Inngangur

 

Lögfræðingar og aðrir áhugamenn um lögfræði biðu margir hverjir óþreyjufullir eftir úrlausn Hæstaréttar um beiðni Sævars Marinós Ciesielskis um endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála, hæstaréttarmáls nr. 214/1978. Úrlausnin barst 15. júlí síðastliðinn þegar Hæstiréttur hafnaði beiðninni með ítarlegum rökstuðningi. Með því virðist sem útséð sé um að þessi umtöluðustu sakamál síðari ára verði tekin að nýju til dómsmeðferðar, nema fram komi ný gögn sem réttlætt geta endurupptöku.

Úlfljótur lætur sig málið varða og hefur sest á rökstóla með fjórum virtum lögfræðingum. Fyrstur skrifar Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður, þá Skúli Eggert Þórðarson, skattrannsóknarstjóri, síðan Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður og talsmaður Sævars Marinós Ciesielskis og loks Ragnar Halldór Hall, hæstaréttarlögmaður og settur ríkissaksóknari.

Í upphafi er þó rétt að gera í aðalatriðum grein fyrir endurupptökubeiðninni og úrlausn Hæstaréttar.

I. Endurupptökubeiðnin

Í nóvember 1994 fór Sævar Marinó Ciesielski fram á að hið margfræga hæstaréttarmál yrði tekið upp. Tveimur vikum síðar var Ragnar Halldór Hall, hæstaréttarlögmaður, settur ríkissaksóknari við meðferð málsins en áður hafði Hallvarður Einvarðsson, ríkissaksóknari, vikið sæti vegna vanhæfis en hann var rannsóknarlögreglustjóri við meðferð sakamálanna á sínum tíma. Ragnar Hall skilaði áliti til Hæstaréttar um ári eftir að hann var settur saksóknari og lagði til að beiðni Sævars yrði hafnað.

Í ársbyrjun 1996 ákvað Hæstiréttur að beiðni Sævars að skipa Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmann, talsmann hans. Hann skilaði síðan greinargerð þann 21. febrúar 1997 og krafðist þess, með vísan til 1. mgr. 184. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, að málið yrði tekið upp.

Ragnar Halldór Hall skilaði Hæstarétti umsögn 22. maí 1997 og lagði sem fyrr til að endurupptökubeiðninni yrði hafnað.

II. Úrlausn Hæstaréttar

Hæstiréttur hafnaði endurupptökubeiðninni með úrlausn sem hann sendi frá sér 15. júlí 1997. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að ekkert þeirra atriða sem tiltekin voru í rökstuðningi talsmanns Sævars fyrir endurupptöku nægði til að málið yrði tekið upp. Athyglisvert verður þó að teljast að Hæstiréttur féllst eigi að síður á að einstök atriði gætu þó komið til álita sem grundvöllur að endurupptöku málsins.

Úrlausn Hæstaréttar skópu sjö dómarar; þeir Pétur Kr. Hafstein, Arnljótur Björnsson, Garðar Gíslason, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson, hæstaréttardómarar, auk Allans Vagns Magnússonar, dómara við héraðsdóm Reykjavíkur. Þrír dómarar Hæstaréttar, þau Haraldur Henrysson, Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen tóku ekki þátt í meðferð málsins vegna beinna eða óbeinna afskipta af því á fyrri stigum þess.

Úrlausn Hæstaréttar er mikil vöxtum, einar 250 blaðsíður. Í henni er fyrst gerð grein fyrir aðdragandanum að dómi sakadóms Reykjavíkur 19. desember 1977 og dómi Hæstaréttar sem upp var kveðinn 22. febrúar 1980. Rakin eru í stórum dráttum atvik málsins, skýrslur ákærðu og annarra, sönnunargögn og röksemdir fyrir hvorum dómnum um sig. Að því búnu tekur Hæstiréttur til umfjöllunar röksemdir talsmanns Sævars Ciesielskis fyrir því að fallist skuli á endurupptöku og mótrök Ragnars H. Hall, setts ríkissaksóknara. Loks tekur rétturinn afstöðu til röksemdanna og kemst að fyrrgreindri niðurstöðu.

Skýring lagaheimilda

Hæstiréttur fjallar nokkuð um hvernig skýra skuli heimildir til endurupptöku opinberra mála. Þar segir að með slíkum heimildum, eins og þeim sem er að finna í lögum 19/1991 um meðferð opinberra mála, sé gerð undantekning frá þeirri meginreglu að dómur á æðsta dómstigi sé endanlegur og leiði álitaefni til lykta í eitt skipti fyrir öll. Af því beri að taka mið við skýringu slíkra ákvæða.

1. mgr. 184. gr. laganna er svohljóðandi:

Eftir kröfu dómfellds manns, sem telur sig sýknan sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, skal taka mál upp á ný:

a ef fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fyrir dómara áður en dómur gekk.

b. ef ætla má að dómari, ákærandi, rannsóknari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða hegðun í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef falsvitna hafi verið aflað, fölsuð skjöl látin koma fram, vitni eða aðrir hafi gefið vísvitandi rangar skýrslur og þetta hafi valdið rangri dómsúrlausn."

Hæstiréttur telur að skýra verði þessa endurupptökuheimild til samræmis við sambærileg ákvæði úr eldri lögum að því marki sem þau geti orðið dómfellda í hag. Á hinn bóginn fellst Hæstiréttur ekki á þá röksemd talsmanns Sævars að við skýringu á greininni skuli áhersla lögð á vefengingu en það orðalag kemur fram í 3. mgr. 186. gr. laganna. Rýmkandi lögskýring verði ekki réttlætt að því leyti.

Breyttar réttarheimildir

Hæstiréttur kveður einnig upp úr um það hver áhrif það skuli hafa á mat á því hvort endurupptaka skuli mál að réttarheimildir hafi breyst í tímanna rás. Rétturinn telur að réttarheimildar sem komu til eftir dómsuppkvaðningu skipti ekki máli nema þær verði af einhverjum ástæðum taldar afturvirkar. Þessa niðurstöðu leiðir Hæstiréttur af orðalagi a-liðar 1. mgr. 184. gr. en samkvæmt henni koma ný gögn aðeins til álita ef ætla mætti að þau hefðu skipt máli ef dómari hefði orðið þeirra áskynja áður en dómur gekk." Af því leiði að síðar tilkomnar réttarheimildir hafi engin áhrif, þar með talinn mannréttindasáttmáli Evrópu. Á hinn bóginn hafi Hæstiréttur á sínum tíma tekið mið af óskráðum meginreglum íslensks réttar.

Vitnaleiðslur og yfirlýsingar

Í tengslum við endurupptökubeiðnina voru teknar skýrslur af fjórum vitnum. Þau voru Hlynur Magnússon, sem var fangavörður í Síðumúlafangelsi meðan sakborningarnir voru þar í gæsluvarðhaldi, Jón Bjarman, fangaprestur og þær Elínborg Jóna Rafnsdóttir og Sigríður Magnúsdóttir en þær töldu sig hafa séð Guðmund Einarsson tilsýndar nóttina sem hann hvarf. Með honum var maður að þeirra sögn, sem þær töldu nú ekki hafa verið Kristján Viðar Viðarsson. Hæstiréttur taldi breyttan framburð þeirra síðastnefndu nú, 20 árum eftir að þær bentu á Kristján Viðar við sakbendingu, ekki með þeim hætti að á því yrði byggt. Í framburði þeirra Hlyns Þórs Magnússonar og Jóns Bjarman var ekkert það talið koma fram sem hefði ekki legið fyrir við meðferð málsins á sínum tíma.

Áður hafði talsmaður Sævars Marinós, fengið yfirlýsingar frá fimm einstaklingum auk hinna fjögurra sem áður voru nefndir. Meðal þeirra voru tvö þeirra sem dæmd voru fyrir aðild sína að Guðmundar- og Geirfinnsmálum árið 1980; þau Albert Klahn Skaftason og Erla Bolladóttir. Um yfirlýsingu Alberts segir Hæstiréttur að að frá fyrri framburði hafi hann nú vikið 20 árum síðar. Fyrir þessari síðbúnu breytingu á frásögn hafa ekki verið færðar haldbærar ástæður. Eru því ekki efni til að taka tillit til hennar." Erla sagði meðal annars að lögreglumenn hefðu með ýmsum ráðum fengið hana til að gefa ranga skýrslu. Hæstiréttur kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að síðbúinn framburður hennar byggi ekki á haldbærum ástæðum og verði því ekki tekið mark á honum. Auk þeirra gaf Kristrún Jónína Steindórsdóttir yfirlýsingu, en hún rak áður Alþýðuhúsið við Strandgötu í Hafnarfirði ásamt eiginmanni sínum þar sem sást til Guðmundar Einarssonar nóttina sem hann hvarf. Hæstiréttur taldi vitnisburð hennar hins vegar engu skipta.

Annmarkar á rannsókn

Umræðan um endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála hefur ekki síst snúist um rannsóknaraðferðir og flestir virðast fallast á að rannsókn hafi að einhverju leyti áfátt. Hæstiréttur bendir á að dómendur í sakadómi hafi bókað að rannsókn málsins á fyrri stigum hafa verið verulega áfátt. Til þeirrar meðferðar hafi Hæstiréttur að mestu leyti tekið afstöðu með dómi sínum árið 1980. Því hafi annmarkar á rannsókninni þegar verið kunnir og geti því ekki leitt til endurupptöku málsins.

Framburður dreginn til baka

Sævar Ciesielski hefur ítrekað haldið því fram að hann hafi dregið til baka framburð sinn um aðildina að hvarfi Guðmundar Einarssonar, löngu áður en það var loks bókað í mars 1977. Örn Höskuldsson, sem þá var dómarafulltrúi í sakadómi, var spurður um það árið 1979 hvort þetta ætti við rök að styðjast. Örn sagði rétt að Sævar hefði kvartað við sig í janúar 1976 yfir að hann hefði verið þvingaður til að játa í Guðmundarmálinu og bætti við: Ég gerði ekkert með þessa kvörtun Sævars þar sem ég vissi að hún var röng [...] Sævar var ekki beittur neinu harðræði við þessa yfirheyrslu." Ragnar Aðalsteinsson benti á að Hæstiréttur hefði horft mjög í hversu seint Sævar hefði dregið framburð sinn til baka og í raun hefði hann verið sakfelldur fyrir aðild að hvarfi Guðmundar Einarssonar vegna þess. Sú ályktun Hæstaréttar hefði hins vegar verið röng því hann hefði reynt að draga játninguna til baka löngu áður. Ragnar Hall sagði ekkert benda til að Sævar hefði haldið því fram að yfirlýsing hans hefði verið efnislega röng heldur eingöngu að hún hefði verið þvinguð fram. Jón Oddsson, réttargæslumaður hans, hefði staðfest að svo hefði ekki verið. Á þann skilning fellst Hæstiréttur.

Óskráðar yfirheyrslur

Sævar Marinó hélt því fram að hann hefði ítrekað verið yfirheyrður í Síðumúlafangelsi án þess að um það lægju fyrir lögregluskýrslur eða endurrit úr þingbókum. Í framburði eins rannsóknarlögreglumanns við dómsmeðferð í sakadómi árið 1977 kom fram að venjulega hefði ekki verið bókað um yfirheyrslur nema eitthvað nýtt hefði komið fram í þeim og jafnframt að ekki hefði verið venja að vottar væru við yfirheyrslur heldur væru þeir kallaðir til síðar. Hæstiréttur segir að af gögnum málsins megi ráða að við dómsmeðferð á sínum tíma hafi þegar verið ljóst að lögregluskýrslur hefðu ekki alltaf verið gerðar þegar lögreglumenn og gæslufangar ræddust við utan fangaklefa og jafnframt að réttargæslumenn þeirra hefðu ekki alltaf verið viðstaddir. Því væru þessar upplýsingar ekki nýjar.

Yfirheyrslur fangavarða

Á sínum tíma komust sögusagnir á kreik um að fangaverðir hefðu verið hvattir til að afla upplýsinga frá sakborningunum á meðan þeir voru í gæsluvarðhaldi. Hlynur Þór Magnússon, fyrrverandi fangavörður, sagði í vitnisburði sínum að beinlínis hefði verið lagt að þeim að vingast við gæsluvarðhaldsfangana með það að markmiði að ná upp úr þeim upplýsingum. Á árinu 1979 voru fangaverðir inntir eftir þessu og sögðu flestir þeirra að sakborningar hefðu iðulega talað um sín mál við þá en það hefði hins vegar verið að eigin frumkvæði. Hæstiréttur sá árið 1980 ástæðu til að taka sérstaklega fram í niðurlagi dóms síns að fangavörðum væri ekki heimilt að hafa afskipti af rannsókn opinbers máls að eigin frumkvæði. Í úrlausn sinni nú, 17 árum síðar, segir Hæstiréttur að með þessari athugasemd hafi verið tekin afstaða til afleiðinganna af því framferði fangavarðanna og hafi engu verið bætt við þá vitneskju nú.

Aðild annarra en dómfelldu?

Meðal gagna málsins voru lögregluskýrslur frá þeim tíma er þýski lögreglumaðurinn Karl Schütz kom til starfa við rannsókn málsins árið 1976. Í þeim kemur fram að hverjum rannsóknin hafi beinst, öðrum en þeim sem voru síðan ákærðir. Ragnar Aðalsteinsson hélt því fram að af lokaskýrslu Schütz mætti ráða að hann hefði aðeins rannsakað hlut þeirra sem síðar voru ákærðir þó rökstuddur grunur hefði beinst í aðrar áttir. Í henni komi ennfremur fram að Schütz hafi verið þeirrar skoðunar að hlutur sakborninganna hafi ekki verið sannaður með vísindalegum aðferðum. Hæstiréttur telur hins vegar að hugleiðingar Schütz í lokaskýrslu sinni um hvað geti talist sannað í málinu hafi ekki getað haft sjálfstætt gildi í málinu á sínum tíma og því geti þær ekki orðið grundvöllur endurupptöku.

Lyfjagjafir

Ólafur Ólafsson, landlæknir, gaf álit sitt á þeim lyfjaskömmtum sem Sævari voru gefnir á meðan hann var í gæsluvarðhaldi í Síðumúlafangelsi og Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Í svarbréfi hans kemur fram að nú til dags séu slíkir skammtar almennt taldir of stórir. Þegar Sævar hafi fengið lyfin hafi þekking á fylgikvillum þeirra hins vegar ekki verið fyrir hendi og því verði læknum ekki álasað fyrir að gefa slíka skammta. Talsmaður Sævars fór þess einnig á leit að Ólafur gæfi álit sitt á áhrifum slíkra játninga á ábyggileika játninga. Um það segir landlæknir: Þetta lyfjamagn veldur gjarnan óæskilegu hugarástandi sem einkennist af litlum viðnámsþrótti, uppgjöf, sljóleika, kæruleysi og jafnvel skertu minni." Að auki telur hann áhrif lyfjanna hafa aukist eftir því sem þau voru gefin lengur. Hæstiréttur telur umfjöllun landlæknis hins vegar mjög almenna og ekki geta orðið grundvöll endurupptöku.

Harðræðisrannsóknin

Þórir Oddsson, vararannsóknarlögreglustjóri, var skipaður rannsóknarlögreglustjóri á meðan á rannsókn á meintu harðræði gegn Sævari Ciesielski stóð. Hallvarður Einvarðsson, sem þá var rannsóknarlögreglustjóri, vék sæti á meðan. Ragnar Aðalsteinsson gerði athugasemd við þetta enda hefði undirmanni með þessu í raun verið falið að rannsaka starfshætti embættis sem yfirmaður hans stýrði. Hæstiréttur sér ekki ástæðu til að leggja sérstaklega mat á þessa málsmeðferð, hún hafi verið í samræmi við þágildandi lagaákvæði og ekki hefðu verið bornar brigður á sínum tíma á hæfi Þóris til að sinna þessu starfi.

Harðræði í Síðumúlafangelsi

Eins og fram hefur komið telur Hæstiréttur fæst af því sem Ragnar Aðalsteinsson, talsmaður Sævars Ciesielskis, tiltekur í rökstuðningi sínum fyrir endurupptöku koma til álita sem forsenda fyrir endurupptöku, einkum vegna þess að flest hafi verið ljóst við dómsmeðferðina á sínum tíma. Eitt er það þó sem Hæstiréttur fellst á að séu ný gögn í skilningi 1. mgr. 184. gr. laga um meðferð opinberra mála. Forstöðumaður Síðumúlafangelsis lagði fram endurrit úr fangelsisdagbókinni að ósk réttargæslumanns Sævars. Nú hefur hins vegar komið í ljós að í þessum endurritum var ekki að finna nokkrar færslur sem vörðuðu Sævar, meðal annars um agaráðstafanir sem beindust gegn honum og aðbúnað hans að öðru leyti. Dagbókin ber með sér að hann hafi á tímabili verið í handa- og fótajárnum og fær ekki að reykja og engar eldspýtur. Að öðru leyti sem minnsta þjónustu."

Forstöðumaður fangelsisins sagðist á sínum tíma vita til þess að Sævar hefði í eitt skipti verið í fótajárnum en lét ekki getið um annað tilvik þrátt fyrir að hann hefði sjálfur ritað færslu um það í dagbókina. Í annarri færslu kemur fram að ákveðið hafi verið að við Sævar skuli ekki rætt eitt orð og honum verði ekki afhentar bækur, spil eða annað til dægrastyttingar meðan hann lýgur annan úr og annan í við yfirheyrsluaðilana, þar á meðal vararíkissaksóknara." Þá ber dagbókin með sér að á salerni hafi fundist miði sem merktur var upphafsstöðum Sævars án þess að þess hafi verið getið í endurritinu.

Þessi gögn telur Hæstiréttur sýna að Sævar hafi verið beittur ólögmætu harðræði í gæsluvarðhaldsvist í Síðumúlafangelsi. Eigi að síður séu hinar nýju upplýsingar ekki líklegar til að hafa breytt niðurstöðu Hæstaréttar 22. febrúar 1980 en þá hafi rétturinn greinilega tekið tillit til hinnar gölluðu rannsóknar og líklega hafi það valdið því að flestir sakborningarnir hlutu vægari dóma í Hæstarétti en í sakadómi.

Af öllu þessu leiðir að Hæstiréttur telur ekkert af því sem fram hafi komið fullnægja skilyrðum 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til að verða við beiðni Sævars Marinós Ciesielskis um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 214/1978.