Það einkennir rannsókn Guðmundarmálsins

er að nánast allar grundvallarreglur um réttarstöðu sakbornings eru brotnar. Sakborningar nutu lítillar sem engrar réttargæslu lögum samkvæmt. Verjendur, í þeim tilvikum sem þeir voru skipaðir, eru ekki látnir vita um yfirheyrslur yfir skjólst. þeirra fyrir lögreglu og dómi á rannsóknarstigi nema í undantekningartilvikum og þeir eru aldrei látnir vita um yfirheyrslur annarra og gefinn kostur á vera viðstaddir þær. Á þetta jafnt við um yfirheyrslur fyrir lögreglu og dómi. Sakborningar eru taldir sekir frá upphafi. Athafnir rannsóknarlögreglu, dómara og ákæruvalds beinast að því að fá fram játningar, en algerlega eru vanræktar venjubundnar rannsóknir, svo sem yfirheyrslur yfir vitnum, athugun á vettvangi o.s.frv. Var reynt að bæta úr þessu á árinu 1977 þegar rannsóknarstörf höfðu verið tekin af dómarafulltrúanum og rannsóknarmönnunum Eggerti N. Bjarnasyni og Sigurbirni Víði Eggertssyni. Rannsóknaraðilar virðast bera frásagnir vitna og sakborninga á milli þeirra sem yfirheyrðir eru. Sakborningar, sem voru í gæsluvarðhaldi, sættu harðræði, eins og nánar verður lýst síðar.

Hinn 9. janúar 1977 ritaði einn dómaranna, sem falin var meðferð málsins eftir ákæru, Ármann Kristinsson, sakadómari, athugsemdir við rannsóknina. Hann segir m.a. eftirfarandi:

Fyrir dómi hefur nær engin rannsókn farið fram.

og

Lögreglurannsókn máls þessa er í ýmsu vægast sagt afar sérstæð.

Athugasemdir dómarans eru á níu blaðsíðum og skipta tugum og margar þeirra alvarlegar, enda bera orð dómarans um lögreglurannsóknina með sér að hann gerði sér grein fyrir að eitthvað mjög sérstætt hafði gerst í rannsókn málsins. Meðal athugasemda hans er að hið mikilvæga vitni Viggó Guðmundsson, leigubílstjóri, sem ók skjólst.m. mikið um það leyti sem Guðmundur Einarsson hvarf, hefði ekki verið yfirheyrður. Ekki vissi dómarinn að hann hafði verið í gæslu og yfirheyrður, en af einhverju ástæðum hafa gögn þar um ekki verið látin koma fram.

Hinn 17. janúar 1977 gerir Kristmundur Sigurðsson "Nokkra minnispunkta" um Guðmundarmálið, en honum hafði verið falin ný lögreglurannsókn á því eftir útgáfu ákæru. Minnispunktarnir eru sjálfstæð athugun lögreglumannsins á rannsókn málsins og ekki fer fram hjá honum frekar en sakadómaranum, að ekki er í rannsókninni neinn grundvöllur til sakaráfellis á skjólst.m. eða aðra vegna hvarfs Guðmundar Einarssonar, sem nú hafði verið ákært útaf af.

 

Þá hefur Gísli Guðmundsson, lögreglumaður, skrifað skýrslu hinn 13 janúar 1977 og fylgja henni minnispunktar lögreglumannsins á 4 blaðsíðum um það sem áfátt er rannsókninni, en honum var einnig falin rannsókn málsins eftir útgáfu ákæru. Honum er ljóst ekki síður en öðrum, að ekki verður byggður neinn áfellisdómur í Guðmundarmálinu samkvæmt ákæru á framfarinni rannsókn lögreglumannanna Eggerts og Sigurbjarnar Víðis og "rannsóknardómarans" Arnar Höskuldssonar. Í 29. lið eru m.a upplýsingar um ferð skjólst.m. austur að Gljúfurholti um það leyti sem Guðmundur Einarsson hvarf. Forvitnileg er og bókun Gísla Guðmundssonar hinn 24. janúar 1977 um skjöl úr fíkniefnamáli, sem voru í fórum Arnar Höskuldssonar, en ekki lögð fram. Taldi Gísli þau "forvitnileg" þar sem þau fjölluðu um sama fólk á sama tímabili. Þá er vakin athygli á frásögn Gísla Guðmundssonar í sömu skýrslu um ferðir skjólst.m. að Gljúfurholti Ölfusi og dvöl hans þar á þeim tíma sem Guðmundur Einarsson er talinn hafa horfið.

Guðmundarmálið var tekið fyrir í sakadómi Reykjavíkur til þingfestingar hinn 21. mars 1977 af dómurunum, þeim Gunnlaugi Briem, Ármanni Kristinssyni og Haraldi Henryssyni. Var þá m.a. bókað:

Við yfirlestur skjala málsins kom í ljós, að rannsókn málsins var í ýmsum atriðum verulega áfátt. Sakarefnið í I. kafla ákæru hafði lítils háttar verið rannsakað fyrir dómi, en aðrir þættir ekki að undanskildum þeim, sem dómstóllinn í málinu út af ávana- og fíkniefnum hafði haft til meðferðar. Rannsóknar-lögreglumönnunum Gísla Guðmundssyni, Kristmundi Sigurðssyni og Hellert Jóhannessyni var falin áframhaldandi rannsókn skarefnis, er í I. kafla ákæru greinir, hinn 12. janúar s.l., og hafa dómarar málsins fylgst með rannsókninni.

Enn er bókað:

Vegna þess, að mikið vantar á, að yfirheyrslum sé lokið á máli þessu og ósamræmi er í framburðum ákærðu ákveða dómarar samkvæmt 16. gr. l. nr. 74, 1974 að þinghöld í málinu verði lokuð fyrst um sinn"

Skjólst m. átti rétt á opinberri málsmeðferð skv. 16. gr. oml. og skv. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Ekki voru uppfyllt undanþáguskilyrði 16. gr. oml. Helst kæmi til álita að dómstóllinn hafi haft í huga, að það væri nauðsynlegt til að að leiða sannleikann í ljós t.d. á frumstigi rannsóknar. Þetta skilyrði á við um rannsókn fyrir útgáfu ákæru. Í þessu tilviki hafði rannsókn staðið í 15 mánuði látlaust fyrir lögreglu og dómi og allir sakborningar verið í ýtrustu einangrun í gæsluvarðhaldi. Þegar þessi ákvörðun var tekin var enginn verjenda ákærðu í dómi, en þeir komu síðar samkvæmt bókun.

Af framangreindu er ljóst að dómurum málsins og lögreglumönnum síðari lögreglurannsóknar eftir útgáfu ákæru var ljóst, að sakargögn voru ekki nægileg til ákæru og því þurfti að byrja alla rannsóknina uppá nýtt. Hvorki lögreglumönnum né "rannsóknardómara", sem með málið höfðu farið, var treyst til að fara með hina nýju rannsókn vegna þess hversu "sérstæð" rannsókn þeirra hafði verið. Hinn 31. janúar 1977 var skjólst.m. fluttur í Hegningarhúsið. Hinn 16. febrúar ritar Gunnlaugur Briem, dómsforseti, bréf til Hegningarhússins þar sem bann er lagt við því að rætt sé við skjólst.m. og er sérstaklega tekið fram að bannið nái einnig til Arnar Höskuldssonar og rannsóknarlögregluþjóna þeirra, sem áður fóru með mál fangans.

 Samkvæmt 42. gr. oml. 74/1974 þá á ekki að halda rannsókn áfram á hendur tilteknum sökuðum manni, ef sakargögn hafa ekki þótt nægileg til ákæru. Í 115. gr. oml. 74/1974, sbr. 19. gr. l. nr. 107/1976, skal ríkissaksóknari láta við svo búið ef hann telur það sem fram er komið í rannsóknargögnum "eigi nægjanlegt eða líklegt til sakfellis". Sjónarmið þessi eru ítrekuð í 119. gr. oml. 74/1974 þar sem segir að hafi rannsókn dómara ekki leitt í ljós sakaratriði eða sakargögn, sem nægileg hafa þótt til ákæru skuli eigi taka það mál upp að nýju nema að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

 Niðurstaðan af framangreindu er sú að ekki hafi verið uppfyllt lagaskilyrði til útgáfu ákæru í málinu í desember 1976. Dómurum málsins hafi þegar orðið þetta ljóst, en skilyrði málsmeðferðar hafi verið þau, að sakargögn teljist nægileg eða líkleg til sakfellis. Í stað þess að vísa máli frá eða eftir atvikum, ef lög stóðu til þess, að gefa ákæruvaldinu færi á að koma á framfæri nýjum sönnunargögnum, sem skytu stoðum undir ákæruatriðið varðandi hvarf Guðmundar Einarssonar, þá ákveður dómurinn eftir útgáfu ákæru, að taka sókn málsins í sínar hendur. Í þinghaldinu 21. mars 1977 er m.a. bókað eftir að grein hefur verið grein fyrir ófullnægjandi rannsókn málsins:

Hefur að undanförnu verið reynt að bæta úr þessu, áður en fjölskipaður dómur tæki málið til meðferðar.

Síðan er því lýst hverjum dómurinn fól rannsóknina og síðan segir:

… hafa dómarar málsins fylgst með rannsókninni.

Í raun stjórnuðu dómararnir rannsókn lögreglu í smáatriðum og lögðu á ráðin um það á hvern hátt helst mætti sýna fram á réttmæti ákærunnar. Dæmi er t.d. er dómararnir ákváðu að stöðva rannsókn á hugsanlegri fjarvistarsönnun skjólst.m. eftir sjálfstæða frásögn Erlu Bolladóttur um að hún hefði fyrst séð skjólst.m. eftir Danmerkurferð hans sunnudags-kvöldið 27. janúar 1974. Annað dæmi er um það er dómurinn ákvað að láta sækja Gunnar Jónsson til Spánar í apríl 1977 til skýrslugjafar og verður vikið að því máli síðar. Ennfremur skýrslu Gísla Guðmundssonar 4. apríl 1977. Dómararnir voru því komnir í þá aðstöðu að afla gagna og sækja málið og áttu síðan að leggja mat á sína eigin gagnaöflun og sókn. Ákæruvaldið virðist hafa verið aðgerðarlaust að þessu leyti eftir að málið var komið til dómsins og ekki virðist ákæruvaldið hafa staðið fyrir rannsóknaaðgerðunum. Þó má vera að svo hafi verið og þá með óformlegum samskiptum við dómarana. Skjólst.m. naut því ekki réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óhlutdrægum dómstól eins og honum er áskilið í stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu, 6. gr.