Kórdrengir Hæstaréttar

 Fyrir skemmstu ritaði Jónas Kristjánsson ritstjóri leiðara hér í blaðinu þar sem hann ber blak af ákvörðun Hæstaréttar að hafna beiðni Sævars Ciesielskis um endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála. Ritstjórinn telur fátt nýtt hafa komið fram sem styðji upptökumálið og hefur af því áhyggjur að ,,sumt ungt fólk virðist hins vegar ímynda sér, að í þetta sinn hafi rétturinn verið með nýjar upplýsingar í höndunum." Gefið er í skyn að eldri og fróðari menn viti betur. Þetta er sjálfsagt sagt í trausti þess að fólk þekki ekki málavexti og lagareglur. Og það jafnvel þótt um málið hafi verið skrifaðar bækur og fjöldinn allur af blaðagreinum, og sjónvarpsþáttur sýndur, þar sem fram koma staðreyndir og gögn, sem lágu ekki fyrir þegar dómar voru kveðnir upp á sínum tíma.

 Hall og kaupið

 Hér er ekki olnbogarými til að rifja upp þá býsn af nýjum upplýsingum sem fylgdu endurupptökubeiðninni, en vísað þess í stað á bók Sævars, Dómsmorð, þar sem ítarlega og vel rökstudda greinargerð Ragnars Aðalsteinssonar hrl. er að finna. Greinargerðin er mesti áfellisdómur á vestrænt réttarfarskerfi sem fallið hefur á síðari tímum og ber þess merki að Ragnar hafi unnið starf sitt af vandvirkni. Sama verður ekki sagt um vinnubrögð skipaðs ríkissaksóknara, Ragnars H. Halls, sem réttilega hefur verið nefndur hirðfífl Hæstaréttar. Heilu ári eftir að hann var settur til verksins sendir hann loks til Hæstaréttar fjögurra síðna snepil þar sem hann tiltekur ekki mikilvæg gögn sem honum voru afhent og með augljósum rangfærslum ef ekki vísvitandi lygum leggur til að beiðninni verði hafnað.

 Erfitt er að átta sig á því hvað Hall aðhafðist allan þennan tíma. Freistandi er að álykta að hann hafi ætlað sér að svæfa málið enda hafði barátta Sævars þá ekki vakið athygli útbreiddustu fjölmiðla landsins, eins og síðar varð. Hall hefur jafnvel trúað því að endurupptökukrafan yrði ekki tekin alvarlega og því ekki nennt að setja sig inn í málið. [Athyglisvert væri að vita hvað Ragnar Hall fær greitt fyrir viðvikið og hvort hann hefur haft fjárhagslegan ávinning af drættinum]. Hæstarétti hefur líklega mislíkað skussaskapurinn og skipar Sævari löglærðan talsmann, þó honum væri það ekki skylt lögum samkvæmt. Formlegur snobbstimpill var þar með kominn á málið. Ragnar Hall þurfti að fara að vinna fyrir kaupinu sínu.

 Clausen og kokkteilboðin

 Örn Clausen er annar lögmaður sem telur almenning í landinu svo heimskan að óhætt sé að bera á torg hvaða kjaftæði sem er. Hann fullyrðir að játningarnar hafi ekki verið fengnar með bolabrögðum því þá hefðu ,,einhverjir þessara saklausu manna sem sátu einnig í gæsluvarðhaldi játað líka"! Viðurkennt er að meðferðin á þeim var önnur og betri. Einangrunarvistin og ruddaskapurinn dugði þó til þess að skömmu áður en að Einari Bollasyni var sleppt var hann farinn að trúa því að hann væri sekur um mannshvarf sem hann vissi ekkert um. Clausen þykist vita allt miklu betur en fangaverðirnir sem störfuðu í Síðumúlafangelsi á þessum tíma og vitnuðu um misþyrmingarnar sem þar fóru fram.

 

Hann staðhæfir einnig að Guðjón Skarphéðinsson og skjólstæðingur sinn, sem ákærður var fyrir aðild að málinu, hafi aldrei dregið játningar sínar til baka. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Í málsskjölum sem fylgdu upptökumálinu neita þeir báðir að hafa nokkra vitneskju um þessi mál. Vitnisburður þeirra hafi á sínum tíma komið frá rannsóknaraðilum sjálfum. Clausen lét einu sinni í umræðu um Geirfinnsmálið þau orð falla að ,,menn bakki ekki út úr játningum". Furðuleg ummæli sem lýsa mikilli fáfræði því til er sérstök fræðigrein í réttarsálfræði sem fjallar um ósannar játningar. Örn Clausen er sáttur við niðurstöðu Hæstaréttar, niðurstöðu sem gengur þvert á hagsmuni hans eigin skjólstæðings. Hann gefur hugtakinu höfðingjasleikja nýja merkingu.

 

(Birtist sem kjallaragrein í D&V í júlí 1997. Það sem hér er sett í hornklofa var af einhverjum kynlegum ástæðum fellt úr greininni. Kannski hitti ég þar naglann á höfuðið.)