Ragnar Halldór Hall, hrl.,

settur ríkissaksóknari við meðferð beiðni

um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 214/1978

Mörkinni 1 108 Reykjavík

_____________________________

Hæstiréttur

Dómshúsinu v/Lindargötu

150 Reykjavík.

Reykjavík 12. desember 1995

Efni: Krafa Sævars Marinós Ciesielski, Eggertsgötu 10, Reykjavík, um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 214/1978, sem dæmt var í Hæstarétti 22. febrúar 1980.

Með bréfi 23. nóvember 1994, sem ritað er til Hæstaréttar Íslands en afhent var í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 25. nóvember 1994, hefur Sævar Marinó Ciesielski gert kröfu um að ofangreint dómsmál verði endurupptekið og dæmt að nýju.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið sendi erindi þetta og gögn er því fylgdu til embættis ríkissaksóknara. Hallvarður Einvarðsson vék sæti við meðferð erindisins og 16. desember 1994 var undirritaður skipaður til að gegna störfum ríkissaksóknara við meðferð þess.

Með ofangreindum dómi Hæstaréttar, sem birtur er Hrd. 1980, 89, var dómfelldi Sævar Marinó sakfeldur ásamt 5 öðrum einstaklingum fyrir ýmis afbrot. Meðal þess sem dómfelldi Sævar Marinó var sakfeldur fyrir var stórfelld líkamsárás á Guðmund Einarsson aðfaranótt 29. nóvember 1974, sem leiddi til dauða. Voru líkamsárásir þessar í báðum tilvikum taldar varða við 218. og215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Beiðni dómfellda Sævars Marinós verður að skýra svo að hann geri kröfu um endurskoðun á sakfellingu að því er hann varðar vegna þessara tveggja þátta málsins, en að hann geri ekki athugunasemdir við niðurstöðu umrædds dóms um önnur ákæruatriði sem þar voru dæmd.

Um meðferð ákæruvaldsins á erindi þessu:

Bein um endurupptöku málsins fylgdi greinargerð dómfelda (skjal H). Af hálfu ákæruvalds var beiðanda ritað bréf 12. janúar 1995 (skjal D), þar sem lýst er m.a. þeirri skoðun um endurupptöku uppfylli ekki öll skilyrði 3.mgr. 186. gr. laga nr. 19/1991. Jafnframt var honum gefinn kostur á að bæta úr, ef hann óskaði þess, áður en skjöl málsins yrðu send Hæstarétti til meðferðar. Bréf þetta var afhent dómfellda í skrifstofu undirritaða 12. janúar 1995.

Dómfellda var aftur ritað bréf 3. apríl 1995 (skjal G), þar sem ekki höfðu þá borist frá honum frekari gögn eða rökstuðningur, en áður hafði að vísu borist frá honum bréf dags. 27. janúar 1995 (skjal F). Í kjölfar móttöku bréfsins 3. apríl 1995 hafði dómfelldi margsinnis samband við undirritaðan vegna vinnu sinnar við að útbúa frekari gögn til stuðnings beiðni sinni og hefur hann afhent mikið magn skjala og skriflegs rökstuðnings. Nú síðast bárust svo gögn frá honum í byrjun þessa mánaðar, skjal I, þar sem hann hefur raðað upp öllu því helsta sem hann hafði áður afhent og jafnframt er þar skrifleg útlistun hans á málinu.

Tillaga ríkissaksóknara:

Með vísan til 1.mgr. 187. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 er sú tillaga gerð til Hæstaréttar að hafnað verði kröfu dómfellda Sævars Marinós Ciesielski um endurupptöku máls þessa.

Rökstuðningur:

Um rökstuðning fyrir kröfu um endurupptöku umrædds hæstaréttarmáls vísar dómfelldi til 1. mgr.

24.gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Dómar íslenskra dómstóla eru ekki stjórnsýsluákvarðanir og samkvæmt 1. gr. stjórnsýslulaga taka þau lög ekki til meðferðar mála fyrir dómstólum.

Dómfelldi vísaði einnig í upphaflegri beiðni sinni til ákvæða eldri laga um meðferð opinberra mála, þ.e. laga nr. 74/1974, einkum 1.og 2. tölul. 192. gr. þeirra. Með bréfi sínu 27. janúar 1975, skjali F, breytti hann þessari tilvísun og vísar nú um heimild til endurupptökunnar til b-lið 1. mgr.184. gr. núgildandi laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Skv. b-lið 1. mgr. 194. laga nr. 19/1991 má taka dæmt opinbert mál upp á ný eftir kröfu manns sem telur sig sýknan sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef ætla má að dómari, ákærandi, rannsóknari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða hegðun í því skyni að fá fram þau málalok sem orðið eru.

Dómfelldi hefur í málatilbúnaði sínum lagt fram ljósrit af fjölda blaða- og tímaritsgreina og tilfært að auki fjölmörg atriði úr rannsókn máls þessa á sínum tíma. Dómfelldi gagnrýnir fjölmargt sem hann telur hafa gerst við lögreglurannsókn, dómsrannsókn og dómsmeðferð þessara mála og ber þungar sakir á ýmsa þá sem að málinu komu. Hann hefur hins vegar að mati ákæruvalds ekki fært fram haldbær gögn um að málalok hafi verið fengið fram með þeim hætti sem lýst er í umræddu lagaákvæði. Nánast allt sem dómfelldi telur hafa farið úrskeiðis var komið fram þegar við dómsmeðferð umrædds máls. Málatilbúnaður hans nú er því að meginstofni til gagnrýni á úrlausn Hæstaréttar um atriði sem lágu fyrir dóminum og tekin var efnisleg afstaða til.

Rétt er þó að vekja athygli á því, að dómfelldi hefur haldið því fram að í dómi sakadóms í ávana- og fíkniefnamálum uppkveðnum 16. desember 1980 komi fram sönnun um atriði sem hér gæti skipt máli. Þau gögn hafi ekki legið fyrir þegar dæmt var í hæstaréttarmálinu nr.214/1978. Lætur dómfelldi að því liggja að rannsóknarar hafi vísvitandi stungið gögnum þessum undir stól þar sem í þeim hafi komið fram sannanir um að dómfelldi hafi ekki verið í Hafnarfirði á þeim tíma sem talið er að Guðmundur Einarsson hafi látið lífið. Heldur dómfelldi því fram að við rannsókn fíkniefnamáls þessa hafi komið fram að hann hafi verið í Gljúfurárholti í Ölfusi á umræddum tíma. Vísar hann í því sambandi til framburðar vitnis, Viggós Guðmundarsonar, sem var leigubifreiðarstjóri og hafi skýrt frá því á þessum tíma að hafa ekið dómfellda þangað. Vegna þessara staðhæfinga dómfellda eru af ákæruvaldsins hálfu lögð fram skjöl merkt J-N, sem eru ljósrit lögregluskýrslna og endurrit úr þingbók sakdóms í ávana- og fíkniefnum.

Í skjali K lýsir Viggó Guðmundsson leigubifreiðarstjóri því að hann hafi komið frá Kaupmannahöfn 22. janúar 1974, en dómfelldi daginn eftir, en þeir höfðu farið þangað saman. Síðan greinir hann frá því að hann hafi ekið dómfellda nokkuð oft fyrstu dagana eftir heimkomu hans, meðal annars í tvö skipti að Gljúfurárholti í Ölfusi, sem er skammt austan Hveragerðis. Einnig hafi hann í önnur skipti ekið dómfellda m.a. að starfsmannabústað í Kópavogi og einnig að Hamarsbraut 11 Hafnarfirði.

Í skjali M er framburður Viggós Guðmundssonar um þessi atriði fyrir dómi 27. og 28. febrúar 1974 við dómsrannsókn út af ætluðum brotum dómfellda o.fl. gegn lögum nr. 77/1970. Hann hafði áður gefið skýrslu fyrir dóminum vegna sama máls, sbr. skjal L, en þar er ekki sérstaklega vikið að akstri með dómfellda. Í skjali M rekur bifreiðarstjórinn akstur sinn með dómfellda eftir heimkomu þeirra frá Kaupmannahöfn í janúar 1974. Er þar getið um ferðir að Gljúfurárholti í Ölfusi 24. janúar og 28 janúar 1974. Dómfelldi hafi veri einn í fyrri ferðinni og þá haft mat meðferðis, enda ætlað að dvelja þar. Ekkert kemur fram um það í þessum gögnum hverjir réðu húsum á þessum stað eða hvenær eða hvernig dómfelldi fór aftur frá Gljúfurárholti eftir dvölina.

Þegar Viggó Guðmundsson ók dómfellda að Gljúfurárholti 28. janúar 1974 var Kristján Viðar Viðarsson með honum í för og virðist mega ráða af framburði bifreiðarstjórans að dómfelldi hafi farið með bifreiðinni aftur til baka frá Gljúfurárholti í það skiptið.

Í þessu sambandi er ástæða til að vekja athygli á framburði dómfellda sjálfs um ferðir sínar umrædda daga í janúar 1974, svo sem hann er reifaður í dómi sakadóms Reykjavíkur í Hrd. 1980, bls. 203-204. Sú skýrslugjöf fór fram eftir að dómfelldi hafði dregið til baka fyrir framburð sinn um þátttöku í árásinni á Guðmund Einarsson. Skýringar dómfellda á ferðum sínum falla hér fyllilega að áður gerðum framburðarskýrslum Viggó Guðmundssonar sem fyrr var getið. Af hálfu ákæruvaldsins er þess vegna litið svo á að krafa um endurupptöku málsins verði alls ekki byggð á einhverjum gögnum sem fram komi í umræddum skýrslum fíkniefnamálsins. Engin gögn í því máli eru þess eðlis að þau veiti dómfellda einhvers konar "fjarvistasönnun" frá vettvangi líkams-árásarinnar á Guðmund Einarsson, svo sem um hana var dæmt í umræddu hæstaréttarmáli.

Skjal J er hér lagt fram til fyllingar, en þar er að finna framburð vitnis sem skýrir frá því að dómfelldi hafi oft gist hjá vitninu að næturlagi fyrstu vikurnar eftir að hann kom heim úr utanför þeirri sem að framan var getið. Þetta vitni var einnig yfirheyrt við rannsókn málsins vegna hvarfs Guðmundar Einarssonar og er þessi skýrsla í fullu samræmi við framburð vitnisins þar.

Í dómi sakadóms í ávana- og fíkniefnamálum 16. desember 1980 í málinu nr. 207/ 1975 (sjá skjal N) er ekkert vikið að akstri Viggós Guðmundssonar með dómfellda.

Dómfelldi heldur því fram á ýmsum stöðum í málatilbúnaði sínum að við rannsókn og meðferð umrædds dómsmáls hafi verið brotin á honum mannréttindi þannig að farið hafi í bág við Mannréttarsáttmála Evrópu. Jafnframt því sem minnt er á að sáttmáli þessi hefði á umræddum tíma ekki lagagildi hér á landi er á það minnt, að dómfelldi hafði við rannsókn máls þessa skipaðan réttargæslumann og skipaðan verjanda við meðferð málsins fyrir dómi, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Þar lágu fyrir öll gögn um meðferð málsins og þær ávirðingar sem dómfelldi hafði við meðferð málsins borið á lögreglumenn og aðra sem unnið höfðu að málinu, svo og fangaverði.

Allt er þetta ítarlega rakið í hæstaréttardóminum í málinu nr. 214/1978, svo og héraðsdóminum.

Ákvæði XXII. kafla laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 hafa að geyma þröngar heimildir til endurupptöku dæmdra mála. Skv. þeim nægir ekki til endurupptöku máls að dómþolar séu ósáttir við mat á sönnunargögnum sem dómur hefur byggst á eða rökstuðningur fyrir sakfellingu. Dómfelldi eyðir í málatilbúnaði sínum löngu máli í að rökstyðja að mat dómstóla á sönnunargögnum hafi verið rangt og að játningar sem sakfelling hafi byggst á hafi verið fengnar með ólögmætum aðgerðum þeirra sem stýrðu lögreglurannsókn á sínum tíma. Hæstiréttur hefur í umræddum dómi tekið afstöðu til þessara röksemda á sínum tíma og lagt þar til grundvallar þágildandi lög um þessi efni. Frekari rökræður um niðurstöðu dómsins geta ekki að óbreyttum lögum orðið tilefni til að endurupptaka málið.

Skv. framansögðu er það skoðun ákæruvaldsins að engin haldbær gögn hafi komið fram um að ólögmætar aðgerðir þeirra sem önnuðust rannsókn umrædda mála á lögreglustigi eða fyrir dómi hafi leitt til þess að röng niðurstaða hafi orðið í málinu um umrædd ákæruatriði. Ekki hafa heldur komið fram nein gögn sem gefi tilefni til endurupptöku málsins að öðrum ástæðum.

Af hálfu ákæruvaldsins er ekki talin ástæða til að leggja til að fram fari lögreglurannsókn vegna þeirra staðhæfinga sem fram koma í málatilbúnaði dómfellda.

Virðingarfyllst

Ragnar Halldór Hall