Endurupptaka Geirfinnsmálsins

 Flestir fjölmiðlar landsins hafa verið einkennilega áhugalausir um beiðni Sævars Ciesielskis um endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála. Margur hefði haldið að fjölmiðlar, er birtu nær daglega fréttir af þessum sömu sakamálum fyrir tuttugum árum, hefðu séð ástæðu til að birta glefsur úr greinargerðinni er lögð var fyrir dómsmálaráðuneytið þann 23. nóvember síðastliðinn.

 Þar gagnrýnir Sævar Ciesielski harðlega rannsókn og dómsmeðferð fyrrnefndra mála og heldur því fram að fjarvist sín í málunum báðum hafi verið hundsuð. Það er ekki á hverjum degi að mál af þessu tagi kemur til kasta ríkissaksóknara.

 Undirritaður var þess vegna agndofa þegar honum varð ljóst að ekkert dagblað, að Alþýðublaðinu undanskildu, hafði áhuga á að skýra frá sjónarmiðum Sævars né birta útdrátt úr greinargerðinni þó þeim stæði það til boða. Varla getur slík afstaða verið í anda frjálsrar fjölmiðlunar eða borið vott um þjónustusemi við lesendur.

 Hvert klúðrið á fætur öðru

 G.G.-málin hafa sérstöðu í réttafarssögu vestrænna þjóða. Burtséð frá sekt eða sakleysi saborninga eru þau Íslendingum til stórfelldrar skammar. Rannsóknarvald og dómsvald var á sömu hendi en sú tilhögun samrýmist ekki mannréttindasáttmála Evrópu, sem Ísland var og er aðili að. Jafnframt var það brotalöm í dómsmeðferð að ákærðu fengu ekki að kynna sér sakargögn fyrr en löngu eftir að kveðinn var upp dómur í Sakadómi Reykjavíkur. Þessi vinnubrögð samrýmast ekki mannréttindasáttmála Evrópu.

 Sævar Ciesielski var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna póstsvikamáls en síðan yfirheyrður um allt annað mál. Úrskurðurinn var byggður á röngum forsendum og hann er hvergi að finna í dómsgögnum G.G.-mála.

 Stutt eftir handtöku var lagt hald á persónulegar eigur Sævars, húsgögn og aðrir munir voru fjarlægðir af heimili hans og húsaleigusamningi sagt upp. Þetta var gert án dómsúrskurðar og er því brot á stjórnarskrá landsins. Það vekur einnig furðu hvaða tilgangi þessi ráðstöfun þjónaði þar sem hann hafði á þeim tíma ekki verið bendlaður við umrædd mannshvörf. Var þá þegar búið að hanna atburðarás G.G.-mála og ætla honum hlutdeild í þeim?

 Hámarks einangrun

 Rannsóknardómari fór ekki að lögum er hann neitaði að bóka harðræðisákæru við upphaf rannsóknar á hvarfi Guðmundar Einarssonar. Lögmönnum ákærðu var meinað að vera viðstaddir yfirheyrslur eða fá yfirleitt að hitta skjólstæðinga sína. Slíkt þykir ekki sæmandi í réttarríki. Fangelsið að Síðumúla var ólögleg vistarvera samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Þegar húsnæðinu var breytt í fangageymslu var gert ráð fyrir því að menn væri hafðir þar í haldi í mesta lagi sólarhring. Sævar var hafður í eitt og hálft ár í sex fermetra klefa með óopnanlegum glugga og suðandi loftræstikerfi dag og nótt, er blés misheitu lofti inn í klefann.

 Hann var hafður í hámarkseinangrun í tvö ár. Ljós var látið loga í klefanum allan sólarhringinn, vikum saman. Haldið var vöku fyrir honum með háreysti og ryskingum. Honum var meinað um útivist og sviptur tóbaki, lesefni og skriffærum mánuðum saman. Tvívegis var hann hafður í fótjárnum í sex vikur alls og í níu mánuði þurfti hann að vera án sængurfatnaðar. Hann var hafður á sterkum lyfjum, þunglyndis- og vöðvaslakandi án þess að gangast undir læknisskoðun sérfræðings. Þegar hann losnaði úr einangruninni var hann því sem næst mállaus sökum fásinnis. Það tók hann mörg ár að venjast því að vera innan um margmenni. Hæstiréttur Íslands lét hafa sig í það að flokka slíka meðhöndlun ekki undir harðræði.

 Er til of mikils ætlast þegar farið er fram á að maður, sem hefur komist óskaddaður frá slíkri eldraun, fái tækifæri til þess að greina frá sinni hlið mála?

 (Birtist sem kjallaragrein í D&V í maí 1995)