ÞÁTTUR SIGURÐAR ÓTTARS HREINSSONAR.

Málið var dómtekið 7. okt. 1977, en endurupptekið 13. okt. 1977, en þá var vitnið Sigurður Óttar Hreinsson yfirheyrt í lokuðu réttarhaldi. Vitni þetta hafði verið í haldi frá deginum áður vegna lögreglurannsóknar í Geirfinnsmáli. Vitnið taldi fyrri framburð sinn ekki réttan og

sögu þess "hafa spunnist við yfirheyrslur hjá lögreglunni og skýrslutökur."

Vitnið sagði fyrstu skýrslu sína fyrir lögreglu vera einu réttu skýrsluna. Aðrar skýrslur hafi það gefið

eingöngu af ótta við lögregluna.

Vitnið kvað sig hafa verið

beitt hótunum af lögreglunni

Þá var bókað á sama stað:

Man það eftir því að einhvern tíma er það var í yfirheyrslu heyrði það Eggert Bjarnason, rannsóknarlögreglumann, segja eftir Erni Höskuldssyni, er það taldi að Eggert væri að tala við, að það yrði látið sæta 30 daga gæsluvarhaldi ef það samþykkti ekki skýrsluna og yrði þægt.

Vitnið lýsti síðan nánar ótta sínum við lögreglu og yfirheyrsluaðferðum, m.a. þannig:

Það var ýtt á eftir mér, ég var látinn geta í eyður og ennfremur þvinganir og gæsluvarðhald nefnt.

Að baki þessarar síðustu yfirheyrslu yfir Sigurði Óttari er löng og merkileg saga. Hann var yfirheyrður af lögreglu sem vitni 13. des. 1976. Næsta dag var hann yfirheyrður sem sakborningur hjá lögreglu. Ekki átti hann kost á réttargæslumanni. Sama dag kom hann fyrir dóm sem sakborningur, en án réttargæslumanns og átti ekki kost á honum. Hann var í haldi og ætlaði dómarinn að ákveða innan sólarhrings hvort hann myndi sleppa honum eða setja hann í gæsluvarhald. Hann var enn yfirheyrður af lögreglu sama dag í Síðumúlafangelsinu sem sakborningur. Ekki var Sigurði Óttari gerð grein fyrir broti því, sem hann var grunaður um og voru því ekki uppfyllt skilyrði 40. gr. 1. mgr. oml. nr. 74/1974. Hinn 24. janúar 1977 kom Sigurður Óttar fyrir lögreglu og var yfirheyrður sem vitni og sérstaklega brýnt á vitnaskyldunni. Engir vottar voru að yfirheyrslunni og var um að ræða tveggja manna tal, en Eggert N. Bjarnason tók skýrsluna. Mánudaginn 25. maí 1977 kom Sigurður Óttar fyrir dóm sem vitni og var látinn vinna eið að framburði sínum. Verjendur ákærðu voru ekki boðaðir til vitnaleiðslunnar, en ákæruvaldið átti sinn fulltrúa. Enn gaf Sigurður Óttar skýrslu hjá lögreglu hinn 12. okt. 1977 og nú sem grunaður. Hann kvaðst hafa verið "þvingaður af rannsóknarmönnum" til að segja rangt frá og fyrsta skýrslan væri rétt. Hann sagði að sér hefði verið "hótað gæzluvarðhaldi, ef ekki kæmi réttur framburður frá mér" Rannsóknarmenn hefðu leitt sig inní málið "og ég skáldaði eða glósaði í eyðurnar" Hann skýrð frá því að er honum hefði verið sleppt úr Síðumúlafangelsi á miðnætti 14. des. 1976 hefði hann næsta morgunn ráðfært sig við lögmann og sagt honum að:

ég hefði verið látinn játa þessa ferð til Keflavíkur þann 19. nóv. 1974, sem ég hefði aldrei farið.

Lögmaðurinn ráðlagði honum að leiðrétta frásögnina þegar í stað. Þegar málflutningur hófst í héraði óskaði Sigurður Óttar eftir að afturkalla framburðinn formlega og ræddi það við lögmann sinn. Sá ræddi málið við a.m.k. tvo af verjendunum. Er Sigurður Óttar kom fyrir lögreglu þessu sinni neitaði hann að tjá sig nema að viðstöddum lögmanni og tókst honum þannig að knýja fram að lögmaður var viðstaddur yfirheyrsluna auk vararíkissaksóknara. Þessir atburðir, þ.e. að Sigurður Óttar skyldi leita lögmannsráða, leiddu til víðtækra yfirheyrslna yfir Róberti Árna Hreiðarssyni, cand.jur., Jóni E. Ragnarssyni hrl., Páli Arnóri Pálssyni hdl. og Jóni Oddssyni hrl. Hvorki virðast lögreglumenn eða verjendur sjálfir hafa vísað til 86. gr. 2. mgr. oml. nr. 74/1974 um þagnarskyldu verjenda um atriði er verjendur hafa komist að í starfa sínum og eru almenningi ekki þegar kunn. Í spurningum lögreglumanna til lögmannanna felast ásakanir, enda þótt lögmennirnir hafi einungis verið að sinna störfum sínum lögum samkvæmt. Hámarki nær rannsóknin þegar Þórir Oddsson, deildarstjóri hjá RLR, yfirheyrir Róbert Árna Hreiðarsson, lögfræðing, lögmannsfulltrúa hjá Jóni E. Ragnarssyni hrl., hinn 25. okt. 1977 og telur hann vera hvorttveggja í senn sakborning og vitni. Var lögmannsfulltrúinn yfirheyrður í smáatriðum um allt það sem farið hafði fram milli hans og skjólst. hans, en hinn 12. okt. 1977 hafði verið bókað að Sigurður Óttar óskaði að Róber Árni sem fulltrúi Jóns E. Ragnarssonar hrl. færi með mál sitt. Vanvirti Rannsóknarlögregla ríkisins réttindi og skyldur lögmannanna og braut gegn rétti ákærðu í málinu. Þó sannaðist í yfirheyrslum þessum að Sigurður Óttar hafði komið til lögmanns síns þegar hinn 15. des. 1976 og sagt honum hvernig hann hefði daginn áður verið yfirheyrður í meira en 12 klst. með leiðandi spurningum og hótandi atferli. Mikilvægt er við mat á sönnunargögnum að takast skyldi að sanna að Sigurður Óttar komst ekki að þeirri niðurstöðu löngu síðar að hann hefði verið þvingaður til framburðarins, heldur skýrði hann frá því þegar hinn næsta dag. Héraðsdómur sagði um þennan þátt málsins:

Eins og greinir í málsatvikalýsingu, leitaði vitnið ráða hjá nokkrum mönnum, áður en það breytti framburði sínum, en ekki verður hér tekin afstaða til þátta þeirra í málinu.

Um framburð Sigurðar Óttars sagði héraðsdómur um breytingu "vitnisins" á honum

hlýtur engu að síður að veikja trúverðugleika þess.

Hæstiréttur kaus að fara aðra leið og sagði um framburð Sigurðar Óttars og breyting á honum:

Með vísan til rökstuðnings héraðsdóms verður ekkert mark tekið á afturköllun Sigurðar Óttars á framburði hans.

Hæstiréttur hefur annaðhvort misskilið ályktun héraðsdóms um veikingu á trúverðugleika framburðarins eða talið að breyttur framburður fyrir dómi skipti engu máli um gildi þess framburðar sem áður hafði verið gefinn, þó þannig að ekki bæri að leggja til grundvallar upphaflegan framburð, heldur þann sem gefinn var eftir fangelsun þegar Sigurður Óttar var yfirheyrður sem sakborningur án réttargæslu af Karl Schütz.

Hinn 14. okt. 1977 kom Sigurður Óttar fyrir dóm sem sakborningur hjá fulltrúa sakdóms og var úrskurðaður í gæsluvarðhald í 25 daga vegna gruns um rangan framburð fyrir lögreglu 13. og 14. des. 1976, 24. jan. 1977 og fyrir dómi 25. maí 1977. Daginn áður hafði Sigurður Óttar verið yfirheyrður fyrir dómi sem vitni. Hinn 17. okt. 1977 er hann yfirheyrður sem sakborningur hjá lögreglu. Gæslufanginn Sigurður Óttar var einnig yfirheyrður sem sakborningur fyrir lögreglu grunaður að hafa lagt eið að röngum framburði. Sama á við um yfirheyrslu 27. okt. 1977, 3. nóv. 1977 og 9. nóv. 1977. Þetta er rakið hér vegna þess að héraðsdómur og Hæstiréttur tóku þá afstöðu að telja skýrslur Sigurðar Óttars vitnaframburði án tillits til þess hvort hann var yfirheyrður sem vitni eða sakborningur (grunaður). Hæstiréttur segir m.a. að sannað sé með framburði "vitnisins Sigurðar Óttars" að ákærðu hafi farið til Keflavíkur kvöldið 19. nóv. 1994. Ekki samræmist það lögum að yfirheyra aðila ýmist sem vitni eða sakborninga og byggja síðan dóm á framburði þeirra sem vitna. Hafa veður í huga að ríkissaksóknari taldi framburð þann, sem héraðsdómur og Hæstiréttur kölluðu vitnaframburð og byggðu m.a. sakfellingu á, rangan framburð og kærði ríkissaksóknari Sigurð Óttar fyrir til refsingar. Af því tilefni var Sigurður Óttar úrskurðaður í gæsluvarðhald hinn 14. okt. 1977 eins og áður segir. Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð hinn 24. okt. 1977. Jafnframt þessu krafðist ríkissaksóknari dómsrannsóknar vegna hins meinta ranga framburðar. Sakadómur Reykjavíkur hafnaði beiðninni með þeim rökum, að lögreglurannsókn væri á byrjunarstigi og dómsrannsókn skv. 74. gr. oml. ætti einungis að fara fram að lokinni frumrannsókn, "enda sé þá ekki hægt að taka ákvörðun um hvort mál skuli höfða eða ekki." Hæstiréttur staðfesti synjunina með þeim rökum, "að ekki séu efni til að taka mál þetta til dómsrannsóknar að svo stöddu. Í þessari afstöðu til gæsluvarðhaldsins og dómsrannsóknar felst að dómstólar hafi talið skilyrði til langvarandi gæsluvarðhalds yfir Sigurði Óttari vegna gruns um rangan framburð. Hefðu dómstólar talið afstöðu ákæruvalds ranga og ekkert tilefni til að halda því fram að Sigurður Óttar hefði gerst sekur um rangan framburð þá hefðu þeir ekki heimilað gæsluvarðhaldið. Skjöl málsins bera ekki með sér að ríkissaksóknari hafi fallið frá kæru á hendur Sigurði Óttari vegna rangs framburðar. Þess skal getið að Sigurður Óttar kærði til Hæstaréttar synjunarúrskurð sakadóms um dómsrannsókn, enda taldi hann hagsmunum sínum best borgið með ítarlegri rannsókn fyrir dómi, þar sem honum hefði gæfist kostur á að sanna, að framburður sá sem sakadómur og Hæstiréttur byggðu á, var ólöglega fenginn. Þrátt fyrir framangreint taldi Hæstiréttur, og reyndar einnig sakadómur að hluta, rétt að byggja á þeim framburði Sigurðar, sem ríkissaksóknari taldi rangan og sömu dómstólar höfðu tekið undir nauðsyn rannsóknar á slíkari kæru. Sá framburður sem ekki var talinn rangur var hinsvegar að engu hafður við mat á sönnunargildi framburðanna. Þetta var ekki skýrt í forsendum dóma sakadóms og Hæstaréttar.

Öðrum þræði er tilgangur þess að rifja upp þennan kafla málsmeð-ferðarinnar að sýna fram á, að hvorki ákæruvald né rannsóknaraðilar voru á þessum tíma hæfir til að fara að reglum um að sakborningar og ákærðir teldust saklausir þar til ákæruvaldið hefði sannað sekt þeirra með lokadómi. Þetta endurspeglast í þeirri örvæntingu sem fólst í því að yfirheyra verjendur ólöglega langtímum saman um vitneskju sem þeir höfðu þagnarskyldu um. Ákæruvald og rannsóknarmenn töldu málssóknina hafa orðið fyrir áfalli þegar fram komu nýjar upplýsingar andstæðar rannsóknartilgátum um hvað gerst hafði og andstæðar verknaðarlýsingu í ákæru. Í stað þess að rannsaka þær með hlutlægum hætti í leit að hinu rétta eru verjendur ákærðu áreittir og Sigurður Óttar settur í gæsluvarhald. Slíkt er í andstöðu við meginregluna um réttláta málsmeðferð.