III.3.

 

Í yfirlýsingu Elínborgar Rafnsdóttur 26. ágúst 1996 segir meðal annars eftirfarandi:

 

 "Eins og fram kemur í gögnum málsins átti ég leið um Hafnarfjörð ásamt vinkonu minni Sigríði Magnúsdóttur í Volkswagen-bifreið Sigríðar aðfararnótt sunnudagsins 27. janúar 1974. Er við ókum um Strandgötuna í Hafnarfirði í átt til Reykjavíkur rétt um kl. 2 sá ég Guðmund Einarsson, sem við báðar þekktum, á gangstéttinni hægra megin götunnar. Guðmundur var greinilega að reyna að fá far samkvæmt þeim bendingum sem hann gaf. Með Guðmundi var ungur maður heldur lægri vexti en Guðmundur og mjög grannur. Hann var á skyrtunni án hálstaus, en hélt á jakka sínum. Hann var ekki með frakka.

 Engin formleg skýrsla var tekin af mér 1974, einungis símtal við Njörð Snæhólm, en í hann hringdi ég eftir að auglýst hafði verið eftir Guðmundi í fjölmiðlum og birtar myndir af honum. Reyndar hringdi í mig í vinnu næsta dag þar á eftir maður sem kynnti sig sem Kristin vin Guðmundar. Hann væri að aðstoða við leit og spurði mig nánar um manninn með Guðmundi. Mig misminnti um nafn Kristins þremur árum síðar, en er þess fullviss að hann kynnti sig sem Kristin, en ekki Kristján. Hann hafði að eigin sögn fengið símanúmer mitt hjá Nirði Snæhólm.

 Við sakbendingu í skrifstofu sakadóms við Borgartún í janúar 1977 var raðað upp nokkrum mönnum úr Lögregluskólanum og Kristjáni Viðari Viðarssyni. Mér var sagt fyrir sakbendinguna að Kristján Viðar væri í hópnum. Ég hafði séð myndir af Kristjáni Viðari í fjölmiðlum vegna Guðmundar og Geirfinnsmála og átti auðvelt með að þekkja hann úr hópnum. Ekki var unnt að átta sig á hæð mannanna. Mér var þá ekki kunnugt að Kristján Viðar er 190 cm. á hæð. Hefði ég vitað það hefði mér verið ljóst að Kristján Viðar gat ekki verið sá maður sem ég sá með Guðmundi í Strandgötunni þar sem sá maður var lægri vexti en Guðmundur svo sem áður segir. Einnig var hann verulega grennri en Kristján. Mér finnst eftirá að hyggja að ég hafi verið leidd til að benda á Kristján Viðar við sakbendinguna. Þegar ég sagði við lögregluna að Kristján Viðar væri feitari en maður sá sem ég sá í Strandgötunni með Guðmundi skýrði lögreglumaður það þannig að hann hefði fitnað í fangelsinu, enda hefði hann fengið svo gott fæði þar.

 Ég er þess fullviss að maður sá sem ég sá með Guðmundi aðfararnótt sunnudagsins 27. janúar 1974 er ekki Kristján Viðar, enda útlokar hæð hans það. Þetta er ég reiðubúin að staðfesta fyrir dómi."