Þegar þetta er ritað eru 3 mánuðir liðnir frá því að HR skilaði úrlausn varðandi beiðni um endurupptöku vissra þátta HRmáls 214/1978.

Á þeim tíma sem liðinn er hefur margt verið skrifað og spjallað um niðurstöðuna og sitt sýnist hverjum um hana. Eitt hafa þó menn verið sammála um; Afgreiðsla beiðninnar er stjórnvaldsaðgerð en ekki dómsathöfn. Því fer enginn málflutningur fram, og sá sem æskir endurupptöku á þess ekki kost að áfrýja niðurstöðunni til erlendra dómstóla.

Nú hafa þau tíðindi gerst að settur forseti Hæstaréttar hefur svarað bréfi sem talsmaður eins dómþola í Hæstaréttarmáli nr. 214/1978 sendi honum og svarað því til að svonefnd úrlausn Hæstaréttar frá 15.júlí sl. sé dómsákvörðun en ekki stjórnvaldsaðgerð (!)

Það sem uppúr stendur þegar þessi "málalok" eru skoðuð er t.d:

  1. Hafi þetta verið dómúrskurður en ekki stjórnvaldsaðgerð, hversvegna var þá ekki um neinn munnlegan málflutning að ræða?
  2. Hvernig stendur á því að ALLIR helstu lögspekingar landsins hafa tjáð sig um þetta sem stjórnvaldsaðgerð. Þ.á.m. Dómsmálaráðherra, í umræðuþættinum "undir sönnunarbyrðinni" í RÚV. Þar sem um er að ræða GRUNDVALLARleikreglur í meðferð opinbers máls verður að telja furðulegt að þessir menn hafi ekki skilið þær rétt.
  3. Sá sem æskir endurupptökunnar stendur frammi fyrir mjög ólíkum valkostum eftir því hverskonar aðgerð er um að ræða, vilji hann ekki una málalokum. Stjórnvöld má kæra til héraðsdóms. Hæstaréttardómi er hægt að áfrýja til erlends dómstóls. Með því að þessar "nýju upplýsingar" eru komnar fram vakna spurningar: Hvað með kærufrest?

Mannréttindadómstóllinn í Strassbourg fjallar ekki um mál sem eru eldri en 6 mánaða. Hvenær hófst sá frestur? 15. júlí? Er það sanngjarnt - eða löglegt að þeim sem óskar endurupptöku málsins (og öllum öðrum) sé talin trú um að hann eigi þann eina kost að kæra meðferð málsins til Héraðsdóms en sé nú skyndilega settur í þá stöðu að þurfa að útbúa áfrýjun til Strassbourg á aðeins helmingi þess tíma sem hann ætti að hafa?

  1. Mannréttindadómstóllinn í Strassbourg tekur við málum á 17 tungumálum. Íslenska er ekki þar á meðal. Samræmist það íslenskum lögum að þeim einstaklingi sem áfrýjar endurupptökubeiðni til dómstólsins sé ætlað að bera sjálfur kostnað við þýðingu málsskjala?

Eru Íslendingar réttlægri en aðrar þjóðir að þessu leyti?

Í lögum um meðferð opinberra mála 22. kafla 184.gr. (fylgir með hér fyrir neðan) er fjallað um skilyrði til endurupptöku máls. Hvernig sem það er skoðað er hvergi að finna möguleika á að taka mál upp ef gögn sem sýna fram á ólöglega meðferð málsins eða að sök sé verulega véfengjanleg, hafi legið fyrir fyrir dómsuppkvaðningu á sínum tíma. M.ö.orðum: Á Íslandi eru dómar ekki bara endanlegir, heldur er Hæstaréttardómur lögum samkvæmt hafin yfir gagnrýni sem fram kann að koma síðar í framhaldi af NÝRRI ÞEKKINGU í t.d.réttarsálfræði (langtíma einangrun,harðræði)Lyfja og læknisfræði (lyfjagjafir) o.s.frv.

Fyrir nokkrum árum var "Axarmorðinginn frá Frederikstad"- Per Liland sýknaður í Noregi eftir að hafa setið 25 ár í fangelsi. Engin ný gögn komu fram í máli hans. Aðeins höfðu orðið tæknilegar framfarir við mat á þessum gögnum. (DNA rannsóknir)

Svo virðist að samkvæmt núgildandi íslenskum lögum hefði mál hans aldrei fengist endurupptekið, þar sem gögnin lágu þegar fyrir við uppkvaðningu dómsins. Þarfnast þessir þættir í lögum um meðferð opinberra mála etv. endurskoðunar og sé það svo að áliti manna, hversu aðkallandi er að breyta þeim?

LÖG UM MEÐFERÐ OPINBERRA MÁLA.

XXII. KAFLI

ENDURUPPTAKA DÆMDRA MÁLA.

183.gr.

Nú hefur óáfrýjaður héraðsdómur eða Hæstaréttardómur gengið í opinberu máli og verður það þá ekki tekið upp á ný nema til þess séu þau skilyrði sem í þessum kafla segir. 

184.gr.

1. Eftir kröfu dómfellds manns, sem telur sig sýknan saka eða sakfelldan fyrir meira brot en það sem hann hefur framið, skal taka málið upp á ný:

a. ef fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fyrir dómara áður en dómur gekk,

b. ef ætla má að dómari, ákærandi, rannsóknari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða hegðun í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef falsvitna hafi verið aflað, fölsuð skjöl látin koma fram, vitni eða aðrir hafi gefið vísvitandi rangar skýrslur og þetta hafi valdið rangri dómsúrlausn.

2. Ef einhver sá, sem að lögum á að vinna að rannsókn eða meðferð opinberra mála fær vitneskju eða rökstuddan grun um atriði sem í 1. mgr. segir ber honum að veita dómfellda vitneskju um það.

Hæstiréttur viðurkennir að fölsuð opinber gögn hafi verið lögð fram.("staðfest" endurrit úr dagbók Síðumúla) En hvað...

Þarf að uppfylla ÖLL skilyrðin?