ÁHRIF EINANGRUNAR OG LYFJA.

Á gæsluvarðhaldstímanum ritaði Guðsteinn Þengilsson, fangelsislæknir,

svo mér sé kunnugt, tvær umsagnir um skjólst.m. 6. nóv. 1978 og 29. nóv. 1978. Í hinu fyrra segir m.a. "virðist æ greinilegra … að einangrun og einvera er farin að setja mark sitt á hann. Ennfremur: "nú er einangrunin farin að kvelja hann einum um of og erfitt að segja hversu lengi hann haldi hana út með vit sitt óskert." Leiddi umsögn þessi til að skjólst.m. var fluttur að Litla Hrauni í gæsluvarðhald. Voru skjólst.m. og Kristján Viðar báðir að Litla Hrauni og var annar alltaf innilokaður einangraður í klefa sínum í viku í senn til að hann gæti ekki rætt við hinn. Um þá segir læknirinn:

að mínu áliti er gæsluvarðhald það, sem Sævar og Kristján hlýta hér, án efa mikil áreynsla á geðheilsu þeirra og ekki er með góðu móti hægt að mæla það, og er ákaflega erfitt að segja um það, hversu lengi þeir muni þola þetta mikla álag.

Hinn 26. mars 1996 birtist viðtal við Sigurð Árnason, fangelsislækni, um Síðumúlafangelsið og einangrun. Hann segir m.a.:

Maður sem er í einangrun verður miklu fyrr verr staddur en aðrir. Hann hefur engin tengsl, honum er neitað um öll bréf, og það sem hann lætur frá sér er grandskoðað og ekki er hægt að hringja í ástvini. Við slíkar aðstæður breytast menn miklu hraðar miðað við að vera lokaðir inni með öðrum. Það er ljóst að einangrun hefur tilgang en hún skemmir einstaklinginn. Einangrun brýtur niður viðnámsþrek, enda er það markmiðið, að flýta fyrir að fá fram atriði sem kæmu annars ekki eða síðar.

Mjög er umdeilt hvort slík einangrun leiði til þess að fram komi réttar skýrslur eftir einangrun. Fræðimenn hafa sýnt fram á að einangrun ásamt tilteknum yfirheyrsluaðferðum leiða iðulega til rangra játninga. Þess skal getið að læknirinn er hér að tala um tiltölulega stutta einangrun eða 14 - 30 daga.

Landlæknir hefur hinn 13. des. 1995 ritað grein undir fyrirsögninni "Einangrun fanga lengur en 3-4 vikur er óráðaleg vegna hættunnar á heilsuvanda." Vísast til hennar og viðfestra heimilda sem eru sjö erlendar fræðigreinar um áhrif einangrunar.

Um áhrif lyfjanotkunar vísast til bréfs landlæknisembættisins til mín þar sem segir m.a.:

Á árunum 1970 - 1980 tíðkaðist að ávísa svefn- og róandi lyfjum í tiltölulega stórum skömmtum. Læknar þekktu ekki fylgikvilla lyfjanna er síðar komu fram, og varla hægt að álasa G.Þ. Í ljósi síðari þekkingar eru 30 mg af Diazepam ásamt 3 töflum af Librax, Mogadon o.fl. að öllu jöfnu of stór skammtur. Þetta lyfjamagn veldur gjarnan óæskilegu hugarástandi sem einkennist af litlum viðnámsþrótti, uppgjöf, sljóleika, kæruleysi og jafnvel skertu minni. Helmingatími þessara lyfja er langur og magnið skilast ekki út á einum sólarhring. Þar af leiðandi hafa þessi lyf hlaðist upp en áhrif framangreindra lyfja aukast við viðhaldsskammta sem gefnir eru í langan tíma eins og fram kemur í gögnum.

Hér er um ný gögn að ræða sem túlka með öðrum hætti áhrif lyfjanna á skjólst.m. og öðrum þá sem voru í gæsluvarðhaldi og yfirheyrslum undir áhrifum greindra lyfja en gert var 1980. Þau sanna að lítt mark var takandi á því sem skjólst.m. og aðrir sakborningar og gæslufangar báru um atvik, enda gerðu lyfin þá leiðitama og þegar áhrif einangrunar, aldurs og lyfja renna saman er sú niðurstaða augljós. Jafnframt verður að hafa í huga að þeir sem stjórnuðu rannsókn virðast aldrei hafa efast um sekt sakborningana og létu aðrar grunsemdir órannsakaðar, enda undir miklum þrýstingi. Yfirheyrsluaðferðir þeirra bera þess merki. Jafnframt það ógnarástand sem ríkti í fangelsinu og ójafnvægi rannsóknaraðila, sem fyrir tilviljun upplýstist vegna atburðanna við samprófunina 5. maí 1976 þegar ljóst var að þeir yrðu að láta lausa fjórmenningana. Þeir atburðir voru þó ekkert einsdæmi, heldur hnígur allt í þá átt að um sé að ræða eitt dæmi af mörgum.

Verjendur skjólst.m. og Tryggva Rúnars kröfðust þess í bréfi til ríkissaksóknara 7. janúar 1980, að aflað yrði sérfræðilegra álitsgerða um áhrif lyfjanna á skjólst. þeirra, enda töldu verjendurnir slíkar upplýsingar mikilvægar í málinu. Tilefni bréfsins var að sama dag hafði verjendunum borist álitsgerð og úrskurður læknaráðs, en þar var ekki að finna neitt um áhrif lyfjanna, eins og verjendurnir virðast þó hafa vænst. Afrit af bréfi verjendanna var sent til Hæstaréttar. Hvorki ákæruvaldið né Hæstiréttur sinntu þessari kröfu verjendanna að neinu og því hafa nú verið lagðar fram nýjar upplýsingar um áhrif lyfjanna, sem sökunautum voru gefin í gæsluvarðhaldinu.