V.5.

 

Hlynur Þór Magnússon staðfesti fyrir dóminum yfirlýsingu sína frá 26. ágúst 1996, en hún er tekin upp í kafla III.6. að framan. Eins og fram er komið hóf Hlynur störf sem fangavörður í Síðumúlafangelsi snemma í febrúar 1976. Hann hafði áður starfað í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og kvað hann andrúmsloftið á þessum tveimur stöðum hafa verið gjörólíkt. Viðhorf til fanga í Síðumúlafangelsi hafi verið allt annað og strangara en í hegningarhúsinu.

Hlynur lýsti því að hann hefði farið allmargar ferðir með sakborningum í málinu til að leita að líkum og að minnsta kosti í eitt skipti hefðu hann og dómfelldi verið hlekkjaðir saman, "festir saman með handjárnum, hægri hönd mín og vinstri hönd hans, og þannig vorum við að þvælast lengi dags einhversstaðar suður í hrauni." Hann sagði að einstökum fangavörðum hefði verið fengið það verkefni að vingast við tiltekna fanga í því skyni að fá þá til að tjá sig, en ekki hefði verið um yfirheyrslur að ræða. Hann kvað það hafa komið í sinn hlut að hafa samskipti við Erlu Bolladóttur. Hann hefði farið með skriflegar frásagnir frá henni, en ekki mundi hann hvort þeirra skrifaði niður. Hann sagði að dómfellda hefði á stundum verið meinað að fá bækur, ritföng og tóbak og hafi hann litið svo á að það hafi verið gert til þess að beygja hann. Hlynur sagðist hafa heyrt um það talað í fangelsinu að aðgerðir hefðu verið hafðar í frammi til að svipta dómfellda svefni, en engin dæmi nefndi hann af eigin raun utan þess að vaktarfélagi hans hefði einu sinni farið út að næturlagi og barið grjóti eða einhverju í útvegg til þess að vekja dómfellda og hræða hann. Hann kvaðst ekki sjálfur hafa orðið var við að ljós væri látið loga í klefa dómfellda að næturlagi, en sagt hefði verið að það hefði gerst áður en hann kom til starfa.

Þá staðfesti Hlynur það, sem fram kom í yfirlýsingu hans 26. ágúst 1996, að hann hefði ekki sjálfur orðið vitni að því að dómfelldi hefði verið kaffærður í fangelsinu, en hann hefði hins vegar heyrt umræður um það hvernig unnt væri að nota sér meinta vatnshræðslu hans. Hann lýsti því að dómfelldi hefði verið hafður í fótajárnum sólarhringum saman til þess að kvelja hann, en hann hefði ekki orðið var við að sakborningar í þessu máli hefðu verið strekktir í járnum. Þá sagði hann að sér hefðu þótt með ólíkindum þær lyfjagjafir, sem fangarnir fengu, og hefðu þeir ekki verið spurðir um þær. Hann mundi ekki eftir dæmum um það að beinlínis hafi þurft að þvinga fanga til að taka lyf. Hins vegar kvaðst hann geta fullyrt að lyfjagjöf hefði ekki miðast við það hvort yfirheyra átti fanga eða ekki.