Ákveðið hefur verið að áfrýja úrskurði Hæstaréttar í Geirfinns- og Guðmundarmálum til Mannréttindanefndarinnar í Strassbourg. Ragnar Aðalsteinsson, talsmaður Sævars Marinós Ciesielskis fór fram á það við dómsmálaráðuneytið fyrir hönd skjólstæðings síns að honum yrði veitt fjárhagsaðstoð til að koma málinu til Mannréttindanefndarinnar.

Nefndin tekur til umfjöllunar mál á 17 tungumálum.Íslenska er ekki þar á meðal. Því er nauðsynlegt að þýða gögn málsins. Á síðastliðnu sumri lýsti dómsmálaráðherra því yfir að Íslendingar ættu ekki að vera réttlægri öðrum Evrópuþjóðum að þessu leyti. Menn ættu að fá að sitja við sama borð og í öðrum aðildaríkjum, ef þeir hefðu í hyggju að áfryja málum til mannréttindanefndarinnar. En þar sem Ísland á sér engan fulltrúa í nefndinni þarf að þyða öll gögn. Beiðni um fjárhagsaðstoð var send ríkistjórn til ákvörðunar. Ríkisstjórnin ákvað, að það yrði komið til móts við Sævar vegna þyðingar gagna og lögmannskostnaðar.

Kærufrestur til nefndarinnar rennur út 15. Jan.1998, sex mánuðum eftir úrlausn Hæstaréttar. Í bréfi Ragnars Aðalsteinssonar til dómsmála-ráðuneytisins kemur m.a. fram að hann telur beiðni Sævars um endurupptöku hafi ekki fengið réttláta meðferð fyrir Hæstarétti Íslands.

Í úrlausn Hæstaréttar í fyrnefndum málum, er komist að þeirri niðurstöðu að afstaða hafi verið tekin á sínum tíma til nánast allra atriða sem Ragnar og Sævar bentu á í greinargerðum vegna beiðni um endurupptöku. Verður að líta svo á að Hæstiréttur styðji fyrri dómsathafnir, sem gerir það að verkum að málið er kæruvert í heild sinni, þar sem ekki var tekið tillit til nýrra gagna eða vitnisburða.

Kæran til Strassbourgar mun snúast um það hvernig Hæstiréttur mat hin nýju gögn og um þær áður óupplýstu staðreyndir, sem Ragnar Aðalsteinsson og Sævar bentu á.

Sævar segir að úrlausn Hæstaréttar sé eins og önnur dómsuppkvaðning. Hann telur að hann eigi ekki að þurfa nú að líða fyrir galla á réttarfarslöggjöf fyrri tíma. Í úrlausn Hæstaréttar kemur fram að mannréttindasáttmálinn hafði ekki lagalegt gildi hér á landi á árunum 1975-1980, því hann var ekki lögfestur fyrr en 30 árum eftir að hann var samþykktur. Þetta er eitt af því sem gerir málið kæruvert.

Reykjavík 18.des.1997
Sævar Ciesielski.