Dómarar í málinu beittir blekkingum

 

Við munnlegan málflutning var lagt fram "Endurrit úr dagbók fangelsisins við Síðumúla,vegna innsetningar, yfirheyrslna og læknisvitjana í sambandi við Sævar Marinó Ciesielski." Verjandi skjólst.m. ritaði forseta sakadómsins, Gunnlaugi Briem, bréf hinn 11. maí 1977 og fór m.a. fram á að lagðar yrðu fram "skýrslur úr dagbók fangelsanna um yfirheyrslur yfir skjólstæðing mínum, heimsóknir og allt það er varðar dvöl skjólstæðings míns…" Gunnar Guðmundsson, forstöðumaður, sendi lögmanninum "allar umbeðnar upplýsingar" með bréfi 13. júní 1977. Endurritið nær yfir tímabilið 12. desember 1975 til 31. janúar 1977, er skjólst.m. var fluttur í Hegningarhúsið skv. dagbókinni. Í lok endurritsins segir: "Rétt endurrit staðfest. Gunnar Guðmundsson forstöðum." Verjendur og Hæstiréttur máttu treysta því, að í endurriti þessu væru teknar upp allar bókanir um skjólst.m. í dagbókina. Hvorki verjendur né Hæstiréttur höfðu aðgang að dagbókunum. Öðru máli gegnir um rannsóknaraðila. Undirritaður hefur einnig látið gera endurrit úr dagbókinni og var vinnuaðferðin sú, að taka upp öll atriði þar sem nafns skjólst.m. var getið.

 

Við samanburð á þessum tveimur endurritum kemur í ljós, að ekki er um orðrétt endurrit að ræða. Mikilvægara er hinsvegar, að endurritið er rangt í þeim skilningi að ekki eru tekin upp atriði, sem eru andstæð rannsóknar- og ákæruvaldi í málinu. Dæmi um þetta eru

 

20.12.75 Ekki getið bókunar "nægja að láta ljúga í Gísla."

20.01.76 Þess ekki getið að er réttargæslumaður skjólst.m. hringdi þá var hann leyndur yfirheyrslu yfir skjólst. sínum.

15.02.76 Skjólst.m. var settur í handa- og fótajárn og lágmarksþjónusta ákveðin. Þessu leynt. Skjólst.m. mun hafa verið í járnum þessu sinni í nokkrar vikur en ekki er upplýst hversu lengi.

09.03.76 Skjólst.m. sviptur tóbaki.

25.04.76 Þess ekki getið, að ákveðið var að banna að tala orð við skjólst.m. í náinni framtíð. Ekki afhentar bækur, spil og önnur dægrastytting "meðan hann lýgur annan úr og annan í við yfirheyrsluaðilana, þar á meðal vararíkissaksóknara. Sem sagt nota sömu aðferð og við gerðum við Harald Ólafsson á sínum tíma."

03.05.76 Þess ekki getið að skjólst.m. var sagt að barnsmóðir hans væri í fangelsinu.

05.05.76 Samprófunin alræmda er nú kölluð "talast við" í áheyrn Hallvarðs o.s.frv., en ekki getið viðvistar Arnar Höskuldssonar.

12.05.76 Ekki sagt frá ummælum vararíkissaksóknara að skrifa ætti bréf til sálfræðings og biðja hann taka dýrið að sér.

12.05.76 Bókunar um að réttargæslumaður skjólst.m. vildi helst koma og taka Sævar með látum og hakka hann í sig ekki getið.

12.05.76 Þess ekki getið að vararíkissaksóknari hefði staðfest að hann væri búinn að boðsenda bréf til Ingvar sálfræðings um að taka skoffínið hann Sævar að sér.

20.05.76 Ekki getið bókunar um að séra Jón hefði ekki haft erindi sem erfiði er hann ræddi við Sævar.

24.05.76 Þess ekki getið að skjólst.m. var settur í fótajárn og þess heldur ekki getið 04.06.76 er skjólst.m. var losaður úr fótajárnum eftir 11 daga samkvæmt bókun. Skjólst.m.heldur því hinsvegar fram að hætt hafi verið viða að taka hann úr fótajárnum þessu sinni. Ekki kemur fram að um refsiðagerð gagnvart gæslufanga var að ræða.

25.05.76 Ekki kemur fram að skjólst.m. nýtur ekki réttargæslu vegna veikinda skipaðs réttargæslumanns.

31.05.76 Þess ekki getið að fangavörður kallar skjólst.m. Sævar Sjálfselski.

16.06.76 Þess ekki getið að skjólst.m. reyndi að koma bréfum til umheimsins.(Bréfin voru umkvartanir og "týndust" hjá rannsóknaraðilum.)

12.07.76 Ekki getið eftirfarandi bókunar: "Hinsvegar er það mitt mat og jafnvel annarra að ekkert hjarta sé í Sævari Marinó Ciesielski!"

16.07.76 Þess ekki getið skjólst.m. var að reyna að losna við að taka hugbreytingarlyf.

17. og 18.08.76 Þess ekki getið, að skjólst.m. fær pappír til að skrifa á skv. fyrirmælum Karl Schütz. Pappír áður bannvara.

24.08.76 Ekki getið um brot á trúnaði

31.08.76 Þess ekki getið, að hringt er í "morðdeild sakadóms" vegna flutnings á Sævari til læknis.

07.09.76 Þess ekki getið að skjólst.m. hótar að hætta að neyta fæðu nema hann fái "blekpenna, sæng, pappír og lak." Á öllu þessu átti hann rétt lögum samkvæmt, en fékk ekki.

10.09.76 Þess ekki getið að skjólst.m. fær í fyrsta sinn að fara út (þ.e. í fangelsisgarð) í 15 mínútur á dag að ákvörðun dómarans. Skjólst.m. hafði er hér var komið sögu verið í 9 mánuði eða 270 daga í einangrun, sem var ómannlegri meðferð en tíðkaðist og andstæð lögum.

30.09.76 Gert ráð fyrir að einangrunarfangi geti afsalað sér réttindum til að vera ekki yfirheyrður meira en 6 stundir samfellt.

11.11.76 Ekki getið svofelldrar bókunar: "Karl Schütz óskar eindregið eftir því að fangaverðir ræði ekki við Sævar um sakamálin að mér einum undanteknum. Ég óska eindregið eftir því að farið verði eftir þessari beiðni Schütz, því eins og hann segir er nóg komið af lyginni aftur á bak og áfram."

5.05.77 Þess ekki getið að dómari ákveður eftir útgáfu ákæru að hlustað skuli á viðtöl skjólst.m. við verjanda sinn og hann megi ekki tala við prest að eigin vali.

 Lengra nær ekki hið opinbera endurrit, en margt er athyglisvert að finna í síðari bókunum, t.d. 13. okt. 1977 er sakadómsformaðurinn bannar samtöl skjólst.m. við verjanda sinn um óákveðinn tíma án rökstuðnings. Þegar að er gáð kemur í ljós að þennan dag afturkallaði Sigurður Óttar Hreinsson framburð sinn og raskaði þannig málatilbúnaði ákæruvaldsins og sakadóms. Virðast þetta vera tilfinningaleg viðbrögð við því. Alltént var ekki gætt réttra aðferða.

 Útgáfa á hinu ranga endurriti úr fangelsisdagbókum virðist vera refsiverð samkvæmt 158. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Tilgangurinn virðist vera sá að halda tilteknum ólögmætum aðgerðum gegn skjólst.m leyndum og hafa þannig áhrif á niðurstöðu Hæstaréttar í alvarlegu refsimáli út af broti, sem gat varðað skjólst.m. ævilöngu fangelsi. Í málinu lagði Hæstiréttur mat á lögmæti aðferða við öflun játninga. Rétturinn taldi annmarka á rannsókninni en ekki í svo ríkum mæli, að það valdi því að játningar skjólst.m. og Kristjáns Viðars yrðu ekki lagðar til grundvallar. Líklegt má telja að Hæstiréttur hefði komist að annarri niðurstöðu í mati sínu, ef honum hefðu verið kunnar þær aðgerðir sem getið er um í fangelsisdagbók og að framan eru raktar að hluta. Að auki er það til þess fallið að draga úr virðingu fyrir dómstólunum og nauðsynlegu trausti almennings, ef í ljós kemur að dæmt er á grundvelli rangfærðra opinberra skjala og ekki lagfært ef í ljós kemur.