III.8.

 

Í yfirlýsingu Kristrúnar Jónínu Steindórsdóttur 7. september 1996 segir meðal annars:

 

"Lögheimili mitt er að Suðurbraut 12 í Hafnarfirði, en ég er nú ráðskona í Dalseli. Tilefni þessarar upplýsingagjafar minnar er þegar ég varð þess vör í blaðafregnum í sumarbyrjun að Ragnar Aðalsteinsson hrl. hafði verið skipaður til þess að gæta réttar Sævars Marinó Ciesielski í tilefni af beiðni hans um endurupptöku svokallaðrar Guðmundar- og Geirfinnsmála þá hafði ég símasamband við Ragnar og sagði honum frá vitneskju minni sem nánar er greind hér að neðan.

 

Veturinn 1973-1974 rak ég ásamt eiginmanni mínum Þórði Arnari Marteinssyni Alþýðuhúsið við Strandgötu í Hafnarfirði. Í Alþýðuhúsinu voru haldin böll um helgar.

 

Aðfararnótt sunnudagsins 27. janúar 1974 var ég að störfum í Alþýðuhúsinu. Undir lok dansleiks leit ég útum lúguna í eldhúsinu og fram í salinn. Mér var litið til vinstri og þar sá ég standa við vegg ungan hávaxinn, dökkhærðan mann, fölan yfirlitum. Ég tók strax eftir honum vegna þess hversu ölvaður hann var, en þessi ungi maður bar óvenju góðan þokka. Fyrir framan hann stóð heldur lágvaxnari maður, dökkskolhærður, á sama reki og sá sem við vegginn stóð. Ég sá að lágvaxnari maðurinn ávarpaði þann sem við vegginn stóð en ekki heyrði ég orðaskil. Sá sem við vegginn stóð var svo ölvaður að hann hallaðist fram og studdi sá sem fyrir framan hann stóð hann með því að ýta á bringu hans svo hann félli ekki fram yfir sig. Sá sem við vegginn stóð var ekki jakkaklæddur heldur í rauðri peysu, líklega með V-hálsmáli. Eftir þetta hurfu mennirnir tveir og ég sá þá ekki aftur á dansleiknum.

 

Að lokinni helginni birtust fréttir í fjölmiðlum um hvarf Guðmundar Einarssonar og myndir af Guðmundi Einarssyni. Varð mér þegar ljóst að, að maður sá sem ég hafði séð á dansleiknum svo ölvaðan sem að framan er lýst, var sá sem leitað var að. Ég sagði eiginmanni mínum þegar frá þessu. Ekki var haft samband mig, hvorki af lögreglu né öðrum, hvorki þá né síðar. Venjulega voru tveir lögreglumenn við dyravörslu í húsinu og ég veit ekki hvort rætt var við þá. Ég hvorki var né er í minnsta vafa um að framangreindur maður, sem ég hef lýst, var sá sami og myndin var birt af í blöðunum undir nafninu Guðmundur Einarsson.

 

Á þessum tíma bjuggum við hjónin að Suðurgötu 40 í Hafnarfirði. Hús okkar er á horninu á stíg þeim sem liggur að Hamarsbraut. Örstutt er á milli húss okkar og Hamarsbrautar 11. Eftir að hafa gengið frá eftir dansleikinn, sem venjulega tók eina til tvær klukkustundir, fórum við hjónin heim. Ekki gengum við strax til náða heldur unnum að uppgjöri kvöldsins og öðru slíku, þannig að við munum hafa verið á fótum a.m.k. í klukkustund eftir að heim kom. Á þessu tímabili urðum við ekki vör við neina umferð í hverfinu, hvorki komur né brottfarir bifreiða, né annað slíkt. Svo háttar til í hverfi þessu að þar er mikil ró og kyrrð og óhjákvæmilegt að verða var við umferð, ekki síst um nætur, þegar algjör ró var yfir. Heima hjá okkur mátti heyra þegar fólk talaðist við við húsið nr. 11 við Hamarsbraut. Ég tel víst að ég hefði orðið þess vör ef umferð hefði verið við húsið nr. 11 við Hamarsbraut þessa nótt og sérstaklega ef þangað hefðu komið bílar hvað eftir annað og farið.

 

Ástæða þess að mér eru framangreindir atburðir minnisstæðir er hversu mikið ég vorkenndi unga manninum með síða dökka hárið sem stóð upp við vegginn í salnum í Alþýðuhúsinu rétt fyrir lok dansleiks og var svo ölvaður sem ég hef lýst hér að framan. Ég tel rétt að ítreka að í huga mínum er ekki og hefur aldrei verið minnsti vafi um að sá maður er sá sami og myndir voru birtar af út af mannshvarfinu eftir þessa helgi og reyndist heita Guðmundur Einarsson."

 

Í yfirlýsingu Þórðar Arnar Marteinssonar, eiginmanns Kristrúnar, segir meðal annars:

 

"Ég minnist þess vel, er myndir birtust af Guðmundi Einarssyni eftir ofannefnda helgi, að eiginkona mín sagði mér frá því að hún hefði séð þennan unga mann mjög ölvaðan á dansleiknum eins og lýst er hér að framan og hún hafi vorkennt þessum manni sem bar af sér svo góðan þokka.

 

Ég staðfesti einnig að mjög hljóðbært var í hverfinu við Hamarsbrautina er við bjuggum þar á þessum tíma og ekki fór hjá því að maður yrði umferðar var á nóttinni, einkum er verið var að opna og loka bílhurðum og aka að eða frá húsum. Ég varð þess t.d. alltaf var þegar hjúkrunarfólk var að koma og fara á bílum vegna vaktaskipta á síðkvöldum og á nóttum í spítalanum hinsvegar við Suðurgötuna. Ég tel að ekki hefði getað farið hjá því að ég yrði þess var hafi menn verið að koma og fara að Hamarsbraut 11 þessa nótt eftir að við hjónin komum heim úr Alþýðuhúsinu eftir vinnu okkar þar. Ekki heyrði ég heldur að nágrannar okkar ræddu um umferð að Hamarsbraut 11 þessa nótt, en slík umferð hefði vakið athygli og umtal."