IV.6.

 

6.1. Talsmaðurinn vísar til þess að skýrslur dómfellda fyrir lögreglunni, sem liggja fyrir í gögnum málsins, hafi af hennar hendi ýmist verið taldar formlegar eða óformlegar. Slík flokkun, sem hafi verið háð geðþótta lögreglumanna, hafi ekki getað réttlætt að sniðgengnar yrðu lagareglur um yfirheyrslu sakbornings, heldur hafi borið að gæta réttinda hans við allar yfirheyrslur, þar á meðal þær, sem hafi farið fram í ökuferðum og leitarferðum, eins og iðulega hafi gerst eftir gögnum málsins. Að auki liggi nú fyrir ný gögn, sem sýni að fram hafi farið víðtækar yfirheyrslur yfir dómfellda og öðrum án þess að skýrslur eða bókanir finnist um þær, en þessu hafi verið leynt fyrir bæði verjanda dómfellda og Hæstarétti. Í því sambandi er bent á að í dagbókum Síðumúlafangelsis komi margsinnis fram að dómfelldi og aðrir hafi verið í yfirheyrslum á ákveðnum tímum, en engar skýrslur liggi fyrir um þær. Telur talsmaðurinn þetta hafa verið andstætt 7. mgr. 40. gr. laga nr. 74/1974. Þá megi ráða af sumum fyrirliggjandi lögregluskýrslum að dómfelldi hafi sætt löngum yfirheyrslum, en skýrslur um þær séu þó litlar að umfangi. Eins megi finna dæmi um að í bókun frá þinghaldi, þar sem dómfelldi kom fyrir dóm, hafi verið vitnað til ófullgerðrar lögregluskýrslu, en slík skýrsla hafi ekki verið þingmerkt og viti enginn hvað í henni stóð. Af fangelsisdagbókunum megi álykta að dómfelldi hafi í ýmsum tilvikum verið yfirheyrður í lengri tíma í senn en heimilt var að lögum og sjáist það að auki í nokkrum tilvikum af lögregluskýrslum, en í fáein skipti hafi verið tekið fram í skýrslu að þetta væri gert með samþykki hans. Við tugi yfirheyrslna hafi dómfellda ekki verið gerð grein fyrir réttarstöðu sinni. Mörg nánar tilgreind dæmi séu um að lögreglan hafi yfirheyrt dómfellda eða hann hafi verið leiddur fyrir dóm án þess að réttargæslumaður hans hafi verið viðstaddur, en undan því hafi réttargæslumaðurinn kvartað bréflega. Í nokkrum tilvikum sé því borið við í lögregluskýrslum að réttargæslumaðurinn hafi að einhverju leyti eða öllu verið til staðar án þess að það sé þó staðfest. Telur talsmaðurinn einnig ljóst að í tilteknu tilviki hafi verið leynt fyrir réttargæslumanni dómfellda að hann væri til yfirheyrslu. Þá hafi hann ekki átt kost á að hitta réttargæslumann sinn öðruvísi en í viðurvist lögreglumanns. Hann hafi verið beittur þrýstingi í fjarveru réttargæslumannsins til að gefa skýrslur með öðru efni en hann óskaði eftir og honum síðan meinað að draga þær til baka. Fyrir liggi af fyrrnefndu vottorði Arnar Höskuldssonar 22. ágúst 1977 að í þinghaldi 11. janúar 1976, þar sem réttargæslumaður hafi ekki verið viðstaddur, hafi dómfelldi dregið til baka framburð sinn varðandi hvarf Guðmundar Einarssonar, en um það hafi ekkert verið bókað. Honum hafi þó tekist að koma því á framfæri við geðrannsókn að hann hafi staðfastlega neitað að eiga aðild að þeim brotum, sem hann hafi verið grunaður um. Auk þess bendir talsmaðurinn á að í yfirlýsingu frá séra Jóni Bjarman 20. nóvember 1996, sbr. kafla III.7. hér að framan, komi fram nýjar upplýsingar um að dómfelldi hafi sagt séra Jóni, sem gegndi á þessum tíma starfi fangelsisprests, að hann hafi verið þvingaður til að undirrita játningar, en alltaf afturkallað þær á næstu dögum. Þessar upplýsingar séu mikilsverðar í ljósi þess að þær komi frá manni, sem líklega hafi verið einn um að fá að ræða einslega við dómfellda á meðan lögreglurannsókn stóð yfir. Þá megi færa fyrir því rök að í tilvikum, þar sem réttargæslumaður hafi ekki verið staddur við skýrslugjöf, hafi lögreglumenn flutt sögur á milli sakborninga, en dæmi eru tekin þessu til stuðnings í greinargerð dómfellda. Telur talsmaðurinn rannsóknarmenn hafa borið sig að með þessum hætti eftir að hafa búið til tilgátu um atburði, sem þeir hafi flutt sögu um á milli sakborninganna í einangrun. Talsmaðurinn telur augljóst að með umfjöllun í lokakafla dóms Hæstaréttar um sum framangreind atriði, sem hann álítur hafa verið lögbrot við rannsókn málsins, sé verið að draga ranglega úr þeim réttarbrotum, sem dómfelldi og aðrir sakborningar hafi sætt.

 

Talsmaður dómfellda staðhæfir að í mörgum atriðum hafi eins staðið á þegar aðrir hafi verið yfirheyrðir. Þannig hafi Kristján Viðar Viðarsson, Tryggvi Rúnar Leifsson og Guðjón Skarphéðinsson ítrekað verið yfirheyrðir af lögreglu og fyrir dómi án réttargæslumanna. Kristján hafi greint frá því á dómþingi 13. maí 1977 að honum hafi verið meinað að fá að hafa réttargæslumann sinn viðstaddan þinghöld á fyrri stigum málsins, en tiltekið efni í lögregluskýrslum hafi aðallega verið komið frá lögreglumönnum. Hafi lögreglumenn, dómarafulltrúi og fangaverðir sagt honum frá nöfnum og atburðum og leitt hann áfram við skýrslugjöf. Í sumum tilvikum hafi framburður annarra sakborninga beinlínis verið lesinn upp og honum sagt að sá framburður væri réttur þar til hann hafi fallist á það. Honum hafi og verið neitað um að draga til baka rangar skýrslur. Tryggva hafi á tímabili undir meðferð málsins fyrir sakadómi verið meinað að ræða við verjanda sinn samkvæmt ákvörðun dómsforseta í héraði. Í kjölfarið hafi verjandinn krafist þess að dómsforsetinn viki sæti í málinu, en því hafi verið hafnað í sakadómi og sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar í dómasafni 1977, bls. 885. Talsmaðurinn telur að í þeim dómi Hæstaréttar hafi verið byggt á því að dómstólar hafi ekki þurft að rökstyðja takmarkanir á rétti ákærðs gæsluvarðhaldsfanga í þessum efnum, heldur hafi fanganum borið að sýna fram á að takmarkanirnar ættu ekki rétt á sér. Virðist honum sem hér hafi verið um að ræða misskilning Hæstaréttar á grundvallarreglum sakamálaréttarfars. Guðjón hafi lýst því á dómþingi 29. júní 1977 hvernig skýrslur hans hafi orðið til í samvinnu hans og lögreglumanna. Í greinargerð dómfellda eru tíunduð dæmi um þetta úr framburði Guðjóns, en talsmaðurinn telur að ráða megi af framburðinum að mikilvægt hafi verið að lögreglan yrði sátt við niðurstöðuna. Á framburði Alberts Klahn Skaftasonar, sem ýmist hafi verið yfirheyrður sem vitni eða sakborningur, hafi orðið breytingar í tilteknum atriðum á milli lögregluskýrslna snemma við rannsókn málsins. Hafi þeirra breytinga gætt í framburði annarra, en aðeins lögreglumenn eða aðrir yfirheyrendur gætu hafa flutt upplýsingar á milli þeirra, sem þá sættu einangrun. Þá hafi vitnið Páll Konráð Konráðsson borið á dómþingi 1. júlí 1977 að lögreglumenn hafi sett inn í skýrslu hans atriði, sem hann hafi alls ekki sagt. Einnig hafi Sigurður Óttar Hreinsson borið fyrir dómi 13. október 1977, þá er hann breytti fyrri vitnisburði sínum, að frásögn hans á fyrri stigum hafi spunnist við yfirheyrslur hjá lögreglunni, þar sem hann hafi meðal annars verið látinn geta í eyður. Hann hafi gefið fyrri skýrslur sínar af ótta við lögregluna, enda hafi honum verið hótað gæsluvarðhaldi. Talsmaðurinn vísar jafnframt til þess að við skýrslugjöf hjá lögreglunni fyrir framangreinda breytingu hafi Sigurður ýmist verið talinn vitni eða sakborningur, en í síðarnefndu tilvikunum hafi honum hvorki verið gerð grein fyrir broti, sem hann væri grunaður um, né gefist kostur á réttargæslumanni. Lögregluskýrslur hafi jafnframt verið teknar af Sigurði án þess að vottar væru að yfirheyrslu.

 

Varðandi skýrslur Erlu Bolladóttur í tengslum við rannsókn á hvarfi Guðmundar Einarssonar bendir talsmaður dómfellda á að ráðið verði af dagbók Síðumúlafangelsis að hún hafi verið yfirheyrð af lögreglunni og dómarafulltrúa dagana 17. til 19. desember 1975, þótt hvorki hafi verið gerðar lögregluskýrslur um það né bókanir í þingbók, auk þess að yfirheyrslur hafi staðið lengur í senn en lög leyfðu. Erla hafi gefið skýrslu hjá lögreglunni sem vitni 20. sama mánaðar og verið svo leidd fyrir dóm, þar sem lögregluskýrsla hafi verið lögð fram. Fyrir dómi hafi engin sjálfstæð skýrsla verið tekin af henni, heldur sagt að framburður hennar væri í samræmi við lögregluskýrsluna, og hafi hún svo unnið eið að framburðinum. Engin lögregluskýrsla verði fundin með þeirri þingmerkingu, sem greint sé frá í bókun frá þessu þinghaldi, og sé því óvíst hver skýrslan hafi verið. Framburður Erlu fyrir dómi þetta sinn hafi því ekkert gildi sem sönnunargagn. Að auki hafi meðferð Erlu á því tímaskeiði, sem hún sætti gæsluvarðhaldi í desember 1975, verið andstæð ákvæðum 64. gr. og 4. töluliðar 69. gr. laga nr. 74/1974, því að hún hafi þá haft barn á brjósti. Ekki hafi verið tekið tillit til þessara aðstæðna hennar við mat á sönnunargildi framburðar hennar.

 

Í sambandi við skýrslur, sem Erla gaf við rannsókn á hvarfi Geirfinns Einarssonar, vísar talsmaður dómfellda til þess, sem hún hafi nú greint frá um aðdraganda að fyrstu skýrslum sínum í yfirlýsingu 19. nóvember 1996, sbr. kafla III.4. hér að framan. Hún hafi verið yfirheyrð af lögreglunni fimm sinnum á tímabilinu frá janúar til mars 1976, ýmist sem vitni eða án þess að réttarstöðu hennar væri getið. Aðeins einu sinni hafi verið brýnd fyrir henni vitnaskylda og aldrei hafi réttargæslumaður verið viðstaddur. Auðveldlega megi sanna að á þessu tímabili hafi lögreglumenn borið sögur á milli Erlu og sakborninga og er greint frá dæmi, sem talsmaðurinn telur mega taka af slíku, í greinargerð dómfellda. Erla hafi síðan verið yfirheyrð sem vitni fyrir dómi 30. mars og 7. apríl 1976, en því næst hafi hún verið yfirheyrð af lögreglunni 4. maí sama árs og hafi þá verið gætt ákvæða 1. mgr. 40. gr. laga nr. 74/1974. Skýrsla frá þeirri yfirheyrslu sé löng og ítarleg, en í skýrslunni komi þó fram að yfirheyrslan hafi aðeins staðið yfir í tæpar tvær klukkustundir. Veruleg breyting hafi þá orðið á frásögn um þátt hennar í dauða Geirfinns. Af fangelsisdagbók verði séð að þessi skýrslugjöf hafi átt sér aðdraganda, sem ekkert verði ráðið um af áður framlögðum málsgögnum. Samkvæmt dagbókinni hafi lögreglumaður, dómarafulltrúi og vararíkissaksóknari yfirheyrt Erlu langan tíma kvöldið áður og liggi engin skýrsla fyrir um þá yfirheyrslu. Þrátt fyrir þennan aðdraganda að skýrslugjöfinni 4. maí 1976 hafi Erlu ekki verið gefinn kostur á réttargæslumanni, þótt yfirheyrendur hafi að auki virst vita að hún mundi þá bera að hún hafi sjálf átt sök á dauða Geirfinns. Síðar sama dag hafi Erla komið fyrir dóm sem sakborningur, en þar hafi ekkert sjálfstætt verið bókað eftir henni, heldur hafi hún staðfest fyrrnefnda lögregluskýrslu. Í þinghaldinu hafi ekki verið mætt af hálfu ákæruvalds, enginn réttargæslumaður hafi verið viðstaddur og enginn vottur. Erlu hafi þar verið gert að sæta gæsluvarðhaldi og fyrst eftir það átt kost á að tilnefna réttargæslumann. Í greinargerð dómfellda er vikið að mörgum tilvikum á tímabilinu frá 28. maí 1976 til 31. janúar 1977, þar sem Erla hafi verið yfirheyrð af lögreglunni eða fyrir dómi án þess að réttargæslumaður væri viðstaddur eða henni gerð grein fyrir réttarstöðu sinni. Á þessu tímaskeiði hafi Erla meðal annars kvartað við lögregluna um skerðingu á réttindum sínum. Dæmi sé um að þinghald hafi verið háð í fangaklefa hennar. Frá þessu tímabili séu til minnisblöð lögreglumanna, sem sýni meðal annars að Erla hafi við tiltekin tækifæri lýst yfir að hún afturkallaði allan framburð sinn í þessum þætti málsins. Auk þess megi ráða af minnisblöðunum og öðrum gögnum að lögreglumenn og dómarafulltrúi hafi fengið skriflegar orðsendingar frá Erlu, sem liggi aðeins að litlu leyti fyrir nú. Telur talsmaðurinn þetta sýna að sum mikilvæg atriði komi ekki fram í gögnum málsins og að auki að öll gögn hafi ekki verið lögð fram í málinu og kynnt verjendum. Slík gögn hafi hins vegar legið fyrir í sakadómi Reykjavíkur og verði að ætla að héraðsdómarar í málinu hafi þannig haft aðgang að þeim, auk ákæruvaldsins. Talsmaðurinn telur framangreind atriði sýna hvernig réttaröryggisreglur laga nr. 74/1974 hafi verið brotnar gagnvart Erlu og sé ekki ástæða til að ætla að öðruvísi hafi verið staðið að málum gagnvart öðrum sakborningum. Ólögmætum aðferðum hafi verið beitt til að afla framburðar Erlu, sem hafi átt að vera aðal sönnunargagnið til að sakfella aðra ákærðu í þessum þætti málsins, en fyrir vikið sé sönnunargildi framburðarins um sekt annarra takmarkað.

 

Af hálfu ákæruvalds er lýst þeirri skoðun að fangelsisdagbækur séu ekki eiginlegt sönnunargagn um hvað hafi farið fram í yfirheyrslum. Um form og efni færslna í slíkar bækur séu engar settar lagareglur og gildi því almennar reglur um mat á sönnunargildi þeirra, þótt ætla verði að annað sé ekki fært í þær en það, sem hafi í raun gerst í viðkomandi fangelsi. Fangaverðir séu ekki rannsóknarmenn og megi því ekki skýra færslur þeirra í dagbók fangelsis um framgang rannsóknar á sama hátt og ef um væri að ræða skýrslur rannsóknarmanna. Af þessum sökum sé því haldið fram að talsmaður dómfellda hafi gert allt of mikið úr einstökum færslum í fangelsisdagbók, en ekki verði fallist á að þær hefðu skipt neinu um úrslit málsins þótt þær hefðu legið frammi frá upphafi. Ríkissaksóknari heldur því einnig fram að það hljóti alltaf að vera matsatriði hvort formleg skýrsla verði gerð um hvað eina, sem gerist í tilvikum þar sem engin niðurstaða eða árangur verði af viðtali lögreglumanns við sakborning. Lögð sé áhersla á að aðrar kröfur hafi verið gerðar til skýrslugerðar lögreglumanna eftir lögum nr. 74/1974 heldur en í núgildandi lögum. Varðandi sérstaka umfjöllun talsmanns dómfellda um skýrslur Erlu Bolladóttur í sambandi við rannsókn á hvarfi Geirfinns Einarssonar, sem greint er frá hér að framan, er af hálfu ákæruvalds bent á að Erla hafi við afturköllun framburðar síns í þeim þætti málsins 11. janúar 1980 borið fram efnislega sömu ástæður og hún greini frá í nýrri yfirlýsingu 19. nóvember 1996. Hæstiréttur hafi því þegar tekið afstöðu til afturköllunar Erlu á framburði sínum og hafi ný yfirlýsing hennar því enga þýðingu. Þá telur ríkissaksóknari talsmann dómfellda reisa umrædda umfjöllun sína á getgátum, sem séu ekki studdar viðhlítandi gögnum, auk þess að þar sé ekki rétt með farið í tilteknum atriðum, sem nánar greinir í umsögn af hálfu ákæruvaldsins. Öll þau atriði, sem hér um ræði, hafi að auki legið skýrlega fyrir þegar málið hafi verið flutt og dæmt. Er af hálfu ákæruvalds talið að það sama gildi almennt um aðrar framangreindar aðfinnslur talsmanns dómfellda varðandi rannsókn málsins, hvort sem þær varða aðgerðir gagnvart dómfellda sjálfum, aðra sakborninga eða vitni.

 

6.2. Talsmaðurinn finnur að því að sami réttargæslumaður hafi verið látinn gæta hagsmuna dómfellda og Erlu Bolladóttur meðal annars á tímabili, þegar hún bar á hann sakir í málinu. Telur talsmaðurinn þetta hafa verið andstætt 2. mgr. 81. gr. laga nr. 74/1974, svo og brot á rétti dómfellda til réttargæslu samkvæmt 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

 

Af hálfu ákæruvalds er vakin athygli á því að bókanir og gögn um framangreint atriði hafi legið mjög skýrlega fyrir á þeim tíma, sem málið hafi verið flutt og dæmt, og sé því ekki bent hér á neitt nýtt. Að auki hafi verið heimilt eftir 2. mgr. 81. gr. laga nr. 74/1974 að skipa tveimur eða fleiri sakborningum sama réttargæslumann eða verjanda ef telja mætti að hagsmunir sakborninganna rækjust ekki á.

 

6.3. Talsmaðurinn bendir á að dómfellda hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi frá 12. desember 1975 vegna gruns um fjársvik. Hann hafi ekki verið yfirheyrður vegna þess sakarefnis fyrr en 11. janúar 1976, þegar komið hafi verið að lokum upphaflegs gæsluvarðhaldstíma. Sá tími hafi hins vegar verið notaður til að yfirheyra hann vegna gruns um að hann ætti sök á mannshvarfi. Eftir ákvæðum laga nr. 74/1974 hafi borið að greina honum frá kæruefni svo fljótt eftir handtöku, sem því yrði komið við. Brotið hafi verið gegn þeirri reglu. Dómur verði ekki byggður á gögnum, sem hefur verið aflað með þeim hætti. Að auki hafi þess ekki verið gætt að gera honum grein fyrir grun, sem beindist að honum varðandi hvarf Guðmundar Einarssonar, þegar lögreglan yfirheyrði hann af því tilefni 22. desember 1975. Þá hafi slík greinargerð einnig verið ófullkomin þegar lögreglan yfirheyrði hann 22. janúar 1976 í fyrsta sinn vegna hvarfs Geirfinns Einarssonar. Með þessu hafi verið brotið gegn 40. gr. laga nr. 74/1974, svo og tilgreindum ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu og alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, en þetta hafi jafnframt verið gert við fjölmörg önnur tækifæri.

 

Af hálfu ákæruvalds er vísað til þess að öll sönnunargögn um framangreint hafi legið fyrir þegar málið hafi verið flutt og dæmt. Af efni skýrslna, sem lögreglan hafi tekið af dómfellda 22. desember 1975 og 4. og 6. janúar 1976, sé jafnframt ljóst að verið var að yfirheyra hann sem grunaðan um aðild að hvarfi Guðmundar Einarssonar. Sú staðreynd, að dómfellda hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi af öðru tilefni, hafi ekki bannað að hann yrði yfirheyrður um önnur atriði.

 

6.4. Talsmaður dómfellda vísar til bókunar í dagbók Síðumúlafangelsis 11. nóvember 1976, þar sem fram komi að Karl Schütz hafi eindregið óskað eftir að fangaverðir ræði ekki við dómfellda um málið, að yfirfangaverði undanteknum. Ástæðan fyrir þessari bókun hafi verið sú að fangaverðir hafi tekið mikinn þátt í rannsókn málsins með því að sitja inni í klefum til að yfirheyra sakborninga eða fá þá til að segja eða skrifa eitthvað, sem yrði til stuðnings tilgátum að baki rannsókninni. Allir ákærðu hafi borið um slíkt athæfi fangavarða og sumir fangaverðir að auki, þótt forstöðumaður Síðumúlafangelsis hafi ranglega neitað þessu í skýrslu fyrir lögreglu og dómi. Bendir talsmaðurinn meðal annars á að Guðjón Lúther fangavörður hafi borið við lögreglurannsókn vegna kæru dómfellda um harðræði í fangelsinu að sumir fangaverðir hafi á tímabili tekið að sér að ræða við sakborningana, einkum til að leita upplýsinga um hvað orðið hafi um lík Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar, en slíkar viðræður hafi alltaf átt sér stað í fangaklefum. Þá hafi Guðrún Jóna Sigurjónsdóttir fangavörður borið við sömu lögreglurannsókn að fangaverðir hafi yfirheyrt sakborninga í málinu, einkum dómfellda. Þetta hafi verið gert að minnsta kosti með vitund nafngreindra lögreglumanna og dómarafulltrúa, ef ekki að undirlagi þeirra. Enn fremur vísar dómfelldi í þessu sambandi til yfirlýsingar Hlyns Þórs Magnússonar 26. ágúst 1996, sbr. kafla III.6. hér að framan. Talsmaðurinn bendir á að Hæstiréttur hafi talið þetta framferði fangavarða sannað, enda gert athugasemd við það í dómi sínum.

 

Af hálfu ákæruvalds er því haldið fram að framangreind umfjöllun talsmanns dómfellda um ástæðu fyrir bókun í fangelsisdagbók 11. nóvember 1976 sé aðeins tilgáta hans og sé hún ekki byggð á neinum tilteknum gögnum. Að öðru leyti vísar ríkissaksóknari til þess að framburður einstakra manna, sem getið er að framan, hafi legið fyrir við flutning og úrlausn málsins.

 

6.5. Talsmaðurinn vísar til þess að 15. febrúar 1976 hafi dómfelldi verið settur í handjárn og fótajárn í Síðumúlafangelsi. Komi fram í dagbók fangelsisins að ástæðan hafi verið sú að hann hafi reynt að strjúka. Um leið hafi verið bókað að hann fengi ekki eldspýtur eða að reykja og fengi að öðru leyti sem minnsta þjónustu. Ekkert komi þar fram um hver hafi tekið ákvörðun um þetta eða hversu lengi hann hafi verið hafður í járnum þessu sinni, en hann kveður það hafa verið í nokkrar vikur. Þá vísar talsmaðurinn til þess að í dagbók fangelsisins sé þess getið 25. apríl 1976 að allt hafi verið tekið úr klefa dómfellda nema harðfiskur og smávegis annað matarkyns, svo og að ekki yrði talað við hann í náinni framtíð. Hann fengi ekki bækur, spil eða annað til dægrastyttingar "meðan hann lýgur annan úr og annan í við yfirheyrsluaðilana, þar á meðal vara ríkissaksóknara", svo sem segi í dagbókinni. Daginn fyrir þessa bókun hafi hann verið í fótajárnum. Þá hafi hann verið settur í fótajárn 24. maí 1976, en ástæðan hafi verið sú að hann hafi verið grunaður um að reyna að koma bréfum úr fangelsinu með öðrum fanga. Hafi þetta verið árangurslaus tilraun hans til að koma kvörtun á framfæri við dómsmálaráðuneytið. Samkvæmt fangelsisdagbók hafi hann verið losaður úr fótajárnum 4. júní 1976, en hann telji að í raun hafi það ekki verið gert fyrr en nokkrum vikum síðar. Dómfelldi hafi að auki gagngert verið sviptur svefni með ótilhlýðilegum aðgerðum, meðal annars með því að láta ljós loga að næturlagi í klefa hans. Hann hafi sætt harðræði af hendi fangavarðar, sem hafi kaffært hann í vatni, en fangavörðum og rannsóknarmönnum hafi talið sér vera kunnugt um vatnshræðslu dómfellda. Þessi atriði séu meðal annars staðfest með yfirlýsingu Hlyns Þórs Magnússonar fyrrverandi fangavarðar 26. ágúst 1996, sem greint er frá í kafla III.6. hér að framan. Talsmaðurinn telur ljóst að þessar aðgerðir hafi farið fram til að veikja viðnámsþrótt dómfellda og fá hann til að játa á sig sakir. Þetta framferði fangavarða og rannsóknarmanna kunni að mega telja til pyndinga í skilningi laga og gæti því varðað við 131. eða 132. gr. almennra hegningarlaga, en þar með megi bera því við að refsiverðri háttsemi hafi verið beitt til að koma fram játningu, sem eitt út af fyrir sig nægi til endurupptöku málsins. Dómfelldi hafi sífellt reynt að koma á framfæri kvörtunum vegna illrar meðferðar af hendi fangavarða og lögreglumanna, en án árangurs. Sem dæmi um þetta bendir talsmaðurinn á að í skýrslu um geðrannsókn, sem hann kveður vera frá haustinu 1976, komi fram að í viðtölum við geðlækni hafi dómfelldi staðfastlega neitað að eiga hlut að brotunum, sem borin hafi verið á hann, og hafi honum orðið tíðrætt um framkomu lögreglunnar við sig, þar á meðal að hún hafi þvingað hann til að skrifa undir játningar. Talsmaðurinn bendir jafnframt á að Kristján Viðar Viðarsson hafi sætt harðræði í Síðumúlafangelsi. Vísar hann til þess að Kristján hafi borið fyrir dómi 6. júlí 1977 að nafngreindur lögreglumaður hafi veitt sér hnefahögg í andlitið við skýrslutöku.

 

Talsmaðurinn bendir á að lögreglurannsókn hafi farið fram á árinu 1979 vegna kæru dómfellda 6. mars 1979 um harðræði, sem hann hafi verið beittur í Síðumúlafangelsi. Hann telur að ákvæði 4. mgr. 70. gr. laga nr. 74/1974 hafi falið í sér að rannsaka hafi átt kæruefni sem þetta fyrir dómi. Það hafi þó ekki verið gert, heldur hafi dómsmálaráðherra ákveðið 30. maí 1979 að Þórir Oddsson, þá vararannsóknarlögreglustjóri ríkisins, skyldi annast rannsóknina sem settur rannsóknarlögreglustjóri í stað Hallvarðs Einvarðssonar, sem hafi verið vanhæfur til verksins vegna afskipta sinna af málinu á fyrri stigum sem vararíkissaksóknari. Talsmaðurinn bendir á að Þórir hafi verið undirmaður Hallvarðs þegar hann var settur til að gegna þessu starfi. Þórir hafi að auki áður tekið þátt í rannsókn málsins þegar hann hafi tilheyrt lögreglunni, sem nú hafi verið til rannsóknar. Enn fremur hafi Þórir tekið við fyrirmælum frá ríkissaksóknara um rannsóknina, þótt hún hafi einnig beinst að embætti hans. Með þeim fyrirmælum hafi rannsókninni verið beint að þröngt afmörkuðum atriðum, sem hafi ekki skipt neinu meginmáli, í stað þess að rannsaka meðferð sakborninganna í heild. Þá er í greinargerð dómfellda getið margra atriða, sem talsmaður hans telur að vanrækt hafi verið að rannsaka með öllu eða að hluta. Kveður talsmaðurinn það vera með ólíkindum hvernig staðið hafi verið að rannsókninni, sem hafi engan veginn fullnægt skilyrðum þess að geta talist hlutlæg.

 

Talsmaður dómfellda vísar til þess að áður en framangreind rannsókn hófst hafi séra Jón Bjarman, sem þá gegndi stöðu fangelsisprests, ritað dómsmálaráðherra bréf 30. maí 1978, þar sem hann hafi greint frá upplýsingum um ótilhlýðilega harðýðgi við yfirheyrslu eða prófun út af málinu í Síðumúlafangelsi að kvöldi 4. eða 5. maí 1976. Í bréfinu segi að í fangelsinu hafi verið lagðar hendur á dómfellda og reynt að vekja skelfingu hans, Kristjáns Viðars Viðarssonar og Erlu Bolladóttur, en við þennan atburð hafi verið dómarafulltrúi, vararíkissaksóknari, þrír rannsóknarlögreglumenn og yfirfangavörður. Um svipað leyti hafi Magnús Leópoldsson og Sigurbjörn Eiríksson, sem þá hafi sætt gæsluvarðhaldi, heyrt háreysti, óp og grát í fangelsinu. Séra Jón hafi enn fremur vísað til þess í bréfinu að hann hafi áður ritað ráðuneytinu bréf 24. september 1976, þar sem bent hafi verið á kvartanir gæslufanga út af harðræði og ótta, sem vakinn hafi verið hjá þeim við framkvæmd gæslunnar og rannsóknaraðgerðir, svo og nauðsyn þess að óháður maður rannsakaði hvort gæslufangar hafi verið beittir óhæfilegri harðýðgi. Talsmaðurinn kveður ráðuneytið hafa látið hjá líða að bregðast að lögum við þessu ákalli fangelsisprestsins. Hins vegar hafi Steingrímur Gautur Kristjánsson héraðsdómari haft með hendi dómsrannsókn vegna viðurlaga, sem tveir gæslufangar í Síðumúlafangelsi, ótengdir þessu máli, hafi sætt á svipuðum tíma, en talsmaðurinn kveðst ekki hafa getað aflað hennar. Talsmaðurinn bendir einnig á að 1. september 1981 hafi verið birt blaðagrein eftir séra Jón, þar sem hann hafi meðal annars rakið dæmi um harðræði við sakborninga í þessu máli, ásakanir um annars konar ólögmætt atferli við rannsókn málsins og annmarka, sem hann hafi talið vera á framkvæmd fyrrnefndrar lögreglurannsóknar frá 1979, auk þess að láta í ljós undrun á að ekki hafi fyrr verið brugðist við bréfi sínu 30. maí 1978 til dómsmálaráðherra. Þá vísar talsmaðurinn jafnframt til yfirlýsingar séra Jóns 20. nóvember 1996, sem er að finna í kafla III.7. hér að framan. Talsmaðurinn telur efni hennar renna stoðum undir það að meðferð á dómfellda í Síðumúlafangelsi og rannsóknaraðferðir hafi ekki þolað dagsljós, svo og að dómsmálaráðuneytið hafi þverskallast í lengstu lög við að sinna ábendingum um þörf rannsóknar og þannig orðið meðsekt um háttsemina, sem kvartað hafi verið undan.

 

Talsmaður dómfellda telur að við framangreinda rannsókn hafi farið fram ómarkvissar yfirheyrslur, þar sem fangavörðum og lögreglumönnum hafi verið gefinn kostur á að afneita að þeir hafi gerst brotlegir í opinberu starfi. Rannsókninni hafi ekki verið beint að því að leita sannleikans. Framburður fangavarðarins Kjartans Kjartanssonar hafi þó verið með öðrum hætti en framburður annarra fangavarða. Er í greinargerð dómfellda vísað um þetta til efnisatriða í framburði Kjartans, en í meginatriðum komu þau einnig fram í skýrslu Kjartans, sem lýst er í kafla II.5.A. hér að framan. Af þessum framburði telur talsmaðurinn sýnt að dómfelldi hafi verið beittur ofbeldi í tengslum við yfirheyrslur oftar en fyrrgreint sinn 5. maí 1976. Þá bendir talsmaðurinn einnig á framburð Guðrúnar Óskarsdóttur og Guðrúnar Jónu Sigurjónsdóttur við lögreglurannsóknina, en þær hafi báðar verið við störf í Síðumúlafangelsi þar til 26. janúar 1976. Talsmaðurinn kveður þá fyrrnefndu hafa borið að hún hafi tvívegis heyrt "pústra" þegar dómfelldi hafi verið í yfirheyrslu. Guðrún Jóna hafi borið að forstöðumaður fangelsisins hafi eitt sinn rætt símleiðis við dómarafulltrúann, sem stýrði rannsókninni, og gefið síðan tveimur nafngreindum fangavörðum fyrirmæli um að halda dómfellda og Tryggva Rúnari Leifssyni vakandi næstu nótt. Þessu til samræmis hafi fangaverðirnir farið hvað eftir annað um nóttina í klefa þessara fanga til þess eins að vekja þá. Fangaverðirnir hafi talið Tryggva trú um að hann væri sífellt að kalla upp nafn stúlku og hafi hann fallist á tillögu þeirra um að grisja yrði sett á munninn á sér og límt yrði yfir með heftiplástri. Annar fangavarðanna hafi hlaupið með stól á utanverðan vegg fangaklefa dómfellda til að valda hávaða. Hann hafi tuskað dómfellda til í klefanum og varnað honum að hafa prjónahúfu þar á ljósi, sem hafi verið látið loga. Talsmaðurinn kveður Guðrúnu Jónu einnig hafa borið um aðgerðir, sem hafi beinst að því að niðurlægja dómfellda. Við þessum framburði hennar hafi stjórnandi lögreglurannsóknarinnar brugðist með því að leita atriða, sem gætu veikt framburðinn. Hafi þar á meðal verið leitað í fangelsisdagbók til að sýna að Guðrún Jóna hafi ekki verið á næturvakt á sama tíma og annar fangaverðanna tveggja, sem hún hafi nafngreint. Svo langt hafi verið gengið við að reyna að sýna fram á að Guðrún Jóna færi með rangt mál að hún hafi verið kölluð fyrir á ný og yfirheyrð sem sakborningur. Að öðru leyti bendir talsmaðurinn á framburð Gunnars Marinóssonar fangavarðar, sem hafi viðurkennt að dómfelldi hafi verið settur í fótajárn, en ekki sé þess getið að hann hafi verið svo lengi í járnum sem fangelsisdagbók beri með sér. Gunnar Marinósson hafi að mörgu leyti borið rangt, meðal annars um að fangaverðir hafi ekki yfirheyrt fanga. Talsmaðurinn kveður Gunnar Guðmundsson forstöðumann Síðumúlafangelsis hafa borið ranglega um að hann hafi hvorki hótað dómfellda né yfirheyrt fanga. Framburður Gunnars Guðmundssonar hafi einnig stangast á við upplýsingar úr fangelsisdagbók, sem nú hafi komið fram, um hvort dómfelldi hafi fengið lak, lestrarefni, skriffæri og pappír. Gunnar Guðmundsson hafi viðurkennt í skýrslu sinni að ljós hafi verið látið loga í klefa dómfellda um nætur. Hann hafi einnig viðurkennt að dómfelldi hafi verið hafður í fótajárnum, en hafi ekki verið spurður hversu lengi það hafi varað. Gunnar Guðmundsson hafi sagt frá því að hann hafi ekki borið ábyrgð á því að fótajárnum hafi verið beitt á dómfellda, því að hann hafi verið fjarverandi á tilteknu tímabili. Þetta sé rangt, því að ljóst sé af færslu í fangelsisdagbók, sem Gunnar hafi sjálfur ritað, að fótajárnum hafi einnig verið beitt á öðru tímabili þegar hann hafi verið við störf. Skúli Steinsson fangavörður hafi viðurkennt afskipti af rannsókn málsins með vitneskju Gunnars Guðmundssonar. Jónas Bjarnason lögreglumaður hafi viðurkennt að dómfelldi hafi kvartað undan misþyrmingum í ágúst 1976, en það hafi ekki leitt til aðgerða. Grétar Sæmundsson lögreglumaður hafi jafnframt staðfest að dómfelldi hafi kvartað undan misþyrmingum, en hann hafi ekki gert ráðstafanir til aðgerða. Séra Jón Bjarman hafi gefið skýrslu við þessa rannsókn, þar sem hann hafi greint frá því að í samtölum við dómfellda í mars 1976 hafi komið fram að hann hafi verið beittur harðræði á einn eða annan hátt. Séra Jón hafi jafnframt borið að í samtali sínu við dómfellda hafi komið fram að við yfirheyrslu 5. maí 1976 hafi átt að þvinga dómfellda til að segja að hann hafi verið staddur í Njarðvík nóttina, sem Geirfinnur Einarsson hvarf.

 

Varðandi fyrrnefnt atvik 5. maí 1976 vísar talsmaður dómfellda til þess að Kristján Viðar Viðarsson hafi borið við umrædda lögreglurannsókn að forstöðumaður fangelsisins hafi verið mjög æstur fyrir samprófun, þar sem atvikið hafi gerst, og meðal annars sagt að Kristjáni væri heimilt að hrista dómfellda til við það tækifæri. Í skýrslunni hafi Kristján sagst ekki hafa náð neinu sambandi við dómfellda, sem hafi verið stórsjúkur og ekki í eðlilegu ástandi. Tilteknir rannsóknarmenn hafi beitt dómfellda ofbeldi, vararíkissaksóknari hafi æpt að dómfellda að hann ætti skilið að týnast í amerísku fangelsi og forstöðumaður fangelsisins hafi löðrungað hann mjög fast. Allir hafi talað við dómfellda í einu og enginn komið honum til hjálpar þegar hann hafi verið beittur ofbeldi. Kristján hafi skýrt frá því að hann hafi sagt verjanda sínum frá þessum atburði, en ekki getið hans við aðra fyrr, því að svipaðir atburðir hafi gerst nánast daglega, svo sem þegar nafngreindur fangavörður hafi kaffært dómfellda. Við lögreglurannsóknina hafi dómfelldi sagt að við samprófunina hafi verið lagt að sér að staðfesta að hann hafi verið í Keflavík 19. nóvember 1974 ásamt Kristjáni, Erlu Bolladóttur og svonefndum fjórmenningum, en hann hafi neitað að "ljúga uppá sig eða aðra". Hafi þá tiltekinn lögreglumaður og forstöðumaður fangelsisins veist að sér. Í skýrslu Erlu við lögreglurannsóknina hafi hún staðfest að samprófunin hafi verið í tengslum við rannsókn á hvarfi Geirfinns Einarssonar. Hún hafi greint frá því að vararíkissaksóknari og tiltekinn lögreglumaður hafi beint mörgum spurningum til dómfellda og forstöðumaður fangelsisins hafi blandað sér í málið, en ekki hafi hún orðið vör við að neinn viðstaddra gerði athugasemdir við framkomu lögreglumannsins og forstöðumannsins. Við lögreglurannsóknina hafi einnig gefið skýrslu Guðjón Lúther fangavörður, sem hafi minnst samprófunarinnar vegna fjölmennis og hávaða. Þá hafi Hallvarður Einvarðsson greint frá því í skýrslu, sem hann hafi gefið við lögreglurannsóknina, að dómarafulltrúinn, sem stýrði rannsókn, hafi talið rétt að samprófa við umrætt tækifæri dómfellda og Erlu, en hann hafi ekki minnst þess hvort Kristján hafi einnig verið viðstaddur. Hallvarður hafi talið að rannsóknarmenn hafi ekki beitt harðýðgi, en það hafi forstöðumaður fangelsisins gert, því að dómfelldi hafi verið æstur og órólegur. Hafi Hallvarður talið forstöðumanninn hafa verið staddan þar á vegum dómarafulltrúans. Að öðru leyti hafi Hallvarður greint frá því að hann og dómarafulltrúinn hafi báðir gert yfirmönnum sínum rækilega grein fyrir framvindu rannsóknarinnar á fundum. Talsmaðurinn kveður Njörð Snæhólm lögreglumann hafa staðfest í skýrslu við lögreglurannsóknina að dómfelldi hafi ekki gefið tilefni til aðgerða forstöðumanns fangelsisins. Hvorki Eggert N. Bjarnason né Sigurbjörn Víðir Eggertsson hafi minnst þess við lögreglurannsóknina að forstöðumaður fangelsisins hafi slegið dómfellda, en sá fyrrnefndi hafi sagst hafa ýtt dómfellda ofan í stól við samprófunina. Gunnari Guðmundssyni hafi við skýrslugjöf verið kynntur meðal annars framburður Hallvarðs Einvarðssonar og Njarðar Snæhólm. Hann hafi sagst ekki hafa efni á að rengja skýrslur þeirra, því að honum væri ómögulegt að trúa að þeir færu með rangt mál, en hann harmaði atburðinn. Örn Höskuldsson dómarafulltrúi hafi ekki minnst þess í skýrslu sinni hjá lögreglunni að dómfelldi hafi verið beittur harðræði við samprófunina á meðan Örn hafi verið viðstaddur.

 

Talsmaðurinn vitnar til umfjöllunar í dómi Hæstaréttar um að leitt hafi verið í ljós við lögreglurannsóknina á árinu 1979 að fangavörður hafi lostið dómfellda kinnhest við yfirheyrslu. Í dóminum hafi aðdragandi þessa atburðar verið talinn óljós, en skýrslur þótt benda til að dómfelldi hafi verið æstur og órór við yfirheyrsluna. Þá sé vikið að því í dóminum að kvartað hafi verið undan því að fangaverðir hafi haldið dómfellda vakandi, valdið hávaða og gert slökkvara í klefa hans óvirkan til að spilla svefni. Hæstiréttur hafi þó talið að rannsókn á ásökunum um harðræði fyrir sakadómi áður en héraðsdómur gekk og fyrir lögreglu eftir þann tíma hafi ekki leitt til þess að séð yrði að játninga ákærðu hafi verið aflað með ólögmætum aðferðum. Sérstaklega hafi verið tekið fram í dóminum að dómfelldi hafi verið löðrungaður við samprófun 5. maí 1976, alllöngu eftir að hann hafi játað atferli sitt að Hamarsbraut 11. Í sambandi við þetta síðastnefnda bendir talsmaðurinn á að samkvæmt gögnum málsins hafi dómfelldi aldrei komið fyrir dóm eða lögreglu í maí 1976 til að gefa skýrslu vegna hvarfs Guðmundar Einarssonar og aðeins eitt sinn til að gefa skýrslu vegna hvarfs Geirfinns Einarssonar, en það hafi verið skýrsla hjá lögreglunni 8. maí 1976. Ekkert hafi verið skráð eða bókað um samprófun 5. maí 1976, svo að séð verði af gögnum málsins. Af dagbók Síðumúlafangelsis megi hins vegar ráða að þetta kvöld hafi vararíkissaksóknari, dómarafulltrúi, tveir lögreglumenn og forstöðumaður fangelsisins verið þar staddir vegna samprófunar. Um þessar mundir hafi rannsóknarmenn staðið frammi fyrir því að láta yrði Einar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen lausa úr gæsluvarðhaldi. Þá hafi Erla Bolladóttir borið fyrir lögreglu 4. maí 1976 að hún hafi skotið Geirfinn til bana. Telur talsmaðurinn rannsóknarmenn hafa verið komna úr jafnvægi út af þeim ógöngum, sem rannsóknin hafi verið komin í af þessum sökum, en vanstilling þeirra sjáist af bókunum frá þessum tíma í fangelsisdagbók, sem dæmi eru tekin um í greinargerð dómfellda. Rannsóknarmenn hafi brugðist við þessu með því að einbeita sér að því að þeir, sem eftir hafi staðið grunaðir um að hafa banað Geirfinni, yrðu sakfelldir. Samprófunin frá 5. maí 1976 hafi því ljóslega fjallað um þann þátt málsins, en ekki hvarf Guðmundar, svo sem Hæstiréttur hafi lagt til grundvallar í dómi sínum. Þetta séu nýjar upplýsingar, sem verði til þess að meta þurfi á nýjan leik ofbeldið, sem dómfelldi sætti. Að auki hafi Hæstarétti mátt vera ljóst að hér hafi verið um að ræða samstöðu um að beita ólögmætum aðferðum við yfirheyrslu og sé sérstætt að réttlæta það með því að segja dómfellda hafa verið æstan og órólegan eða að framkoma hans hafi verið vítaverð. Hæstiréttur hafi látið við það sitja að gera athugasemd í dómi sínum um að framferði fangavarðarins í umrætt sinn hafi verið vítavert. Ekkert sé sagt þar um að aðrir hafi horft aðgerðalausir á þetta framferði, en það hafi einnig verið andstætt lögum.

 

Af hálfu ákæruvalds er lýst því áliti að framangreindar athugasemdir talsmannsins um rannsókn á kæru dómfellda um harðræði lúti að öllu leyti að atriðum, sem hafi legið fyrir þegar málið hafi verið flutt og dæmt fyrir Hæstarétti. Að vísu hafi orðið veruleg þróun á réttarreglum í átt til aukins réttaröryggis frá því umræddir atburðir gerðust, en meta verði beiðni dómfellda um endurupptöku út frá þeim réttarreglum, sem hafi gilt þegar dómur var felldur á málið. Ríkissaksóknari bendir einnig á að við lok lögreglurannsóknar vegna kæru dómfellda hafi verjandi hans látið í ljós að hann teldi þá, sem hafi annast rannsóknina, hafa vandað mjög til allra vinnubragða, svo að til fyrirmyndar væri, en alltaf hafi verið leitað samráðs við hann og honum gefinn kostur á að vera við yfirheyrslur og viðræðufundi. Verjandinn hafi þó tekið fram við það tækifæri að hann teldi að rannsóknin hefði átt að ná til fleiri þátta og hafi hann áskilið sér fullan rétt til að gera kröfu um slíkt. Um einstök atriði í framangreindri umfjöllun talsmanns dómfellda gerir ríkissaksóknari meðal annars þá athugasemd að lögreglurannsóknin hafi farið fram eftir gildistöku laga nr. 108/1976 um rannsóknarlögreglu ríkisins og þeirra breytinga, sem hafi verið gerðar á lögum nr. 74/1974 með lögum nr. 107/1976. Vegna þessara lagabreytinga hafi ekki verið skilyrði til að fela dómstóli þessa rannsókn, svo sem talsmaður dómfellda haldi fram. Þá telur ríkissaksóknari að við umfjöllun um aðdragandann að framangreindu atviki 5. maí 1976 dragi talsmaður dómfellda of víðtækar ályktanir af því, sem fært hafi verið í dagbók Síðumúlafangelsis, en um almennt mat á gildi þess, sem þar sé að finna, vísar ríkissaksóknari til þess, sem áður hefur verið getið. Telur ríkissaksóknari að talsmaðurinn færi fram í þessu sambandi getsakir og ályktanir, sem séu eingöngu gagnrýni á forsendur fyrir dómi Hæstaréttar í málinu og mat réttarins á gögnum þess. Skipti engu hvort samprófunin 5. maí 1976 hafi snúið að hvarfi Guðmundar Einarssonar eða Geirfinns Einarssonar.

 

Í umsögn ríkissaksóknara er þess getið að dómsrannsókn, sem Steingrímur Gautur Kristjánsson héraðsdómari hafði með hendi og talsmaður dómfellda hefur vikið að eins og áður greinir, hafi ekki fylgt gögnum þessa máls. Talsmaðurinn hafi ekki beint fyrirspurn til ríkissaksóknara um þessa rannsókn, en allt að einu sé af hálfu ákæruvalds talið rétt að leggja nú fyrir Hæstarétt gögn um hana, svo og eintak af bréfum, sem hafi gengið á milli dómarans, ríkissaksóknara og dómsmálaráðuneytisins að henni lokinni. Ríkissaksóknari getur þess sérstaklega að við þessa rannsókn hafi forstöðumaður Síðumúlafangelsis verið spurður við skýrslugjöf 11. október 1976 almennt um agaviðurlög og öryggisráðstafanir í fangelsinu, svo og hvaða reglur hafi verið um beitingu þeirra. Forstöðumaðurinn hafi þá svarað því til að hann teldi reglugerð um fangelsi frá 1957 ekki gilda um Síðumúlafangelsið og þar sem dómsmálaráðuneytið hafi ekki sett reglur um það, eins og ætlast hafi verið til, hafi hann sjálfur orðið að mynda þær reglur, sem haldið hafi verið uppi í fangelsinu. Kveðst ríkissaksóknari ekki geta tekið undir þetta sjónarmið forstöðumannsins. Dómarinn hafi sent ríkissaksóknara endurrit rannsóknar sinnar 19. nóvember 1976, en 23. febrúar 1977 hafi gögnin verið send dómsmálaráðuneytinu til umsagnar. Ráðuneytið hafi síðan látið ríkissaksóknara í té umsögn sína 12. apríl sama árs. Þar hafi verið greint frá þeim réttarreglum, sem ráðuneytið hafi talið gilda í sambandi við framangreint, en jafnframt hafi komið þar fram að því hafi verið kunnugt um þá framkvæmd, sem hafi verið viðhöfð að þessu leyti í fangelsinu á umræddum tíma. Ríkissaksóknari kveðst ekki líta svo á að þessi gögn hafi bein áhrif á það hvort orðið skuli við beiðni dómfellda um endurupptöku, en þau séu lögð fram til að varpa ljósi á atvik, sem geti skipt máli, einkum vegna áherslu, sem talsmaður dómfellda leggi á aðstæður og atvik í fangelsinu á gæsluvarðhaldstímanum.

 

6.6. Talsmaður dómfellda vísar til þess að verjandi hans hafi leitað eftir því með bréfi 11. maí 1977 til dómsforseta í héraði að lagðar yrðu fram skýrslur úr dagbókum fangelsa um yfirheyrslur yfir dómfellda, heimsóknir og allt annað, sem varði dvöl hans þar. Forstöðumaður Síðumúlafangelsis hafi af þessu tilefni sent verjandanum "allar umbeðnar upplýsingar", sem forstöðumaðurinn hafi nefnt svo í bréfi 13. júní 1977. Bréfinu hafi fylgt endurrit úr dagbók fangelsisins fyrir tímabilið frá 12. desember 1975 til 31. janúar 1977, sem forstöðumaðurinn hafi staðfest að væri rétt. Talsmaðurinn kveður verjendur og Hæstarétt hafa mátt treysta því að í endurritinu væri að finna allar bókanir varðandi dómfellda, en hvorki verjendurnir né rétturinn hafi haft aðgang að dagbókinni, gagnstætt þeim sem höfðu rannsókn málsins með hendi. Nú hafi hins vegar tekist að kanna efni dagbókarinnar og gera nýtt endurrit úr henni. Komi þá í ljós að í endurriti forstöðumannsins séu ekki tekin upp atriði, sem hafi verið andstæð rannsóknarmönnum og ákæruvaldinu. Af þessu eru tekin 25 dæmi í greinargerð dómfellda, en atriði, sem hann kveður vanta í endurriti forstöðumannsins, lúti meðal annars að notkun handjárna og fótajárna á dómfellda, sviptingu á tilteknum munum og þjónustu, niðrandi ummælum um hann og samskiptum hans við réttargæslumann. Í dagbókinni megi einnig finna upplýsingar um meðferð á öðrum föngum, sem hafið komið við sögu málsins, svo sem dæmi eru tekin um í greinargerð dómfellda. Umfjöllun í dagbókinni, sem hafi verið sleppt í endurriti forstöðumannsins um notkun handjárna og fótajárna á dómfellda, varði meðferð á honum, sem hafi verið andstæð ákvæðum 28., sbr. 46. gr. reglugerðar nr. 260/1957 um fangavist, 6. gr. laga nr. 38/1973 um fangelsi og vinnuhæli og 48. gr. almennra hegningarlaga. Þá telur talsmaðurinn útgáfu rangs endurrits úr fangelsisdagbókum hafa varðað refsingu samkvæmt 158. gr. almennra hegningarlaga, en tilgangur þess athæfis virðist hér hafa verið að halda leyndum ólögmætum aðgerðum og hafa þannig áhrif á niðurstöðu Hæstaréttar í málinu. Talsmaðurinn vísar til þess að í dómi Hæstaréttar hafi verið talið að annmarkar á rannsókninni væru ekki í svo ríkum mæli að játningar dómfellda og Kristjáns Viðars Viðarssonar yrðu ekki lagðar til grundvallar. Megi telja líklegt að það mat hefði orðið á annan veg ef Hæstarétti hefði verið kunnugt um aðgerðir, sem nú hafi fyrst verið aflað upplýsinga um úr fangelsisdagbók.

 

Af hálfu ákæruvalds er bent á að um form og efni fangelsisdagbóka séu engar settar lagareglur, en þær séu færðar af þeim, sem stjórni vakt í fangelsi á hverjum tíma. Ríkissaksóknari kveður ákæruvaldinu ekki hafa verið kunnugt um að annmarkar hafi verið á því endurriti úr fangelsisdagbók, sem forstöðumaður Síðumúlafangelsis lét í té og staðfesti, en ríkissaksóknari bendir á að út af fyrir sig séu færslur, sem greint sé frá í endurritinu, ekki vefengdar, heldur vanti í það færslur, svo sem talsmaður dómfellda hafi bent á. Því sé mótmælt, sem talsmaðurinn staðhæfi, að stjórnvöld hafi látið í té rangan útdrátt úr fangelsisdagbók til að blekkja Hæstarétt. Sá, sem hafi gert endurritið, sé látinn og geti því ekki svarað hvers vegna það hafi ekki haft að geyma allar færslur í fangelsisdagbók varðandi dómfellda, svo sem ætlast hafi verið til. Því verði heldur ekki svarað nú hvort umrædd háttsemi hans hafi verið refsiverð. Forstöðumaður Síðumúlafangelsis hafi ekki verið stjórnvald og hafi því enginn í slíkri stöðu komið að gerð eða staðfestingu endurritsins. Ríkissaksóknari telur efni til að árétta að starfsmenn fangelsa hafi hvorki gegnt hlutverki við rannsókn opinberra mála né verið starfsmenn dómstóla. Sé engin ástæða til að ætla að einhver þeirra, sem hafi borið ábyrgð á rannsókn málsins eða meðferð þess fyrir dómi, hafi nokkru sinni skipt sér af því hvað hafi verið fært um það í fangelsisdagbók eða hvernig staðið hafi verið að staðfestingu endurrits úr henni. Ríkissaksóknari heldur því fram að talsmaður dómfellda hafi gert allt of mikið úr einstökum færslum í fangelsisdagbók, en fráleitt sé að færslurnar, sem talsmaðurinn hafi gert að umtalsefni, hefðu skipt nokkru máli fyrir niðurstöðu málsins. Í tengslum við það er bent á að þrátt fyrir framlagningu endurrits forstöðumannsins við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti og umfjöllun í dómi réttarins um harðræði við ákærðu sé hvergi vikið þar að endurritinu og hafi heldur ekki verið kallað eftir sams konar upplýsingum um aðra en dómfellda. Efni færslna í dagbókinni lýsi fyrst og fremst einkaskoðunum og orðnotkun þess, sem þær geri. Ekki sé því mælt bót að farið sé niðrandi orðum um fanga í fangelsisdagbókum eða annars staðar og því síður að færslur úr þeim séu ekki teknar upp í endurrit, sem sé ætlað til framlagningar í dómsmáli. Þetta breyti því þó ekki að færslur í fangelsisdagbókinni hefðu engu skipt um úrslit málsins þótt þær hefðu legið frammi í því frá upphafi. Telur ríkissaksóknari að þetta geti því ekki orðið til þess að málið verði endurupptekið.

 

6.7. Talsmaðurinn telur að við úrlausn málsins hafi ekki verið tekið tillit til þess við mat á gildi framburðar dómfellda og annarra sakborninga að þeir hafi orðið að sæta gæsluvarðhaldi svo árum skipti. Þannig hafi meðal annars verið vísað í dómi Hæstaréttar til framburðar, sem hann gaf 20. og 21. júní 1977 eftir að hafa verið hálft annað ár í einangrun. Dómfelldi hafi ekki fengið að fara út í fangelsisgarð fyrstu 9 mánuði gæsluvarðhaldstímans. Ekki verði fundið í gögnum málsins hver hafi ákveðið að algjör einangrun dómfellda, sem hafi verið lífshættuleg, skyldi standa svo lengi sem raun bar vitni. Þó sé upplýst að sakadómi Reykjavíkur og ríkissaksóknara hafi verið kunnugt um einangrunina og beri því ábyrgð á henni ásamt dómsmálaráðuneytinu, sem hafi verið kunngerðar þessar aðstæður á árinu 1976. Varðandi aðbúnað í Síðumúlafangelsi vitnar talsmaðurinn til þess að í dómum Hæstaréttar frá árinu 1983 í málum, sem Einar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen höfðuðu til heimtu bóta vegna gæsluvarðhalds að ósekju, hafi meðal annars verið byggt á því að Síðumúlafangelsi hafi ekki verið forsvaranlegt til svo langrar vistunar, sem þeir hefðu sætt. Í dómunum hafi gæsluvarðhaldsvistin, sem stóð í 90 til 105 daga, jafnframt verið sögð óvenjulangvinn. Telur talsmaðurinn ekki þörf frekari gagna um bagalegt ástand fangelsisins, sem hafi í ýmsum atriðum ekki uppfyllt heilbrigðiskröfur. Um áhrif þeirrar einangrunar, sem dómfelldi hafi orðið að sæta, vísar talsmaðurinn til vottorða nafngreinds læknis um hann og Kristján Viðar Viðarsson frá því í nóvember 1978, en talsmaðurinn kveður vottorðin hafa leitt til þess að dómfelldi hafi verið fluttur að Litla Hrauni. Í einu þessara vottorða hafi læknirinn látið í ljós það álit að einangrun dómfellda og Kristjáns væri án efa mikil áreynsla á geðheilsu þeirra og væri ákaflega erfitt að segja hversu lengi þeir myndu þola þetta mikla álag. Talsmaðurinn vísar til nýlegra læknisfræðilegra gagna, þar sem talið sé að einangrun fanga í lengri tíma en 3 eða 4 vikur sé óráðleg vegna hættu á heilsufarsvanda. Hann kveður það vera mjög umdeilt hvort réttar skýrslur verði fengnar eftir einangrun, en fræðimenn hafi sýnt fram á að einangrun ásamt tilteknum yfirheyrsluaðferðum leiði iðulega til rangra játninga.

 

Talsmaðurinn bendir á að þegar gæsluvarðhald yfir dómfellda var framlengt um 60 daga hinn 11. janúar 1976 hafi verið byggt á því að hann lægi undir grun um að hafa orðið Guðmundi Einarssyni að bana. Við það tækifæri hafi honum verið gert að gangast undir geðrannsókn. Í gögnum málsins komi ekkert fram um hvenær óskað hafi verið eftir geðrannsókninni og sé skýrsla um hana heldur ekki dagsett, en þó lögð fram á dómþingi 28. apríl 1977. Samkvæmt fangelsisdagbók hafi geðlæknir, sem annaðist geðrannsóknina, átt viðtöl við dómfellda á tímabilinu frá maí til júlí 1976. Telur talsmaðurinn mega álykta af þessu að þegar hafi verið búið að ákveða 11. janúar 1976 eða dagana þar á eftir að dómfellda yrði haldið í gæsluvarðhaldi að minnsta kosti næstu mánuðina. Sé skýringin á því líklega sú að ákveðið hafi verið að freista þess að fá hann til að játa á sig sök á hvarfi Geirfinns Einarssonar með langri gæsluvarðhaldsvist í einangrun.

 

6.8. Talsmaðurinn kveður fangelsislækni hafa komið vikulega í Síðumúlafangelsi á því tímaskeiði, sem dómfelldi var vistaður þar í gæsluvarðhaldi. Gögn málsins bendi ekki til þess að almenn læknisskoðun hafi verið gerð á dómfellda fyrr eða síðar og sé því ekkert vitað um andlegt og líkamlegt heilbrigði hans á meðan hann sætti gæsluvarðhaldi. Samkvæmt fangelsisdagbók hafi hann fyrst hitt lækni eftir rúmlega þriggja vikna varðhaldsvist í einangrun. Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði læknis um lyfjanotkun dómfellda í varðhaldinu hafi hann fengið lyf í fyrsta sinn við það tækifæri, eða 3. janúar 1976. Í dagbók fangelsisins hafi hins vegar verið fært þennan dag að lyfið diazepam hafi verið tekið af dómfellda. Talsmaðurinn telur þetta benda til þess að fangaverðir hafi tekið ákvarðanir um lyfjagjöf og jafnvel breytt fyrirmælum læknis. Þessu til stuðnings eru tekin fleiri dæmi í greinargerð dómfellda. Að auki er greint þar frá tilvikum, þar sem getið hafi verið veikinda hans í fangelsisdagbók, en læknir hafi ýmist seint eða ekkert verið kvaddur til. Talsmaðurinn kveður fangaverði hafa fært föngum lyf og hafi þau þá verið mulin, þannig að fangarnir gætu ekki fylgst með því hvað þeim væri gefið. Hjúkrunarfólk hafi ekki annast þetta verk, svo sem rétt hefði verið, heldur fangaverðir, sem hafi ekki búið yfir nægri þekkingu til þess og hafi að auki verið virkir þátttakendur í rannsókn málsins. Talsmaðurinn telur allt framangreint hafa verið andstætt grundvallarreglum um meðferð fanga, sem hefðu átt að tryggja að heilsu dómfellda yrði borgið. Þá bendir talsmaðurinn sérstaklega á að fyrir liggi að á tímabilinu frá 1. ágúst til 11. desember 1976 hafi dómfellda meðal annars verið gefin lyfin mogadon, tryptizol, diazepam og belladenal. Á þessu sama tímabili hafi hann oft verið yfirheyrður vegna rannsóknarinnar á hvarfi Geirfinns Einarssonar og meðal annars gefið skýrslur með játningu um að hafa átt hlut að því. Þá sýni skrá um lyfjagjöf að Kristjáni Viðari Viðarssyni hafi verið gefin margvísleg hugbreytingarlyf á meðan hann sætti gæsluvarðhaldi. Talsmaðurinn bendir á að í tiltekið skipti, 11. desember 1975, hafi verið bókað að beðið hafi verið með að yfirheyra Kristján fram yfir lyfjagjöf. Þetta telur talsmaðurinn hugsanlega benda til þess að lyfjagjafir og yfirheyrslur hafi verið tengdar þannig að rannsóknarmenn hafi haft í huga að lyf ynnu með þeim. Um áhrif lyfja að þessu leyti vísar talsmaðurinn til bréfs, sem landlæknir ritaði 4. febrúar 1997 í tilefni fyrirspurnar hans. Þar segi meðal annars að á þeim tíma, sem dómfelldi sætti gæsluvarðhaldi, hafi tíðkast að ávísa svefnlyfjum og róandi lyfjum í tiltölulega stórum skömmtum, enda hafi þá læknar ekki þekkt fylgikvilla slíkra lyfja. Þá segi einnig í bréfinu að í ljósi síðari þekkingar valdi of stór skammtur lyfja af þessum toga óæskilegu hugarástandi, sem einkennist af litlum viðnámsþrótti, uppgjöf, sljóleika, kæruleysi og jafnvel skertu minni. Talsmaðurinn vitnar til þess að verjandi dómfellda hafi ásamt öðrum verjanda krafist þess í ársbyrjun 1980 að aflað yrði sérfræðilegrar álitsgerðar um áhrif lyfjagjafar til ákærðu undir rannsókn málsins, en þeirri kröfu hafi ekki verið sinnt. Fyrrnefnt bréf landlæknis sé nýtt gagn, sem sanni meðal annars að lítið mark hafi verið takandi á framburði dómfellda og annarra ákærðu, því að lyfin hafi gert þá leiðitama. Sé niðurstaðan augljós þegar þetta hafi farið saman við áhrif aldurs þeirra og einangrunar.

 

Af hálfu ákæruvalds er bent á að allar upplýsingar um lyfjagjöf til ákærðu hafi legið fyrir við flutning og úrlausn málsins. Verjendur hafi ekki óskað eftir sérfræðilegum álitsgerðum, sem talsmaður dómfellda geri að umtalsefni, fyrr en nokkrum dögum fyrir munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti, en ekkert ráðrúm hafi þá verið til að afla slíkra álitsgerða. Ríkissaksóknari heldur því fram að lyfjagjöf til sakborninga í þessu máli hafi ekki á neinn hátt verið frábrugðin því, sem hafi tíðkast við lyfjagjöf til annarra fanga á sama tímabili. Lyf hafi verið mulin til að koma í veg fyrir að fangar gætu safnað saman töflum til að nýta þær í öðrum tilgangi en fangelsislæknir hafi ætlast til. Ríkissaksóknari getur þess að frá árinu 1993 hafi hjúkrunarfræðingar komið að meðferð lyfja í fangelsum, en þá aðeins til að taka til lyfin, sem fangaverðir færi föngum. Lyf séu enn mulin ef ástæða þyki til að ætla að fangi muni safna þeim upp. Að öðru leyti bendir ríkissaksóknari sérstaklega á að tilvitnun talsmanns dómfellda til bókunar 11. desember 1975 um að beðið hafi verið með yfirheyrslu yfir Kristjáni Viðari Viðarssyni fram yfir lyfjagjöf geti ekki varðað þetta mál, þar sem lögreglan hafi fyrst yfirheyrt Kristján út af því 23. sama mánaðar. Séu því engin tengsl á milli málsins og fyrrgreindra hugleiðinga, sem talsmaður dómfellda hafi talið þessi atvik gefa tilefni til, en þær telur ríkissaksóknari tilhæfulausar.

 

6.9. Talsmaður dómfellda telur dómsniðurstöðu um sakarefni í I. kafla í báðum ákærum málsins byggða á játningum, sem styðjist ekki við sýnileg sönnunargögn eða framburð utanaðkomandi vitna. Hann vísar til þess að á ákæruvaldinu hvíli sönnunarbyrði um sekt sakbornings og atriði honum í óhag. Af þessu leiði að sé vefengt að játning hafi fengist með vilja sakbornings og því haldið fram að honum hafi verið þröngvað til framburðar með pyndingum, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða hótunum um ofbeldi verði ákæruvaldið að bera sönnunarbyrði fyrir því gagnstæða, enda séu játningar, sem fengnar séu á slíkan hátt, ekki áreiðanlegar. Við úrlausn málsins hafi þessa sjónarmiðs ekki verið gætt, heldur virðist sönnunarbyrðin hafa verið lögð á dómfellda og aðra ákærðu fyrir því að rangar játningar þeirra hafi verið fengnar með þeim hætti, sem þeir héldu fram, þótt misbrestur hafi verið á að vottur og réttargæslumaður væru staddir við lögregluyfirheyrslur og að þinghöld við meðferð málsins væru opin. Þá telur talsmaðurinn að dómstólar hafi lagt of mikið traust á ætlaða játningu dómfellda, Kristjáns Viðars Viðarssonar, Tryggva Rúnars Leifssonar, Erlu Bolladóttur og Guðjóns Skarphéðinssonar, þegar tekið sé tillit til niðurstaðna geðrannsókna á þeim, því að þar komi fram að þau hafi öll verið haldin nánar tilteknum einkennum, sem hafi auðveldað lögreglumönnum að hafa áhrif á þau. Niðurstöður geðlækna um þau séu líkar að því leyti að ætla megi að öll hafi þau verið mjög áhrifagjörn og auðvelt hafi verið að fá þau til að verða við fyrirmælum og óskum. Til að meta gildi játninga þeirra hefði ákæruvaldinu borið að sýna fram á að þessir þættir í persónuleika þeirra hafi ekki haft áhrif á framburð þeirra.

 

6.10. Talsmaður dómfellda hefur lagt fram með greinargerð hans gögn um aðdraganda þess að Karl Schütz var ráðinn til starfa í tengslum við rannsókn málsins, svo og bréf dómsmálaráðuneytisins 30. maí 1996, sem ritað var í tilefni fyrirspurnar talsmannsins um atriði varðandi þessa ráðningu. Af þessum gögnum telur talsmaðurinn mega ráða að utanríkisráðuneytið hafi haft milligöngu um ráðninguna, en áður en til hennar hafi komið hafi meðal annars verið rætt við Karl Schütz um málið sjálft og þær árásir, sem beinst hafi að íslenskum dómsmálayfirvöldum vegna þess að ekki hafi tekist að leysa það. Talsmaðurinn bendir á að í bréfi dómsmálaráðuneytisins 9. september 1976 hafi Karl Schütz verið nefndur sérfræðilegur ráðunautur sakadómaraembættisins í Reykjavík við rannsókn þessa máls. Þrátt fyrir þetta megi ráða af fjölmörgum gögnum málsins, sem vísað er til í greinargerð dómfellda, að Karl Schütz hafi í reynd stjórnað rannsókn málsins, stýrt yfirheyrslum og lagt þar spurningar fyrir skýrslugjafa, auk þess að gefa fyrirmæli um rannsóknina, meðferð gæslufanga og handtöku sakbornings. Skipti þetta máli í ljósi þess að Karl Schütz hafi hvorki talað né skilið íslensku og hafi því orðið að þýða spurningar og svör við yfirheyrslur með þeirri hættu á mistökum, sem því fylgi, auk þess að brotið hafi verið á rétti sakborninga og vitna til að vera yfirheyrð á íslensku. Þá hafi Karl Schütz ekki fullnægt þeim skilyrðum, sem leiða megi af ákvæðum 33. gr., 35. gr., 39. gr. og 40. gr. laga nr. 74/1974, til að yfirheyra sakborninga og vitni í málinu.

 

Af hálfu ákæruvalds er vísað til þess að upplýsingar um aðild Karls Schütz að rannsókn málsins sjáist í gögnum þess, sem hafi legið fyrir við flutning og úrlausn málsins. Gefi upplýsingarnar því ekkert tilefni til endurupptöku þess.

 

6.11. Eins og áður greinir byggir dómfelldi meðal annars á því að ekki hafi verið skilyrði til saksóknar við útgáfu ákæru 8. desember 1976 vegna sakarefnis í I. kafla hennar. Héraðsdómurum í málinu hafi verið þetta ljóst, svo sem ráða megi af bókun þeirra í þinghaldi 21. mars 1977. Þeir hafi þó ekki vísað málinu frá eða beint því til ákæruvaldsins að afla frekari gagna, heldur tekið rannsókn í sínar hendur og þar með sókn málsins. Dómfelldi telur ljóst af þessu að dómararnir hafi af þessum sökum meðal annars tekið ákvarðanir um öflun sönnunargagna. Þar á meðal hafi þeir stöðvað athugun á fjarvistarsönnun fyrir dómfellda, svo sem ráðið verði af yfirlýsingu Gísla Guðmundssonar, sem er að finna í kafla III.5. hér að framan, og ákveðið að Gunnar Jónsson yrði sóttur til Spánar til að gefa skýrslu í málinu. Héraðsdómararnir hafi þannig aflað gagna og sótt málið og síðan þurft að leggja mat á eigin gagnaöflun og sókn. Að auki hafi héraðsdómararnir kveðið á um gæsluvarðhald yfir dómfellda undir rekstri málsins og byggt þá meðal annars á ákvæði 4. töluliðar 1. mgr. 67. gr. laga nr. 74/1974. Við mat á skilyrði gæsluvarðhalds samkvæmt því ákvæði hafi dómararnir orðið að taka afstöðu til sektar dómfellda og hafi Hæstiréttur einnig þurft að gera það. Þá hafi dómarafulltrúi í sakadómi kveðið á um gæsluvarðhald yfir dómfellda, en slíkur fulltrúi hafi ekki fullnægt kröfum til að teljast sjálfstæður dómari, enda hafi hann verið háður boðvaldi annarra og ekki notið nauðsynlegs starfsöryggis. Af þessum sökum öllum telur dómfelldi sig ekki hafa notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óhlutdrægum dómstóli, svo sem honum sé áskilið í stjórnarskrá og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

 

Af hálfu ákæruvalds er vísað til þess að bókanir og gögn um meðferð málsins fyrir sakadómi hafi legið skýrlega fyrir á þeim tíma, sem málið hafi verið flutt og dæmt. Sé því ekki bent hér á neitt nýtt.

 

6.12. Talsmaður dómfellda bendir á að á dómþingi 21. mars 1977 hafi héraðsdómarar bókað ákvörðun sína um að þinghöld í málinu yrðu lokuð fyrst um sinn. Í bókuninni hafi þetta verið rökstutt með því að yfirheyrslum væri ekki lokið og ósamræmi væri í framburði ákærðu. Talsmaðurinn telur að með þessu hafi verið brotið gegn rétti dómfellda til opinberrar málsmeðferðar samkvæmt 16. gr. laga nr. 74/1974 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, enda hafi ekki verið uppfyllt undanþáguskilyrði fyrrnefnda ákvæðisins, þar með talið a. liðar 2. mgr. þess, því að ákæra hafi þegar verið gefin út í málinu. Þá hafi enginn verjenda ákærðu verið viðstaddur þegar þessi ákvörðun dómsins hafi verið tekin og þeim því ekki gefist kostur á að tjá sig um hana. Talsmaðurinn bendir á að í dómi Hæstaréttar sé hvergi getið um þetta brýna brot á réttindum dómfellda við meðferð málsins í héraði.

 

Af hálfu ákæruvalds er bent á að gögn um framangreint hafi legið fyrir við úrlausn málsins. Séu upplýsingar um þetta efni því ekki ný gögn í skilningi 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 og geti þær því ekki komið til álita við úrlausn um það hvort taka eigi málið upp á ný.

 

6.13. Talsmaður dómfellda finnur að því að eftir þingfestingu málsins og skipun verjenda á dómþingi sakadóms 21. mars 1977 hafi farið í hönd munnleg sönnunarfærsla, þar sem alltaf hafi verið mætt af hálfu ákæruvaldsins, en verjendur hafi aðeins verið boðaðir til þinghalda þegar skjólstæðingar þeirra gáfu skýrslur. Verjendurnir hafi þannig ekki verið boðaðir þegar aðrir ákærðu eða vitni gáfu skýrslur og ákærðu hafi ekki verið gefinn kostur á að vera við skýrslugjöf annarra. Hafi því hvorki verjendur né ákærðu átt kost á að leggja spurningar fyrir aðra ákærðu eða vitni. Um þessa meðferð málsins hafi dómararnir í héraði sett almenna reglu. Frá henni hafi verið einstaka undantekningar, sem skipti ekki máli fyrir heildarniðurstöðu. Telur talsmaðurinn þessa málsmeðferð hafa með nánar tilteknum hætti verið í andstöðu við 102. gr. og 134. gr. laga nr. 74/1974, svo og 1. mgr. og 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Talsmaðurinn bendir enn fremur á að á dómþingi 3. október 1977 hafi dómarar bókað að gefnu tilefni frá einum verjendanna að við þingfestingu málsins hafi þeim verið tilkynnt að meðferð þess yrði fram haldið næstu daga og vikur og væri þeim frjáls aðgangur að þinghöldum. Í bókuninni hafi dómararnir sagst ekki minnast þess að verjendur hafi látið í ljós ósk um að vera staddir við önnur þinghöld en þegar skjólstæðingar þeirra gæfu skýrslur. Hafi verjendunum því alltaf verið tilkynnt um slík þinghöld, en að jafnaði ekki um önnur. Í tengslum við þetta vísar talsmaðurinn til þess að í endurriti frá þinghaldi 21. mars 1977 komi ekki fram að verjendum hafi sérstaklega verið tilkynnt um frjálsan aðgang að þinghöldum eða að verjendur hafi afsalað rétti skjólstæðinga sinna til að leggja spurningar fyrir vitni og aðra ákærðu. Slíkt afsal hefði reyndar verið andstætt skyldum verjendanna gagnvart skjólstæðingum sínum og dómstólnum. Einnig felist í framangreindu að dómendur hafi ranglega byggt á því að verjendur hefðu þurft að óska sérstaklega eftir að fá boðun til allra þinghalda. Hafi verjendur beint eða óbeint látið einhverja slíka afstöðu í ljós, þá hafi borið að bóka það skýrlega og fá að auki staðfestingu ákærðu á þessu afsali réttinda. Slíkar yfirlýsingar hefðu þó ekki dugað, því að hér sé um að ræða óafsalanleg réttindi. Hefði dómurinn því líklega átt að víkja verjendum úr starfi, því að hann hafi ekki getað leyft slíkt afsal á raunverulegri vörn ákærðu í málinu. Þá telur talsmaðurinn einnig þörf á að líta til þess að í lokakafla dóms Hæstaréttar sé tekið fram að stöku sinnum beri bókanir héraðsdóms ekki með sér að reynt hafi verið að kveðja til verjendur við yfirheyrslur, þar sem slíkt hefði verið rétt. Ef skilja eigi þessa athugasemd svo, að Hæstiréttur hafi ranglega staðið í þeirri trú að héraðsdómarar hafi boðað verjendur til þinghalda en láðst að geta þess í bókunum, verði að telja nýjar upplýsingar felast í fyrrgreindri bókun frá 3. október 1977. Að öðrum kosti verði að fallast á að mistök hafi verið gerð við rekstur málsins, sem leiða verði til endurupptöku.

 

Af hálfu ákæruvalds er vísað til þess að framangreind atriði, sem talsmaður dómfellda finni að, hafi legið skýrlega fyrir í gögnum málsins þegar það var flutt og dæmt. Séu því ekki komin fram ný gögn um þetta efni, sem leitt geti til endurupptöku málsins.

 

6.14. Talsmaður dómfellda ber því við að á skorti að öll gögn hafi legið fyrir í málinu. Um þetta vísar hann meðal annars til þess að fyrir liggi að húsleit hafi farið fram á heimili dómfellda að Þverbrekku 4 í Kópavogi 13. desember 1975, þar sem lagt hafi verið hald á mikið af skjölum og bréfum. Samkvæmt athugun, sem Gísli Guðmundsson hafi gert 1981 að tilhlutan dómsmálaráðuneytisins, hafi ekki tekist að upplýsa hvað hafi orðið um þessi gögn. Réttargæslumaður dómfellda hafi ekki átt kost á að kynna sér gögnin, en ekki sé vafi á að aðgangur að þeim hefði getað sannað hvar dómfelldi var á þeim tímum, þegar hann var sakaður um að hafa orðið valdur að mannshvörfum. Einnig megi vísa til þess að í lögregluskýrslu 13. febrúar 1975 hafi verið greint frá atvikum, sem gætu hafa tengst hvarfi Geirfinns. Þessi atvik hafi að einhverju leyti verið rannsökuð af lögreglunni í Keflavík. Gögnum varðandi þessa rannsókn hafi verið komið á framfæri við þá, sem síðar önnuðust rannsókn málsins í Reykjavík, en þau verði ekki fundin nú. Þá telur talsmaðurinn að sannað sé að skrifleg boð dómfellda til dómsmálaráðuneytisins vegna meðferðar á sér í Síðumúlafangelsi, sem hann hafi reynt að koma úr fangelsinu með öðrum fanga, hafi verið tekin og viti enginn hvað orðið hafi um þau. Jafnframt vanti gögn um rannsókn fíkniefnamáls, sem hafi beinst að dómfellda vegna atburða snemma árs 1974, en þar kunni meðal annars að mega finna gögn um fé, sem hann réði yfir um þær mundir. Að auki bendir talsmaðurinn á að gögn varðandi geðrannsókn á Kristjáni Viðari Viðarssyni sýni að tiltekinn dag hafi verið háð dómþing, sem engar bókanir séu frá í málinu, en þetta bendi til að vanrækt hafi verið að leggja fram öll gögn og allar upplýsingar, sem máli skipta. Þessu til viðbótar telur talsmaðurinn að ekki hafi tekist að gera sannfærandi grein fyrir skjölum, sem hafi vantað í samfellda númeraröð í málinu, en þetta hafi á sínum tíma verið gagnrýnt af verjendum án þess að viðunandi skýringar fengjust. Verjendur hafi ekki fengið aðgang að gögnum fyrr en eftir útgáfu ákæru, sem hafi verið andstætt ákvæði 78. gr. laga nr. 74/1974. Þeim hafi að auki aldrei verið veittur aðgangur að gögnum ákæruvaldsins og héraðsdóms, sem hafi ekki verið lögð fram eða kunni að hafa verið tekin út úr málinu, en með þessu telur talsmaðurinn að brotið hafi verið gegn ýmsum nánar tilteknum ákvæðum sömu laga. Allar þessar takmarkanir á aðgangi verjenda að gögnum hafi að auki verið andstæðar fyrirmælum í 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sjálfum hafi dómfellda aldrei verið kynnt gögn málsins við meðferð þess fyrir héraðsdómi. Eftir uppkvaðningu dóms í héraði hafi verjandi dómfellda orðið að leita bréflega eftir því að hann fengi eintak af gögnunum til aflestrar, en upplýsingar um þetta komi nú fyrst fram með nýjum gögnum. Þá finnur talsmaðurinn ítrekað að því að ríkissaksóknari, sem settur hafi verið vegna meðferðar beiðni dómfellda um endurupptöku, hafi neitað sér um aðgang að gögnum í fórum embættis ríkissaksóknara. Verði því að skýra alla óvissu dómfellda í hag.

 

Af hálfu ákæruvalds er því haldið fram að vöntun á gögnum úr fyrrnefndri húsleit að Þverbrekku 4, svo og getgátur talsmanns dómfellda um ástæður fyrir hvarfi gagnanna, skipti engu um hvort heimild standi til þess að málið verði tekið upp á ný. Skipti heldur engu hvort skjöl vanti inn í samfellda númeraröð málsins, enda hafi þetta legið fyrir þegar Hæstiréttur leysti úr því og hefur gildi þess því þegar verið metið. Þá er af hálfu ákæruvalds vísað á bug ásökunum talsmanns dómfellda um að brotinn hafi verið réttur á honum varðandi aðgang að gögnum í vörslum embættis ríkissaksóknara. Er í því sambandi bent á að ríkissaksóknara hafi aðeins eitt sinn borist beiðni frá talsmanninum um tiltekin gögn varðandi málið og hafi þau verið afgreidd innan fárra daga frá því að beiðnin barst. Talsmaðurinn hafi að öðru leyti ekki spurst fyrir um tiltekin gögn, sem hann telji vanta samkvæmt framansögðu. Allt að einu hafi verið kannað hvort þau fyndust í vörslum embættis ríkissaksóknara og hafi það ekki verið nema varðandi þá rannsókn á fíkniefnamáli, sem talsmaðurinn hefur vikið að samkvæmt framansögðu. Gögn um síðastnefnda rannsókn hafi að nokkru verið lögð fyrir Hæstarétt á fyrri stigum við meðferð beiðni dómfellda um endurupptöku málsins, en talsmaður hans hafi ekki leitað eftir frekari gögnum.

 

Ríkissaksóknari getur þess í sambandi við gögn, sem tengjast málinu en hafa ekki verið lögð fram í því, að í upphaflegri beiðni dómfellda um endurupptöku málsins hafi hann getið þess að við rannsókn málsins hafi sakborningar gengist undir svokallað lygamælingapróf hjá dr. Gísla Guðjónssyni, en ekkert hafi komið úr því, sem hafi bent til sektar. Hafi dómfelldi bent á að ekkert hafi komið fram um þetta próf við flutning málsins í héraði eða fyrir Hæstarétti. Ríkissaksóknari kveðst hafa leitað af þessu tilefni skriflegrar heimildar dómfellda til að afla gagna um þetta próf og leggja þau fram, þar sem dr. Gísli Guðjónsson myndi ekki láta gögnin af hendi að öðrum kosti. Þessu erindi hafi talsmaður dómfellda svarað neitandi með bréfi 13. maí 1997.

 

6.15. Talsmaður dómfellda bendir á að dómur sakadóms í málinu hafi verið kveðinn upp 19. desember 1977, en dómur Hæstaréttar ekki fyrr en 22. febrúar 1980. Þessi töf á meðferð málsins eftir uppkvaðningu héraðsdóms feli í sér brot gegn málshraðareglu og hafi ekkert verið skýrð í forsendum dóms Hæstaréttar. Töfin hafi ekki stafað af framhaldsrannsókn, enda hafi aðeins eitt stutt þinghald verið háð í málinu fyrir héraðsdómi eftir uppkvaðningu dóms þar. Þá vísar talsmaðurinn til þess að meðferð málsins fyrir dómi eftir útgáfu fyrri ákæru hafi staðið í rúm þrjú ár, en heildartími málsmeðferðar frá upphafi rannsóknar hafi verið rúm fjögur ár. Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi allan þennan tíma og því átt rétt á að mál hans nyti forgangs. Málshraði hafi ekki verið á ábyrgð hans og verði tafir ekki réttlættar með hegðun hans, enda hafi honum verið óskylt að ljá atbeina sinn til að upplýsa málið. Telur talsmaðurinn að drátturinn á rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi hafi ekki verið réttlættur að lögum og hafi með þessu verið brotinn réttur á dómfellda.

 

Af hálfu ákæruvalds er bent á að eftir uppsögu dóms sakadóms Reykjavíkur hafi verið leitað eftir áliti læknaráðs á skýrslum lækna, sem hafi gert geðrannsóknir á ákærðu. Gögnin hafi verið send læknaráði 20. nóvember 1978, en niðurstaða þess hafi legið fyrir 10. desember 1979. Telur ríkissaksóknari að óverjandi hefði verið að taka málið til flutnings fyrir Hæstarétti án þess að álit læknaráðs lægi fyrir. Einnig bendir hann á að málið hafi verið óvenjulega umfangsmikið og frágangur málsgagna hafi verið vandasamur og tafsamur. Verði að hafa í huga að í málinu hafi verið leyst úr fjölmörgum öðrum ákæruatriðum en beiðni dómfellda um endurupptöku nái til. Því sé haldið fram að tíminn frá uppkvaðningu héraðsdóms til dóms Hæstaréttar hafi ekki verið óeðlilega langur og hafi því engin sérstök ástæða verið til að reifa þessi atriði þar frekar.