IV.5.

 

Talsmaður dómfellda telur að gögn málsins beri með sér að ákæruvaldið og aðrir rannsóknarmenn hafi álitið að menn tengdir veitingahúsinu Klúbbnum bæru ábyrgð á hvarfi Geirfinns Einarssonar löngu áður en grunur féll á dómfellda. Ef hann og aðrir sakborningar hafi nefnt við rannsókn málsins menn, sem tengdust Klúbbnum, hafi sú skýring verið komin frá rannsóknarmönnum og fjölmiðlum, enda liggi meðal annars fyrir að Magnús Leópoldsson hafi verið kvaddur til skýrslugjafar hjá lögreglunni í Keflavík skömmu eftir hvarf Geirfinns. Það sé beinlínis rangt að dómfelldi eða aðrir sakborningar hafi átt upphafið að því að fella grun á svokallaða Klúbbmenn. Talsmaðurinn vísar til þess að dómfelldi hafi borið í skýrslu fyrir dómi 22. júní 1977 að nafngreindur lögreglumaður hafi fyrstur manna sagt sér að lögreglan hefði upplýsingar um að dómfelldi hafi farið með Einari Bollasyni til Keflavíkur 19. nóvember 1974. Lögreglan hafi einnig nefnt aðra menn við sig, svo sem Magnús Leópoldsson, Valdimar Olsen og Jón Ragnarsson. Kristján Viðar Viðarsson hafi í skýrslu fyrir dómi 13. maí 1977 lýst því hvernig lögreglumenn hafi sagt sér frá nöfnum og atburðum og leitt hann áfram, til dæmis þegar hann hafi átt að benda á mynd af Einari, sem hann hafi ekki þekkt. Talsmaðurinn leiðir getum að því að lögreglan hafi notað Erlu til að mynda tengsl á milli sakborninganna og svokallaðra Klúbbmanna gegnum Einar Bollason, en lögreglunni hafi yfirsést að Einar hvorki þekkti þessa menn né tengdist þeim. Þá telur talsmaðurinn að minna verði á að Hallvarður Einvarðsson, þáverandi aðalfulltrúi ríkissaksóknara, hafi á árinu 1972 staðið í deilum við dómsmálaráðuneytið þegar það hafi fellt úr gildi ákvörðun lögreglustjóra, sem Hallvarður hafi átt frumkvæði að, um að loka veitingahúsinu Klúbbnum. Til þessara átaka megi rekja sífelldan grun rannsóknarmanna gagnvart svonefndum Klúbbmönnum á þessum árum og tilhneigingu þeirra fyrrnefndu til að tengja grunsamlega atburði við veitingahúsið. Verði því rannsóknarmenn algerlega sakaðir um að hafa blandað fjórum saklausum mönnum inn í þetta mál.

 

Af hálfu ákæruvalds er framangreindum röksemdum talsmanns dómfellda mótmælt sem tilhæfulausum. Liggi engin gögn fyrir til stuðnings getsökum um að rannsóknarmenn hafi beitt ólögmætum og refsiverðum aðferðum í störfum til að knýja dómfellda eða aðra sakborninga til að bendla aðra tiltekna menn við hvarf Geirfinns Einarssonar. Ríkissaksóknari vísar einnig til þess að jafnvel eftir að sakborningar hafi horfið frá framburði um aðild sína að hvarfi Geirfinns og hvarfi Guðmundar Einarssonar hafi þeir ekki dregið til baka játningar sínar um rangar sakargiftir. Af hálfu ákæruvalds er að öðru leyti bent á að þau atriði, sem talsmaður dómfellda vísi samkvæmt framangreindu til framburðar dómfellda og Kristjáns Viðars Viðarssonar um, hafi legið fyrir við flutning og úrlausn málsins og komi þau því ekki til skoðunar til stuðnings beiðni um endurupptöku þess.