Lög um meðferð opinberra mála
XXII. kafli - Endurupptaka dæmdra mála

183.gr.
Nú hefur óáfrýjaður héraðsdómur eða hæstaréttardómur gengið í opinberu máli og verður það þá ekki tekið upp á ný nema til þess séu þau skilyrði sem í þessum kafla segir.

184.gr.
Eftir kröfu dómfellds manns, sem telur sig sýknan saka eða sakfelldan fyrir meira brot en það sem hann hefur framið, skal taka málið upp á ný:

1. ef fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fyrir dómara áður en dómur gekk,
2. ef ætla má að dómari, ákærandi, rannsóknari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða hegðun í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef falsvitna hafi verið aflað, fölsuð skjöl látin koma fram, vitni eða aðrir hafi gefið vísvitandi rangar skýrslur og þetta hafi valdið rangri dómsúrlausn.
3. Ef einhver sá, sem að lögum á að vinna að rannsókn eða meðferð opinberra mála fær vitneskju eða rökstuddan grun um atriði sem í 1. mgr. segir ber honum að veita dómfellda vitneskju um það.

185.gr.
1. Eftir kröfu ríkissaksóknara skal taka mál, þar sem ákærði hefur verið sýknaður eða dæmdur fyrir mun minna brot en hann var borinn upp á ný:

a. ef ákærði hefur síðan dómur gekk játað að hafa framið það brot sem hann var borinn eða önnur gögn hafa komið fram sem benda ótvírætt til sektar hans.
b. ef ætla má að falsgögn eða athæfi það sem lýst er í b-lið 1. mgr. 184.gr. hafi valdið dómsniðurstöðu að nokkru leyti eða öllu.
2. Ríkissaksóknara er rétt að óska eftir endurupptöku máls til hagsbóta fyrir dómfellda ef hann telur að svo standi á sem í 2.mgr. 184.gr. segir.

186.gr.
1. Hæstiréttur tekur ákvörðun um endurupptöku máls og skal beiðni um hana send réttinum. Dómfelldur maður, sem vill beiðast endurupptöku, stílar beiðnina til Hæstaréttar, en sendir hana ríkissaksóknara.
2. Nú er beiðandi sviptur frelsi og skal yfirmaður fangelsis þá taka við og bóka beiðni eftir ósk hans og koma henni á framfæri. Skylt er þá eftir ósk beiðanda að fá honum skipaðan réttargæslumann.
3. Greina skal í beiðni þau atriði sem vefengd eru í dómi og þær ástæður sem til vefengingar eru taldar liggja. Skjöl, sem kunna að vera til styrktar beiðni, skulu fylgja henni eftir því sem unnt er.

187.gr.
1. Ríkissaksóknari sendir beiðnina til Hæstaréttar ásamt skjölum málsins og tillögum sínum, svo og umsögn dómara ef um héraðsdóm er að tefla.
2. Hæstiréttur getur mælt fyrir um öflun nauðsynlegra gagna varðandi endurupptökubeiðni samkvæmt reglum 1.mgr. 159.gr.
3. Nú leiðir rannsókn í ljós að beiðni um endurupptöku hafi gengið of skammt og skal þá veita beiðanda kost á að lagfæra hana í samræmi við það.

188.gr.
Hæstiréttur tekur ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um endurupptöku eða ekki. Ef orðið er við beiðni um endurupptöku máls sem dæmt var lokadómi í héraði gerir ríkissaksóknari ráðstafanir til áfrýjunar málsins. Um meðferð máls og flutning fyrir Hæstarétti fer eftir ákvæðum XVIII. kafla laga þessara.

189.gr.
Nú telur Hæstiréttur rök ekki hníga til breytingar á dómi og vísar hann þá endurupptökubeiðni frá sér, en kveður annars kostar upp efnisdóm í málinu.

190.gr.
Nú er mál endurupptekið samkvæmt beiðni dómfellds manns og má þá hlutur hans aldrei verða lakari en hann var eftir hinum upphaflega dómi.

191.gr.
1. Nú er mál endurupptekið samkvæmt kröfu ríkissaksóknara og fer þá um málskostnað eftir 165. og 166.gr.
2. Kostnaður af endurupptöku máls samkvæmt beiðni dómfellda greiðist úr ríkissjóði, nema dómfelldi hafi komið endurupptöku til leiðar með gögnum sem hann vissi vera ósönn. Skal hann þá dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

192.gr.
1. Beiðni eða ákvörðun um endurupptöku máls frestar ekki framkvæmd dóms nema Hæstiréttur mæli svo.
2. Heimilt er að endurupptaka mál þótt dómfelldi hafi að fullu þolað refsingu samkvæmt dómi í því máli.

Um XXII. kafla
Kafli þessi um endurupptöku kemur í stað XXIV. kafla núg. laga og er efnislega á sama veg. Athygli er vakin á 2.mgr. 185.gr. um að ríkissaksóknari geti óskað eftir endurupptöku til hagsbóta fyrir dómfellda. Þá er og bent á ákvæði 2. og 3. mgr. 126.gr. frv. en þar er um sérstaka endurupptökuheimild héraðsdómara að ræða þegar mál hefur verið dæmt að sakborningi fjarstöddum. Að öðru leyti þykir ekki þörf athugassemda við þennan kafla.