Dæmi um meðferð á sakborningi:

Albert Klahn Skaftason

Í fangelsisdagbókum er að finna margvíslegar aðrar upplýsingar um málið, sem lúta að öðrum en skjólst.m., eins og t.d. bókun 27.12.75 kl. 17.40:

Skömmu eftir að Albert Klan fór inn á klefa sinn varð hann óður smá stund. Braut hann stólinn (reyndar átti hann ekki að vera þar) var hann þá settur í hand og fótajárn. Handjárnin tók ég fljótlega af honum aftur enda farinn að jafna sig. Ég benti honum á að hann hefði átt að berja vegginn heldur en að brjóta stólinn. Hann kvaðst ekki hafa gert það vegna þess að þá hafi hann meitt sig.

Ennfremur 18. janúar 1976 kl. 19.50:

Þá er að geta þess að Albert Klan var nær því búinn að kalla yfir sig járn og öll fríðindi af honum tekin og skeði þetta um kl. 13.00 og aðallega er hann illur útí fötu sem hjá honum er, og á að pissa í ef þarf með, en hann hafði vit á að draga sig í hlé áður en til átaka kom.

Í 28. gr., sbr. 46. gr. reglugerðar nr. 260/1957 um fangavist er einungis heimilað að nota járn, ef afstýra þarf yfirvofandi ofbeldi, bæla niður ofbeldisfullan mótþróa eða koma í veg fyrir strok. Þessi skilyrði voru ekki uppfyllt í þeim tilvikum sem hér hefur verið vitnað til, heldur eru járn notuð sem refsing og til niðurlægingar. Augljóst er að Albert K. Skaftason átti rétt á að krefjast betri hreinlætisaðstöðu en hlandfötu í klefa og var gagnrýni hans réttmæt. Reglugerð þessi var enn í gildi er skjólst.m. var í gæsluvarðhaldi.