HP fjallar um umfangsmestu sakamál aldarinnar

 

Neyðaróp úr Víti!

 

"Arbeit macht frei," var letrað yfir inngönguhlið Auswitzch-búðanna. Þaðan áttu fáir afturkvæmt. Ekkert slíkt slagorð blasti við auganu yfir útidyrum Síðumúlafangelsisins þegar Sævar Ciesielski var leiddur þar inn síðdegis 11. desember 1975. Líkingin við Auswitzch á þó vissan rétt á sér vegna þess að Sævar hafði hvað eftir annað fyllstu ástæðu til að óttast að hann myndi ekki eiga afturkvæmt út fyrir þessar dyr. Hann óttaðist um líf sitt fyrstu mánuðina í Síðumúlafangelsinu og hafði fulla ástæðu til.

Sævar hafði ekki verið marga daga í Síðumúlanum þegar farið var með hann í ökuferð til að leita að líki suður í Hafnarfjarðarhrauni. "Komið þið nokkuð með hann aftur?" var spurt. "Við sjáum til með það," var svarað.

Sævar hefur margoft lýst því hvernig honum var dýft í vatn og haldið niðri þar til honum lá við drukknun. Hann var barinn í yfirheyrslum og hvað eftir annað var skyrtukraginn undinn að hálsi hans þar til hann missti meðvitund. Honum var haldið vakandi sólarhringum saman og ljósið í klefa hans logaði stanslaust í marga mánuði.

Sævar hélt að hann hefði lent í klónum á brjálæðingum sem helst ættu heima á Kleppi íklæddir spennitreyjum. Í bandarískri bíómynd tækist fórnarlambinu annað hvort að sleppa úr haldi eða a.m.k. smygla út úr fangelsinu boðum til yfirvalda um að ekki væri allt með felldu. Í lok myndarinn hefðu svo vopnaðir verðir réttvísinnar brotist inn og yfirbugað brjálæðingana, sennilega eftir æsilegan skotbardaga.

Sævar Cielsielski losnaði ekki úr haldi. En honum tókst að koma boðum út úr fangelsinu - eftir sjö mánaða dvöl. Það er raunar ekki fullvíst hvort þau komust alla leið til dómsmálaráðuneytisins en hitt er víst að þau komust til blaðamanna. Og viðbrögðin létu ekki á sér standa. EINANGRUN GÆZLUFANGA MARGROFIN - MIKLAR BRÉFASKRIFTIR MILLI KLEFANNA, sagði DAGBLAÐIÐ, frjálst og óháð dagblað. Þessi forsíðufrétt kom þjóðinni í skilning um það að morðingjar Guðmundar og Geirfinns skrifuðust reglubundið á í fangelsinu til að samræma sín á milli hverju ætti að ljúga næst.

 

Bréfaskiptin í Síðumúla

Örn Sigfússon var 17 ára piltur sem var í haldi í Síðumúlafangelsinu um tíma. Hann var látinn laus föstudaginn 11. júní eftir að dómur hafði gengið í máli hans, þar eð afplánun hans átti ekki að hefjast fyrr en síðar. Rúmum tuttugu árum síðar er hálfhjákátlegt að lesa frétt Vísis frá 18. júní 1976 þar sem Jón Thors, deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu, baðst nánast afsökunar á því að þessi 17 ára piltur skyldi látinn ganga laus í fáeina daga.

Meðan Örn Sigfússon var gæslufangi í Síðumúla var hann í klefa 9 andspænis klefa Sævars sem var númer 15. Undir hurðunum voru ekki þröskuldar. Þetta nýttu Örn og Sævar sér. Aðferðin við bréfaskriftirnar var sú að tvinnaspotti var bundinn í hárgreiðu og henni síðan skutlað þvert yfir ganginn. Ef kastið mistókst var hægt að draga greiðuna til baka en þegar hún var komin til viðtakandans dró hann tvinnann til sín og kom þannig höndum yfir bréfsnepilinn sem bundinn var í hinn endann.

Örn þurfti að leggja Sævari til bæði pappír og skriffæri. Slíkur munaður leyfðist honum ekki á þessum tíma. Sævar var líka í reykingabanni og Örn sendi honum því stundum sígarettur.

Nokkur þessara bréfa komust út úr Síðumúlafangelsinu. Örn braut þau saman og stakk þeim niður í kili bóka sem móðir hans færði honum til að lesa og sótti síðan aftur. Einhver bréf sagðist hann síðar í samtali við tímaritið Samúel hafa límt inn á síður bókanna með tannkremi og nokkur bréf kvaðst hann hafa falið í faldinum á buxum sínum þegar honum var sleppt.

 

Hvað stóð í bréfunum?

En um hvað fjölluðu þessi bréf. Einn þeirra manna sem sáu þau segir nú að í þeim hafi Sævar verið að bera sig upp undan meðferðinni og örlögum sínum í fangelsinu. "Mér er sérstaklega minnistæð ein setning þótt ég þori ekki að fullyrða að hún sé orðrétt: Þeir segja að ég hafi verið með hníf."

Eins og svo margt annað sem komið hefur í ljós eftir að fárinu linnti, bendir þessi setning til þess að Sævar hafi rétt fyrir sér þegar hann fullyrðir að rannsóknarmenn hafi lagt til sögurnar sem sakborningar voru látnir segja. Sá hnífur sem hér um ræðir gæti sem best verið sá hinn sami og varð Guðmundi Einarssyni að bana samkvæmt lögregluskýrslum á ákveðnu stigi rannsóknarinnar en var þá sagður í höndum Kristjáns Viðars. Ekki virðist ólíklegt að lögreglumenn hafi á þessu tímabili velt fyrir sér þeim möguleika að gera Sævar að hnífstungumanninum.

Í viðtalinu við Samúel sem nefnt var hér að framan er sagt frá bréfi sem Örn Sigfússon las fyrir ritstjórann í síma þegar hann bauð honum bréfin til kaups. Í því bréfi er Sævar að segja frá vitnisburði Erlu um atburði á Hamarsbraut. Í bréfinu segir hann að Erlu hljóti að hafa dreymt þetta.

Þeim fáu vitnisburðum sem til eru um efni bréfanna ber sem sagt saman. Bréfin voru ekki samsæri. Í þeim voru sakborningar ekki að bera sig saman um hverju ætti að ljúga næst. Þau voru öll frá Sævari og hann ætlaðist til að að umheimurinn fengi einhverja vitneskju um hvað gerðist innan múranna.

Þó fullyrti Morgunblaðið að tveir gæslufangar sem sætu inni vegna GG mála hefðu skipts á bréfum. Þetta er sérstaklega athyglisvert vegna þess að fréttin er öll höfði eftir Erni Höskuldssyni sakadómara.

 

Næturrannsókn

Elsta heimild sem til er um bréfaskiptin í Síðumúlafangelsi er fangelsisdagbókin sjálf. Að kvöldi mánudags 24. maí eða faranótt þriðjudags skrifaði Gunnar Marinósson fangavörður:

Þá hefur staðið hér yfir leit á 2 föngum, þeim Sævari Ciesielski og Erni Sigfússyni vegna gruns eða ábendingar um bréfaskipti og tóbaks þeirra í millum. Reyndist sá grunur á rökum reistur. Var leitað í klefum beggja og fundust bréf hjá báðum og tóbak hjá Sævari sem ekki á að hafa neitt slíkt. Klefar beggja eru tómir af öllum munum og tóbaki og skal hvorugur hafa neitt hjá sér, hvorki ritföng né neitt nema það nauðsynlegasta til þrifnaðar. Þó þarf Sævar að hafa blýant til að ljúka sálfræðiprófi sem hann er að afgreiða en blýanturinn tekinn þegar því er lokið.

Aðspurður sagðist Sævar hafa fengið tóbakið að mestu í gegnum klósettin. Skal því sú regla framvegis hert aftur að leita vel á fyrrnefndum náðhúsum eftir að menn hafa þurft þangað til þvotta eða annarra erinda og ekkert á slakað.

Heimsóknir til Arnar sem leyfðar hafa verið, verða ekki leyfðar og verður dómara tilkynnt um það. Örn er á klefa 9 og verður þar. Sævar er á 15 áfram. Báðir mennirnir eru í fótajárnum og verða það þangað til annað verður ákveðið.

Til Sævars skulum við taka við sendingum, aðallega ef um ávexti er að ræða. Sæng hans var tekin frá honum og teppi sett í staðinn svo önnur sængurföt þarf hann ekki. Til Arnar tökum við ekki við neinum sendingum þar sem áætlun er um að hann losni 1. júní. Þarf einskis þangað til.

Undirstrikunin er fangavarðarins. Síðasta tímasetning dagbókarinnar á undan þessu er kl. 21 en þetta er það síðasta sem skrifað er í dagbókina áður en vaktaskipti urðu kl. 8 á þriðjudagsmorgni. Af einhverjum ástæðum virðist því sem kvöldið eða nóttin hafi verið valin til leitarinnar.

 

Fleiri bréf

Þrátt fyrir hina ýtarlegu leit og fótjárnin voru þeir Sævar og Örn ekki alveg af baki dottnir. Fimmtudaginn 27. maí kom séra Jón Bjarman og talaði við Sævar. Meðan á samtali þeirra stóð var leitað í klefa Sævars og "fundust bréf og eldspýtur og penni". Að teknu tilliti til málfars í fangelsisdagbók er ekki unnt að fullyrða að þetta orðalag bendi til þess að bréfin hafi verið fleiri en eitt. Eftir á er heldur ekki unnt að fullyrða hvort um ný(tt) bréf var að ræða eða að eitthvað sem Sævari hafi tekist að fela á sér á mánudagskvöldið.

Um þetta eða þessi bréf, svo og þau sem fangaverðirnir gerðu upptæk á mánudagskvöldið 24. maí er það eitt vitað að rannsóknarlögreglumaðurinn Sigurbjörn Víðir tók þau og fór með þau kl. 11,50 miðvikudaginn 16. júní. Síðan hefur ekki spurst til bréfanna en hvarf þeirra bendir óneitanlega til að þau hafi ekki verið talin rannsókn málsins til framdráttar.

Á það má líka benda að ef bréfin hefðu þó ekki nema gefið vísbendingu um samráð milli sakborninga eins og opinberlega var látið í veðri vaka, hefðu þau að líkindum einmitt talist vera rannsókn málsins til framdráttar. Þá væru þau að líkindum vandlega varðveitt meðal gagna málsins. Þó er þess einu sinni getið í fangelsisdagbók að til tals hafi komið að leggja fram eitt þessara bréfa sem sönnunargagn. Til þess kom þó ekki og nærtæk er sú skýring að rannsóknaraðilar hafi óttast að verða fyrir rétti krafðir um fleiri bréf ef þeir notuðu þetta eina.

 

Bréfin boðin til kaups

Örn Sigfússon bauð sennilega fjórum blöðum bréfin frá Sævari Ciesielski. Hjá Dagblaðinu sáu menn ekki ástæðu til að kaupa þau og birta en ljóst er að Dagblaðsmenn sáu bréfin og hafa a.m.k. lesið einhver þeirra. Örn Sigfússon setti upp 100 þúsund krónur en var vafalaust reiðubúinn að semja um miklu lægri upphæð. Það var því ekki verðið sem kom í veg fyrir að hið frjálsa, óháða, unga dagblað birti neyðarkall Sævars Ciesielskis og ýmis sjónarmið hans sem fram komu í þessum bréfum. Ástæðan liggur raunar í augum uppi. Það var ekki hagkvæmt fyrir Dagblaðið að birta bréfin. Fréttaflutningur þess af málinu byggðist allur á sekt Sævars og annarra sakborninga. Með því að birta bréfin hefði blaðið auk þess bakað sér óvild lögreglu og fangavarða og hefði t.d. verið útilokað frá lögreglufréttum.

Að því er fram kemur í fangelsisdagbók hefur Jón Thors, deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu haft af því spurnir að Örn Sigfússon hafi boðið Vísi bréfin til kaups. Örn bauð Samúel líka bréfin og sagðist í samtali við blaðið hafa haft samband við Vísi, Dagblaðið og Tímann. Vísir og Tíminn hafi neitað en Dagblaðið sýnt áhuga. Samúel náði samkomulagi við Örn um að borga honum 40 þúsund fyrir bréfin en áður en viðskiptin fóru fram var búið að handtaka Örn og gera bréfin upptæk.

Vísir og Dagblaðið birtu fréttir um málið sama daginn, þann 16. júní 1976. Í frétt Dagblaðsins kemur greinilega fram að þar hafa menn fengið að sjá bréfin, eða a.m.k. einhver þeirra, og átt kost á að birta þau. Það taldi blaðið ástæðulaust "eftir að hafa kynnt sér efni þeirra."

Samúelsgreinin og fangelsisdagbókin eru sannferðugustu samtímaheimildirnar um bréfaskiptin. Í Samúelsgreininni er haft eftir Erni Sigfússyni að hann hafi sent Sævari sígarettur undir klefahurðirnar auk þess sem allmörg bréf hafi farið á milli þeirra. Í fangelsisdagbók kemur heldur ekki fram að nein bréfaskipti hafi verið á milli annarra klefa.

 

Fangelsið hriplekt?

Það var þó á þessum tíma hald manna að ungmennin sem sátu í varðhaldi vegna Guðmundar og Geirfinnsmála hefðu skipst á bréfum. Þetta var fyllilega gefið í skyn í frétt Dagblaðsins. Fyrirsögnin og raunar fréttin öll gaf til kynna að fangelsið væri hriplekt og fangarnir skiptust á upplýsingum. Í frétt Dagblaðsins var meira að segja minnst á bréf sem Sævar hafði átt að fá frá Erlu og einhver hafði átt að skjóta undir hurðina hjá honum. Það gat tæpast nokkur hafa gert nema fangavörður.

Þessi póstþjónusta í fangelsinu var mörgum kærkomin frétt á þessum tíma. Hún útskýrði nefnilega hvernig á því gat staðið að gæsluvarðhaldsfangar breyttu framburði sínum allir samtímis. Bréfamálið skýrði fyrir almenningi hvernig á því stóð að saklausir menn höfðu verið hafðir í haldi mánuðum saman vegna framburðar Sævars, Kristjáns Viðars og Erlu. Þau höfðu einfaldlega skrifast á til að samræma framburði sína.

Hitt virðist ekki hafa hvarflað að nokkrum þeirra blaðamanna sem sáu bréfin að eitthvað kynni að vera athugavert við meðferðina sem fólk sætti í Síðumúlanum. Það hefði þó átt að vera auðséð á efni bréfanna. Nú er vitað að von Sævars var sú að dómsmálaráðuneytið fengi með þessu móti vitneskju um mannréttindabrotin í fangelsinu. Sævar var tvítugur að aldri og það virðist aldrei hafa hvarflað að honum að dómsmálaráðuneytið vissi hvað var að gerast innan veggja í Síðumúla 28. Því síður virðist hann hafa gert sér grein fyrir því að hinum virðulegu embættismönnum í ráðuneytinu kynni jafnvel að vera skítsama hvernig farið væri með hann.

 

Sönnunarbyrðin

Það er nokkuð merkilegt að því skuli enn haldið fram að gæsluvarðhaldsfangarnir hafi samræmt framburð sinn með bréfasendingum milli klefa. Þó virðist það enn fast í huga margra að einmitt þannig hafi legið í málinu. Nærtækast er að vitna til orða Jónatans Þórmundssonar prófessors í nýlegum Víðsjárþætti á Rás 1 í útvarpinu. Jónatan talaði þar um að sakborningar hefðu reynt að bjarga sér af bestu getu "með því að koma skeytum hver til annars" og var þar greinilega að vísa til bréfamálsins.

Sú draugasaga lifir sem sagt enn góðu lífi að bréfaskiptin í síðumúla hafi verið samráð sakborninga um að samræma framburð sinn.

Varðandi bréfamálið eru sem sagt til tvær kenningar. 1) Bréfin voru neyðarkall Sævars til umheimsins, einskonar neyðaróp úr því víti sem hann var í. 2) Bréfin voru samráð sakborninga til að samræma framburð.

Hvoruga þessa kenningu er unnt að sanna nema bréfin komi í leitirnar. Hvarf þeirra styður hins vegar fyrri kenninguna ótvírætt. Og sönnunarbyrðin hlýtur að teljast hvíla á þeim sem taldi sér hagstæðast að týna bréfunum, - ákæruvaldinu.

Jón Daníelsson