Sævar Marínó Ciesielski

101 Reykjavík

_______________________________________________

Hæstiréttur Íslands

Dómshúsið v/Lindargötu

150 Reykjavík.

Vegna endurupptöku Hæstaréttarmálsins nr. 214/1978.

Settur ríkissaksóknari vegna upptöku Geirfinns- og Guðmundarmála, Ragnar Hall hrl., leggur til við Hæstarétt, í bréfi dagssettu 12. desember 1995, að kröfu minni um endurupptöku verði hafnað. Í rökstuðningi sínum segir hann: ,,nánast allt sem dómfelldi telur hafa farið úrskeiðis var komið fram þegar við dómsmeðferð umrædds máls. " (Vitnað er í skýrslu á bls. 2, í miðri 4.mgr.) Þessari niðurstöðu Ragnars Hall hrl., er hér með mótmælt, þar sem hún samrýmist ekki þeim gögnum, sem ég hef lagt fram til grundvallar kröfu um breytta niðurstöðu á dómi Hæstaréttar í fyrrnefndum málum.

Ragnar var skipaður með bréfi ráðuneytisins, dagsettu 16. desember 1994. Ég sendi Ragnari skeyti þann 12. janúar 1995 og krafði hann um opinber gögn, er mig varðaði. Hann boðaði mig á sinn fund samdægurs og sagðist ekki geta orðið við því, þar sem hann hefði engin gögn. Þá afhenti hann mér bréf, þar sem kemur fram, að hann telur beiðni mína um endurupptöku ekki uppfylla öll lagaleg skilyrði. Mér þótti þessi niðurstaða einkennileg, þar sem hann hafði engin gögn í höndunum, utan þau, sem ég hafði afhent honum. Við þetta tækifæri afhenti ég Ragnari lögregluskýrslur úr svokölluðu fíkniefnamáli, auk annarra gagna sem ekki lágu fyrir, við meðferð mála í Hæstarétti. Hann gerir ekki grein fyrir gögnum þessum í skýrslu sinni til Hæstaréttar.

Ragnar Hall krafði mig um opinber gögn, sem ég taldi ekki í mínum verkahring að afla, enda hafði ég ekki greiðan aðgang að þeim. Ég afhenti honum öll gögn, sem ég hafði undir höndum, auk dómgerða, sem lagðar voru fyrir Hæstarétt á sínum tíma. Ég óskaði eftir því, að hann tæki skýrslur af vitnum, en það taldi hann ekki vera innan síns verksviðs.

Með vísan í ofantalin atriði tel ég, að Ragnar hafi reynst ófær um að fjalla um beiðni mína um endurupptöku mála fyrir Hæstarétti.

Ég er einstaklingur, að leita réttar míns í 20 ára gömlu sakamáli. Ég hef lagt fram töluvert af gögnum, sem sýna ótvírætt, að þessi mál hafa ekki verið réttilega til lykta leidd, og er það einnig almannarómur. Þessi mál eru ekki einkamál mitt, heldur "opinber mál", sem snerta allt samfélagið. Það ætti ekki að vera feimnismál í réttarríki, að viðurkenna mistök við úrlausn umræddra mála, sérstaklega með tilliti til þess, að réttafar á þeim árum var með allt öðrum hætti.

Ef beiðni mín um endurupptöku hefur gengið of skammt, óska ég eftir að fá að laga hana, eins og boðið er uppá í XXIII. kafla, um endurupptöku dæmdra mála, 3. mgr. 194. gr. laga nr. 74/1974.

Krafa mín um endurupptöku mála byggist á því sem getið er um í b-lið 1. mgr. 184. gr. núgildandi laga um endurupptöku dæmdra mála, nr. 19/ 1991. ,,ef ætla má að dómari, ákærandi eða rannsóknari hafi haft í frammi refsiverða hegðun, í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru svo sem ef falsvitna hafi verið aflað...... , vitni eða aðrir hafi gefið vísvitandi rangar skýrslur.."

Ég vil einnig vísa til þess, að gögnum um málsatvik var áfátt. Auk þessa tel ég, að komið hafi fram, að við rannsókn málsins fékk ég ekki nægilega vernd hagsmuna minna.

a) Eftir handtöku þann 12. desember 1975, voru eigur mínar bornar út af heimili mínu að Þverbrekku 4 í Kópavogi og þeim ráðstafað eða fleygt, án lagalegrar heimildar. Þetta kom í ljós, eftir að dómur var kveðinn upp í Hæstarétti í febrúarmánuði 1980. Vitni, sem hefur nýlega haft samband við mig, Pálmi Bergmann, sá hluta af dóti mínu í ruslageymslu og hirti að eigin sögn úr því peninga, sem hann fann, einnig blaðahníf, sem ég átti. Sýnir þetta og sannar, að rannsóknaraðilar gerðust brotlegir strax við upphaf máls. (Sjá ljósrit af skýrslu Gísla Guðmundssonar dags. 10-02 1981 merkt a.)

b) Málsgögn í svonefndu fíkniefnamáli frá janúar 1974, eru skýrslur teknar af Kristjáni Viðari Viðarssyni og Albert K. Skaftasyni, auk Erlu Bolladóttur. Í því máli var fjöldi fólks nefndur til sögunnar. Þessir vitnisburðir komu ekki fram, fyrr en eftir að dómur var uppkveðinn í Hæstarétti. Hér á ég sérstaklega við vitnisburð Viggós Guðmundssonar leigubílsstjóra, fyrir dómi í ávana- og fíkniefnum, þar sem hann kvaðst hafa ekið með mig austur í sveitir, föstudaginn 25. janúar 1974. Framburðurinn samrýmist lögregluskýrslu fíkniefnadeildar yfir Erlu Bolladóttur 7. febrúar 1974. Þar segir:,, Sérstaklega aðspurð hvort mættu er ekki kunnugt um síðustu utanlandsferðir Sævars svarar hún svo: Ég hef heyrt það utan að mér, að hann hafi farið utan nú nýlega. Sjálf hef ég enga hugmynd um það. Ég veit, að hann hefur ekkert farið síðan sunnudaginn 27. janúar, en þá kom hann til mín fyrst eftir langan tíma og kom hann nokkrum sinnum til mín á Hamarsbraut þá viku, en ég hef ekki séð hann síðan á sunnudaginn síðasta."

Í fyrstu gögnum málsins er greint frá því fólki, sem ég dvaldi hjá austur í Ölfusi þessa helgi, sjá lögregluskýrslu nr. 4, en þar segir: ,,Bifreiðarstjóri á G-842, sem við höfðum upp á, sagðist hafa séð hjá Sævari mikla peninga, og hann hafi haft á orði að fara "austur", en það hefur komið fram, að þar hafi hann átt við Gljúfurárholt í Ölfushreppi, en þar býr fólk, sem einnig hefur verið viðriðið fíkniefnamisferli, svo sem B.Æ., Ö.I., G.G., G.E. og fl." ( Sjá ljósrit af gögnum merkt b.)

c) Reikulir framburðir vitnisins Alberts K. Skaftasonar í svokölluðu Guðmundarmáli eru staðfesting á því, hversu mikil fjarstæða það mál er allt saman. Þar er t.d. lýsing á nýrri bifreið sett í stað fyrri lýsingar, svo sagan verið trúverðug. Framburður hans virðist hafa einkennst af óvild í minn garð vegna fíkniefnamálsins. (Sjá ljósrit af gögnum merkt c.)

d) Í skýrslum vegna Guðmundarmáls er gert ráð fyrir, að ég eigi heima að Hamarsbraut 11, Hafnarfirði, ásamt Erlu Bolladóttur. Þar átti glæpur að hafa átt sér stað, að mati lögreglumannsins Eggerts Bjarnasonar, upphafsmanns Guðmundarmálsins. Engin ummerki voru í því húsnæði, sem bentu til þess, að þar hefði maður beðið bana. Þar fyrir utan hef ég aldrei búið að Hamarsbraut 11, Hafnarfirði. Sambúð okkar Erlu hófst síðar.

e) Hinn eiðfesti framburður Erlu Bolladóttur við upphaf Guðmundar-máls var sagður aðalsönnunargagn málsins. Ég tel, að hann hafa verið uppspuni og ekkert annað studdi þann framburð. Þessi eiðfesti framburður gat skapað Erlu Bolladóttur refsiábyrgð. Það átti Sakadómsfulltrúinn að vita. Allur þungi rannsóknarinnar fólst síðan í því að þvinga fram játningar, sem myndu staðfesta framburð Erlu. Þegar tekið er tillit til þess, hversu langt var liðið frá hvarfi Guðmundar, voru þessar forsendur ekki næg ástæða til að fara af stað með svo alvarlega ákæru. Enginn rökstuddur grunur lá fyrir, um að refsiverður verknað hefði átt sér stað.

f) Við málsmeðferð í Sakadómi Reykjavíkur fékk ég ekki að kynna mér þau málsgögn, sem voru lögð gegn mér eða aðrar skýrslur málsins. Mér var ekki gefinn kostur á, að láta kalla fyrir vitni til sönnunar fjarvista, og misbrestur var á því, að ég fengi að spyrja vitni, sem notuð voru gegn mér.

g) Síðan dómur var uppkveðinn í Hæstarétti, hefur fv. fangavörður í Síðumúlafangelsi, Hlynur Þór Magnússon, sagt frá þeim harðræðis-aðförum lögreglu og fangavarða, er ég sætti vegna rannsóknar Geirfinns- og Guðmundarmála. Þetta sýnir og sannar, hvernig að þessum málum var staðið. Framburður hans er mikilvægur, þar sem hann sannar, að rannsóknaraðilar og fangaverðir, sem báru á móti því að hafa beitt harðræði, sögðu ósatt fyrir rétti í Sakadómi við meðferð málsins 1977. Hlynur, auk annarra fangavarða, er í dag reiðubúinn til að koma fyrir dóm og vitna frekar um málsatvik. (Sjá ljósrit af blaðaviðtali við Hlyn Þór Magnússon aftarlega í greinargerð, sem lögð var fram 23. nóvember 1994 og í hefti um endurupptöku á síðu 185)

h) Í bréfi Arnar Höskuldssonar, fv. Sakadómsfulltrúa, til Sakadóms vegna ásakana sakborninga um harðræði segir hann, að ég hafi í þinghaldi þann 12. janúar 1976 kært lögreglumenn fyrir að hafa þvingað mig til játninga. Hann hafi ekki tekið mark á framburði mínum, enda talið sig vita betur. Í þingbók frá sama tíma, eða þann 12. janúar, er hins vegar bókað, að ég hafi sagst hafa sparkað í höfuð Guðmundar Einarssonar og orðið honum að bana. Þetta voru ekki mín orð, heldur eitt af þeim atriðum, sem lögreglumenn báru upp á mig og eitt af þeim atriðum, sem ég taldi mig vera að kæra. Fulltrúinn segist hafa talið sig vita betur og rangfærir orð mín. (Sjá ljósrit af bréfi h, og í hefti um endurupptöku á síðu 184.)

i ) Athugasemdir Ármanns Kristinssonar Sakadómara

(Sjá ljósrit af bréfi dags. 9. janúar 1977)

j) Athugasemdir Gísla Guðmundssonar, fv. yfirlögregluþjóns.

(Sjá hjálagða skýrslu dags. 1. okt. 1977)

k) Athugasemdir Kristmundar Sigurðssonar, fv. yfirlögregluþjóns.

(Sjá ljósrit af bréfi dags. 14. janúar 1977)

Skýrslur i, j, k, er að finna aftast í greinargerð, sem lögð var fram

23. nóvember 1994.

Margt hefur breyst á 20 árum. Réttarstaða einstaklings við rannsókn sakamála hefur breyst verulega hér á landi. Mannréttindasáttmáli Evrópu var ekki lögfestur fyrr en nýlega. Það tekur af öll tvímæli, að hann hafi ekki verið í gildi hér á landi.

Að mínum dómi er ekki hægt að saka menn um refisverðan verknað með ekkert í höndunum um, að glæpur hafi átt sér stað, og það tveimur árum eftir að meint afbrot á að hafa verið framið. Halda síðan mönnum í einangrun, þar til þeir játa fáránlegar staðhæfingar rannsóknaraðila. Slíkar rannsóknaraðferðir hljóta að teljast ámælisverðar og eru líklega einsdæmi í vestrænum réttarríkjum.

Ragnar telur í rökstuðningi sínum, að ég hafi tiltekið ákveðnar lagagreinar vegna upptöku mála og finnur að því, að ég hafi breytt þeirri tilvísun í bréfi 27. janúar 1995 og hafi þá vísað til heimilda um endurupptöku í b-lið 1. mgr. 184. gr. núgildandi laga um meðferð opinberra mála nr. 19/ 1991. Þar segir: ,,má taka dæmt opinbert mál upp á ný eftir kröfu manns, sem telur sig sýknan sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef ætla má að dómari, ákærandi, rannsóknari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða hegðun í því skyni að fá fram þau málalok, sem orðin eru."Það er vitanlega ekki mitt að heimfæra ákvæðin uppá lagagreinar. Það var hlutverk Ragnars sjálfs, að heimfæra þær uppá það sem við á. Krafan byggir á efnislegum gögnum, sem ég legg fram. Helsta hlutverk ríkissaksóknara er að heimfæra efnisleg atriði uppá lagagreinar. Ragnar getur ekki vikið sér undan þeirri skyldu.

Í bréfi mínu til ráðuneytisins, dags. 27. september 1993, fór ég þess á leit við dómsmálaráðuneytið, að ég yrði hreinsaður af svokölluðum Geirfinns- og Guðmundarmálum. Viðbótargögn lagði ég síðan fram 23. nóvember 1994. Í svarbréfum ráðuneytisins, 12. apríl og 16. september 1994, vegna beiðni minnar um upptöku mála, kemur skýrt og greinilega fram að ég hafi beðið um upptöku á málunum báðum og lagt til gögn í því sambandi. Þetta kemur einnig fram í bréfi umboðsmanns alþingis 31. október 1994 (sjá fyrrnefnd bréf aftast í greinargerð, sem lögð var fram 23. nóvember 1994). Í skipunarbréfi til Ragnars Hall hrl., er getið um upptöku á hæstaréttarmálinu nr. 214/197, þ.e. Guðmundar- og Geirfinnsmálunum báðum. Ragnar fjallar einvörðungu um svokallað Guðmundarmál í bréfi sínu til Hæstaréttar. Þetta get ég ekki túlkað öðruvísi en sem útúrsnúning.

Í samtölum mínum við hann fór ekki milli mála, að krafist var endurupptöku málanna beggja, svo og í þeim gögnum, sem ég afhenti honum.

Þann 12. janúar 1995 krafði ég Ragnar um endurrit af hjálögðum gögnum. Hann boðaði mig á sinn fund og sagðist ekki sjá neina ástæðu fyrir endurupptöku málsins. Hann var þá ekki kominn með nein gögn í hendur, og átti ég erfitt með að sjá, hvernig hann gæti komist að þessari niðurstöðu án þeirra. Við þetta tækifæri afhenti ég honum ljósrit af skýrslum úr svokölluðu fíkniefnamáli, m.a. skýrslur, sem teknar voru af Kristjáni Viðari og Erlu Bolladóttur og ég hafði fengið að ljósrita hjá dómsstjóra við héraðsdóm. Í bréfi sínu til Hæstaréttar gerir Ragnar ekki grein fyrir þessum gögnum, þótt hann leggi mikið upp úr þessu tiltekna fíkniefnamáli í skýrslu sinni til Hæstaréttar. Eins og sjá má, telur hann, að ekkert í þeim gögnum veiti mér fjarvistarsönnun. Í miðri 3. mgr. á bls. 3 segir hann: ,,Er þar getið um ferðir í Ölfusi 24. janúar og 28. janúar 1974. Dómfelldi hafi verið einn í fyrri ferðinni og þá haft mat meðferðis, enda ætlað að dvelja þar. Ekkert kemur fram um það í þessum gögnum, hverjir réðu húsum á þessum stað eða hve lengi dómfelldi hafi hugsað sér að dvelja þar, og ekkert kemur heldur fram um það, hvenær eða hvernig dómfelldi fór aftur frá Gljúfurárholti eftir dvölina."

Í fyrsta lagi greinir hann þarna ekki rétt frá dagsetningu. Í skýrslu, sem tekin var af Viggó Guðmundssyni í þinghaldi þann 28. febrúar 1974, segir hann:,, þann 25. janúar (sem var föstudagskvöld) kvaðst kærði hafa keyrt Sævar að Gljúfurárholti í Ölfusi. Sævar var einn, og hafði með sér mat, enda ætlaði hann að dvelja þarna. Í lögregluskýrslu 22. febrúar segir Viggó:,, Ég ók Sævari nokkuð oft fyrstu dagana eftir heimkomu hans, meðal annars í tvö skipti að Gljúfurárholti í Ölfusi, sem er skammt austan við Hveragerði, í fyrsta skipti með matvæli, sem hann var búinn að kaupa, en þá ætlaði hann að fara með áætlunarbifreið, en missti af þeirri ferð.." Allt bendir til þess, að ég hafi ætlað að dvelja þarna yfir helgina. Næst er það vitað um ferðir mínar, það sem fram kemur í lögregluskýrslu, er tekin var af Erlu Bolladóttur 7. febrúar 1974. Hún staðfesti skýrslu sína í þinghaldi daginn eftir. Hún segir í skýrslunni, að ég hafi komið til hennar sunnudagskvöldið 27. janúar, og þá eftir langt hlé og komið nokkrum sinnum til hennar eftir það. Guðmundur Einarsson fór að heiman frá sér 26. janúar 1974. Skv. ítarlegri lögreglurannsókn, sem fram fór á mínum högum á þessum tíma, kemur ekkert fram, sem getur gefið til kynna, að ég væri viðriðinn mannshvarf, miklu fremur hið gagnstæða, að ég sé saklaus af þeim áburði, sem lögreglumenn báru á mig tveimur árum seinna. Ragnar segir um húsráðendur, er bjuggu í Gljúfurárholti: ,,Ekkert kemur fram um það í þessum gögnum, hverjir réðu húsum" Þetta er rangt, og vísa ég til ljósrits úr þessu tiltekna máli því til staðfestingar. Þetta kemur fram í lögregluskýrslu 29. janúar 1974, sem lögð var fram 5. febrúar sama ár og merkt sem dómskjal nr. 4. En í skýrslunni gerir lögreglumaður grein fyrir rannsókninni og segir m.a: ,, Bifreiðarstjórinn á G-842, sem við höfðum upp á, sagðist hafa séð hjá Sævari mikla peninga, og hann hafi haft á orði að fara "austur", en það hefur komið fram, að þar hafi hann átt við Gljúfurárholt í Ölfushreppi, en þar býr fólk, sem einnig hefur verið viðriðið fíkniefnamisferli, svo sem Benóný Ægisson, Örn Ingólfsson, Gígja Geirsdóttir, Guðmundur Einarsson o.fl." (þessi G.E. er annar Guðmundur Einarsson en sá sem lýst var eftir)

Í maímánuði á s.l. ári afhenti ég Ragnari frumgögn Geirfinns- og Guðmundarmála, svo hann gæti fjallað á raunhæfan hátt um beiðni mína. Í september óskaði ég eftir, að hann sendi málið áfram til Hæstaréttar. Sagðist hann myndu gera það í október. Ég lagði þá fram frekari gögn, sem hann taldi þá þurfa að bera saman við annað, sem ég hafði lagt fram. Um miðjan nóvember ítrekaði ég kröfu mína og bað hann senda málið frá sér, enda taldi ég hann vera farinn að tefja málið. Ég lagði þá fram samantekt á gögnum þeim, sem ég hafði áður sent honum. Hann lofaði mér þá að senda málið frá sér í fyrstu viku desembermánaðar. Þegar það brást, rak ég enn á eftir honum. Ragnar var skipaður þann 16. desember 1994 og hefur haft nægan tíma til að kynna sér beiðni mína og önnur gögn málsins, sem ég hafði afhent honum. Hann skilaði síðan málinu með fjögurra síðna skýrslu, þann 12. desember s.l. Sú skýrsla er að flestu leyti ófullkomin. Niðurstaðan kom mér á óvart, enda hafði hann gefið annað í skyn í samtölum. Hann fjallar ekkert um Geirfinnsmálið, sem ég hafði lagt mikið upp úr og meðal annars farið í gegnum með honum. Taldi ég mig hafa hrakið grundvallaratriði málsins um sekt sakborninga. Ragnari var kunnugt um, að beiðni mín um upptöku mála væri ekkert einkamál mitt, heldur væri hún einnig sett fram í umboði annarra þolenda þessara mála, sem hafa margoft lýst sig saklausa af þessum málum. Það, sem greinir mig frá öðrum sakborningunum, er meðferðin. Ég sætti langtum verri meðferð en aðrir sakborningar. Af þeim sökum kemur það eðlilega frekar í minn hlut en annarra að krefjast endurupptöku mála.

Ég geri kröfu um, að ég og aðrir sakborningar verði hreinsaðir af svokölluðum Geirfinns- og Guðmundarmálum og að okkur verði bætt sú niðurlæging, sem við höfum þurft að þola. Ég vísa í rökstuðning minn, "Endurupptaka", sem lagður var fram 1995 og legg málið í dóm.

Reykjavík 18. janúar 1996

Virðingarfyllst

Sævar Marínó Ciesielski