II.

 II.1.

 Samhengisins vegna verður nú lýst í stórum dráttum atvikum málsins, skýrslum ákærðu og sönnunargögnum, svo sem greint er frá þeim í fyrrnefndum dómum sakadóms Reykjavíkur og Hæstaréttar, ásamt þargreindum röksemdum fyrir niðurstöðum. Hér er aðeins um að ræða útdrátt. Er því ekki vikið að öllum atriðum, sem greint er frá í dómunum, heldur miðað við að þeir séu hafðir til hliðsjónar eftir þörfum.

 Umfjölluninni hér á eftir er skipt í fjóra meginkafla, þar sem sá fyrsti snýr að I. kafla ákæru 8. desember 1976, sem varðaði lát Guðmundar Einarssonar. Því næst er fjallað um I. kafla ákæru 16. mars 1977 varðandi lát Geirfinns Einarssonar, en síðan II. kafla sömu ákæru um rangar sakargiftir. Loks er vikið að umfjöllun í héraðsdómi og dómi Hæstaréttar um lögmæti rannsóknar málsins, svo og sérstakri rannsókn, sem laut að því hvort sakborningar í málinu hefðu sætt harðræði þegar á gæsluvarðhaldi yfir þeim stóð.