lyf á borð við diazepam voru ýmist gefin í stórum skömmtum eða tekin af föngunum, e.t.v. beinlínis til að framkalla fráhvarfseinkenni.

Guðjón Skarphéðinsson sem ekki dró framburð sinn til baka í Hæstarétti, sagði í samtali við Morgunblaðið 13. febrúar í fyrra að sér hefði verið gefið geðlyf sem hefði haft "geysilega sterk áhrif" á sig. Hann hefði verið orðinn "algerlega glórulaus" eftir nokkurra daga yfirheyrslur.

 

Misskilningur Hæstaréttar

Frá sjónarmiði leikmanna er Ragnar Aðalsteinsson yfirleitt afar orðvar í skýrslu þeirri sem hann skilaði til Hæstaréttar 21. febrúar. Aðfinnslur hans sem vissulega eru mjög alvarlegar, eru þó orðaðar mjög kurteislega og um málsmeðferð Hæstaréttar er hann mjög gætinn í orðavali. Þegar Ragnar hefur í skýrslu sinni lokið við að útskýra einhver tiltekin afglöp dómaranna með tilheyrandi tilvísunum í þágildandi lög, reglugerðir og alþjóðasamninga um grundvallarmannréttindi, kemst hann gjarna svo að orði að ekki sé ætlandi að Hæstiréttur hafi vísvitandi farið rangt að og hljóti því að verða að skoða niðurstöður réttarins um þetta tiltekna atriði sem mistök.

Ragnar kveður þó í einstöku tilvikum fastar að orði. Hann segir t.d. almnennt um niðurstöðu Hæstaréttar í Guðmundar og Geirfinnsmálum:

"Við athugun á dómi Hæstaréttar kemur í ljós að hann er byggður á atvikum sem ný gögn veita ábendingu um að eru röng og að auki er hann byggður á misskilningi á fyrirliggjandi gögnum."

Undir lok skýrslu sinnar víkur Ragnar Aðalsteinsson á einum stað að staðfestingu Hæstaréttar á þeirri ákvörðun undirréttar árið 1977 að meina sakborningum að tala við verjendur sína í einrúmi. Hér hefur Ragnar engin umsvif. Það má segja að hann jarðsetji Hæstarétt Íslands í einni - afar kurteislega orðaðri - setningu:

"Hér virðist um misskilning Hæstaréttar á grundvallarreglum sakamálaréttarfars að ræða..."

Og hvað skyldi þá standa eftir af trausti okkar, borgara þessa lands, á réttarkerfið, þegar dómara Hæstaréttar skortir grundvallarskilning á lögunum?

Jón Daníelsson