Dæmi um málsatvik í Guðmundarmáli

 Þá er sérkennilegt, að Hæstiréttur fjallar ekkert um það að gögn málsins bera það með sér, að fyrstu mánuði rannsóknar á Guðmundarmáli var á því byggt, að hringt hefði verið frá Hamarsbraut 11 í Albert Skaftason og reyndar einnig leigubíl. Hafi Albert komið á Toyotabifreið með skuthurð. Hann hafi flutt líkið í bifreiðinni. Eru til ítarlegar lýsingar í smáatriðum af því hvernig bifreiðin stóð þegar líkið var sett í bifreiðina og hvar farþegar sátu í Toyotabifreiðinni. Þegar lögreglumenn komust að því löngu síðar að Albert gat ekki hafa haft aðgang að Toyotabifreiðinni, heldur hugsanlega 17 ára gamalli Volkswagenbifreið, þá varð að snúa lýsingum við. Nú lágu fyrir skýrslur sakborninganna um Toyotabifreiðina og varð það hlutverk rannsóknarmannanna, að fá sakborninga til að breyta frásögnum sínum. Það tókst. Athyglisvert er, að Karl Schütz reynir að telja Alberti Skaftasyni trú um, að báðar ferðirnar hafi verið farnar. Allar hinar nákvæmu frásagnir um líkflutninga fóru fyrir lítið. Volkswagen hefur farangursgeymslu að framanverðu og varð því að laga frásagnir að nýjum aðstæðum. Varð að hafa stöðu bifreiðar bæði við Hamarsbraut og útí hrauni öfuga við það sem áður var. Svo sem kunnugt er, er farangursrýmið í Volkswagen bjöllu svo lítið, að ekki verður þar fyrir komið líki af stórum manni eins og t.d. Guðmundi Einarssyni, sem var 180 cm. hár. Því var ekki um annað að ræða en gera ráð fyrir því, að Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar settust aftur í bifreiðina, en milli þeirra og framsæta lagt hið fyrirferðarmikla lík. Við mat á því hvort þetta var unnt verður að hafa í huga að Kristján Viðar er 190 cm. hár og Tryggvi Rúnar er einnig allstór maður. Ekki var sannað að unnt hefði verið að koma líkinu fyrir með þessum hætti og því er með allri virðingu haldið fram að svo hafi ekki verið. Karl Schütz var þetta ljóst og kom það fram í yfirheyrslu hans yfir Albert Skaftasyni 7. ágúst 1976. Hann gerði þó ekkert til að rannsaka það hvort lík hefði komist fyrir, en það hefði verið skjólst.m. í hag ef svo hefði verið.

 Á sömu leið fór með símann. Í ljós kom að hann var lokaður umrædda nótt og komst það upp er leið á rannsóknina.Varð þá að breyta framkomnum frásögnum. Albert var ekki talinn koma af því að í hann var hringt, heldur af öðrum ástæðum.