IV.2.

 

2.1. Talsmaður dómfellda vísar til þess að ákvæði XXII. kafla laga nr. 19/1991 um endurupptöku dæmdra opinberra mála séu reist á því sjónarmiði að hversu vel, sem vandað sé til réttaröryggisreglna og framkvæmdar þeirra, sé óhjákvæmilegt að á stundum verði saklausir menn sakfelldir eða menn sakfelldir fyrir mun meira brot en þeir hafi framið. Af ýmsum ákvæðum kaflans megi álykta að lagt sé kapp á að röng sakfelling verði leiðrétt og að endurskoðuð verði sakfelling, þar sem rökstuddur grunur sé um að kveðinn hafi verið upp rangur dómur í opinberu máli sakborningi í óhag.

 

Talsmaður dómfellda bendir á að skilyrði 184. gr. laga nr. 19/1991 fyrir endurupptöku séu tvíþætt. Annars vegar að komin séu fram ný gögn, sem ætla megi að hefðu skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu ef þau hefðu legið fyrir áður en dómur gekk. Hins vegar að ætla megi að málalok hafi verið fengin fram með refsiverðri hegðun, sem hafi valdið rangri niðurstöðu. Nægilegt sé að öðru þessara skilyrða sé fullnægt. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins sé það ekki skilyrði fyrir endurupptöku að dómfelldi sýni fram á að ný gögn, sem komin séu fram, myndu með vissu hafa leitt til annarrar niðurstöðu, heldur nægi að þau séu til þess fallin og að vefengja megi upphaflegu niðurstöðuna á grundvelli þeirra. Líkindi þurfi að vera fyrir því að dómi verði breytt, en ekki meiri með því en á móti. Þetta sjáist með samanburði við 189. gr. laganna, þar sem Hæstarétti sé heimilað að vísa beiðni um endurupptöku frá eftir að mál hefur verið flutt að nýju ef hann telur rök ekki hníga til breytingar á dómi. Skilyrði fyrir endurupptöku séu þannig önnur og vægari en fyrir því að dómi verði breytt.

 

Talsmaður dómfellda heldur því fram að orðalag a. liðar 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 um ný gögn verði ekki skilið svo að aðeins sé þar átt við sönnunargögn, heldur leiði af fyrrgreindum tilgangi ákvæðisins að undir þetta orðalag eigi allar upplýsingar og aðstæður, sem gefi tilefni til að draga í efa réttmæti upphaflega dómsins. Samkvæmt því eigi þessi orð í fyrsta lagi við öll ný sönnunargögn. Í öðru lagi nýja túlkun á sönnunargögnum, sem áður komu fram. Í þriðja lagi nýjar upplýsingar um ríkjandi aðstæður þegar játning dómfellda var fengin. Í fjórða lagi nýjar upplýsingar um ólögmæti rannsóknaraðferða. Í fimmta lagi nýja túlkun efnisréttar og réttarfarsreglna. Í sjötta lagi ný lagarök og loks í sjöunda lagi ný rök, sem hefðu skipt máli ef þau hefðu verið borin fram. Skipti engu hvort dómfellda hafi verið kleift að koma atriðum sem þessum að við upphaflegu meðferð málsins. Þá er einnig vísað til þess að einu megi gilda hvort ný gögn í þessum skilningi snúi að sekt eða sakleysi dómfellda eða réttarfarslegum mistökum, enda verði að þessu leyti að skýra 184. gr. laga nr. 19/1991 með hliðsjón af skýringu 3. gr. samningsviðauka nr. 7 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

 

Talsmaður dómfellda telur að við skýringu heimilda til endurupptöku verði vegna tilgangs þeirra að hafa í huga sjónarmið, sem svipar til þeirra sem búa að baki heimild ákæruvaldsins til að höfða opinbert mál í tilvikum, þar sem málshöfðun þykir nauðsynleg til að halda samfélagsfriði, þótt ólíklegt sé að ákæra leiði til sakfellingar. Lík sjónarmið geti ráðið úrslitum um endurupptöku ef samfélagið fæst ekki til að trúa réttmæti dóms og hlutlægar ástæður liggja til þess. Dómurinn í máli dómfellda lifi enn í samfélaginu vegna þess að í almenningsáliti sé niðurstaðan talin ósannfærandi og stjórnvöld talin hafa beitt aðferðum, sem séu ósamboðin hugmyndum um réttarríki.

 

Af hálfu ákæruvalds er lýst þeirri skoðun að fyrrgreind skýring talsmanns dómfellda á skilyrðum 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 fyrir endurupptöku máls feli í sér að allar upplýsingar eða aðstæður, sem séu fallnar til þess að draga í efa réttmæti upphaflegs dóms, geti leitt til endurupptöku. Þessa skýringu telur ríkissaksóknari allt of rúma, því að með henni yrði ávallt unnt að fá mál tekið upp ef dómfelldur maður unir ekki við niðurstöðu þess. Er því haldið fram þvert á móti að mjög þröngar skorður séu settar fyrir endurupptöku með þeim áskilnaði í 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 að það þurfi að vera komin fram ný gögn, sem ætla má að hefðu skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu máls. Nægi því ekki það eitt að borin séu fram ný gögn, heldur verði þau að vera þess háttar að telja megi að þau hefðu haft verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Ríkissaksóknari mótmælir sérstaklega röksemdum talsmanns dómfellda, sem lúta að því að við umfjöllun um endurupptöku eigi að taka tillit til sjónarmiða af svipuðum meiði og komi til skoðunar þegar ákæruvaldið telur þörf á að höfða refsimál sem ólíklegt sé að leiði til sakfellingar. Bendir ríkissaksóknari á að engin lagastoð sé fyrir þeirri hugmynd talsmanns dómfellda að almenningsálit geti hér einhverju skipt, auk þess að algerlega sé ókannað í hvaða átt slíkt álit kunni að ganga.

 

2.2. Talsmaður dómfellda vísar til þess að við mat á skilyrðum fyrir endurupptöku verði að taka mið af núgildandi löggjöf, þar á meðal um réttindi sakbornings og mat á sönnunargögnum. Einnig verði að meta upphaflegu meðferð málsins í ljósi alþjóðasamninga, sem íslenska ríkið er aðili að, þar á meðal mannréttindasáttmála Evrópu, sem hafi verið réttarheimild hér á landi þegar málið var rannsakað og dæmt. Allar sömu grundvallarreglur og komi fram í mannréttindasáttmálanum, svo og nýjum ákvæðum stjórnarskrárinnar og lögum nr. 19/1991, hafi verið hluti af íslenskum rétti á þeim tíma. Talsmaður dómfellda telur að þegar ákvæði laga nr. 74/1974 um meðferð opinberra mála, sem giltu þegar rannsókn málsins stóð yfir og meðferð þess fyrir dómi, eru skýrð nú verði að taka meðal annars mið af alþjóðasamningum um mannréttindi, sem íslenska ríkið hafi gengist undir. Því til stuðnings vísar talsmaðurinn til þess að í dómi Hæstaréttar í dómasafni 1992, bls. 174, hafi 2. mgr. 19. gr. laga nr. 74/1974 verið skýrð með hliðsjón af e. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu með þeim afleiðingum að felldur hafi verið á ríkissjóð kostnaður af störfum dómtúlks fyrir erlendan mann, sem ákærður hafi verið í málinu, þótt það hafi stangast á við ótvírætt orðalag fyrrnefnda ákvæðisins. Þá vísar talsmaðurinn einnig til dóma Hæstaréttar frá árinu 1990, meðal annars í dómasafni 1990, bls. 2, þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu, án þess að breyting hafi verið gerð á lögum, að almennt væri ekki fyrir hendi næg trygging fyrir óhlutdrægni í dómstörfum manns, sem færi í senn með dómsvald og lögreglustjórn. Þetta hafi meðal annars verið gert með skírskotun til mannréttindasáttmála Evrópu. Talsmaðurinn telur þessu til samræmis að við mat á skilyrðum endurupptöku verði að leggja til grundvallar réttarreglur, eins og þær hafi síðar verið skýrðar. Beri einnig að leggja til grundvallar síðar til komnar réttarfarsreglur og réttaröryggisreglur, hvort sem þær séu í settum lögum landsréttar eða þjóðréttarreglum. Jafnframt byggir talsmaðurinn á því að við skýringu landsréttar verði ákvæði alþjóðlegra mannréttindasamninga að hafa forgang ef þau veita ríkari vernd en reglur landsréttar. Þá verði við skýringu á reglum landsréttar að taka tillit til óskuldbindandi reglna alþjóðastofnana, sem Ísland eigi aðild að, þar á meðal Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins.

 

Af hálfu ákæruvalds eru meðal annars gerðar þær athugasemdir við framangreint að hafi mannréttindasáttmáli Evrópu verið íslensk réttarheimild á þeim tíma, sem hér skipti máli, hafi þegar verið tekin afstaða til ákæruefna á þeirri forsendu. Ríkissaksóknari kveðst þó reyndar telja að mannréttindasáttmálinn hafi ekki haft lagagildi hér á landi á umræddum tíma, því að lög þess efnis höfðu þá ekki verið sett. Telur ríkissaksóknari að sjónarmið í dómi Hæstaréttar frá árinu 1990, sem talsmaður dómfellda vísar til, eigi ekki við um þetta mál, en í dóminum sé rækilega rakið hvers vegna og hvenær skapast hafi þau lagaskilyrði, sem þar ollu ómerkingu héraðsdóms. Ef þau lagaskilyrði hefðu verið fyrir hendi þegar þetta mál var til úrlausnar, þá hefði Hæstiréttur vitaskuld gripið þar til ómerkingar héraðsdóms án kröfu. Þá telur ríkissaksóknari ekki unnt að skýra ákvæði laga nr. 74/1974 með hliðsjón af því réttarástandi, sem ríki nú hér á landi og annars staðar, þar sem mannréttindasáttmáli Evrópu hefur verið lögfestur. Í sambandi við þetta er í greinargerð ákæruvaldsins fjallað nánar um þróun íslenskra reglna um meðferð opinberra mála og er þar á meðal lýst þeirri skoðun að langur vegur hafi verið frá því að lög nr. 74/1974 hafi falið í sér svokallað ákæruréttarfar. Telur ríkissaksóknari að talsmaður dómfellda geri ekki í umfjöllun sinni um lagaatriði sýnilegan greinarmun á rannsóknarháttum eftir þeim reglum, sem hafi gilt þegar þetta mál hafi verið rannsakað, og þeim lögum sem nú gildi. Sé sérstök ástæða til að benda á þá gríðarmiklu breytingu, sem hafi orðið á rannsóknarháttum frá umræddum tíma og fram á þennan dag.