Kirkjan og mál 214:

Um þessar mundir standa fyrir dyrum biskupskosningar. Í tengslum við þær fara fram umræður á breiðum grundvelli um stöðu stofnunarinnar og afstöðu hennar til ýmissa mála. Íslenska þjóðkirkjan hefur sýnt það á ýmsum sviðum að hún er frjálslynd og umburðarlynd stofnun. Þó afstaða stofnunarinnar til samkynhneigðra og grínista hafi að sumra áliti ekki alltaf sýnt þetta frjálslyndi í raun, eru önnur atriði sem virðast taka af öll tvímæli þaraðlútandi. Dæmi um slíkt er afstaða stofnunarinnar til eins af sínum eigin þjónum. Vestur á Snæfellsnesi starfar um þessar mundir prestur nokkur sem nýtur mikillar hylli, bæði meðal sóknarbarna sinna og annara sem til starfs hans þekkja. Þessi ágæti prestur var fyrst skipaður í embættið, síðan kosinn með fáheyrðum yfirburðum og hlaut vígslu 30.júní 1996. Ekki væri þetta í frásögur færandi nema etv. vegna þess að 22. febrúar 1980 varð þessi ágæti maður fyrir því óláni ásamt fjölda annara að vera dæmdur af Hæstarétti Íslands í frægasta sakamáli Íslandssögunnar. Þar sem þessi sorglega staðreynd varð ekki að neinu leyti til að torvelda Biskupi að veita prestinum blessun til starfans, væri fróðlegt að fá fram afstöðu kirkjulegra yfirvalda til mannsins og þess fræga sakamáls sem hann var dæmdur í. Í fljótu bragði mætti ætla að kristilegt umburðarlyndi kirkjunnar sé slíkt að það þarfnist engrar umræðu að maður með slíkan dóm hljóti prestvígslu. Fyrirgefning syndanna er nokkuð sem öllum veitist fyrir náð Drottins, að því tilskyldu að menn játi og iðrist. En þar sem umræddur kirkjunnar þjónn hefur gert hvorugt, heldur lýst því í helstu fjölmiðlum hvernig hann var með einangrun og geðlyfjagjöf þvingaður til að játa glæpi sem hann kom hvergi nærri, getur aðeins verið ein skýring á fálæti kirkjulegra yfirvalda hvað varðar þetta mál:

Að stofnunin hafi ekki fremur en aðrir trú á málatilbúnaði á hendur þessum manni hér fyrr á öldinni í svonefndu Geirfinns og Guðmundarmáli. Með hliðsjón af framansögðu er það eðlileg og skýlaus krafa til Ráðherra kirkjumála að hann skipi sér þegar í stað í fylkingarbrjóst í baráttunni fyrir endurupptöku fyrrnefndra þátta Hæstaréttarmáls 214/1978.

Tryggvi Hübner.