13. NIÐURSTÖÐUR.

Lögð hafa verið fram ný gögn eins og lýst hefur verið í greinargerð þessari. Er þar um að ræða skriflegar skýrslur frá Erlu Bolladóttur, Albert K. Skaftasyni, Gísla Guðmundssyni, fyrrverandi yfirlögreglu-þjóni, hjónunum Kristrúnu Jónínu Steindórsdóttur, og Þórði Arnari Marteinssyni, rekstraraðilum Alþýðuhússins og nágrönnum Erlu Bolla-dóttur, Elínborgu Rafnsdóttur, Hlyni Þór Magnússyni, fangaverði, séra Jóni Bjarman, fangelsispresti, Magnúsi Leópoldssyni, fasteignasala, og Magnúsi Gíslasyni, fréttamanni. Þá hef ég lagt fram yfirlýsingar séra Guðjóns Skarphéðinssonar í fjölmiðlum árið 1996, dagbækur Síðumúla-fangelsis og úrdrætti úr þeim, svo og dagbókum Hegningarhússins, upplýsingar um ráðningu Karls Schütz, lokaskýrslu Karls Schütz, nýjar upplýsingar um veður í Hafnarfirði og í grennd í janúarlok 1974 og margvísleg önnur gögn, sem upp eru talin í viðfestri skjalaskrá.

Í framlögðum skjölum er að finna annarsvegar nýjar upplýsingar um málsatvik og hinsvegar um málsmeðferð. Meta verður gögn um ákæruatriðin þrjú, sem krafist er endurupptöku á, í ljósi nýrra upplýsinga um málsmeðferðina á sama hátt og meta verður upplýsingar um málsmeðferðina í ljósi nýrra upplýsinga um málsatvik. Með þessu er átt við að því meiri vafi sem leikur á því að sönnunargögn eins og játningar hafi verið rétt metin, því meira máli skiptir hversu vel og löglega var staðið að rannsókn málsins utan og innan réttar og meðferð á sökunautunum sjálfum t.d. varðandi öflun játninga. Því meiri upplýsingar um ranglæti við úrlausn máls og meðferð þess, ólöglegar aðferðir til að koma sökunautum til játningar og vanræksla á að gæta réttra aðferða við meðferð máls eða úrlausn, því meiri kröfur verður að gera til þess að sönnunargögn verði ekki vefengd með skynsamlegum hætti, ekki síst játningar.

Atvik þau, sem byggt er á í þeim þáttum dómsins, sem krafist er að verði enduruppteknir, styðjast eingöngu við meintar játningar sökunauta. Þessar játningar voru dregnar til baka undir rekstri málsins og sýnt hefur verið framá að skjólst.m. hélt ætíð fram sakleysi sínu þar sem á hann var hlustað. Ekkert vitni sá Guðmund Einarsson í nánd við Hamarsbraut 11 og sökunauta í Guðmundarmáli ráðast á Guðmund og verða honum að bana. Ekkert vitni sá Geirfinn Einarsson fara inní bifreið sem sökunautar voru í og aka með þeim í Dráttarbrautina. Ekkert vitni sá nein slagsmál í Dráttarbrautinni umrætt kvöld og enn síður sá nokkurt vitni sökunauta ráðast að Geirfinni og verða honum að bana. Ekkert vitni hefur nokkurn tíma séð sökunauta með lík annaðhvort Guðmundar eða Geirfinns í förum, hvorki í bifreið eða annars staðar. Ekkert vitni er að því að sökunautar hafi sammælst um að bera rangar sakir á svonefnda fjórmenninga.

Í Guðmundarmáli var aðalstuðningurinn við niðurstöðuna sá, að tvær ungar konur hefðu séð Guðmund með Kristjáni Viðari fyrir utan Alþýðuhúsið í Hafnarfirði. Ég hef lagt fram yfirlýsingu annars vitnisins, Elínborgar Rafnsdóttur, þess efnis að vitnið hafi ekki séð Guðmund með Kristjáni, sem er u.þ.b. 190 sm á hæð, heldur með manni sem var u.þ.b. 170 sm á hæð. Sá maður getur ekki hafa verið Kristján. Vitnið hefur lýst því hvernig það var leitt til að bera að maðurinn hafi verið Kristján. Gísli Guðmundsson hefur skýrt frá því að gildi sakbendingar hafi verið takmarkað. Mér er kunnugt um að vitni það sem var með Elínborgu Rafnsdóttur umrædda nótt er einnig ljóst að það getur ekki hafa verið Kristján Viðar sem það sá með Guðmundi Einarssyni umrædda nótt vegna stærðarmunarins. Mun hún bera um það fyrir dómi. Þá hef ég lagt fram yfirlýsingu Kristrúnar Jónu Steindórsdóttur þess efnis m.a. að hún hafi séð Guðmund Einarsson mjög ölvaðan rétt fyrir lokun með manni nokkrum, sem gæti einmitt hafa verið maðurinn, sem vitnin tvö sáu Guðmund með fyrir utan samkomuhúsið. Kristrún segir mann þann sem var með Guðmundi lægri en hann. Með því að nú er sannað að Guðmundur var ekki með Kristjáni fyrir utan samkomuhúsið er ekkert lengur í málinu, sem tengir Guðmund við sökunautana og Hamarsbraut 11. Albert Skaftason getur ekki borið um að hann hafi verið að Hamarsbraut 11 þessa nótt. Gunnar Jónsson tók fram fyrir dómi að hann hefði séð mynd af Guðmundi eftir hvarf hans en hann hefði ekki kannast við hann. Með þessu var Gunnar að segja að hann vissi ekkert um málið hvað sem bókað kynni að vera eftir honum. Sama kom fram í viðtölum hans við lögreglumann eftir skýrslur fyrir dómi. Erla Bolladóttir hefur á sannfærandi hátt gert grein fyrir þessari nótt og því að hún hafi verið alein að Hamarsbraut um nóttina. Þá hefur hún nú skýrt hversvegna hún fór út í öskutunnu um morguninn, en frásögn hennar af þeirri ferð í fyrri framburðum fékk ekki staðist. Lögð hafa verið fram ný gögn um snjókomu og færð og með þeim gögnum er sannað að ekki getur verið, að Albert Skaftason hafi ekið á 17 áragömlum Volkswagen bifreið eftir vegaslóðum í Reykjaneshrauni, enda var slíkum bíl og flestum eða öllum bílum það ófært. Þetta er mikilvægt vegna þess að í dómunum er byggt á þeirri frásögn til styrkingar meintum játningum. Í framburðum sökunauta er ekki minnst á snjó og illa færð í Hafnarfirði og í hrauninu þessa nótt, enda gátu þeir ekki um slíkt borið nema þeir hefðu í reynd verið út í hrauni þessa nótt. Reynt var að fá Albert til að bera um aðra ferð út í hraun löngu síðar á árinu á Toyotabifreið með lík frá Hamarsbraut 11. Þar sem enginn sem tengist sökunautum með neinum hætti bjó þá eða hafði aðgang að Hamarsbraut 11 er sú saga sannanlega alger tilbúningur, en Karl Schütz lagði mikla áherslu á þá sögu, hvað sem kom honum til þess. Þá hef ég lagt fram nýjar upplýsingar frá hjónunum sem ráku Alþýðuhúsið og bjuggu steinsnar frá Hamarsbraut 11, að þau hefðu orðið þess vör um nóttina, ef þeir atburðir og umferð, sem á er byggt í dómunum, hefðu í raun gerst.

Geirfinnsmálið var aðallega byggt á meintum játningum Guðjóns Skarphéðinssonar og framburði Erlu Bolladóttur. Guðjón hefur nú skýrt frá því í viðtali við Morgunblaðið 13. febrúar 1996, að ákæruvaldið hafi búið til söguna um atburðina, sem dæmt var útaf. Mönnum hafi verið lögð orð í munn. Sakborningur orðinn glórulaus eftir átta tíma viðtöl á dag, dag eftir dag. Sakborningurinn getur ekki sofið og fær hugbreytandi geðlyf. Hann verður glórulaus eftir nokkra daga og þá ekki að marka hvað hann segir. Hann sagðist hafa beðið um svefnlyf og fengið geðlyf. Það hafi verið algert kraftaverkalyf og haft geysilega sterk áhrif á sig.

Erla Bolladóttir hefur í nýrri yfirlýsingu gert grein fyrir því hvernig lögreglumennirnir og rannsóknardómarinn fengu hana til að ræða um gleðskap, sem hún hafði á unglingsárum tekið þátt í heima hjá vinkonu sinni, hálfsystur Valdimars Olsen. Þar hafi verið sagðar ýmsar sögur m.a. óskyldar sögur af Klúbbmönnum og Einari Bollasyni. Þar með taldi lögreglan sig hafa tengt skjólst.m. við Klúbbinn, en sú kenning ríkti hjá yfirvöldum að þeir tengdust hvarfi Geirfinns og hafði Magnús Leópoldsson löngu áður verið kallaður fyrir lögreglu þess vegna. Tengingin var sú, að skjólst.m. hefði búið með Erlu. Hún hafði sagt frá gleðskap, þar sem talað var um Einar annars vegar og Klúbbmenn hinsvegar. Þannig taldi lögreglan að tenging hefði tekist. Erla var hálfsystir Einars og nafn hans var nefnt á sama stað og nöfn Klúbbmanna, Magnúsar og Sigurbjörns. Þar með var að áliti lögreglu komin á nægileg tengsl milli skjólst.m. og Klúbbsins. Ekki var það talið skipta máli þó Einar þekkti ekki Klúbbmenn og þeir ekki hann. Varð þessi framburður til að lögreglan, sem lengi hafði haft Klúbbmenn undir grun, lagði til atlögu og handtók þá ásamt Einari og Valdimar, enda þótt þeir tengdust ekki Klúbbnum. Verður að leggja á það ríka áherslu að sannað er í málinu að það var lögreglan, sem hafði grun á Klúbbmönnum í tengslum við hvarf Geirfinns löngu áður en Erla var spurð hvor skjólst.m. hefði nefnt Klúbbmenn.

Þá hefur Erla Bolladóttir skýrt frá tilefni sögu sinnar um ferðina til Reykjavíkur að morgni næsta dags eftir að Geirfinnur hvarf. Hún hafði löngu fyrr átt kunningsskap við pilt suður með sjó og heimsótt hann. Hún notaði ferðasögu frá þeim tíma til að segja rannsóknarmönnum, en þeir kröfðu hana um frásögn í samræmi við rannsóknartilgátur. Ekki tókst að sanna að Erla hefði farið greinda ferð þennan morgun og hef ég sýnt fram á, að eitt aðalvitni ákæruvaldsins, Guðmundur S. Jónsson, sagði allt aðra sögu í upphafi en hann sagði síðar og sú síðari féll betur að tilgátum rannsóknarmanna. Er líklegt að vitnið hafi lesið um framburð Erlu í blöðum, en rannsóknarmenn héldu blaðamannfundi og skýrðu frá yfirheyrslum eða þá að slíkar frásagnir láku frá rannsóknarmönnum. Þær gátu ekki stafað frá sökunautum eða verjendum, því þessir aðilar vissu ekkert um framburði annarra.

Niðurstaðan um að sökunautar hefðu borið rangar sakir á fjórmenningana og þeim hefði verið haldið í gæslu í 90-105 daga vegna frásagna skjólst.m. fær ekki staðist. Í gögnum málsins virðist koma fram, að lögreglan hafi spurt sökunauta um viðurvist margra annarra en fjórmenninganna í Dráttarbrautinni og sökunautar jafnan jánkað við nöfnum þeim sem um var spurt. Voru þeim sýndar myndir af 20 mönnum. Þetta er sama aðferðin og var notuð við Albert K. Skaftason þegar hann var spurður um kirkjugarða sem lík hefði verið grafið í að hann jánkaði öllum kirkjugörðum sem nefndir voru.

Þá er minnt á að nauðsynlegt er að bregða mælikvarða sennileika á málsatvik áður en dómar ganga. Í Guðmundarmáli var talið að mótífið hafi verið að ná peningum af Guðmundi til greiða hluta af andvirði brennivínsflösku. Sökunautar notuðu fyrst og fremst fíkniefni önnur en áfengi. Samkvæmt rannsóknargögnum fíkniefnalögreglu áttu allir þeir sem taldir hafa verið að Hamarsbraut 11 nóg af peningum dagana á undan og höfðu hvorki tilefni til að bísa veskjum eða berja menn til að eiga fyrir flösku. Rannsóknarmenn höfðu ekki áhuga á að leggja fram gögn um þessa peningaeign sökunauta og lögðu gögnin ekki fram. Það var ekki fyrr en eftir ákæru að Gísli Guðmundsson aflaði þeirra úr hendi rannsóknardómarans og voru þau þá lögð fram. Hinsvegar virðist ákæruvaldið ekki hafa breytt kenningum sínum um mótíf þrátt fyrir að grundvöllurinn væri horfinn.

Samkvæmt dómi í málinu er talið að Geirfinnur Einarsson, 32 ára gröfumaður á Suðurnesjum, hafi verið að skemmt sér í Klúbbnum þegar annað hvort skjólst.m.eða Kristján Viðar hafi snarað sér að honum og kynnt sig sem forstjóra Klúbbsins, Magnús Leópoldsson. Skjólst.m. og Kristján Viðar voru 19 ára að aldri og báru með sér í útliti, að þeir voru ekki forstjórar í stórfyrirtæki og ekki heldur í smáfyrirtæki. Þeim er lýst í skjölum málsins og til eru af þeim myndir. Er fyrirfram útilokað að Geirfinnur hefði trúað slíkum sögum. Félagi Geirfinns, sem nánast missti ekki af honum augun meðan á dvöl þeirra stóð sá hann aðeins tala við einn mann og getur sá ekki hafa verið annar hvor sökunautanna. Því er alls ekki sannað að neitt samband hafi verið milli sökunauta og Geirfinns. Svo sem gerð hefur verið grein fyrir þá er nánast sannað að hvorki skjólst.m. né Kristján komu í Hafnarbúðina eða annað til að hringja í Geirfinn um það leyti sem talið er að hringt hafi verið til hans. Héraðsdómur áttar sig á þessu og sniðgengur vandann, þannig að þar er ekki að finna skýringu á því hver hringdi í Geirfinn, en ljóst að það voru ekki sökunautar. Í dómi Hæstaréttar er hinsvegar farin sú leið að segja að við þar verði að miða þótt ósannað sé að Kristján eða skjólst.m. hafi hringt í Geirfinn úr Hafnarbúðinni. Hæstarétti var ljóst að atburðakeðjan varð að ganga upp til að unnt væri að dæma skjólst.m. Það gerði hún ekki vegna þess að vitni bera um að sökunautar hafi ekki komið þar inn um kvöldið. Hæstiréttur tekur hinsvegar ekki afstöðu til þess hversvegna reynt var að láta styttuna margrómuðu af manninum sem hringdi líkjast Magnúsi Leópoldssyni.

Samkvæmt framansögðu hefur verið sýnt framá, að skilyrði oml. 184. gr. 1. mgr.a um endurupptöku eru uppfyllt án þess að fleira komi til, þar sem ætla má að hin nýju gögn hefðu skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu í málinu, ef þau hefðu komið fyrir dómarana áður en dómur gekk.

Þá hefur verið sýnt fram á að allar helstu grundvallarreglur um réttaröryggi, hvort sem er í landsrétti eða í alþjóðlegum mannréttinda-sáttmálum, hafa verið brotnar á öllum stigum málsins og af öllum aðilum, sem að málinu hafa komið. Hefur verið að því vikið, að sterk öfl í þjóðfélaginu hafi krafist þess að máli þessu yrði lokið vegna þeirra óþæginda, sem aðdragandi þess hafði valdið, en með aðdraganda er hér átt við svonefnd Klúbbmál og spíramál, sem náðu hámarki með aðför að dómsmálaráðherra á þingi. Í framhaldi af því var ráðinn þýskur lögreglu-maður sem einkum var þekktur fyrir baráttu gegn hryðjuverkamönnum. Hann leit svo á að Guðmundarmál væri upplýst að fullu og hlutverk hans væri að undirbúa málssókn, sem hefði það að markmiði að sanna þær grunsemdir sem þegar höfðu verið felldar á þá sem síðar voru dæmdir. Hann sniðgekk allar aðrar grunsemdir og mótíf og var þó af nógu að taka. Í lokaskýrslu hans kemur fram að hann er síður en svo viss í sinni sök og að honum er ljóst að sumir hlekkir keðjunnar eru afar veikir. Áfram var haldið að yfirheyra dögum saman án skýrslugerðar og að sjálfsögðu án nokkurs tillits til lagafyrirmæla um yfirheyrslur. Verður viðhorf rannsóknamanna og sakadómsins til viðurvistar verjenda helst skýrt með því að sjálfstæðar spurningar þeirra gætu leitt til annarrar niðurstöðu í yfirheyrslunum og þar með haft áhrif á dómsniðurstöður. Bent hefur verið á mistök Hæstaréttar t.d. að því er varðar túlkun á ofbeldi því sem skjólst.m.var beittur 5.maí 1976 og Hæstiréttur taldi það ekki skipta máli þar sem hann hefði þá þegar játað sakir í Guðmundarmáli, en samprófunin þennan dag hafði þann tilgang að fá skjólst.m. til að játa á sig sakir í Geirfinnsmáli. Þá hefur sannast, að stjórnvöld létu í té rangan útdrátt úr fangelsisdagbók. Voru rangfærslur til þess fallnar að leyna þeirri meðferð sem skjólst.m. hafði orðið fyrir í fangelsinu og hafði ekki annan tilgang en þröngva skjólst.m. til játninga. Hæstarétti var ekki kunnug um þessi atvik er málið var dæmt og má ætla að dómur hefði gengið með öðrum hætti ef upplýsingarnar hefðuð legið fyrir. Þá vissi Hæstiréttur ekki að ætlunin var að blekkja hann með úrdrættinum og hafa áhrif á dóm hans ákæruvaldinu í hag, en skjólst.m. í óhag. Dómstólum er ætlað að koma í veg fyrir að ákæruvaldið hafi áhrif á niðurstöðurnar með því að leggja fram rangar opinberar skýrslur. Er ekki vafi á að um refsivert brot var að ræða. RLR hafði rannsakað bækurnar og sakadómur virtist stjórna fangelsinu ásamt lögreglumönnunum og ákæruvaldinu. Allir þessir aðilar vissu um lögbrot gegn skjólst.m. og dómsmálaráðuneytið vissi eða átti að vita um þau. Vísað er að öðru leyti til síðasta kafla um brotin og heimfærslu brotanna og þýðingu.

Sannað hefur verið að játningar þær sem dómar eru byggðir á eru fengnar með ólögmætum hætti og með refsiverðri háttsemi. Skilyrði oml. 184. gr. 1. mgr.b eru því uppfyllt, en þar er aðeins gerð krafa um að ætla megi að þau atvik sem þar er lýst hafi gerst og leitt til rangrar niðurstöðu.Ítrekað er að þar sem niðurstaða málsins er einungis byggð á játningum, sem sökunautar hafa afturkallað, ýmist jafnóðum eða síðar, og lýst því hver í sínu lagi, að þær hafi verið fengnar með þvingunum, þá verður dómur að sýna fram á að þær meintu játningar, sem einhvern tíma voru taldar hafa verið gefnar, hafi verið fengnar með löglegum hætti. Nú hefur verið sannað með ótvíræðum hætti að þær voru ólöglega fengnar og ekki var farið að lögum við yfirheyrslur sökunauta og vitna. Verjendur fengu aðeins í undantekningartilvikum að vera viðstaddir yfirheyrslur á rannsóknarstigi og þeir fengu ekki að vera viðstaddir vitnaleiðslur og yfirheyrslur yfir meðsökunautum. Skjólst.m. fékk ekki að vera viðstaddur hina lokuðu málsmeðferð að því undanteknu að hann fékk að hlusta á munnlegan málflutning í málinu í héraði og Hæstarétti!

Rannsóknaraðilar vanræktu stórkostlega þá lagaskyldu sem á þeim hvíldi að bóka reglulega og skilmerkilega það sem fram fór í yfirheyrslum yfir sakborningum og vitnum. Var að meginstefnu ekki annað bókað en það sem rennt gat stoðum undir rannsóknartilgátur á hverjum tíma. Þetta torveldar skjólst.m. verulega í endurupptökubeiðni þessari að sýna hvernig framburðir sakborninga og vitna mótuðust óeðlilega af þeim aðferðum sem beitt var við rannsóknina. Þá var gögnum leynt fyrir sakborningum og dómstólum og hafa mörg hver enn ekki komist í leitirnar. Alla óvissu um þetta á vegna þessarar ólögmætu vanrækslu rannsóknaraðila að túlka skjólst.m. í hag við mat á endurupptöku-beiðninni.

Því er hér allra virðingarfyllst haldið fram, að sýnt hafi verið fram á að ætla megi, að hæstaréttarmálið nr. 214/1978 hefði farið öðruvísi, ef hin nýju gögn hefðu legið fyrir upphaflega við meðferð málsins og farið hefði verið að lögum við rannsókn og meðferð þess og því beri að endur-upptaka það skv. oml. 184.gr. 1. mgr. a og b.

 

Reykjavík, 20. febrúar 1997

Ragnar Aðalsteinsson hrl.