III.4.

 

Talsmaður dómfellda hefur lagt fram tvær yfirlýsingar Erlu Bolladóttur, aðra frá 22. febrúar 1996 og hina frá 19. nóvember sama árs. Í þeirri fyrri segir meðal annars:

 "1. Rangt er í ofangreindum dómum Sakadóms Reykjavíkur og Hæstaréttar Íslands að ég hafi orðið þess áskynja aðfaranótt sunnudagsins 27. janúar 1974 eða í annan tíma að ákærðu í málinu Kristján Viðar, Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar, hefðu verið að flytja eitthvað þungt, sem gæti hafa verið lík, um eða úr kjallaraíbúð minni að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði. Ég sá ákærðu ekki í íbúð minni greinda nótt, enda komu þeir ekki þangað. Ég gerði rannsóknarlögreglumönnum í upphafi grein fyrir raunverulegum atburðum næturinnar. Ég gat þess þó ekki að ástæðan fyrir því að ég fór út í öskutunnu við húsið þegar ég fór á fætur um morguninn var sú að ég hafði sjálf haft hægðir í rúminu. Ég var einangruð og andlega illa á mig komin um þessar mundir og þegar ég vaknaði um nóttina til að hafa hægðir þá hafði ég ekki þrek til að fara á fætur, heldur gyrti niður um mig og hafði hægðir í rúminu. Þess vegna fleygði ég um morguninn lakinu út i öskutunnu og þar er að finna tilefni lýsingar á hægðum sem ég síðar á að hafa tengt líki því sem ofannefndu ákærðu áttu að hafa verið með. Blygðun mín leyfði mér ekki að skýra frá þessu atriði málsins. Rannsóknarlögreglumennirnir féllust hins vegar ekki á skýrslu mína um að greindir menn hefðu ekki verið í kjallaraíbúðinni um nóttina og fengu mig um síðir til að gefa aðra og ranga skýrslu. Þetta gerðu þeir með ýmsum aðferðum sem ég er reiðubúin að gera nánari grein fyrir fyrir dómi.

 

2. Ég var sjálf ákærð og dæmd fyrir að bera rangar sakir á bróður minn, Einar Gunnar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og bróður vinkonu minnar, Valdimar Olsen, á árinu 1976. Að svo miklu leyti sem slíkar rangar sakargiftir á hendur greindum mönnum verða lesnar úr skýrslum mínum fyrir lögreglu og dómi þá eru skýrslurnar að því leyti til rangar. Nöfn þessara manna eru ekki frá mér komin heldur leiddi rannsóknarlögreglan mig með leiðandi aðferðum til að gefa slíkar skýrslur, sem skilja mætti þannig að nöfnin væru frá mér komin. Efni skýrslnanna er í aðalatriðum frá lögreglumönnunum komið, sem önnuðust yfirheyrslurnar. Ég er reiðubúin að gera nánari grein fyrir aðferðum þeirra sem yfirheyrðu mig."

 

Í síðari yfirlýsingunni segir meðal annars:

  

"1. Eftir að ég losnaði úr gæsluvarðhaldi hinn 20. desember 1975 bjó ég heima hjá móður minni með dóttur minni f. 24. september 1975. Rannsóknarlögreglumennirnir Eggert N. Bjarnason og Sigurbjörn Víðir, svo og dómarinn Örn Höskuldsson, gerðu sér tíðförult á heimilið, einkum á morgnana þegar móðir mín var að heiman. Tíðast þeirra þremenninga kom þó Sigurbjörn Víðir. Þremenningarnir létu ætíð sem þeir bæru hag minn fyrir brjósti og væru vinir mínir og um væri að ræða vinaheimsóknir. Að eigin frumkvæði báðu þeir mig að skrifa undir umsókn um barnameðlag. Þeir sóttu um styrk til tannviðgerða og Örn vann að því hjá bandaríska sendiráðinu að ég fengi innflytjendaleyfi til Bandaríkjanna. Í öllum þessum heimsóknum barst þó talið að "málinu". Sigurbjörn Víðir hjálpaði mér að sækja eitthvað í húsið sem ég hafði áður búið í. Sigurbjörn Víðir varð fyrstur til að minnast á Geirfinnsmálið við mig og spurði hvort ég teldi Sævar vita eitthvað um málið. Ég neitaði því strax. Sigurbjörn gekk á mig og spurði hvort ég væri viss o.s.frv. Ég fann mikinn áhuga og dró hann á svari. Síðan sagði ég honum að Sævar hefði rætt þetta mál eins og hver annar, en Sævar var með Al Capone stæla og sagði einhvern tíma að Geirfinnur hefði verið á röngum stað á röngum tíma. Sigurbjörn spurði hvað hann hafi vitað um Geirfinnsmálið. Ég sagði að hann hefði vitað það sem allir töluðu um, þ.e. kjaftasögurnar um Magnús Leópoldsson. Þetta átti að vera okkar á milli. Næsta dag kom Örn Höskuldsson einnig og þá var yfirheyrsla. Örn kom beint að efninu og sagði að þeir vildu vita allt sem ég vissi um þetta Geirfinnsmál. Ég sagðist ekkert vita og varð skelkuð. Þeir voru mjög ágengir. Ég sagði ekkert, enda vissi ég ekkert að segja þeim. Örn sagði að lokum að ég hefði upplifað eitthvað sem ég gæti ekki munað af því það hefði verið svo erfitt fyrir mig. Var þetta sama og Örn sagði í Guðmundarmálinu við mig. Mennirnir komu og síðan var sent eftir mér og ég yfirheyrð í Síðumúla. Voru þetta margar yfirheyrslur eða samtöl. Var ég beitt þrýstingi til að segja eitthvað sem yrði til upplýsa eitthvað mál. Taktíkin að segja að ég hefði upplifað eitthvað sem ég hefði gleymt hafði áhrif á mig. Augljóst var að hugmyndin var að tengja mig og sakborningana í gæsluvarðhaldinu við Geirfinnsmálið. Á þessu tímabili varð fyrst hreyfing á þessu máli gagnvart mér, en ég er viss um að það var byrjað að hreyfast annars staðar fyrr.

 

Í þessu sambandi voru mér sýndar myndir af Sigurbirni og Magnúsi Leópoldssyni. Ég sagðist ekki þekkja þá, en hefði heyrt um þá. Nánar spurð sagðist ég hafa heyrt talað um þá í partíum á Framnesvegi 61, 2. hæð til vinstri, á heimili Valdimars Olsen, en systir hans var vinkona mín. Í þessum partíum var ýmislegt talað m.a. um þúsund daga veisluna, vískýkeðjuna. Í þessari atburðarrás var Einar bróðir minn nefndur og nöfn Sigurbjarnar og Magnúsar. Þar, með því ég nefndi Einar bróður minn, tengdu lögreglumennirnir mig við Klúbbinn. Ég nefndi ýmis nöfn sem nefnd höfðu verið í þessum partíum og vildu yfirheyrendur velja úr hópnum í mynd þá sem þeir voru að byggja upp. Þeir töldu óhjákvæmilegt að hafa Einar bróður minn með sem tengilið milli mín og Klúbbmanna. Það var ekki fyrr en ég sagðist hafa skotið Geirfinn Einarsson að ég fékk réttargæslumann.

 

2. Þegar ég og vinkona mín Hulda Waddell vorum uþb. 17 ára, líklega 1973, var Hulda með strák sem vann í frystihúsinu í Grindavík og aðrir félagar okkar unnu þar. Fórum við saman einu sinni þangað snemma á árinu í heimsókn. Tókum við strætó í Hafnarfjörð og fórum á puttanum þaðan. Þá stoppaði fyrir okkur bíll með V-númeri af Moskwitz gerð. Á þeim bíl fórum við að Grindavíkurafleggjara, en bíllinn var á leið til Keflavíkur. Þaðan fengum við far með öðrum bíl. Á leiðinni í bæinn næsta dag tók okkur upp grjótflutningabíll á Grindavíkurvegamótunum. Þessa raunverulegu atburði úr lífi mínu notaði ég þegar ég var beitt þrýstingi til frásagnar í Geirfinnsmáli. Ég notaði einnig Hraðfrystihús Grindavíkur í skýrslum í póstsvikamálinu.

 

3. Ég var kölluð fyrir þýska rannsóknarlögreglumanninn, sem stjórnaði rannsóknum seinni hluta ársins 1976 og kynnt fyrir honum í Síðumúlanum á ágústmánuði. Þann dag var ég látin berhátta og fengið teppi og látin í næsta klefa þar sem ekkert var. Eftir að ég hafði beðið nokkra stund var ég kölluð fram á ganginn og þar voru þá Karl Schültz og túlkur hans. Karl heilsaði mér með handabandi og spurði mig almennra spurninga þar sem ég stóð í teppinu einu og sýndi auðmýkt. Þegar ég kom í klefa minn var búið að taka allt sem í klefa mínum var þar á meðal persónuleg skrif mín ofl. og fékk ég aldrei aftur. Þar var að finna allan sannleika málsins. Næsta dag eða þarnæsta var ég tekin til yfirheyrslu hjá Schütz í Síðumúla. Ég ákvað að trúa honum fyrir öllu og gerði honum grein fyrir að ég hefði hvergi nálægt Geirfinnsmáli komið og vissi ekkert um það. Var mér sá léttir af þessu, að ég féll í grát. Þýski lögreglumaðurinn brást reiður við og spurði hvort ég héldi að hann væri fífl.

 

4. Karlmenn, lögreglumenn og fangaverðir, voru að koma í klefa minn á öllum tímum sólarhrings jafnt á degi sem nóttu og sjaldnast að mínu undirlagi. Sigurbjörn Víðir kom mjög oft og oftast að eigin frumkvæði. Tvívegis þuklaði fangavörður á mér að nóttu til og kærði ég það fyrir Erni Höskuldssyni, sem gerði ekkert í málinu. Hann sagðist reyndar hafa áminnt viðkomandi. Þorði ég ekki að gera meira í málinu vegna andlegs ástands míns. "