18.júlí 1997

Blygðun mun hjúpa nöfn þeirra

 Klukkan ellefu fyrir hádegi síðastliðinn þriðjudag öðluðust sjö miðaldra karlmenn í Reykjavík eilíft líf. Ég á vitaskuld ekki við að þeir hafi dáið- fjarri því- heldur öðluðust þeir eilíft líf í þeim skilningi að nú er orðstír þeirra tryggður; þeir munu aldrei gleymast í grámósku sögunnar, nöfn þeirra verða meira en einungis prentsverta í ættfræðiriti sem enginn les, þeir munu þvert á móti verða umtalaðir í bókum sem menn munu lesa með áhuga og jafnvel áfergju, það verða myndir af þeim í bókunum og meira að segja eftir mörg hundruð ár munu menn skeggræða og deila um hvað þeim gekk til klukkan ellefu fyrir hádegi síðastliðinn þriðjudag.

"Orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur", segir í Hávamálum og má til sanns vegar færa, en það munu því miður verða örlög þessara sjömenninga að komast að því að orðstírinn þarf ekki endilega vera góður til að deyja aldregi, hann getur jafnt verið slæmur. Þessir sjö miðaldra karlmenn í Reykjavík heita Allan Vagn Magnússon, Arnljótur Björnsson, Garðar Gíslason, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein. Þeir eru allir Hæstaréttardómarar og það sem þeir unnu sér til frægðar var að hafna beiðni Sævars Ciesielskis um að taka upp að nýju hin svonefndu Guðmundar-og Geirfinnsmál.

Verður minnst fyrir hugleysi

Það var reyndar nokkurnveginn sama hvað þeir sjömenningar hefðu gert á þriðjudaginn var- eilíft líf þeirra í sögunni var undir öllum kringumstæðum tryggt. Þeir stóðu frammi fyrir því hvort leiðrétta ætti hróplegt, augljóst og skammarlegt ranglæti sem átti sér stað í íslensku réttarkerfi fyrir tuttugu árum síðan, og það er vitað mál að hinar mörgu hliðar Guðmundar- og Geirfinnsmálanna munu síður en svo gleymast með tímanum, eins og svo margir innan réttarkerfisins vildu þó óska að það gerði. Um það verða skrifaðar bækur, ritgerðir, búnar til bíómyndir, sjónvarpsþættir og hvaða tjáningarform svo sem verða notuð í framtíðinni, þá munu Guðmundar-og Geirfinnsmálin skjóta þar upp kollinum með reglulegu millibili. Og dómararnir sem tóku afstöðu til endurupptökubeiðni Sævars Ciesielski munu síst gleymast. Ef þeir hefðu tekið þá afstöðu að málið skyldi sótt og varið að nýju, þá hefðu þeir öðlast orðstír sinn fyrir réttsýni, heiðarleika og þó einkum og sér í lagi fyrir hugrekki- en úr því svona fór á þriðjudaginn klukkan ellefu verði því miður örlög þeirra Allans, Arnljóts, Garðars, Hjartar, Hrafns, Markúsar og Péturs að verða minnst fyrir þröngsýni, rangsleitni og þó einkum og sér í lagi fyrir hugleysi.

Andúð og vorkunnsemi

Sennilega verður minning þeirra hjúpuð sömu blöndu af andúð, hryllingi og vorkunnsemi sem umlykur minningu þeirra sýslumanna og dómara á fyrri öldum sem kváðu upp dauðadóma fyrir litlar eða engar sakir- í besta falli verða þeir sjömenningar taldir hlægilegar gungur og úreltir verjendur feyskinna viðhorfa í íslensku réttarkerfi. Í framtíðinni, sem kann vissulega að virðast fjarlæg í augnablikinu, því hún felur í sér að búið verði að hreinsa ærlega til í íslensku réttarkerfi, en þá munu laganemar á fyrsta ári skrifa ritgerðir þar sem rök Hæstaréttardómaranna í "úrlausninni" frægu verða hrakin skilmerkilega og lagaprófessorar framtíðarinnar munu hrista höfuðið neyðarlega þegar nemendur þeirra spyrja hvernig í ósköpunum annað eins gat gerst á síðustu misserum tuttugustu aldar.

Orðstír þeirra sjömenninga mun meira að segja verða enn þá hrapalegri en þeirra sem Hæstaréttar-og héraðsdómara sem upphaflega kváðu upp dómana í Guðmundar-og Geirfinnsmálunum, vegna þess að þeim dómurum verður virt það til vorkunnar að þeir hafi hrifist með í galdraofsóknum sem heltóku réttarkerfið og reyndar samfélagið allt, en engar slíkar afsakanir munu gilda um Allan, Arnljót, Garðar, Hjört, Hrafn, Markús, og Pétur. Þeir hefðu átt að vita betur og ég trúi reyndar ekki öðru en að þeir viti betur, en eigi að síður varð úrskurður þeirra þessi.

Þvo burt smánarblett

Nú skal ég ekkert fullyrða hér og nú afdráttarlaust að hinir upphaflegu dómar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum hafi endilega verið rangir og allir blásaklausir sem dæmdir voru. Ég er að vísu þeirrar skoðunar, mjög eindregið, og það er rétt að það komi fram að ég hef vissulega kynnt mér málið afar vel, þessi skoðun verður ekki afgreidd með því að ég og aðrir fjölmiðlamenn viti ekkert um þennan hroða allan í smáatriðum- eins og borið hefur á síðustu daga. Ég hef nú síðast lesið "úrlausn" Hæstaréttar mjög vandlega og furða mig stórlega á því hvernig mennirnir geta horft fram hjá því augljósa- að málatilbúnaðurinn á sínum tíma var svo fáránlegur og ranglátur að þetta mál hefði aldrei átt að koma til dóms í því formi eða formleysu sem það var. Því jafnvel burtséð frá sekt eða sakleysi hinna dæmdu, þá er þó að minnsta kosti svo dagljóst að þeir fengu ekki réttláta meðferð í kerfinu, hvorki af hendi lögreglu eða dómara að það eitt hefði átt að tryggja að málið yrði tekið upp að nýju - til þess að eyða öllum vafa, til þess að þvo burt þann smánarblett á íslensku réttarkerfi sem Guðmundar og Geirfinnsmálin verða talin í framtíðinni.

En dómararnir sjö þorðu ekki. Þeir vissu vel að langstærstur hluti íslensku þjóðarinnar lítur svo á að rangir dómar hafi verið kveðnir upp í umræddum málum og þeir vissu að þau eiga langsamlega stærstan -en reyndar ekki allan þátt í því að íslenska dómskerfið nýtur nú ekki trausts nema hjá litlum hluta landsmanna. Og þeim stóð til boða að endurvekja það traust, fyrir nú utan að nema þeir séu blindir hljóta þeir að sjá sjálfir að gallarnir á öllu málinu voru svo stórkostlegir að það getur með engu móti verið forsvaranlegt að láta því óraskað. En þeir þorðu ekki.

Það hafði nefnilega í för með sér að þeir hefðu orðið að hrófla við opinberum orðstír þeirrar stofnunar sem þeir tilheyra nú sjálfir, róta í kerfinu sem þeir eru aldir upp í, og láta rannsaka gerðir manna sem þeir þekktu og hafa sjálfsagt hitt reglulega í kokteilboðum í gegnum tíðina. Þeir hefðu þurft að draga í efa dómgreind þessara virðulegu manna í sínum virðulegu embættum, draga þá niður af þeim stalli sem þeir hafa setið á óhaggaðir svo lengi. Og dómurunum sjö til eilífrar smánar, þá treystu þeir sér ekki til þess.

Þeir láta sem smánarbletturinn sé ekki til, dómskerfið allt sé óskeikult og allt sé slétt og fellt í lífinu eins og það var áður, þegar ekki tjóði að deila við dómarann. Allir mega vita betur, en yfirborðið skal ekki gárað. Við spilum á fiðlu meðan Róm brennur og lyftum glösum huggulega meðan traust almennings á íslensku réttarkerfi fer til andskotans.

Því vart getur það verið sannfæring dómaranna að sekt sakborninga í Guðmundar-og Geirfinnsmálum sé svona augljós, þá finnst mér þeir hefðu einmitt átt að láta taka málið upp að nýju svo allur vafi væri á brott og orðstír hinna fyrri dómara muni ekki ævinlega verða galli blandinn, hvað þá annara þeirra mektarmanna sem unnu að málunum en almenningur dregur nú heilindi þeirra og/eða hæfni í efa.

Hall er hirðfíflið

En með dómurunum til eilífs lífs gekk á þriðjudaginn Ragnar nokkur Hall sem sem hafði verið settur ríkissaksóknari í málinu og hann tók að sér að vera nokkurs konar blaðafulltrúi Hæstaréttar og verja ákvörðun þeirra í fjölmiðlum- þar sem Hæstaréttardómarar í fílabeinsturni sínum þurfa að sjálfsögðu aldrei að láta svo lítið að skýra ákvarðanir sínar fyrir sauðsvörtum almúganum, láta í hæsta lagi þvílíka blaðafulltrúa sína benda með stærilæti á að almenningur og fjölmiðlamenn viti auðvitað ekkert um hvað snýst. Ég er smeykur um að í bókum og kvikmyndum framtíðarinnar muni Ragnar þessi Hall gegna hlutverki eins konar hirðfífls Hæstaréttar- svo hressilegar voru sumar yfirlýsingar hans, en í bili er auðvitað ekkert skemmtilegt við flest það sem hann lét frá sér fara.

Eitt af því sem hann missti út úr sér sýnir þó kannski í raun kjarna málsins. Hann sagði sem svo að menn skyldu ekki ímynda sér að sakborningar í Guðmundar-og Geirfinnsmálum hefðu verið einhverjir sakleysingar- þeir"hefðu ekki verið neinir kórdrengir sem sóttir hefðu verið inn í fermingarveislu", og hvað væri fólk því eiginlega að æsa sig?

Ef þetta er hugarfarið sem ríkir innan íslenska réttarkerfisins, þá hefði ég ekki þurft að láta ákvörðun Hæstaréttar koma mér svo á óvart sem raun varð á - en ég skal játa að ég var svo barnalega bjartsýnn að ég trúði því statt og stöðugt að Hæstiréttur mundi láta taka málið upp að nýju. Sú staðreynd að sumir sakborninganna í Guðmundar og Geirfinnsmálunum höfðu lent á villigötum í lífinu, og nokkrir þeirra jafnvel unnið fólskuverk, sú staðreynd verður í huga setts ríkissaksóknara að réttlætingu þess að málið skuli ekki endurskoðað. Þetta voru glæpamenn og þrjótar upp til hópa- hvað hafa þeir með réttlæti að gera?

Þegar orðstír þeirra er annars vegar, en orðstír kerfisins hins vegar- orðstír Hæstaréttardómaranna, héraðsdómaranna, saksóknaranna, rannsóknarlögreglustjóranna og svo framvegis, það er að segja kórdrengjanna- þá mátti skilja á Ragnari Hall að ekki þyrfti að athuga málið frekar.

Sævar fái fálkaorðuna

Og Ragnar Hall fær sjálfsagt með tímanum embætti Hæstaréttardómara að launum fyrir vel unnin störf og getur notið þeirrar virðingar og þeirra fríðinda sem starfið hefur í för með sér- full full laun til æviloka og sjálfsagt fálkaorðan á hentugum tíma, eins og Hæstaréttardómarar fá. En sú virðing sem embætti Hæstaréttardómara hafði til skamms tíma í för með sér er reyndar þorrin og að engu orðin- nú sjá menn að Hæstaréttardómarar líta á það sem hlutverk sitt fyrst og fremst að varðveita ímynd og orðstír þeirra sjálfra og fyrirrennara sinna, varðveita glæsileikann í fílabeinsturninum, sópa undir teppið öllu kuski í hinu eilífu fermingarveislu. Og íslenskt réttarkerfi verður áfram einkamál fáeinna snyrtilegra kórdrengja- og þeirra helstu tengsl við raunveruleikann verða að hitta sína líka í kokteilboðum þegar þeir hljóta fálkaorðuna- nú, eða þá stöku sinnum í sundi.

En eigi nokkur maður sem þessi mál snerta skilið fálkaorðu- verði sá orðugarmur nokkurn tíma annað en virðingarvottur kerfisins til sinna þægustu og trúustu þjóna- þá er það Sævar Ciesielski sem ætti að hljóta orðu eftir að hafa barist öll þessi ár gegn óréttlætinu, gegn rangindunum, ósanngirninni og kerfinu öllu, eftir að hafa barist gegn ofureflinu af aðdáunarverðri seiglu og vissulega haft ósigur í þetta sinn en mun þó áreiðanlega uppskera betri orðstír í framtíðinni en samanlagður Hæstiréttur, þótt enginn kórdrengur sé hann, né hafi verið.

Framtíðin fellir dóm.

Og enn ætlar hann ekki að gefast upp, þótt ótrúlegt sé eftir meðferð Hæstaréttar og hina ótrúlega hrokafullu afgreiðslu Ragnars Hall. Það væri óskandi að þegar að því kemur, sem allt útlit er fyrir- að málið verði að fara fyrir mannréttindadómstól í útlöndum og réttlætið verði að koma þaðan, að utan, íslensku réttarkerfi til ævarandi háðungar, þá muni fólk hlaupa undir bagga og aðstoða Sævar Ciesielski í sókn sinni eftir réttlæti, því réttlæti er dýrt ,eins og Ragnar Aðalsteinsson talsmaður Sævars komst að orði.

Það er hagsmunamál okkar allra að að hreinsað verði til í því réttarkerfi sem nú hefur reynst vera í senn svo feyskið og þó svo rammlega víggirt, og kórdrengjunum verði úthýst úr þeirri fermingarveislu sem er í raun lokið í hugum allra annara en þeirra sjálfra. En hvort heldur formlegt réttlæti næst fram eður ei, þá mun framtíðin fella sinn dóm og sá verður harður. Það skulu þeir ekki efast um - Allan Vagn Magnússon, Arnljótur Björnsson, Garðar Gíslason, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein. Þetta mál er ekki úr sögunni þrátt fyrir "úrlausn" þeirra, það verður ekki úr sögunni og blygðun mun hjúpa nöfn þeirra.

Illugi Jökulsson