Skúli Eggert Þórðarson

 

Um rangar sakargiftir í hæstaréttarmálinu nr. 214/1978

I.

Undanfarna mánuði hefur nokkur umræða verið um dóma sakadóms Reykjavíkur og Hæstaréttar Íslands sem kveðnir voru upp árin 1977 og 1980 í málum ákæruvaldsins gegn Sævari Marínó Ciesielski, Kristjáni Viðari Viðarssyni, Erlu Bolladóttur, Tryggva Rúnari Leifssyni, Guðjóni Skarphéðinssyni og fleirum. Sævari Marínó, Kristjáni Viðari og Tryggva Rúnari var gefið að sök að hafa ráðist að Guðmundi Einarssyni svo að hann hlaut bana af. Sævari Marínó, Kristjáni Viðari og Guðjóni var gefið að sök að hafa ráðist á Geirfinn Einarsson svo að hann hlaut bana af og Sævari Marínó, Kristjáni Viðari og Erlu að hafa sammælst um að bera fjóra saklausa menn röngum sökum.

Einn dómfelldi í málinu, Sævar Marinó Ciesielski, hefur krafist þess, að dómur Hæstaréttar í málinu verði tekinn upp á ný vegna annmarka á meðferð þess á sínum tíma og að lögfull sönnun hefði ekki verið fyrir hendi um að hann hefði tekið þátt í að bana fyrrgreindum mönnum svo og að bera fjóra menn röngum sökum.

Eftir að úrlausn Hæstaréttar Íslands lá fyrir í júlí á þessu ári, þar sem synjað er endurupptöku dóms Hæstaréttar frá því í febrúar 1980, sbr. dómabindi réttarins frá því ári bls. 89-672, hefur þjóðfélagsumræðan um dóm þennan aukist. Ritstjóri Úlfljóts, tímarits laganema við Háskóla Íslands, hefur ákveðið að ritið verði þátttakandi í rökræðum um fyrrnefnda niðurstöðu Hæstaréttar með því að fá nokkra einstaklinga til að tjá sig um málið. Það er óneitanlega athyglisvert framtak og er greinarkorn þetta ritað af því tilefni.

II.

Á stundum hefur verið sagt að opinbert réttarfar miði að því að leita hins hlutræna sannleika um sekt eða sakleysi þeirra er sæta ákæru. Dómstólar hverju sinni meti hvort sannleikurinn hafi komið fram, þannig að lögfull sönnun sé fengin fyrir sekt þeirra er ákæru sæta, ella séu þeir dæmdir sýknir saka. Vitaskuld skiptir máli í því sambandi hvaða sönnunargögn eru fyrir hendi, svo og sönnunarreglurnar sjálfar. Ákæruvaldið ber sönnunarskylduna í opinberum málum, sbr. 45. gr. laga nr. 19/1991. Sönnun í sakamáli getur byggst bæði á hlutlægum sönnunargögnum, eins og fingraförum, ummerkjum á brotavettvangi eða líkamsleifum, eða þá persónubundnum sönnunargögnum, þ.m.t. játningum sökunauta. Almennt séð er leitin að sannleikanum vandasamari ef hlutlæg sönnunargögn styðja ekki hin persónubundnu sönnunargögn, en engu að síður kann lögfull sönnun að vera fyrir hendi þótt öðrum hvorum sé ekki til að dreifa. Mál getur verið fullsannað með játningum, auk annarra gagna, þó að afturköllun játninga hafi átt sér stað á síðari stigum málsmeðferðar. Ágreiningurinn í hinu svokallaða Guðmundar- og Geirfinnsmáli lýtur einkum að því hvort talið sé að lögfull sönnun hafi verið fyrir hendi um sekt ákærðu í málinu, þ.m.t. upptökubeiðanda (Hæstiréttur notar orðið dómfelldi), einkum játningar hans meðan á rannsókn málsins stóð og gildi afturköllunar þeirra.

Í stuttri grein sem þessari er ekki unnt að fjalla með viðunandi hætti um allt málið, rök með og móti upptöku. Hæstiréttur fjallar til að mynda um endurupptökubeiðnina á 250 síðum, enda er málið gríðarlega umfangsmikið og frumgögn þess telja þúsundir blaðsíðna. Ég kýs því í grein þessari að fjalla því sem næst einvörðungu um þann þátt málsins sem hvað minnst hefur verið ræddur opinberlega, sakfellingu dómfelldu fyrir rangar sakargiftir.

III.

Með dómi Hæstaréttar sem til hefur verið vitnað var Sævar Marínó Ciesielski ekki aðeins dæmdur fyrir aðild að dauða þeirra Geirfinns Einarssonar og Guðmundar Einarssonar, heldur margs konar önnur afbrot, þar á meðal rangar sakargiftir á hendur þeim Einari Bollasyni, Magnúsi Leópoldssyni, Sigurbirni Eiríkssyni og Valdimar Olsen en dómfelldi bar margsinnis fyrir lögreglu og á dómþingi sakadóms þær sakir á fyrrgreinda fjórmenninga að þeir hefðu átt hlut að dauða Geirfinns og smyglbrotum. Þeir Einar, Magnús og Valdimar sættu saklausir gæsluvarðhaldi í 105 daga og Sigurbjörn í 90 daga. Þeir fjórmenningar neituðu staðfastlega allri vitneskju um það sem þeim var gefið að sök. Óumdeilt er að enginn þeirra átti nokkra aðild að hvarfi Geirfinns.

Dómfelldi bar Einar Bollason röngum sökum í 6 skipti, 5 sinnum fyrir lögreglu og einu sinni fyrir dómi, hann bar Magnús Leópoldsson röngum sökum í 5 skipti, 4 sinnum fyrir lögreglu og einu sinni fyrir dómi, dómfelldi bar Sigurbjörn Eiríksson röngum sökum í 3 skipti, alltaf fyrir lögreglu og hann bar Valdimar Olsen röngum sökum í 6 skipti, 5 sinnum fyrir lögreglu og einu sinni fyrir dómi. Dómfelldi nefnir saklausan mann sem aðildarmann að hvarfi Geirfinns tuttugu sinnum alls, í sex skýrslugjöfum. Frásagnir dómfellda um aðild þeirra fjórmenninga að dauða Geirfinns eru nokkuð á reiki, hann ber Einar, Magnús og Valdimar sökum þrisvar sinnum í janúar 1976, en Sigurbjörn ekki. Í febrúar 1976 ber hann þá Sigurbjörn og Valdimar sökum, en ekki Einar eða Magnús. Fyrir dómi í apríl 1976 ber hann Einar, Magnús og Valdimar sökum en ekki Sigurbjörn. Og í síðasta sinn ber hann þá alla sökum 8. maí 1976. Daginn eftir, hinn 9. maí 1976, voru þeir fjórmenningarnir látnir lausir.

Dómfelldi (eða eftir atvikum talsmaður hans) telur að hinar röngu sakargiftir hafi átt sér stað vegna atbeina lögreglunnar, hann hafi verið neyddur til að bera fyrrgreinda menn röngum sökum. Ákæruvald og rannsóknaraðila hafi alla tíð grunað að menn tengdir veitingahúsinu Klúbbnum hafi borið ábyrgð á hvarfi Geirfinns Einarssonar. Því til stuðnings telur dómfelldi vera yfirheyrslu sem fram hafi farið stuttu eftir að leit að Geirfinni hófst, þar sem Magnús Leópoldsson var spurður um bifreiðaeign hans. Það sé ennfremur máli sínu til stuðnings að fulltrúi saksóknara ríkisins hafi fundið að málsmeðferð dómsmálaráðuneytis í svokölluðu Klúbbmáli árið 1972, þar sem m.a. var tekist á um hvort veitingahúsið ætti að fá að halda áfram rekstri. Sami fulltrúi hafi síðan einnig verið fulltrúi ákæruvaldsins við meðferð Geirfinnsmálsins fyrri hluta ársins 1976, þegar þeir fjórmenningar voru vistaðir í gæsluvarðhaldi. Sakar dómfelldi rannsóknaraðila um að hafa blandað fjórum saklausum mönnum í málið, enda hafi rannsóknaraðilar haft tilhneigingu til að tengja grunsamlega atburði við veitingahúsið Klúbbinn.

Hinar röngu sakargiftir voru fyrst bornar fram af Erlu Bolladóttur í óformlegu viðtali við rannsóknaraðila 21. janúar 1976, en hún gaf síðan formlega skýrslu um sama efni 23. sama mánaðar. Dómfelldi er hins vegar sá sakborninga sem fyrstur gaf formlega skýrslu 22. janúar 1976, þar sem hann bar þá Einar, Magnús og Valdimar þeim sökum að þeir hefðu verið viðriðnir hvarf Geirfinns. Óneitanlega er athyglisvert tilefni frásagnar Erlu en það var að hún taldi sig verða fyrir ofsóknum og ónæði. Á þessum tíma sætti Erla ekki gæsluvarðhaldi og kvaðst hún vera hrædd vegna Geirfinnsmálsins við þá Sigurbjörn Eiríksson, Einar Bollason og einn nafngreindan mann að auki. Sé þessi frásögn íhuguð í ljósi þess sem síðar kom fram, að enginn þessara manna var á nokkurn hátt viðriðinn málið, vaknar sú spurning hvort frásögn Erlu um ónæðið og hótanirnar hafi verið tilbúningur. Ef svo var ekki, hlýtur ónæði það sem Erla varð fyrir og hótanir í hennar garð að hafa verið af annarra völdum en fyrrnefndra manna sem hún nafngreindi og væntanlega óviðkomandi Geirfinnsmálinu. Ekki hafa komið fram skýringar á því hver hafi verið ástæða þess að Erla blandaði saklausum mönnum inn í málið aðrar en þær sem hún hefur sjálf gefið, þ.e. að leiða athyglina frá dómfellda og sjálfri sér. Meira að segja í þessari skýringu er mótsögn þar sem ekki verður séð að grunur hafi vaknað um aðild dómfellda að hvarfi Geirfinns öðruvísi en eftir frásögn Erlu sjálfrar. Það vekur upp enn nýja spurningu, hvers vegna var Erla að blanda dómfellda inn í Geirfinnsmálið ef grunur rannsóknaraðila var ekki vaknaður um þátt hans? Var Erla þá e.t.v. í þeirri villu að grunur rannsóknaraðila um aðild dómfellda að málinu væri þá þegar vaknaður?

Það verður hver að meta fyrir sig hversu trúverðug sú staðhæfing dómfellda er að hinar röngu sakargiftir hans og annarra eigi alfarið rót sína að rekja til þrýstings lögreglumanna um að bera sakir á fjóra saklausa menn. Má í því sambandi m.a. líta til þess hvar og hvenær hinar röngu sakir voru bornar fram. Það er óneitanlega athyglisverð staðreynd að dómfelldi hafði uppi hinar röngu sakargiftir daginn áður en hinir saklausu menn voru látnir lausir. Áður hafði dómfelldi borið á dómþingi sakadóms í apríl 1976 um aðild Einars, Magnúsar og Sigurbjörns að málinu. Það er því ekki aðeins fyrir rannsóknarlögreglu sem hinar röngu sakargiftir komu fram. Þá fóru einnig fram samprófanir á milli einstakra dómfelldu í málinu við einstaka þeirra sem sættu gæsluvarðhaldi vegna hinna röngu sakargifta. Við þær aðstæður fer ekki fram bein skýrslutaka heldur eru aðilar leiddir saman um ákveðin atriði. Þá eru fyrstu skýrslugjafir dómfellda og Erlu Bolladóttur um þátt fjórmenningana ósamhljóða í veigamiklum atriðum. Segja þau frá aðdraganda ætlaðrar ferðar til Keflavíkur á sitt hvorn veginn. Frásagnir um einstaka atburði í þeirri ætluðu ferð eru einnig um margt ólíkar. Það er einnig athyglisverð staðreynd að Erla hélt áfram að bera rangar sakir á fjórmenningana eftir að þeir voru látnir lausir, hún sakaði þá enn alla um aðild að láti Geirfinns í september 1976.

Rangar sakargiftir á hendur saklausum mönnum um þátt þeirra í dauða manns er í eðli sínu sérlega viðurstyggilegur verknaður og varðar við 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fátt er unnt að hugsa sér verra en að saka saklausan mann um svo alvarlegt afbrot sem manndráp er. Afleiðingar þessara sakargifta voru einnig afdrifaríkar fyrir þá sem fyrir þeim urðu. Frelsissvipting fjögurra saklausra manna um margra mánaða skeið varð þeim öllum dýrkeypt og víst er að enginn þeirra mun hafa orðið samur á eftir að fenginni þessari lífsreynslu. Um þessa reynslu Magnúsar Leópoldssonar hefur verið rituð bók. Hann telur að hann muni aldrei jafna sig á þessu réttarslysi, fébætur vegi þar lítið, en verst sé að hópur manna muni ekki að hann var saklaus lokaður inni, heldur aðeins að hann hafi verið við málið riðinn. "Hann félagi þinn Guðjón Skarphéðinsson var að fá embætti," sagði eitt sinn maður við Magnús, sem taldi í bók sinni að fjölmargir geri í tímans rás engan greinarmun á því hverjir hafi verið dæmdir fyrir verknaðina og hverjir hafi reynst saklausir.

Sé sú staðhæfing dómfellda athuguð að lögreglan hafi grunað svokallaða Klúbbmenn, þá Sigurbjörn Eiríksson og Magnús Léopoldsson, um refsiverða háttsemi og að lögreglan hafi komið því til leiðar að dómfelldi ásamt fleirum bæru sakir á þá, er nauðsynlegt að staldra við þá tvo sem ekki töldust til Klúbbmanna, þá Valdimar Olsen og Einar Bollason. Dómfelldi heldur því fram að lögreglan hafi talið Einar Bollason átt að vera tengilið milli dómfellda og Erlu annars vegar og Klúbbmanna hins vegar, en ekki verður séð að sú staðhæfing sé studd neinum ótvíræðum gögnum. Ekki er vitað til að tengsl eða samgangur hafi verið á milli Einars Bollasonar og Klúbbmanna, raunar kemur fram hjá dómfellda í upptökubeiðni hans að ekki hafi verið um nein tengsl að ræða, en lögreglan hafi ekki talið það skipta máli. Þá er ekki heldur vitað til að sérstaklega náið samband hafi verið milli Einars Bollasonar annars vegar og dómfellda og Erlu Bolladóttur hins vegar. Er því ekki unnt að sjá að staðhæfing um umrædd tengsl milli manna eigi sér einhverja stoð né heldur að lögreglan hafi verið þeirrar skoðunar. Á hinn bóginn er vandséð hvers vegna Klúbbmenn hafi yfirleitt átt í einhverju sambandi við dómfellda og Erlu Bolladóttur. Miklu líklegri er sú skýring að dómfelldi ásamt Erlu og fleirum hafi tekist að leiða rannsóknaraðila á þær villigötur í rannsókninni að leiddi til handtöku fjórmenninganna en ekki að dómfelldi hafi verið fórnarlamb rannsóknaraðila og hafi verið neyddur til að bera menn röngum sökum.

Án efa hefði mátt standa öðruvísi að ýmsum atriðum í rannsókn málsins, en afdrifaríkustu mistökin í málinu hljóta að teljast vera innilokun fjórmenninganna. Ekki löngu eftir að Einar, Magnús og Valdimar voru fyrst úrskurðaðir í gæsluvarðhald, eru nefndir til sögunnar fleiri menn, landskunnir kaupsýslu- og veitingamenn, auk annarra, sem dómfelldu töldu að hefðu verið vitorðsmenn að atlögunni að Geirfinni. Enginn þeirra var handtekinn hvað þá lokaður inni mánuðum saman. Nöfn þessara manna að einu frátöldu hafa ekki verið birt í dómum sakadóms Reykjavíkur og Hæstaréttar Íslands og verður það ekki gert hér, en þau er að sjálfsögðu að finna í skjölum málsins. Þá var heldur ekki samræmi í því hvaða menn voru bornir röngum sökum. Hefði þetta þá þegar átt að vekja lögregluna til vitundar um að hún væri á alvarlegum villigötum í rannsókn málsins með því að telja fjórmenningana vera við málið riðna. Svo virðist sem rannsóknaraðilum hafi ekki orðið það ljóst fyrr en löngu síðar, með þeim afleiðingum sem kunnar eru. Þegar fjórmenningarnir voru handteknir var rannsóknin á hvarfi Geirfinns heldur stutt á veg komin, eftir að hún hafði hafist að nýju, en hún hafði að mestu legið niðri frá fyrri hluta árs 1975. Mikið virðist hafa legið við þegar fjórmenningarnir voru handteknir. Frásögn dómfellda og Erlu Bolladóttur á síðari stigum rannsóknarinnar um að þau hafi sammælst um að bendla Klúbbmenn við málið vegna orðróms um að þeir væru við það riðnir vekur jafnframt upp áleitnar spurningar um hvernig staðið var að frumrannsókn málsins. M.a. kemur fram í upptökubeiðni dómfellda að leirhöfuð það sem mótað var eftir lýsingum sjónarvotta á manni sem átti að hafa hringt í Geirfinn Einarsson úr Hafnarbúðinni kvöldið sem hann hvarf, hafi verið látið líkjast Magnúsi Leópoldssyni. Sé þetta rétt vakna alvarlegar spurningar um tilhögun og áreiðanleika frumrannsóknarinnar og hvaða sjónarmið réðu því að leit að óþekktum manni var jafnvel beint að tilteknum einstaklingi án þess að haldbær gögn væru fyrir hendi um ætlaða aðild hans að málinu. Er þetta raunar sjálfstætt efni til athugunar á því hvernig að frumrannsókninni var staðið á sínum tíma og verður ekki gert frekar að umtalsefni á þessum vettvangi.

Telja verður raunar að staðhæfing annarra dómfelldu í málinu en upptökubeiðanda um aðra vitorðsmenn en þá fjórmenninga sem sættu gæsluvarðhaldi, geri heldur ótrúverðuga þá kenningu dómfellda að lögreglan hafi neytt hann og aðra dómfellda til að bera rangar sakir á saklausa menn. Hvers vegna skyldu nöfn annarra manna þá dregin inn í málið af þeirra hálfu ef þeir voru handbendi lögreglunnar í því að bera fjórmenningana röngum sökum? Það er einnig afar athyglisverð skýrslugjöf eins dómfellda í málinu frá því í desember 1976 að fjórmenningarnir væru allir saklausir og að sér hefði fallið þungt að vita af þeim saklausum bak við lás og slá.

Almennt séð er ekki heldur sýnilegt tilefni eða hvöt hjá lögreglunni til þess að fá dómfelldu til að blanda saklausum mönnum inn í málið. Skýring dómfellda um að grunur lögreglunnar hafi beinst að Klúbbmönnum með því að Magnús Leópoldsson hafi verið kallaður til skýrslugjafar í málinu snemma á árinu 1975 verður að taka með varfærni. Í þeirri skýrslutöku var einungis verið að kanna bifreiðaeign Magnúsar, auk þess sem fjöldi annarra var einnig yfirheyrður af sams konar ástæðum. Þá verður einnig að telja býsna langsótt að fulltrúi ákæruvaldsins sem ekki var sammála tiltekinni málsmeðferð dómsmálaráðuneytis í svokölluðu Klúbbmáli 1972, stuðli að því, eða taki þátt í að forsvarsmenn staðarins séu vistaðir í gæsluvarðhaldi með því að dómfelldi í málinu væri neyddur til að bera rangar sakargiftir á hendur þeim. Jafnvel þótt rétt væri skýrði það ekki ásakanir gegn Valdimar Olsen eða Einari Bollasyni.

Dómfelldi viðurkenndi fyrir sakadómi Reykjavíkur í júní 1977 að hann hefði borið rangar sakir á þá Einar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen um aðild þeirra að hvarfi Geirfinns Einarssonar. Greindi dómfelldi frá því að fyrirfram hefði verið ákveðið meðal ákærðu í málinu að bendla fjórmenningana við málið ef til kæmi að þau yrðu handtekin vegna þess. Hefðu það verið samantekin ráð þeirra til að rugla rannsókn málsins. Hæstiréttur telur í úrlausn sinni að ekkert hafi komið fram í málatilbúnaði dómfellda sem varpað geti nýju ljósi á þetta og því sé ekki tilefni til endurupptöku málsins vegna þessa þáttar.

IV.

Í upptökubeiðni dómfellda felast í raun mjög alvarlegar ásakanir gagnvart lögregluyfirvöldum, ákæruvaldi, dómstólum, dómsmálaráðuneyti og þar með stjórn fangelsismála, þ.e. réttarkerfinu í heild sinni. Lögreglumenn og rannsóknardómarinn í málinu eru sakaðir um að hafa kerfisbundið, ýmist meðvitað eða ómeðvitað, neytt dómfellda til að játa á sig aðild að manndrápi í tvígang, dylja þá verknaði með því að fela líkamsleifar mannanna og loks að hafa fengið hann til að bera rangar sakir á hóp manna sem áttu að hafa tekið þátt í vígi mannanna. Ákæruvaldið er sakað um að hafa tekið þátt í fyrrgreindum aðgerðum lögreglunnar. Fangelsisyfirvöld eru sökuð um gróft harðræði meðan dómfelldi var vistaður í gæsluvarðhaldi. Sakadómi og Hæstarétti er sagt til syndanna fyrir að hafa dæmt hann saklausan í margra ára fangelsi, og eftir því sem skilja má kröfugerð dómfellda, eigi það sama við um flesta aðra ákærða í málinu, að þau hafi öll verið dæmd saklaus án nokkurra sönnunargagna. Ásakanir af þessu tagi hljóta að vera verulegt umhugsunarefni og ekki síður sú umræða sem hefur sprottið upp í kringum málatilbúnað þennan í starfinu, oft og tíðum án þekkingar á málsatvikum eða lögfræðilegra forsendna.

Hæstiréttur Íslands hefur í úrlausn sinni um endurupptökubeiðnina tekið rökstudda afstöðu til allra þeirra álitaefna sem þar koma fram og gætu verið tilefni til endurupptöku. Álit Hæstaréttar er ítarlegt og þar er með hlutlægum og rökstuddum hætti tekin afstaða til ásakana dómfellda svo og þess hvort skilyrðum 1. mgr. 184. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé fullnægt til endurupptöku málsins. Hæstiréttur fjallar rækilega um allar málsástæður dómfellda og rök hans fyrir endurupptöku. Hvert atriði er tekið fyrir og fjallað um öll rök er styðja upptöku og rök gegn upptöku. Niðurstaða Hæstaréttar er öllum kunn, málið verður ekki endurupptekið.

Miðað við fyrirliggjandi gögn og núgildandi lög um skilyrði til endurupptöku dómsmála sýnist niðurstaða Hæstaréttar að synja endurupptökubeiðninni vera rökrétt. Sú niðurstaða hlýtur að standa að óbreyttum lögum eða þar til önnur gögn koma fram en lögð voru fram í málinu.