Húsið að Hamarsbraut 11

var óvenju hljóðbært, enda gamalt, lítið

timburhús byggt af vanefnum. Upplýst er að fólkið á efri hæðum kvartaði um hávaða við föður Erlu eða bróður þegar fólk var í kjallaranum. Íbúar voru spurðir og höfðu ekki orðið varir við neinn umgang eða bílaferðir. Þá er á nýju skjali yfirlýsing Kristrúnar Jónínu Steindórsdóttur og Þórðar Arnar Marteinssonar, sem önnuðust rekstur Alþýðuhússins. Hjónin fóru heim að Suðurgötu 40 að loknum frágangi eftir dansleikinn. Suðurgata 40 stendur á horni þeirrar götu og Hamarsbrautar og aðeins kippikorn frá Hamarsbraut 11. Þau unnu að uppgjöri. Þau urðu ekki vör neinnar umferðar þessa nótt við Hamarsbraut 11, en óhjákvæmilega hefðu þau orðið slíks vör vegna hljóðbærni og nálægðar, auk þess sem næturumferð telst til tíðinda í hverfinu. Þórður varð þess ekki var að nágrannar hefðu orð á umferð þessa nótt, en við mat á gildi þessara upplýsinga verður að hafa í huga að auglýst var eftir hvarfi Guðmundar á þriðjudeginum og þess getið að hann hefði horfið í Hafnarfirði. Slíkt var íbúum hvatning til að rifja upp óvanalega atburði þessa nótt. Enginn varð var við neitt óvenjulegt um nóttina, en lögregla spurðist fyrir í húsinu sjálfu er rannsókn Guðmundarmáls komst á skrið. Þessa tók Hæstiréttur ekki tillit til við mat á meintum játningum.