I.

I.1.

Málið var höfðað fyrir sakadómi Reykjavíkur með fyrrnefndum ákærum 8. desember 1976 og 16. mars 1977 gegn Kristjáni Viðari Viðarssyni, Sævari Marinó Ciesielski, Tryggva Rúnari Leifssyni, Albert Klahn Skaftasyni, Erlu Bolladóttur og Guðjóni Skarphéðinssyni, auk eins manns annars, sem beiðni um endurupptöku snýr á engan hátt að.

Í I. kafla ákæru 8. desember 1976 sagði eftirfarandi:

"1. Ákærðu Kristjáni Viðari, Sævari Marinó og Tryggva Rúnari er gefið að sök að hafa aðfaranótt sunnudagsins 27. janúar 1974 í félagi ráðist á Guðmund Einarsson, Hraunprýði, Blesugróf, fæddan 6. október (svo í ákærunni) 1955, í kjallaraíbúð að Hamarsbraut 11, Hafnarfirði, þáverandi heimili ákærða Sævars Marinós, og misþyrmt honum svo, þar á meðal með hnífstungum, er ákærði Kristján Viðar veitti honum, að hann hlaut bana af, og komið líki hans síðan fyrir á ókunnum stað.

Þykja ákærðu með fyrrgreindum verknaði hafa gerst brotlegir samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2. Ákærða Albert Klahn er gefið að sök eftirfarandi hlutdeild í fyrrgreindum verknaði með því að veita meðákærðu Sævari Marinó, Kristjáni Viðari og Tryggva Rúnari liðsinni við að fjarlægja og koma líki Guðmundar fyrir á ókunnum stað og þannig leitast við að afmá ummerki brotsins, bæði þegar fyrrgreinda nótt og síðar síðla sumars s.á., er líkamsleifar Guðmundar voru fluttar á enn annan stað. Fóru flutningar þessir fram í bifreiðum, er ákærði Albert Klahn hafði til umráða og ók.

Þykir ákærði Albert Klahn með fyrrgreindu atferli hafa gerst brotlegur samkvæmt 211. gr., sbr. 22. gr., 4. mgr., sbr. 1. mgr., hegningarlaganna svo og við 112. gr., 2. mgr., sömu laga."

  

Við flutning málsins fyrir sakadómi Reykjavíkur var því lýst yfir af hálfu ákæruvalds, að 1. liður í ofangreindum hluta ákærunnar væri ekki lengur byggður á því að Kristján hafi ráðist að Guðmundi Einarssyni með hnífi og stungið hann, heldur að hver þeirra Kristjáns, Sævars og Tryggva hafi átt jafnan þátt í árás á Guðmund og dauða hans. Væri um að ræða óaðskiljanlegan samverknað þeirra.

 

Í I. kafla ákæru 16. mars 1977 sagði eftirfarandi:

 "Ákærðu Kristjáni Viðari, Sævari Marinó og Guðjóni er gefið að sök að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 20. nóvember 1974 í félagi ráðist á Geirfinn Einarsson, þá til heimilis að Brekkubraut 15, Keflavík, í Dráttarbrautinni í Keflavík og misþyrmt honum þar svo, að hann hlaut bana af. Fluttu þeir síðan um nóttina lík hans í bifreið, er ákærði Guðjón ók, að heimili ákærða Kristjáns Viðars að Grettisgötu 82 í Reykjavík.

 Fimmtudaginn 21. sama mánaðar fluttu ákærðu Kristján Viðar, Sævar Marinó og Erla lík Geirfinns í bifreið, er Erla ók, frá Grettisgötu 82 að Rauðhólum, með viðkomu á bensínstöð á Ártúnshöfða, þar sem tekið var bensín á brúsa. Í Rauðhólum greftruðu þau líkamsleifar Geirfinns eftir að hafa hellt bensíni á líkama hans og lagt eld í.

 Þykja ákærðu Kristján Viðar, Sævar Marinó og Guðjón með framangreindu atferli hafa gerst brotlegir samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en ákærða Erla þykir með liðsinni sínu, svo sem rakið var, og með því að leitast þannig við að afmá ummerki brotsins hafa gerst brotleg samkvæmt 211. gr., sbr. 22. gr., 4. mgr., sbr. 1. mgr., hegningarlaganna svo og samkvæmt 112. gr., 2. mgr., sbr. 1. mgr., sömu laga.

 Ákærða Kristjáni Viðari er ennfremur gefið að sök að hafa eftir komu þeirra félaga með lík Geirfinns að Grettisgötu 82 stolið seðlaveski Geirfinns úr brjóstvasa hans, sem í voru 5.000 krónur auk ýmissa skilríkja, og teikniblýanti hans. Varðar það við 244. gr. almennra hegningarlaga."

  

 Í II. kafla sömu ákæru sagði eftirfarandi:

 "Ákærðu Kristjáni Viðari, Sævari Marinó og Erlu er gefið að sök að hafa á árinu 1976 gerst sek um rangar sakargiftir í skýrslum, er þau gáfu rannsóknarlögreglunni í Reykjavík og á dómþingi sakadóms Reykjavíkur.

 Voru það samantekin ráð þeirra að bera í skýrslum þessum þær röngu sakir á Einar Gunnar Bollason, Heiðvangi 5, Hafnarfirði, Magnús Leópoldsson, Lundarbrekku 10, Kópavogi, Sigurbjörn Eiríksson, Laufásvegi 17, Reykjavík, og Valdimar Olsen, Framnesvegi 61, Reykjavík, að þeir hefðu átt hlut að dauða Geirfinns Einarssonar og smyglbrotum. Leiddu þessar sakargiftir til þess, að fyrrgreindum mönnum var gert að sæta langvinnu gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar þessara sakarefna. Voru Einar Gunnar, Magnús og Valdimar í gæsluvarðhaldi af þessum sökum frá 26. janúar 1976 til 9. maí s.á., en Sigurbjörn frá 11. febrúar 1976 til 9. maí s.á.

 Ákærða Kristjáni Viðari er gefið að sök að hafa borið þessar sakir á fyrrgreinda menn sem hér segir:

  a) Á Einar Gunnar Bollason fyrir rannsóknarlögreglu 23. og 27. janúar, 10. febrúar, 18. mars og 20. apríl og á dómþingi sakadóms 31. mars og 6. apríl.

 b) Á Magnús Leópoldsson fyrir rannsóknarlögreglu 27. janúar.

 c) Á Sigurbjörn Eiríksson fyrir rannsóknarlögreglu 27. janúar, 10. febrúar, 18. mars og 20. apríl og á dómþingi sakadóms 31. mars.

 d) Á Valdimar Olsen fyrir rannsóknarlögreglu 27. janúar, 10. febrúar, 18. mars og 20. apríl og á dómþingi sakadóms 31. mars og 8. apríl.

 Ákærða Sævari Marinó er gefið að sök að hafa borið þessar sakir á sömu menn sem hér segir:

 a) Á Einar Gunnar Bollason fyrir rannsóknarlögreglu 22., 25. og 27. janúar, 10. febrúar og 8. maí og á dómþingi sakadóms 1. apríl.

 b) Á Magnús Leópoldsson fyrir rannsóknarlögreglu 22., 25. og 27. janúar og 8. maí og á dómþingi sakadóms 1. apríl.

 c) Á Sigurbjörn Eiríksson fyrir rannsóknarlögreglu 27. janúar, 10. febrúar, og 8. maí.

 d) Á Valdimar Olsen fyrir rannsóknarlögreglu 22., 25. og 27. janúar, 10. febrúar og 8. maí og á dómþingi sakadóms 1. apríl.

 Ákærðu Erlu Bolladóttur er gefið að sök að hafa borið þessar sakir á sömu

 menn sem hér segir:

a) Á Einar Gunnar Bollason fyrir rannsóknarlögreglu 23. janúar, 3. og 10. febrúar, 3. mars, 4. maí og 1. september og á dómþingi sakadóms 30. mars.

 b) Á Magnús Leópoldsson fyrir rannsóknarlögreglu 23. janúar, 3. og 10. febrúar, 4. maí og 1. september og á dómþingi sakadóms 30. mars og 7. apríl.

 c) Á Sigurbjörn Eiríksson fyrir rannsóknarlögreglu 3. og 10. febrúar og 1. september og á dómþingi sakadóms 30. mars.

 d) Á Valdimar Olsen fyrir rannsóknarlögreglu 3. febrúar og 1. september.

 Þykja ákærðu með framangreindum sakargiftum, svo sem rakið hefur verið í þessum kafla ákærunnar, öll hafa gerst brotleg við 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga."

 Með ákærunni 8. desember 1976 var Kristján Viðar Viðarsson einnig sóttur til saka fyrir hylmingu og sjö þjófnaðarbrot, Sævar Marinó Ciesielski fyrir fjársvik, brot á lögum um ávana- og fíkniefni, fimm skjalafalsbrot og níu þjófnaðarbrot, Tryggvi Rúnar Leifsson fyrir brennu, nauðgun og fjögur þjófnaðarbrot, Albert Klahn Skaftason fyrir hylmingu og átta brot á lögum um ávana- og fíkniefni, Erla Bolladóttir fyrir fjársvik, hylmingu og fimm skjalafalsbrot og Guðjón Skarphéðinsson fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni, en auk þess var annar maður, sem áður var minnst á, saksóttur fyrir sams konar brot. Öll þessi brot voru talin hafa verið framin á tímabilinu frá ársbyrjun 1972 til loka nóvember 1975. Beiðnin um endurupptöku varðar ekki þátt Sævars í þeim atriðum málsins. Eru því ekki efni til að greina nánar frá þeim hér.