Umsögn Hæstaréttar um Síðumúlafangelsi

Eftir að Magnús Leopoldsson, Einar Bollason, Valdemar Olsen og Sigurbjörn Eiríksson höfðu verið í einangrun í Síðumúlafangelsi í 90 - 105 daga var þeim sleppt vorið 1976. Þeir höfðuðu skaðabótamál sem var til lykta leitt 1983 með dómi Hæstaréttar. Í þeim dómi er umsögn Hæstaréttar um Síðumúlafangelsi:

Um ástandið í Síðumúlafangelsi var fjallað í HR 1983 474, 495, 509 og 523. Segir þar um aðbúnaðinn í forsendu allra dómanna fjögurra:
Húsakynni þau sem hann var vistaður í, voru ekki forsvaranleg til svo langar vistunar.

Tilefni greindra dóma voru þau, að stefnendur höfðu verið í 90 og 105 daga löngu gæsluvarðhaldi í Síðumúla árið 1976 á sama tíma og umbj.m. en þó ekki nema brot þess tíma sem hann var í gæsluvarðhaldi. Um tímalengd vistunar þeirra segir:

Þegar ákveða skal miskabætur, er ekki eingöngu á hina óvenjulangvinnu gæsluvarðhaldsvist að líta, heldur einnig þá fáheyrðu og andlegu og líkamlegu raun, sem henni var samfara..

Þegar í mars 1983 er 90 og 105 daga gæsluvarðhaldsvist talin óvenjulangvinn. Tveir af hæstaréttardómurunum í Guðmundar- og Geirfinnsmálum 1980 sátu einnig í dómi í málum þessum 1983 og töldu ástæðu til að fordæma húsakynnin í Síðumúla og telja þau óforsvaranleg til þriggja mánaða gæsluvarðhaldsvistunar. Gögn um aðbúnaðinn lágu þó fyrir í málinu 1980 og einnig, að húsakynnin höfðu ekki verið samþykkt af heilbrigðiseftirliti lögum samkvæmt. Í fyrra málinu var ekki orði hallað að aðbúnaði, húsakynnum, sviptingu lesefnis og skriffæra, rúmfataleysi, notkun járna o.s.frv. Nú var skilningur á því að húsakynnin væru óforsvaranleg. Þar sem Hæstiréttur hefur þegar fjallað um ástand fangelsisins og tekið afstöðu telur undirritaður ekki ástæðu til að leggja fram önnur ný gögn um fangelsið og hið bága ástand þess.