Laugardagur 13. september 1997. -

Löggjafinn hlýtur að líta svo á að stjórnvaldsákvörðun Hæstaréttar um að fallast ekki á endurupptöku máls, sé endanleg, segir Baldvin Björn Haraldsson. En af hverju kveður Hæstiréttur þá ekki einfaldlega upp dóm?

Réttindi þegnanna og æðri stjórnvöld

"HVENÆR drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann? Fari í helvíti sem ég drap mann. Og þó," sagði snærisþjófurinn sem dæmdur var fyrir böðulsdráp og settur á Brimarhólm.

Brimarhólmarinn sat sína pligt og mál hans var ekki endurupptekið enda sótti hann ekki um það með formlegheitum. Í þá daga voru mál ekki endurdæmd eins og í dag. Menn voru bara dæmdir fyrir böðulsdráp og ekki orð um það meir. Þá riðu hetjur um héruð og sveitir en snærisþjófar sátu á Brimarhólmi og tuggðu skro.

Öldin er önnur

En þetta var fyrir margt löngu og nú er öldin önnur. Í dag er miklu meiri spurning hvenær menn drepa mann og hvenær menn drepa ekki mann. Og séu menn fundnir sekir um að drepa mann er ekki þar með sagt að þeir hafi endilega drepið mann. Kannski eru menn bara snærisþjófar sem játuðu í fylliríi að hafa drepið mann.

Í dag erum við Íslendingar meðvitaðir um réttindi þegnanna til þess að hjálpa dómstólunum við að láta réttvísina ná fram að ganga. Við vitum nefnilega að dómstólar eru ekki óbrigðulir frekar en annað í heiminum. Og til að leggja áherslu á það, gerðust Íslendingar aðilar að Mannréttindasáttmála Evrópu, en þar segir að ekki megi dæma snærisþjóf fyrir böðulsdráp án þess að snærisþjófur fái að bera hönd fyrir höfuð sér, skýra sitt mál og rökstyðja sýknu sína. Og til að tryggja enn

frekar réttindi þegnanna er kveðið á um það í íslenskum lögum að snærisþjófar sem hlotið hafa dóm fyrir böðulsdráp, geti sótt um að fá mál sitt endurupptekið ef nýjar upplýsingar sem fram hafa komið þykja kasta rýrð á sekt hins dæmda.

Hver dæmir dómarana?

Já, það eru sjálfsögð réttindi þegnanna að láta dæma aftur mál sitt, hafi það upphaflega verið dæmt vitlaust. En hver er svo lögskyggn að geta endurmetið ákvarðanir hins virðulega réttarkerfis? Hver dæmir gjörðir dómenda? Og ekki er nóg að einhver endurskoði. Einhver verður auðvitað að ákveða hvort yfir höfuð skuli endurskoða. Hver metur hvort nýjar upplýsingar sem sýna að snærisþjófur sé saklaus af böðulsdrápi séu nægur grundvöllur til endurskoðunar á dómsniðurstöðu í böðulsdrápsmáli?

Líklega getur enginn endurmetið eða ákveðið að endurmeta, niðurstöður dómstóla betur en dómstólarnir sjálfir. Ójá, það eru réttindi þegnanna að dómarar taki ákvörðun um hvort endurskoða skuli dóm sem þeir sjálfir hafa kveðið upp og að þeir hinir sömu endurskoði svo dóminn, telji þeir efni til þess.

Ríkisvaldið

Á Íslandi skiptist ríkisvaldið í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Framkvæmdavald á Íslandi er í höndum staðbundinna stjórnvalda og ráðuneyta. Stjórnvöld geta tekið ákvarðanir um réttindi og skyldur þegnanna, rétt eins og dómstólar. Þó er sá grundvallarmunur á framkvæmdavaldinu og dómsvaldinu á Íslandi, að dómstólar skera úr um

embættistakmörk framkvæmdavaldsins en framkvæmdavaldið endurmetur aldrei niðurstöður dómstóla. Dómendur hafa síðasta orðið þegar deilt er um það hvenær maður drepur mann.

Á Íslandi eru tvö dómstig. Þess vegna geta sakaðir menn sem sakfelldir eru í héraðsdómi, áfrýjað niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar. Niðurstöðu Hæstaréttar verður ekki skotið til æðra dóms, né heldur til stjórnvalds. Úrræði sökunauta sem telja sig verið hafa ranglega sakfellda í Hæstarétti eru því ekki önnur en þau, að krefjast þess að mál þeirra verði endurupptekið af Hæstarétti.

Æðri stjórnvöld

Endurupptaka mála sem dæmd hafa verið í Hæstarétti fer þannig fram að Hæstiréttur Íslands tekur ákvörðun um það hvort mál verði endurupptekið eður ei. Telji Hæstiréttur að mál eigi að endurupptaka, verður mál endurupptekið. Svo einfalt er það. Og þó. Telji Hæstiréttur að mál eigi ekki að endurupptaka, er komin upp afar sérstök og athyglisverð staða samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

Dómendur í Hæstarétti skulu, samkvæmt íslenskum lögum og Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, vera óháðir ákvörðunum stjórnvalda og sjálfstæðir í störfum sínum. Þeir skulu ekki hafa með höndum önnur störf svo sem stjórnsýslu, enda fara sýslumenn og ráðuneyti með stjórnsýslu ríkisins. Hæstaréttardómarar skulu, með öðrum orðum, vera umboðsstarfalausir.

Hafa ber í huga að niðurstöður Hæstaréttar eru ætíð endanlegar.

Og þrátt fyrir þetta allt er ákvörðun Hæstaréttar um að fallast ekki á endurupptöku máls fyrir Hæstarétti, stjórnvaldsákvörðun en ekki dómur. Málið er aldrei þingfest fyrir Hæstarétti og ekki er kveðinn upp dómur, heldur halda dómarar með sér fund og gera fundargerð þar sem ákvörðun þeirra er skráð. Þetta gerir Hæstiréttur einnig þegar hann tekur ákvörðun um áfrýjunarleyfi. En getur þetta verið? Geta dómendur verið stjórnvald? Ef svo er, verður þá ákvörðun Hæstaréttar skotið til dómsmálaráðuneytisins samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga? Eða er Hæstiréttur s.k. "æðra" stjórnvald?

Hvenær eru dómendur stjórnvald?

Það kemur mér undarlega fyrir sjónir að dómarar séu ekki alltaf dómarar, heldur stundum stjórnvald. Það kemur hjólreiðamönnum líka spánskt fyrir sjónir. En þetta veit íslensk þjóð. Þess vegna voru sett lög á Íslandi um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Í héraði háttar því þannig til að aldrei dæmir maður um sína eigin ákvörðun. Séu menn stjórnvald eru þeir stjórnvald. Séu þeir dómendur, eru þeir dómendur.

En hið háa Alþingi lítur svo á að í Hæstarétti séu dómendur svo miklir dómendur að þeir geti jafnvel dæmt um eigin ákvarðanir. Í samræmi við Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands ætti nefnilega að vera hægt að skjóta ákvörðun stjórnvaldsins Hæstaréttar til dómstóla, fyrst til héraðsdóms og kæra svo úrskurð héraðsdóms aftur til Hæstaréttar.

En er þetta þá ekki orðið hálfgert "skuespil". Löggjafinn hlýtur að líta svo á að stjórnvaldsákvörðun Hæstaréttar um að fallast ekki á endurupptöku máls, sé endanleg. En af hverju kveður Hæstiréttur þá ekki einfaldlega upp dóm?

Réttindi þegnanna

Þótt snærisþjófur frá Akranesi hafi að lokum verið sýknaður af gamalli ákæru yfirvalds um að myrða böðul Sívert Snorresen, kallaður frjáls maður og sendur aftur til Íslands, eru ekki allir sýknaðir í Hæstarétti. Og það er eðlilegt. Hitt er jafneðlilegt og hlýtur að vera hluti af réttindum þegnanna, að óháður aðili kveði upp dóm, ef um dómstól er að ræða, eða taki stjórnvaldsákvörðun ef um stjórnvald er að ræða, um það hvort efni séu til að endurupptaka mál eður ei, og ekki síst að dómendur séu alltaf dómendur en ekki stundum stjórnvald.

Höfundur er lögmaður.

Baldvin Björn Haraldsson.