4. LÁGMARKSRÉTTINDI SAKBORNINGS

Sakborningur á rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli.

Sakborningur skal talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð.

Sakborningur nýtur m.a eftirtalinna lágmarksréttinda að lögum:

a) að fá tafarlaust vitneskju um eðli og orsök kærunnar gegn honum í einstökum atriðum;

b) að hafa nægan tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína;

c) að hafa samband við verjanda að eigin vali;

d) að mál hans sé rannsakað án óhæfilegrar tafar;

e) að mál hans sé rannsakað í viðurvist hans;

f) að hann fái að verja sig sjálfur eða með aðstoð verjanda;

g) að lögfræðiaðstoð hans sé ókeypis sé hann févana;

h) að hann fái að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum;

i) að vitni honum í vil komi fyrir dóm til vitnisburðar og séu spurð við sömu aðstæður og önnur vitni;

j) að vera ekki þröngvað til að bera gegn sjálfum sér;

k) að vera ekki þröngvað til að játa sök.

l) að rannsóknaraðilar séu hlutlægir og rannsaki jöfnum höndum atriði, sem mæla með og móti sekt sakbornings;

Með 1. nr. 62/1994 var Mannréttindasáttmáli Evrópu (MSE) lögleiddur hér á landi. Áður en til þess kom hafði Hæstiréttur a.m.k. tvívegis komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði íslenskra réttarfarslaga yrðu að víkja þar sem þau færu í bága við ákvæði MSE. Sú lagatúlkun sem Hæstiréttur beitti í þessum tveimur dómum leiðir óhjákvæmilega til þess að dómstólum beri að leggja réttaröryggisákvæði alþjóðlegra mannréttinda-samninga til grundvallar þegar íslensk réttaröryggisákvæði annaðhvort fara í bága við mannréttindaákvæðin eða slík ákvæði fyrirfinnast ekki í íslenskum lögum eða a.m.k. ekki með skýrum hætti. Samkvæmt þessu ber að túlka íslensk réttarfarsákvæði í samræmi við 3., 5., 6. og 7. gr. MSE og 7., 9., 10., 14. og 15. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Skjólst. m. á og átti rétt á að málsmeðferð í máli hans uppfyllti viðurkennd lágmarksskilyrði réttaröryggis.

Í 6. gr. 2. mgr. MSE er kveðið á um að sakborningur skuli teljast saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum. Í þessu ákvæði felst m.a. að málsmeðferðin skuli vera lögleg og ekki sé heimilt að byggja refsidóm í opinberu máli á ólöglega fengnum sönnunargögnum. Sönnunargögn sem dómur er byggður á skal vera aflað með löglegum hætti. Meðal sönnunargagna eru játningar sérlega mikilvægar, enda skipta þær að jafnaði miklu máli sem sönnunargögn í refsimálum. Þar sem játningar hafa slíka þýðingu er enn mikilvægara en ella að þær séu ekki fengnar með ólögmætum hætti. Sé játninga t.d. aflað með pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð, sem lýst er ólögleg háttsemi í 3. gr. MSE er óheimilt að leggja slíka játningu til grundvallar dómi. Jafnvel þótt játning sé fengin með gagnrýniverðum hætti, sem þó uppfyllir ekki skilyrði þess að teljast brot á 3. gr. MSE, skal ekki byggja dóm á slíkri játningu. Ástæður þessarar afstöðu eru einkum þessar.

a) ekki á sönnunargildinu byggjandi;

b) virðingu dómstóla hrakar;

c) ástæða til að vinna gegn óæskilegri meðferð stjórnvalds.