HP fjallar um umfangsmestu sakamál aldarinnar

 

Vakri-Skjóni hann skal heita...

 

Lögreglan hélt dauðahaldi í spírakenninguna og Leirfinn fram í rauðan dauðann - og það var kynlegt samræmi í "lygavef" sakborninga.

 

Snemma morguns 26. janúar árið 1976 voru þrír menn vaktir með hringingum á dyrabjöllur. Úti stóðu lögreglumenn með handtökuskipanir. Með mennina var farið í Síðumúlafangelsið þar sem þeir áttu eftir að dvelja í þrjá og hálfan mánuð. Klukkan 8,05 þennan morgun voru þeir færðir í stutta yfirheyrslu og að henni lokinni tafarlaust úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Þetta voru Einar Bollason, Valdimar Olsen og Magnús Leópoldsson. Leirfinnur var loksins kominn bak við lás og slá. Fjórði maðurinn, Sigurbjörn Eiríksson, var handtekinn 10. febrúar.

Í síðasta blaði var meðal annars fjallað um tilurð Leirfinns, styttunnar sem í raun var gerð eftir Magnúsi Leópoldssyni. Í janúar 1976 tók lögreglan upp þráðinn þar sem frá var horfið í rannsókn Geirfinnsmálsins þegar Leirfinnur var skapaður. Kenningin sem gengið hafði verið út frá í upphafi var nú rifjuð upp og eftir henni vann lögreglan það sem eftir var vetrar og fram á sumar.

 

Spírasmyglarinn Geirfinnur

Kenningin gekk í sem stystu máli út á það að Geirfinnur hefði verið hlekkur í smyglkeðju sem smyglaði spíra. Grunur lék á því að í Klúbbnum í Reykjavík væri selt áfengi sem ekki hefði verið keypt í ríkinu. Geirfinnur hafði verið í Klúbbnum tveim dögum áður en hann hvarf. Strax í upphafi lögðu menn saman tvo og tvo og töldu sig fá út fjóra.

Maðurinn sem kom í Hafnarbúðina og fékk að hringja í Geirfinn var samkvæmt kenningunni Magnús Leópoldsson, veitingamaður í Klúbbnum. Hann var kominn til Keflavíkur þeirra erinda að kaupa spíra. Þess voru talin dæmi að smyglspíra væri varpað útbyrðis af fraktskipum og hann látinn liggja við stjóra þar til hann var sóttur af vitorðsmönnum í landi. Í upphafi voru margir þeirrar skoðunar að Geirfinnur hefði fallið útbyrðis af bát í slíkri ferð. Þetta var kenningin sem lögreglumenn unnu eftir til að byrja með. Hún var í fullkomnu samræmi við grunsemdir þær sem vaknað höfðu í upphafi og ekki síður í samræmi við sögusagnir sem gengu meðal almennings.

Í janúar 1976 var komið á annað ár frá hvarfi Geirfinns. Allan þann tíma hafði rannsókninni eiginlega ekkert miðað. Allavega hafði hún aldrei komist á það stig að svo mikið sem tylliástæða hefði fundist til að handtaka neinn, ekki einu sinni þann sem rannsóknin virðist hafa beinst að frá upphafi, nefnilega Leirfinn sjálfan, Magnús Leópoldsson. Ástæðan til handtökunnar kom upp í hendurnar á lögreglunni eins og tilviljun af þeim toga sem verða í ævintýrum. Það var að minnsta kosti túlkun samtímans. Nú hníga sterk rök í þá átt að þessi tilviljun hafi verið heimatilbúin. Rétt eins og við gerð styttunnar, gripu þjónar réttvísinnar til þess bragðs að fletta bókarsíðum fram í tímann og rétt eins og í fyrra skiptið voru þeir að stelast til að lesa skakka bók.

 

Hótun í síma

Erla Bolladóttir var látin laus úr Síðumúlafangelsinu 20. desember 1975 eftir að hafa setið þar í viku. Þetta gerðist að lokinni yfirheyrslu þar sem hún hafði borið vitni um að Guðmundur Einarsson hefði látið lífið á Hamarsbraut. Næsta mánuðinn heimsóttu lögreglumenn hana iðulega og unnu traust hennar. Erla fluttist til móður sinnar og fór að fá dularfullar símhringingar Oftast þagði sá sem hringdi en einu sinni var henni hótað. Hver eða hverjir það voru sem hringdu hefur aldrei verið upplýst en í ljósi þeirra upplýsinga sem nú eru komnar fram er hreint ekki hægt að afskrifa þann möguleika að rannsóknarmenn hafi skipulagt þessar hringingar.

Þegar komið var fram í janúar fóru lögreglumenn að spyrja Erlu hvað hún vissi um hvarf Geirfinns Einarssonar og ekki síður hvað Sævar kynni að vita um það mál. Í nýrri skýrslu sem Erla gaf hjá Ragnari Aðalsteinssyni í nóvember á síðasta ári segist hún hafa svarað að Sævar vissi "það sem allir töluðu um, þ.e. kjaftasögurnar um Magnús Leópoldsson"

Í framhaldi af þessu var Erla kölluð til viðtals í Síðumúlafangelsinu 21. janúar þar sem hún gaf upp nöfn þriggja manna sem hún kvað sig hafa ástæðu til að óttast. Erla nefndi hálfbróður sinn, Einar Bollason, og auk hans Sigurbjörn Eiríksson og Jón Ragnarsson. Formleg skýrsla var tekin af Erlu 23. janúar.

Af skýrslum lögreglunnar er að sjá að Erla hafi nefnt þess nöfn að eigin frumkvæði og án nokkurrar aðstoðar. Sjálf segir Erla allt aðra sögu. Lögreglumennirnir leiddu hana til að gefa skýrslur sem túlka mætti þannig að nöfnin væru frá henni komin. Og það mun reyndar ekki verið erfitt að leiða Erlu til að gefa "réttar" upplýsingar. Hún var með kornabarn á brjósti og óttaðist sjálfsagt fátt meira en að vera skilin frá því og stungið inn.

Á sama tíma og verið var að fá nöfn þremenningana upp úr Erlu Bolladóttur með þessum aðferðum útskýrðu sömu menn fyrir Sævari Ciesielski að alvarleg tíðindi væru að gerast utan múranna. Honum var sagt að barnsmóðir hans væri í hættu og hann beðinn að leggja lögreglunni lið við að handsama þá hættulegu menn sem þarna ættu í hlut. Sævar féllst á það. Í lögregluskýrslu 22. janúar tilgreindi hann sömu nöfn og Erla hafði gert og í skýrslunni er einnig tekið fram að þetta væri allt í sambandi við Geirfinnsmálið. Kristján Viðar Viðarsson var líka látinn gefa skýrslu og nefna menn til sögunnar í Geirfinnsmálinu.

 

Loksins ástæða

Þegar búið var að taka skýrslur af þeim þremur, Erlu, Sævari og Kristjáni, lágu alls fyrir fimm nöfn: Einar Bollason, Jón Ragnarsson, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen. Það var ekki lengur eftir neinu að bíða.

Ný vinnuvika hófst snemma á mánudagsmorgni þann 26. janúar. Einar Bollason var vakinn upp klukkan sex og handtekinn. Sama gerðist á heimilum Valdimars Olsen og Magnúsar Leópoldssonar sem reyndar virðast hafa verið vaktir heldur fyrr. Jón Ragnarsson og Sigurbjörn Eiríksson voru látnir eiga sig - bili. Sigurbjörn var handtekinn 10. febrúar og hefur eftir tímasetningu að dæma verið tekinn frá kvöldmatnum. Þar var látið staðar numið við handtökur. Jón Ragnarsson var af einhverjum ástæðum aldrei handtekinn.

 

"Að eigin ósk"

Og hér sigldi rannsóknin reyndar í strand. Næstu mánuðina voru teknar fjölmargar skýrslur. Sævar, Erla og Kristján voru yfirheyrð fram og aftur. Það gekk á ýmsu í þessum yfirheyrslum, viðtölum og skýrslum. Ýmist voru sagðar sögur um sjóferð og lát Geirfinns Einarssonar, eða þá að framburðurinn var dreginn til baka.

Í yfirheyrsluskýrslum er alloft tekið skýrt fram að sá sem yfirheyrður er sé kominn til skýrslutöku "að eigin ósk," segi "sjálfstætt frá" eða á annan hátt gefið til kynna að útilokað sé með öllu að nokkurt atriði frásagnarinnar sé komið frá lögreglunni. Þetta er eiginlega nokkuð sérkennilegt. Eiginlega ætti að vera óþarft að taka fram að sá sem gefur skýrslu og undirritar hana sé að sjálfur að segja frá. Í GG-málunum sáu rannsóknaraðilar svo oft ástæðu til að taka þetta fram að það má nánast kalla það áráttu.

Og með tilliti til þess sem síðan hefur komið fram um rannsóknaraðferðirnar sem beitt var, verður þessi "árátta" e.t.v. skiljanleg. Eitt sérkennilegt dæmi má nefna:

Hér að framan er þess getið að þegar lögreglan lét til skarar skríða mánudaginn 26. janúar höfðu Erla,Sævar og Kristján nefnt nöfn fimm manna. Þrír voru handteknir strax en sá fjórði þann 10. febrúar. Þennan sama dag, þann 10 febrúar, var Sævar færður til yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglu. Honum voru sýndar myndir "af 16 mönnum sem rannsóknarlögreglan taldi hugsanlegt að hefðu verið í Dráttarbraut Keflavíkur og/eða bátsferðinni þaðan".

Það sem hér er innan gæsalappa er tekið orðrétt úr dómi Sakadóms Reykjavíkur. Af þessum 16 mönnum voru 13 svo lánsamir að Sævar þekkti þá ekki á mynd. Hann þekkti Einar Bollason og Valdimar Olsen á myndunum og sagðist þekkja báða í sjón. Auk þess er hann sagður hafa fullyrt við þetta tækifæri að Sigurbjörn Eiríksson hefði verið í Dráttarbrautinni. Hvaðan hafði lögreglan upplýsingar um þessa menn? Hverjir voru þeir? Tengdust þeir Klúbbnum? Tengdust þeir kannski Framsóknarflokknum? Er einhvers staðar skráð hvaða menn þetta voru? Er einhvers staðar skráð af hverju grunur beindist að þeim?

 

"Sjóferðin var lífseig"

Af einhverjum ástæðum fengust Magnús Leópoldsson, Einar Bollason, Valdimar Olsen og Sigurbjörn Eiríksson ekki til að játa. Á því var reyndar til einföld skýring sem eftir átti að koma í ljós. Þeir vissu aldrei neitt um örlög Geirfinns annað en það sem stóð í blöðunum.

Allan þann tíma sem fjórmenningarnir voru í haldi og raunar miklu lengur, reyndi lögreglan að komast til botns í Geirfinnsmálinu og vann allan tímann út frá þeirri kenningu að Geirfinnur hefði látið lífið í sjóferð eða í Dráttarbrautinni í Keflavík. Langt fram á sumar virðist líka hafa verið reynt að færa sönnur á að fjórmenningarnir eða a.m.k. einhverjir þeirra hefðu verið viðstaddir. Það er erfitt að ímynda sér annað en að lögreglumennirnir hafi sjálfir trúað því að þeir væru á réttri leið. Þó er ekki unnt að fullyrða það. Andrúmsloftið í þjóðfélaginu bauð tæpast lengur upp á þann möguleika að skilið yrði við Geirfinnsmálið óleyst. Lögregla, saksóknari og dómarar voru, þegar hér var komið sögu, undir gífurlegum þrýstingi frá almenningi, fjölmiðlum og stjórnmálamönnum.

Því er ekki auðvelt að svara hvernig á því stóð að rannsóknaraðilar skyldu svo lengi sem raun bar vitni halda dauðahaldi í kjaftasögu um Klúbbinn, Magnús Leópoldsson og spírasmygl. Við vitum einungis að það var gert.

Vakri-Skjóni hann skal heita

þó að meri það sér brún.

Það stóð í skólaljóðunum í gamla daga.

 

Sakborningar lugu alltaf eins

Það er auðvelt að koma auga á það við lestur skjala málsins að sagan af dauða Geirfinns Einarssonar tók breytingum þennan vetur. Framan af tímabilinu lét hann lífið úti á rúmsjó en þegar loks var dæmt í málinu bar dauða hans að höndum uppi á landi, - í Dráttarbrautinni í Keflavík. Um tíma féll hann fyrir borð og drukknaði. Síðar áttu slagsmál að hafa brotist út um borð. Í maíbyrjun játaði Erla Bolladóttir að hafa skotið Geirfinn. Sú saga breyttist og ýmsir aðrir handfjötluðu byssuna áður en sá leikmunur af afskrifaður.

Það sem var - og er enn - sérstaklega athyglisvert við þetta, er hversu samstiga, Sævar, Erla og Kristján voru í því að breyta framburði sínum. Þau "lugu" alltaf norkurn veginn því sama. Þrír einstaklingar, sem eru yfirheyrðir hver í sínu lagi, breyta framburði sínum nokkurn veginn á sama tíma og ævinlega til samræmis hver við annan. Þetta er óneitanlega nokkuð skrýtið, sérstaklega þegar þessi þrjú ungmenni eru komin til skýrslutöku "að eigin ósk," segja "skjálfstætt frá" og án þess að þeim hafi verið kynntur framburður annarra eins og svo oft er tekið fram, rétt eins og fyrirbyggja þurfi einhvern misskilning.

Einmitt þetta varð hróplega áberandi þegar Einar, Magnús, Sigurbjörn og Valdimar voru látnir lausir um vorið og í ljós kom að einfaldlega hafði verið um "rangar sakargiftir" að ræða. Það er refsivert athæfi að bera fólk röngum sökum. Lögreglan gerist að sjálfsögðu ekki sek um refsivert athæfi. Slíku er heldur ekki til að dreifa um saksóknara né dómara. Til allrar lukku var þó til fólk sem gat tekið sökina. Það var fólk sem var sekt hvort eð var. Sævar, Erla og Kristján voru dæmd fyrir að hafa borið sakir á fjórmenningana, sem reyndar hefðu getað orðið sextán talsins ef Sævar Ciesielski hefði þekkt fleiri myndir þann 10. febrúar.

 

Besta póstþjónusta landsins?

Á þessari annars ágætu lausn var þó einn stór galli. Sævar, Erla og Kristján höfðu allan þennan tíma verið einangruð hvert frá öðru og aldrei getað talast við nema þegar rannsóknarmönnum þóknaðist að "samprófa" þau. Hin opinbera kenning var sú að þau hefðu sammælst um það áður en þau voru handtekin að koma sökinni á fjórmenningana. Þessi skýring dugði að vísu að vissu marki en á henni voru annmarkar. Hvernig í ósköpunum átti að útskýra fyrir þjóðinni að ungmennin hefðu þrátt fyrir fullkomna einangrun og stranga gæslu getað sammælst um hverju þau ættu að ljúga að lögreglunni, einu í dag, öðru á morgun?

En rannsóknaraðilar höfðu heppnina með sér. Þjóðin fékk sína skýringu. Þegar allt kom til alls var steinsteypan í Síðumúla hriplek. Fangar smygluðu bréfum á mill klefa rétt eins og hraðþjónusta póstsins næði þangað inn.

Bréfaskriftirnar í Síðumúla voru að vísu annars eðlis í raunveruleikanum en það vissi þjóðin ekki fyrr en löngu síðar. Sjálfsagt eru fjölmargir sem enn trúa því að Sævar, Kristján og Erla hafi smyglað bréfum á milli sín. Þessi skýring hentaði þjóðinni vel og henni var trúað, - jafnvel þótt rannsóknarmenn skynjuðu ekki sinn vitjunartíma og væru nærri búnir klúðra eigin frelsun með því að halda því fram að bréfin væru ekkert annað en ómerkileg fölsun.

Bréfin voru eins konar neyðarkall úr Helvíti. Með þeim var Sævar Ciesielsi að reyna að vekja athygli dómsmálaráðuneytisins, fjölmiðla, eða bara einhverra utan múranna á illri meðferð og pyndingum í Síðumúlafangelsinu. En nánar um það í næsta blaði.

Jón Daníelsson