Var jarðað eða skírt?

Um þær mundir sem endurupptökubeiðni SMC var tekin fyrir af Hæstarétti heyrðust fljótlega þær raddir að Hæstiréttur Íslands kæmi fram sem stjórnvald í þessu máli. Um yrði að ræða stjórnvaldsákvörðun en ekki dómsathöfn. Engar raddir heyrðust mæla þessu fyrirkomulagi bót, hins vegar fylgdi gagnrýni þeirri sem fram kom á þetta þær upplýsingar að aðeins tvö Evrópuríki: Ísland og Tyrkland byggju við slíkt fyrirkomulag. Minnst var á þetta m.a. í umræðuþættinum

"Undir sönnunarbyrðinni" í ríkissjónvarpinu og mátti þar heyra á dómsmálaráðherra, Þorsteini Pálssyni að hann áliti að þetta ríkjandi fyrirkomulag þarfnaðist etv. endurskoðunar. Lögfræðingar tjáðu sig um þetta í fjölmiðlum, t.d. skrifaði Baldvin Haraldsson grein í Mbl:

"Réttindi þegnanna og æðri stjórnvöld"

Það sem allir virtust hinsvegar vissir um; lögfræðingar, fræðimenn og Dómsmálaráðherra var: Að þetta væri stjórnvaldsákvörðun.

Það þótti því óneitanlega nokkur tíðindi þegar, í lok sept.1997, u.þ.b. 3 mánuðum eftir að HR skilaði úrlausninni, barst talsmanni SMC bréf frá forseta Hæstaréttar, þess efnis að um hefði verið að ræða dómsákvörðun en ekki stjórnsýsluákvörðun.

Það er vissulega utan þekkingarsviðs þess leikmanns sem hér ritar, að útskýra til neinnar hlítar mun á stjórnvaldsákvörðun og dómsákvörðun. Það er þó ljóst að gagnvart þeim sem endurupptöku óskar er munurinn m.a. sá, að ákvörðun stjórnvalds má kæra til umboðsmanns Alþingis en dómsákvörðun Hæstaréttar er endanleg og verður ekki áfrýjað, amk. ekki innanlands.

Grein Ragnars Halldórs Hall í Úlfljóti 3.tlbl. nefnist "Er þörf á breytingu efnisreglna laga um heimildir til endurupptöku dæmdra opinberra mála" Í greininni kemst Ragnar að þeirri niðurstöðu að svo geti verið og segir:

"Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að rétt sé að huga að því, hvort ástæða sé til að breyta reglum um meðferð endurupptökubeiðna. Þar á ég við, hvort rétt kunni að vera að leysa úr endurupptökukröfu með dómi í stað þess að fjalla um hana sem stjórnsýsluákvörðun"

Með þessum ummælum Ragnars Hall virðist ljóst að hann álítur enn eftir að úrlausn HR liggur fyrir að um hafi verið að ræða stjórnvaldsákvörðun. Þar sem í ljós kom með bréfi forseta Hæstaréttar til talsmanns SMC í septemberlok að svo var ekki vaknar í huga leikmanns spurningin: Var meðferð málsins fyrir Hæstarétti ekki í samræmi við efnisreglur laga um heimildir til endurupptöku dæmdra opinberra mála? Skv. ummælum Ragnars Hall virðist svo ekki vera.

Eins og bent hefur verið á hafa ýmsir lögfróðir menn tjáð sig um þetta atriði. Það hafa einnig ýmsir leikmenn gert. Haft er eftir einum slíkum: "Biskup jarðsöng mann við hátíðlega athöfn. Á fremsta bekk í kirkjunni sátu ráðherra kirkjumála, prestar og sérfræðingar í kirkjulegum athöfnum og fylgdust með í andagt sem og almenningur á aftari bekkjum. Þremur mánuðum síðar barst bréf frá biskupnum, þess efnis að í raun hefði ekki verið um að ræða útför mannsins, heldur hafi í raun verið um skírnarathöfn að ræða, maðurinn verið skírður Jón.

T.H.

Í grein sinni í Úlfljóti segir Ragnar Aðalsteinsson m.a:

"Um meðferð málsins fyrir Hæstarétti og niðurstöðu Hæstaréttar er það að segja að augljóslega var ekki um dómsmeðferð að ræða í þeim skilningi sem lagt er í það hugtak nú. Sjö manna nefnd var falið að fara með málið, skipuð sex dómurum Hæstaréttar og einum héraðsdómara. Beiðni SMC var aðeins tekin fyrir á einum stuttum bókuðum fundi þessara sjö nefndarmanna, er 250 blaðsíðna löng úrlausnin var lögð fram og samþykkt sem úrlausn en ekki dómur. Þar af leiðandi er ekki vitað hvernig haldið var á málinu fram að því og hverjir tóku þátt í málsmeðferðinni á hverjum tíma. Hæstiréttur fjallaði ekki um það sjónarmið, að SMC ætti rétt á málsmeðferð fyrir dómi, en ekki stjórnvaldi. Hæstiréttur fór með málið sem stjórnvald, en braut jafnframt margar af meginreglum stjórnsýsluréttarins, svo sem rannsóknarregluna. Nefndarmennirnir sjö virðast því hvorki hafa gætt sjónarmiða réttarfars né stjórnsýslureglna. Hæstiréttur skipaði SMC talsmann en ekki verjanda við meðferð málsins. Dómsmálaráðherra fól settum ríkissaksóknara að fara með málið af ákæruvaldsins hálfu. Sá meinaði talsmanni SMC um aðgang að þeim gögnum sem voru í fórum ríkissaksóknara á þeim forsendum m.a. að óljóst væri hver staða talsmannsins væri í málinu. Settur ríkissaksóknari tók ekki að sér sjálfstætt né í samvinnu við talsmann að afla gagna til að leiða í ljós m.a. þau atriði sem horfðu SMC til sýknu eins og honum ber að gera við rannsókn máls og meðferð fyrir dómi skv. 31.gr. laga nr.19/1991 heldur skildi hlutverk sitt þannig að hann ætti að verja þá meðferð og þá úrlausn sem fyrir lá við upphaf endurupptökumeðferðar."