Hinn 20. apríl 1977 er Gunnar Jónsson kvaddur til að mæta fyrir sakadómi til að gefa vitnaskýrslu um átök sem urðu að Hamarsbraut 11 aðfararnótt 27. jan. 1974 með þeim afleiðingum að Guðmundur Einarsson beið bana. Tveir lögreglumenn voru sendir eftir Gunnari til Spánar. Laugardaginn 30. apríl 1977 kl. 10.22 kom Gunnar Jónsson fyrir sakadóm og vék þaðan kl. 15.10 eða eftir tæpar 5 klukkustundir. Bókunin sem sakadómurinn gerir á þeim 5 klst. er hálf vélrituð blaðsíða. Meginatriðin eru þessi skv. bókun:

  Málið er nú reifað fyrir mætta…

Þar sem reifunin hefur tekið alllangan tíma, þykir eftir atvikum rétt að fresta formlegri skýrslutöku…

Saksóknari var viðstaddur yfirheyrslu þessa eða öllu heldur reifun málsatvika af hálfu dómsins. Enginn verjandi ákærðu var boðaður, en hafa bera í huga að dómstóllin og ákæruvaldið töldu að "vitni" þetta gæti verið mjög mikilvægt fyrir framgang málsstaðar ákæruvaldsins, þ.e. til sakfellingar. Um réttarstöðu Gunnars var bókað að hann var áminntur um sannsögli en jafnframt vakin athygli hans á 2. mgr. 77. gr. l. 74/1974. Næst kom Gunnar fyrir dóm mánudaginn 2. maí 1977 og er byrjað á því að sýna honum mynd af Guðmundi Einarssyni, sem birst hafði í Morgunblaðinu 30. janúar 1974 eða þremur dögum eftir hvarf Guðmundar Einarssonar. Gunnar hafði séð myndina þá er hún birtist en setti hana ekki í samband við neitt sem hann hafði orðið sjónarvottur að dagana á undan. Í miðri yfirheyrslunni er síðan bókað:

 Mætti kom s.l. laugardag að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði og fannst honum hann kannast við það, er að framan greinir. 

Hafði Gunnar þar á undan í skýrslunni verið látinn lýsa aðstæðum að Hamarsbraut 11 eins og hann myndi þær frá janúar 1974. Í framhaldi af þessu voru Gunnari sýndar myndir af íbúðinni í dómnum og gat hann þá lýst íbúðinni að nokkru. Þurfti sem sagt bæði vettvangsgöngu og ljósmyndir til að vitnið gæti lýst íbúðinni. Hann mundi sem sagt ekki eftir átökum og ekki mundi hann eftir Kristjáni Viðari, Tryggva Rúnari eða Sævari Marinó þarna. Hann hafði neytt ofskynjunarefnisins LSD. Einnig geti verið að hann hafi reykt hass um þessar mundir. Aldrei minntust ákærðu á þetta mál síðar við Gunnar og ekki báðu þeir hann að þegja um það. Saksóknari var viðstaddur yfirheyrsluna en ekki neinir verjendur. Þriðjudaginn 3. maí 1977 er enn yfirheyrt og nú Albert Klahn án verjanda og síðan eru þeir samprófaðir hann og Gunnar. Stóð samprófunin í 4 st. og 50 mín. Einungis saksóknari var viðstaddur. Gunnar var yfirheyrður sem "mætti". Gunnar mundi ekkert með vissu en féllst á að segja mjög óljósa sögu til samræmis við sögu Alberts. Hann minnir sumt og segir að annað hljóti að hafa verið með tilteknum hætti. Hann staðhæfir aldrei neitt. Hann ítrekar að hann hafi séð frétt af hvarfi Guðmundar þegar eftir honum var lýst en ekki setti hann það í neitt samband við þessa atburði sem hann var spurður um. Í lok samprófunar var Albert spurður hversvegna hann hafi ekki nefnt Gunnar fyrr og gat Albert ekki svarað því, en eins og fram er komið liðu u.þ.b.. 15 mánuðir frá upphafi rannsóknar þar til skjólst.m. nefndi Gunnar til sögunnar. Eftir það tókst öðrum að muna eftir honum í yfirheyrslum. Enn var Gunnar Jónsson yfirheyrður í viðurvist dómaranna og saksóknara fyrir hádegi hinn 4. maí 1977. Síðdegis er hann samprófaður við Kristján Viðar og Tryggva Rúnar og voru verjendur þeirra viðstaddir samprófunina, en ekki var framburður Gunnars lesinn upp að þeim viðstöddum. Samprófunin við Tryggva Rúnar tók 15 mínútur og samprófunin við Kristján Viðar 8 mínútur. Þá var Gunnar einnig samprófaður við skjólst.m. en ekki var verjandi hans viðstaddur og ekkert er bókað um að hann hafi verið boðaður. Tók samprófunin 8 mínútur. Hinn skammi tími sem samprófanir þessar tóku bendir til að þær hafi aðeins verið til málamynda. Þegar Gunnar kom fyrir dóm hinn 5. maí 1977 er staða hans ekki skilgreind í upphafi, en í lokin er bókað að mætti verði ekki saksóttur og Gunnar látinn vinna eið að framburði sínum. Maður sem hafði verið yfirheyrður sem sökunautur er látinn vinna eið sem vitni að framburði sem gefinn er undir þeim formerkjum. Sönnunargildi slíks framburðar í opinberu máli er næsta lítill. Að auki sá Gunnar við yfirheyrendum með yfirlýsingu sinni um að hann hefði séð frétt með mynd af Guðmundi Einarssyni eftir hvarf hans og hann hafi ekki þekkt Guðmund. Myndin birtist þremur dögum eftir hvarfið og hún kveikir engar minningar hjá Gunnari Jónssyni. Verður ekki annað ráðið af þessari staðhæfingu en í henni felist skilaboð um að hann viti ekkert um neina atburði varðandi Guðmund Einarsson að Hamarbraut 11 greinda nótt. Sama má segja um þann framburð hans, að eftir þennan dag minntust ákærði aldrei á Guðmund Einarsson við hann né höfðu þeir orð á því sem átti að hafa gerst að Hamarsbraut 11. Hafa verður í huga að Gunnar var yfirheyrður í viðurvist dómaranna og saksóknara og dómararnir litu á það sem hlutverk sitt að rannsaka málið. Dómurinn var einskonar framlenging af lögreglurannsókninni og þætti ákæruvaldsins í henni og bera spurningarnar til Gunnars það með sér. Hefðu verjendur ákærðu einnig verið viðstaddir, svo sem lög áskilja, hefðu skýrslur Gunnars Jónssonar orðið með töluvert öðrum hætti. Ekkert jafnvægi var í yfirheyrslunum milli sóknarinnar og varnarinnar. Eins og nánar mun verða sýnt fram á síðar virðist sem vafi hafi ekki verið í huga ákæruvalds, sakadóms, rannsóknarlögreglumanna og fangavarða um sekt sakborninganna og skýrir sú afstaða að hluta vinnubrögð við rannsókn málsins fyrir og eftir ákæru.

 Í bréfi Hilmars Ingimundarsonar hrl., verjanda Tryggva Rúnars, til Gunnlaugs Briem, dómsformanns, dags. 14. sept. 1977, segir m.a.

Að lokum vil ég lýsa því yfir, að ég tel, að verjendum í máli þessu hafi ekki verið gefinn kostur á því til jafns við ákæruvaldið að fylgjast með dómsrannsókn sem skyldi. Sérstaklega vil ég mótmæla því, að hafa ekki verið tilkvaddur, þegar vitnið Gunnar Jónsson gaf skýrslu sína fyrir dómi. Ég er fyrst tilkvaddur fyrirvaralaust 4. maí 1977 kl. 13:30 til að vera viðstaddur samprófun skjólstæðings míns og Gunnars Jónssonar, án þess að hafa áður haft tækifæri til að kynna mér sérstaklega framburð Gunnars. Gunnar er síðan án fyrirvara sleppt úr landi án samráðs við verjendur. Mér er ekki ljóst hverju þetta á að þjóna.

Dómsformaðurinn svaraði þessu bréfi í engu og ritaði verjandinn honum öðru sinni bréf hinn 3. okt. 1977. Þar eru m.a. beint eftirfarandi spurningum til dómaranna og saksóknara.

1. Hvers vegna voru verjendur ekki boðaðir í þinghöld í málinu 30. apríl, 2 maí og 3. maí 1977.

2. Var farið með Gunnar Jónsson að Hamarsbraut 11, Hafnarfirði, fyrir eða eftir þinghaldið 30. apríl 1977? Hverjir fóru með honum?

3. Á hvern hátt var málið reifað fyrir Gunnari Jónssyni í þinghaldi 30. apríl 11977.

4. Hvaða þætti málsins rakti Gunnar sjálfstætt í þinghaldi 30. apríl 1977.

Verjandi skjólst.m. ritaði Sakadómi Reykjavíkur einnig bréf m.a. út af þessu hinn 11. maí 1977 eða fáeinum dögum eftir að yfirheyrslum yfir Gunnari Jónssyni lauk. Segir þar m.a.:

Ég verð að lýsa óánægju minni með það, að Gunnar Jónsson skuli nú farinn úr landi, þar sem ég tel að lögmenn ákærðu í málinu hafi ekki haft sömu aðstöðu og saksóknari ríkisins til að yfirheyra vitnið. …

Ekki var bréfum þessum svarað af dómsins hálfu og ekkert var bókað um það hversvegna ekki var farið að lögum. Í forsendum dóms saka-dómsins í málinu er framburður Gunnars Jónssonar lagður til grundvallar sakfellingu ákærðu. Endursögn framburðarins er óvenjulega hlutdrægur. T.d. segir að Gunnar hafi sagt "að hann væri ekki algerlega öruggur um" að mynd sem honum var sýnd og sögð vera af Guðmundi Einarssyni væri af sama manninum og hann sá koma að bifreið Alberts Skaftasonar við Skiphól. Hinsvegar hafði verið bókað:

Mætta finnst vera um sama mann að ræða og komið hafði að bifreiðinni í brekkunni á Reykjavíkurvegi.

Er hér verulegur stigsmunur á framburði og endursögn dómsins. Um myndina sagði Gunnar Jónsson að vel gæti verið að um hann (Guðmund Einarsson) hafi verið að ræða en hann sé ekki alveg viss og átti hann þá við mann sem hann kvaðst muna eftir að Hamarsbraut 11 en gat ekki gefið lýsingu á. Var honum þá sýnd ljósmyndin. Í niðurstöðukafla héraðsdómsins er orðunum ekki alveg viss sleppt. Ekki er minnst á það í niðurstöðum að Gunnar hafi skýrt frá því að hann hafi séð mynd, líklega sömu mynd, af Guðmundi Einarssyni þremur dögum eftir að Guðmundur hvarf og það hafi ekki kveikt neinar minningar. Þá er ekki sagt frá því þar hvernig sakadómurinn stóð að yfirheyrslum yfir Gunnari Jónssyni án viðurvistar verjenda ákærðu en að viðstöddum saksóknara einum.