VI.6.

 

6.1. Af hálfu dómfellda hefur því verið borið við að ljósrit úr dagbókum Síðumúlafangelsis, sem lögð eru fram með beiðni hans um endurupptöku málsins, beri með sér að víðtækar yfirheyrslur hafi farið fram yfir honum án þess að fyrir liggi í gögnum málsins lögregluskýrslur eða endurrit úr þingbók um hvað hafi komið fram við slík tækifæri, svo og að yfirheyrslur hafi í ýmsum tilvikum staðið lengur en heimilt var að lögum. Um þetta eru tilfærð dæmi í greinargerð dómfellda, sem geta samrýmst því sem ráðið verður af fangelsisdagbók. Til þess verður að líta að slík dagbók er heimild um vitneskju þess starfsmanns fangelsisins, sem hana færir, og þá öðru fremur um að tiltekinn fangi sé færður úr klefa í hendur lögreglumanna eða fyrir dóm og að fanginn hverfi aftur til klefa síns að liðnum ákveðnum tíma. Dagbókin getur hins vegar að öðru jöfnu ekki veitt viðhlítandi upplýsingar um hvað hafi nánar farið fram á tímaskeiði, sem fangi hefur verið utan klefa síns af ástæðum sem þessum, þar á meðal um lengd yfirheyrslu, ef um hana hefur verið að ræða. Eins og rakið er í kafla II.5.A. hér að framan var því haldið fram af hálfu annars ákærðs undir rekstri málsins fyrir sakadómi Reykjavíkur að hann hafi í fjölda tilvika verið yfirheyrður af lögreglumönnum þegar hann sætti gæsluvarðhaldi án þess að skýrslur hafi verið gerðar. Er þar greint frá spurningum, sem voru lagðar af því tilefni fyrir lögreglumenn, og svörum þeirra, þar sem meðal annars kom fram að slík samtöl við þann gæslufanga geti hafa tengst öðru en yfirheyrslu. Lágu því fyrir við úrlausn málsins upplýsingar um að lögregluskýrslur hafi ekki verið gerðar við öll tækifæri, þegar lögreglumenn og gæslufangar ræddust við utan fangaklefa. Fyrrnefnd gögn, sem nú hafa verið færð fram í tengslum við þetta efni, leiða því ekki sem slík ný atvik í ljós. Þá lá jafnframt fyrir við úrlausn málsins að yfirheyrslur hafi í einhverjum tilvikum staðið lengur yfir en heimilt var að lögum, enda var að því fundið í dómi Hæstaréttar, svo sem áður kom fram í kafla II.5.C.

Skýrslur, sem teknar voru af dómfellda og öðrum ákærðu í málinu, bera með sér að misbrestur hafi verið á því að gætt hafi verið hverju sinni að því að gera þeim grein fyrir réttarstöðu sinni við skýrslugjöf. Þetta lá ljóst fyrir við úrlausn málsins og varð jafnframt tilefni til þeirrar athugasemdar í dómi Hæstaréttar, sem greint er frá í kafla II.5.C. hér að framan. Er því ekki að sjá að röksemdir talsmanns dómfellda, sem að þessu snúa, séu reistar á nýjum upplýsingum.

Af lögregluskýrslum og endurritum úr þingbók verður jafnframt ráðið að dómfelldi og aðrir, sem hafðir voru fyrir sök í málinu, hafi margsinnis gefið skýrslur án þess að réttargæslumaður hafi verið viðstaddur. Þegar rannsókn málsins stóð yfir giltu ákvæði 86. gr. laga nr. 74/1974 um þetta atriði, en að áliðinni rannsókninni var þeim að hluta breytt með 15. gr. laga nr. 107/1976. Eins og ráðið verður af athugasemd í dómi Hæstaréttar, sem áður var getið í kafla II.5.C., var lagt mat á það við úrlausn málsins hvort sá háttur, sem var hafður á í þessum efnum, hafi samrýmst nefndum lagaákvæðum, en það á jafnt við gagnvart dómfellda og öðrum, sem hafðir voru fyrir sök í málinu. Talsmaður dómfellda hefur ekki vísað til nýrra upplýsinga, sem máli geta skipt, í umfjöllun sinni um þetta efni.

Talsmaður dómfellda heldur því fram svo sem áður segir að dómfellda hafi ekki verið gefinn kostur á að taka aftur framburð sinn við skýrslugjöf þegar rannsókn málsins stóð yfir. Með vísan til þess, sem segir í kafla VI.3.2. hér að framan, verður ekki fallist á að slík staðhæfing verði réttilega studd við ummæli í bréfi Arnar Höskuldssonar 22. ágúst 1977, sem talsmaðurinn hefur vísað til í þessu sambandi. Af því, sem áður er rakið í II.3.C. um framburð dómfellda í tengslum við rannsókn á hvarfi Geirfinns Einarssonar, er ljóst að ekki hefur verið virt að vettugi að hann neitaði þar sakargiftum í sumum skýrslum sínum. Af hálfu dómfellda hefur ekki verið rökstutt með viðhlítandi hætti að neitað hafi verið að taka tillit til slíkra breytinga á framburði hans við tiltekin tækifæri, en um þetta efni verða ekki dregnar ákveðnar ályktanir af yfirlýsingu séra Jóns Bjarman, sem áður er greint frá í kafla III.7., eða framburði hans fyrir dómi, sbr. kafla V.4.

 

Eins og áður kom fram í kafla II.3.C. bar dómfelldi því við á dómþingi 13. september 1977, þegar hann breytti framburði sínum um aðild sína að hvarfi Geirfinns Einarssonar, að fyrri framburður hans, sem væri rangur, hafi byggst á sögusögnum lögreglumanna og þróast upp við rannsókn málsins. Þess er jafnframt getið á ýmsum stöðum í II. kafla, þegar greint er frá tilvikum þar sem ákærðu eða vitni tóku aftur fyrri framburð sinn, að þeir, sem þar áttu í hlut, hafi haldið því fram til skýringar að lögreglumenn hafi leitt þá áfram við skýrslugjöf. Við úrlausn málsins var tekin afstaða til slíkra staðhæfinga, en af hálfu dómfellda hafa ekki verið bornar fram nýjar upplýsingar um þetta efni, sem máli skipta.

 

Talsmaður dómfellda hefur í röksemdum sínum bent sérstaklega á ýmis atriði varðandi Erlu Bolladóttur, sem framangreind umfjöllun tekur ekki til. Ekki verður séð að slík atriði séu tengd upplýsingum, sem lágu ekki fyrir við úrlausn málsins, nema að því er varðar 1. lið í yfirlýsingu Erlu 19. nóvember 1996, sbr. kafla III.4. hér að framan. Það, sem greint er frá í þessum lið yfirlýsingarinnar, er með öllu órökstutt og stangast að auki í ýmsum atriðum á við framburð Erlu varðandi sakarefnið í II. kafla ákæru 16. mars 1977, sbr. kafla II.4.C. hér að framan. Eru því ekki efni til að taka tillit til þess, sem í yfirlýsingunni segir. Vegna umfjöllunar talsmanns dómfellda um framburð Erlu á dómþingi 20. desember 1975 er ástæða til að geta þess að tekið er fram í endurriti frá því þinghaldi að Erla hafi skýrt sjálfstætt frá málsatvikum og að framburður hennar hafi verið á sama veg og í lögregluskýrslu, þótt ekki hafi þar verið sérstaklega bókuð frásögn af framburðinum. Getur ekki orkað tvímælis við hvaða lögregluskýrslu hafi þar verið átt, en þess er einnig að gæta að Erla gaf á síðari stigum ítarlega skýrslu um sömu atriði málsins á dómþingi 23. mars 1977, sbr. kafla II.2.B. hér að framan. Varðandi ábendingar talsmannsins, sem snúa að því að við skýrslugjöf hafi Erla ýmist verið talin vitni eða sakborningur, vísast til þess, sem greinir hér í næsta kafla.

 

Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki fallist á að þau atriði, sem fjallað er um í þessum kafla, geti orðið tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til endurupptöku málsins.

 

6.2. Talsmaður dómfellda hefur sem áður segir fundið að því að dómfelldi og Erla Bolladóttir hafi bæði haft sama réttargæslumann á tímabili framan af við rannsókn málsins. Um þetta atriði, sem lá ljóst fyrir við úrlausn málsins og nýjar upplýsingar hafa ekki verið færðar fram um, verður að taka tillit til þess að Jón Oddsson hæstaréttarlögmaður var skipaður réttargæslumaður dómfellda og Erlu þegar þeim var gert að sæta gæsluvarðhaldi 13. desember 1975 vegna gruns, sem beindist að þeim um fjársvik, en til þess sakarefnis tók á síðari stigum 4. liður IV. kafla ákæru 8. desember 1976. Er svo að sjá að ekki hafi verið talið að hagsmunir dómfellda og Erlu vegna þessa sakarefnis hafi rekist þannig á að þeim yrði ekki skipaður sami réttargæslumaður, sbr. 2. mgr. 81. gr. laga nr. 74/1974. Við rannsókn á hvarfi Guðmundar Einarssonar var Erla ekki höfð fyrir sökum, heldur var hún vitni allt frá fyrstu stigum. Sem vitni naut hún ekki liðveislu réttargæslumanns. Stóð eins á við rannsókn á hvarfi Geirfinns Einarssonar allt þar til Erla kvaðst í lögregluskýrslu 4. maí 1976 sjálf hafa orðið Geirfinni að bana, en þá var henni skipaður annar réttargæslumaður. Samkvæmt þessu eiga umræddar aðfinnslur ekki við rök að styðjast og geta ekki orðið tilefni til endurupptöku málsins.

 

6.3. Í lögregluskýrslu 22. desember 1975 um fyrstu yfirheyrsluna yfir dómfellda vegna gruns um aðild hans að hvarfi Guðmundar Einarssonar segir að gætt hafi verið ákvæða 1. mgr. 40. gr. laga nr. 74/1974. Í lögregluskýrslu 22. janúar 1976, þegar dómfelldi var fyrst yfirheyrður vegna gruns um aðild hans að hvarfi Geirfinns Einarssonar, segir að gætt hafi verið sama lagaákvæðis. Þá er þess getið að dómfellda hafi verið kunnugt um nánar tiltekið tilefni yfirheyrslunnar. Sú aðstaða að dómfelldi sætti gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á öðrum sakargiftum á hendur honum stóð því á engan hátt í vegi að þessar skýrslur yrðu teknar. Umræddar lögregluskýrslur gefa ekki tilefni til ályktana um að lögreglumenn hafi staðið ranglega að leiðbeiningum við dómfellda. Skýrslurnar voru meðal gagna, sem lágu fyrir við úrlausn málsins. Nýjar upplýsingar hafa ekki komið fram um þau atriði í tengslum við þessa skýrslugjöf, sem talsmaður dómfellda hefur fundið að. Hefur því ekkert komið fram í þessu sambandi, sem gefur tilefni til endurupptöku málsins.

 

6.4. Í kjölfarið á því að dómfelldi og Tryggvi Rúnar Leifsson breyttu framburði sínum á dómþingi 29. og 30. mars 1977 um aðild sína að hvarfi Guðmundar Einarssonar voru meðal annars teknar skýrslur af lögreglumönnum og fangavörðum við meðferð málsins fyrir sakadómi Reykjavíkur, svo sem nánar greinir í kafla II.5.A. hér að framan. Í þeim skýrslum kom fram frásögn um að fangaverðir hafi leitað upplýsinga hjá sakborningum, sem sættu gæsluvarðhaldi vegna málsins. Við lögreglurannsókn, sem áður er getið og fór fram á árinu 1979 vegna kæru dómfellda um harðræði í Síðumúlafangelsi, lá fyrir ódagsett bréf hans til stjórnanda rannsóknarinnar, þar sem hann meðal annars sakaði tiltekna fangaverði um að hafa yfirheyrt sig á gæsluvarðhaldstímanum og reynt að hafa áhrif á framburð sinn. Skýrslur voru teknar af þessu tilefni af forstöðumanni fangelsisins og nokkrum fjölda fangavarða. Flestir þessara skýrslugjafa kváðu sakborninga hafa rætt um sín mál að eigin frumkvæði án þess að vera spurðir um neitt í því sambandi og könnuðust jafnframt nokkrir þeirra við að upplýsingum um slík samtöl hafi verið komið áfram til rannsóknarmanna. Tveir báru hins vegar að fangaverðir hafi gagngert leitað upplýsinga. Tveir lögreglumenn sögðu fangaverði hafa komið á framfæri skilaboðum, sem þeir töldu sakborningana hafa ætlað lögreglunni, og dómarafulltrúinn, sem stýrði rannsókn málsins, taldi líklegt að upplýsingar hafi borist lögreglumönnum á þann hátt. Eins og greinir í kafla II.5.C. hér að framan var gerð athugasemd í niðurlagi dóms Hæstiréttar um að ástæða væri til að taka fram að fangavörðum væri ekki heimilt að hafa afskipti af rannsókn opinbers máls að eigin frumkvæði. Ekki verður séð að bókun í dagbók Síðumúlafangelsis 11. nóvember 1976, sem talsmaður dómfellda vísar til, og yfirlýsing Hlyns Þórs Magnússonar 26. ágúst 1996, sem áður greinir í kafla III.6. og er um þessi efni í samræmi við framburð hans fyrir dómi, sbr. kafla V.5., veiti neinar upplýsingar umfram það, sem talið hafi verið sannað við úrlausn málsins miðað við fyrrgreinda athugasemd. Með henni var tekin afstaða til afleiðinganna af því framferði fangavarða, sem hér um ræðir. Getur það því ekki gefið tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til að málið verði tekið upp á ný.

 

6.5. Svo sem nánar greinir í röksemdum talsmanns dómfellda varðandi næsta kafla hér á eftir hefur samanburður á endurriti úr dagbók Síðumúlafangelsis, sem forstöðumaður þess lét í té með bréfi 13. júní 1977 og lagt var fram í málinu, við dagbækurnar sjálfar leitt í ljós að allnokkuð vantaði á að í endurritinu væri greint efnislega frá öllum færslum, sem vörðuðu dómfellda. Nokkrar af þeim færslum, sem ekki er greint frá í endurritinu, snúa að aðbúnaði dómfellda í fangelsinu og agaráðstöfunum, sem beindust að honum. Færslur af þeim toga, sem hér verða taldar skipta máli, eru þessar:

 

Hinn 15. febrúar 1976 var greint frá því að kl. 16.45 hafi Örn Höskuldsson dómarafulltrúi og Eggert N. Bjarnason lögreglumaður verið að koma að Síðumúlafangelsi með dómfellda úr ökuferð þegar sá síðastnefndi hafi reynt að strjúka við dyr þess og hafi Örn hlaupið hann uppi. Segir síðan að dómfelldi sé "nú í handa og fótajárnum fær ekki að reykja og engar eldspýtur. Að öðru leyti sem minnsta þjónustu." Ekki er greint í endurritinu frá því efnisatriði, sem felst í tilvitnuðum orðum. Þá var heldur ekki getið í endurritinu um færslu í dagbókina 9. mars 1976, þar sem kom fram að tóbak, sem aðstandandi dómfellda kom með í fangelsið handa honum, hafi verið tekið til geymslu, enda fengi hann ekki tóbak.

 

Hinn 25. apríl 1976 var eftirfarandi fært í dagbókina: "Í dag tók ég allt út frá Sævari nema harðfisk og smávegis annað matarkyns. Í framhaldi af því hef ég ákveðið að ekki verði talað við hann orð í náinni framtíð og honum verði ekki afhentar bækur, spil eða annað til dægrastyttingar meðan hann lýgur annan úr og annan í við yfirheyrsluaðilana, þar á meðal vararíkissaksóknara." Þessa var í engu getið í endurritinu.

 

Hinn 24. maí 1976 var fært í dagbókina að leit hafi staðið yfir á dómfellda og öðrum fanga vegna gruns um sendingu bréfa og tóbaks á milli þeirra. Hafi sá grunur reynst á rökum reistur, því að fundist hafi bréf hjá báðum og tóbak hjá dómfellda, sem hann hafi ekki átt að hafa. Klefar beggja hafi verið tæmdir öllum munum nema því nauðsynlegasta til þrifnaðar, en dómfelldi fengi þó að hafa blýant til afnota á meðan hann lyki sálfræðiprófi, sem svo var nefnt í færslunni. Dómfelldi hafi upplýst að hann hafi fengið tóbakið á salerni og skyldi því aftur hert sú regla að leita þar vel eftir að fangar hafi átt þangað erindi. Sagði síðan: "báðir menn eru í fótajárnum og skulu vera það þangað til annað verður ákveðið." Ekki var greint í endurriti frá neinu því, sem að framan greinir, og heldur ekki frá færslu í dagbók 4. júní 1976 um að dómfelldi hafi verið leystur úr járnum, sem hann hafi haft frá 24. maí sama árs.

 

Dagana 17. og 18. ágúst 1976 var fært í dagbókina að Karl Schütz hafi mælst til þess að dómfelldi fengi pappír til að rita minnispunkta og að við því hafi verið orðið eftir nánar tiltekinni reglu. Ekki var greint frá því í endurritinu.

 

Hinn 7. september 1976 var fært í dagbókina að kl. 20.15 hafi dómfelldi sagst ekki mundu neyta fæðu fyrr en hann fengi blekpenna, sæng, pappír og lak. Réttargæslumaður hans hafi farið um sama leyti. Um kl. 21 hafi fundist á salerni bréfmiði til óþekkts viðtakanda, undirritað með upphafsstöfum dómfellda. Engra þessara atriða var getið í endurritinu.

 

Hinn 10. september 1976 var fært í dagbókina að sú breyting hafi orðið á högum dómfellda að hann fengi að hafa tóbak og eldfæri, svo og að hann fengi að fara út í 15 mínútur á dag. Þess var í engu getið í endurritinu.

 

Um sum atriðin, sem hér um ræðir, komu fram einhverjar upplýsingar við lögreglurannsókn á árinu 1979, sem fór fram í tilefni af kæru dómfellda um harðræði í gæsluvarðhaldsvist. Þrátt fyrir það verður ekki talið að ófullkomið endurrit úr fangelsisdagbók, sem lá fyrir við úrlausn málsins, hafi gefið viðhlítandi mynd af því, sem ætlast var til með öflun þess. Verður því að telja framangreindar færslur í bókinni til nýrra upplýsinga, sem meta verður frekar eftir ákvæði a. liðar 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 hvort gefi tilefni til endurupptöku málsins. Þá verður einnig að líta til þess að forstöðumaður Síðumúlafangelsis sagðist í lögregluskýrslu 29. september 1979 vita að dómfelldi hafi verið hafður í fótajárnum vegna agabrots eitt sinn um vorið 1976. Hann lét hins vegar ekki getið um annað tilvik af sama meiði, sem hann ritaði sjálfur fyrrgreinda færslu um í fangelsisdagbók 15. febrúar 1976. Verður að meta hvort þetta gefi tilefni samkvæmt b. lið 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til að taka málið upp á ný. Bæði þessi atriði koma til nánari athugunar í kafla VI.7. hér á eftir.

 

Verjandi dómfellda fór þess á leit með bréfi 6. mars 1979 til ríkissaksóknara að dómfellda yrði gefinn kostur á að gefa frekari skýrslur í málinu, svo og að leggja fram kærur vegna harðræðis, sem hann teldi sig hafa verið beittan í Síðumúlafangelsi og af hendi rannsóknarmanna. Með bréfi dómsmálaráðuneytisins 30. maí sama árs var Þórir Oddsson vararannsóknarlögreglustjóri ríkisins skipaður rannsóknarlögreglustjóri vegna meðferðar málsins, en Hallvarður Einvarðsson rannsóknarlögreglustjóri hafði vikið sæti í málinu og sent ráðuneytinu gögn um það með tilkynningu 10. sama mánaðar. Þegar kæra dómfellda kom fram höfðu lög nr. 108/1976 um rannsóknarlögreglu ríkisins tekið gildi með þeim breytingum, sem þau leiddu af sér á rannsókn opinberra mála. Verður ekki fallist á það með talsmanni dómfellda að kæruefnið hefði orðið að sæta rannsókn fyrir dómi vegna ákvæðis 4. mgr. 70. gr. laga nr. 74/1974, en þess er jafnframt að gæta að af gögnum málsins verður ekki séð að athugasemdum hafi áður verið hreyft af hálfu dómfellda við því að rannsóknin væri í höndum lögreglunnar. Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 108/1976, svo sem henni var breytt með 3. gr. laga nr. 5/1978, var mælt fyrir um hvað valdið gæti vanhæfi rannsóknarlögreglustjóra og hvernig skipaður yrði þá annar maður til að gegna störfum hans við rannsókn tiltekins máls. Um síðargreinda atriðið sagði eftirfarandi í ákvæðinu: "Þegar ráðherra berst slík tilkynning eða hann fær vitneskju um þetta með öðrum hætti, skipar hann vararannsóknarlögreglustjóra eða annan löghæfan mann til meðferðar þess máls ...". Ekki verður séð að bornar hafi verið brigður á hæfi Þóris Oddssonar til að gegna störfum rannsóknarlögreglustjóra varðandi kæru dómfellda á meðan rannsóknin stóð yfir eða við flutning málsins fyrir Hæstarétti. Lét reyndar réttargæslumaður dómfellda sérstaklega í ljós í fundargerð við lok rannsóknarinnar 8. október 1979 að hann teldi "rannsóknaraðila málsins hafa vandað mjög til allra vinnubragða svo til fyrirmyndar er." Við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti var byggt á þeirri rannsókn, sem Þórir Oddsson stýrði, og því sýnilega ekki talið að annmarkar væru á hæfi hans til að gegna starfinu, sem dómurinn yrði að bregðast við af sjálfsdáðum. Getur því ekki komið til álita að nú verði lagt sérstakt mat á þetta atriði.

 

Í köflum II.5.A. og II.5.C. hér að framan er greint frá mati Hæstaréttar á því, sem fram kom við umrædda lögreglurannsókn 1979, svo og mati hans og sakadóms Reykjavíkur á atriðum varðandi meðferð dómfellda í gæsluvarðhaldsvist, sem upp komu við gagnaöflun um þau við meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Eins og nánar er getið í kafla IV.6.5. hér að framan hefur talsmaður dómfellda gert að umtalsefni ábendingar, sem séra Jón Bjarman beindi til dómsmálaráðherra um meðferð dómfellda og annarra sakborninga í málinu í gæsluvarðhaldsvist, svo og fjölmörg önnur atriði, sem komu fram við lögreglurannsóknina og málsmeðferðina í héraði, þar á meðal atriði, sem lúta sérstaklega að tilteknu atviki 5. maí 1976. Ekki verður séð að komið hafi fram svo máli skipti upplýsingar í framburði séra Jóns Bjarman fyrir dómi 20. júní 1997, sbr. kafla V.4. hér að framan, sem ekki lágu áður fyrir. Þá verður heldur ekki séð að framburður Hlyns Þór Magnússonar fyrir dómi sama dag, sbr. kafla V.5., um atriði, sem hann gat borið um af eigin raun, varpi nýju ljósi á atvik málsins, svo að nokkru geti skipt. Um misræmi á milli nýrra upplýsinga úr fangelsisdagbók og framburðar forstöðumanns Síðumúlafangelsis við lögreglurannsóknina er áður rætt. Að öðru leyti en þessu beinist umrædd umfjöllun talsmanns dómfellda að atriðum, sem lágu fyrir við úrlausn málsins og mat var þá lagt á. Hún gefur ekki tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til endurupptöku málsins.

 

Í dómi Hæstaréttar var meðal annars lagt til grundvallar að upplýst hafi verið að dómfelldi hafi sætt harðræði við samprófun 5. maí 1976 með því að forstöðumaður Síðumúlafangelsis, sem þar var viðstaddur, hafi lostið hann kinnhest. Eins og áður greinir í kafla II.5.A. segir eftirfarandi í tengslum við þetta á einum stað í dóminum: "Þegar hin rækilega rannsókn bæði fyrir og eftir uppsögu héraðsdóms varðandi meint harðræði og ólögmæta rannsóknarhætti er virt, verður ekki séð, að játningar ákærðu hafi verið fengnar með ólögmætum aðferðum af hálfu þeirra, er fóru með rannsókn málsins. Kinnhestur sá, sem sannað er, að fangavörður hafi lostið ákærða Sævar, var greiddur honum 5. maí 1976 við samprófun, alllöngu eftir að þessi ákærði játaði atferli sitt að Hamarsbraut 11." Talsmaður dómfellda hefur réttilega bent á að umrædd samprófun tengdist ekki sakargiftum á hendur dómfellda varðandi aðild að hvarfi Guðmundar Einarssonar, eins og síðastgreind ummæli gætu gefið til kynna, heldur rannsókn á hvarfi Geirfinns Einarssonar. Um þetta verður hins vegar að líta til þess að staðhæfingar dómfellda um harðræði komu upphaflega fram við skýrslutöku fyrir héraðsdómi um ákæruefni varðandi hvarf Guðmundar Einarssonar og var tekin afstaða til þessara staðhæfinga í þeim kafla héraðsdómsins, sem laut að því ákæruefni. Tilvitnuð orð eru í þeim kafla dóms Hæstaréttar, sem fjallaði um 1. tölulið I. kafla ákæru 8. desember 1976, þar sem dómfellda var meðal annarra gefið að sök að hafa orðið Guðmundi Einarssyni að bana. Í kafla hæstaréttardómsins, sem sneri að I. kafla ákæru 16. mars 1977, þar sem dómfellda var ásamt öðrum gefið að sök að hafa banað Geirfinni Einarssyni, sagði meðal annars eftirfarandi: "Í úrlausn um I. kafla ákæru 8. desember 1976 hér að framan er vikið að rannsóknum, er fram fóru bæði fyrir uppsögu héraðsdóms og eftir gagngert vegna áburðar ákærðu á hendur rannsóknarmönnum og fangavörðum. Eins og þar greinir, leiða þessar umfangsmiklu rannsóknir eigi í ljós, að þeir annmarkar séu á rannsókn málsins, sem valdi því, að játningar hinna ákærðu Kristjáns og Sævars verði út af fyrir sig eigi lagðar til grundvallar við úrlausn máls þessa." Af þessum tilvitnuðu orðum er ljóst að í dómi Hæstaréttar hefur verið talið að umrætt atvik 5. maí 1976 hefði heldur ekki áhrif á gildi játninga dómfellda og Kristjáns Viðars Viðarssonar á sakargiftum samkvæmt I. kafla ákæru 16. mars 1977. Gefa því athugasemdir talsmanns dómfellda í tengslum við þetta ekki tilefni til endurupptöku málsins.

 

Með bréfi dómsmálaráðherra 28. september 1976 var Steingrímur Gautur Kristjánsson héraðsdómari skipaður sérstakur dómari samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 74/1974 til að rannsaka kæru um ótilhlýðilega beitingu viðurlaga við agabrotum í Síðumúlafangelsi. Kæruefnið snerist í meginatriðum um það að tveir gæsluvarðhaldsfangar, sem ekki voru hafðir fyrir sökum í þessu máli, kváðust hvor um sig hafa sætt þeirri meðferð að vera lagðir á gólf í fangaklefa með járn um handleggi og járn um fótleggi, sem hafi verið fest annars vegar við stólfót og hins vegar við rúmfót, en stólfótur og rúmfótur hafi verið festir í gólf. Dómarinn tók skýrslu 11. október 1976 af forstöðumanni Síðumúlafangelsis, þar sem meðal annars var fært til bókar: "Hann er spurður almennt um agaviðurlög og öryggisráðstafanir, hvaða reglur séu hafðar um beitingu þeirra. Hann kveðst telja að reglugerð um fangelsi frá 1957 gildi ekki um þetta fangelsi og þar sem ekki hafi orðið af því að dómsmálaráðherra setti reglur um fangelsið eins og ætlast sé til, hafi hann orðið að mynda þær reglur, sem haldið sé uppi í fangelsinu. Hann segir að þær reglur séu einfaldar, lögð sé áhersla á það við fangana að þeir sýni kurteisi, enda sé þeim þá sýnd kurteisi á móti; ef fangar séu með uppsteit verði að taka á því." Í bréfi dómsmálaráðuneytisins 12. apríl 1977 til ríkissaksóknara, þar sem gefin var umsögn að lokinni rannsókn dómarans, var meðal annars látið í ljós það álit að reglugerð nr. 260/1957 um fangavist gilti um gæsluvarðhaldsvist í Síðumúlafangelsi. Kom einnig fram að ráðuneytið teldi forstöðumann fangelsisins hafa þurft að beita þeim aðferðum, sem lýst hafi verið í rannsókninni, við fanga, sem hafi óhlýðnast mjög fyrirmælum fangavarða eða valdið sérstökum óróa, enda hafi enginn einangrunarklefi verið í fangelsinu eða annar búnaður til að einangra fanga, sem hafi truflað umhverfi sitt. Lýsti ráðuneytið því áliti að agaviðurlög eins og beitt hafi verið væru ekki heppileg, en á meðan annarra kosta væri ekki völ í fangelsinu hefði ráðuneytið ekki lagt bann við notkun þeirra. Gögn um rannsóknina, sem hér um ræðir, voru ekki lögð fram við meðferð málsins. Atriði, sem þar greinir, einkum fyrrnefnd skoðun forstöðumanns Síðumúlafangelsisins á því hvaða reglur hafi gilt um beitingu agaviðurlaga þar gagnvart gæsluföngum, verða að teljast nýjar upplýsingar, sem meta verður frekar eftir ákvæði a. liðar 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 hvort gefi tilefni til endurupptöku málsins. Kemur þetta til nánari athugunar í kafla VI.7. hér á eftir.

 

6.6. Í bréfi verjanda dómfellda 11. maí 1977 til sakadóms Reykjavíkur fór hann þess meðal annars á leit að honum yrðu látnar í té "skýrslur úr dagbókum fangelsanna um yfirheyrslur yfir skjólstæðingi mínum, heimsóknir og allt það er varðar dvöl skjólstæðings míns svo sem læknisvitjanir, hvenær hann hafði bækur, skriffæri, tóbak og annað, hversu lengi yfirheyrslur stóðu, hvaða fangaverðir voru á hverjum tíma og hvenær nýir menn ráðnir ...". Samkvæmt þessari beiðni sendi forstöðumaður Síðumúlafangelsis verjandanum skjal með yfirskriftinni "Endurrit úr dagbók fangelsisins að Síðumúla 28, vegna innsetningar, yfirheyrslna og læknisvitjana í sambandi við Sævar Marinó Ciesielski" ásamt bréfi 13. júní 1977, þar sem forstöðumaðurinn kvaðst afhenda "staðfest endurrit úr dagbók fangelsisins, varðandi allar umbeðnar upplýsingar um gæsluvarðhaldsfangann Sævar Marinó Ciesielski, sem þér báðuð mig um í bréfi dags. 11. maí sl." Endurritið var áritað af forstöðumanninum um staðfestingu. Með ljósritum úr fangelsisdagbók, sem talsmaður dómfellda hefur lagt fram, er leitt í ljós að í endurritinu hefur ekki verið getið um ýmis atriði, sem færð voru í dagbókina og beiðni verjandans náði til. Í kafla VI.6.5. hér að framan er getið atriða, sem voru ekki tekin upp í endurritið og vörðuðu agaviðurlög gagnvart dómfellda og aðbúnað hans í fangelsinu. Að því leyti, sem máli getur skipt, snúa önnur atriði í fangelsisdagbókinni, sem talsmaður dómfellda hefur getið um og hafa ekki verið tekin upp í endurritið, meira eða minna eingöngu að afstöðu þess, sem ritað hefur í dagbók hverju sinni, til dómfellda. Allt að einu getur skortur á upplýsingum um þau talist hafa skekkt þá heildarmynd, sem álykta mátti um af endurritinu einu saman. Verður því að telja að fyrrnefnd ljósrit úr fangelsisdagbók hafi að þessu leyti að geyma nýjar upplýsingar í skilningi 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991. Kemur til nánari athugunar í kafla VI.7. hér á eftir hvert gildi þær upplýsingar hafi fyrir beiðni um endurupptöku málsins.

 

6.7. Við úrlausn málsins lá fyrir að dómfelldi hafði sætt einangrun í gæsluvarðhaldsvist um lengri tíma, svo og hvað gert hafi verið að gengnum héraðsdómi til að aflétta einangrun að nokkru leyti. Þá lágu fyrir við úrlausn málsins gögn um aðstæður í Síðumúlafangelsi, sem var aflað við fyrrnefnda lögreglurannsókn á árinu 1979, en í þeim voru upplýsingar um margvíslega annmarka á aðbúnaði í fangelsinu. Til þessara atriða og hugsanlegra áhrifa þeirra á framburð dómfellda og annarra ákærðu, sem sættu gæsluvarðhaldi í umræddu fangelsi, var því tekin afstaða þegar dómur var felldur á málið. Upplýsingar hafa ekki komið fram nú um atriði, sem ekki var kunnugt um við úrlausn málsins. Er því ekki tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til að málið verði tekið upp á ný af þessum sökum.

 

6.8. Ekki hafa verið lögð fram viðhlítandi gögn til stuðnings því að vanrækt hafi verið að afla læknishjálpar fyrir dómfellda þegar hann kann að hafa þarfnast hennar á meðan hann sætti gæsluvarðhaldi vegna málsins. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lágu fyrir vottorð Guðsteins Þengilssonar 7. nóvember 1979 um lyfjanotkun dómfellda og annarra ákærðu á gæsluvarðhaldstímanum, en Guðsteinn gegndi þá starfi fangelsislæknis. Kom fram í vottorði læknisins að dómfellda hafi verið gefin eftirfarandi lyf á því tímabili, sem hér getur skipt máli:

 

"3/1 1976: chlordiazepoxid 10 mg x 3

13/2 1976: diazepam 5 mg x 2 og 10 mg vesp. librax 1 x 2

5/6 1976: diazepam 10 mg x 3. somadril l tbl 3-4 sinnum dgl.

28/6 1976: diazepam 5 mg x 3 chlorpromazine 150 mg vesp tanderil 2 tbl 2svar dgl.

1/8 1976: tryptizol 25 mg x 3 diazepam 5 mg x 3 mogadon 5 mg vesp dolviran 2-3 tbl dgl ef þarf. Caps achromycin 250 mg x 3

16/10 1976: tryptizol 75 mg vesp, diazepam 10 mg vesp, mogadon 5 mg vesp, dulcolax 1 tbl dgl dolviran nostrum ef þarf

14/11 1976: tryptizol 75 mg vesp, diazepam 10 mg vesp., belladenal 1 tbl x 2 dolviran nostr ef þarf

11/12 1976: tryptizol 75 mg vesp, diazepam 10 mg vesp, dolviran ef þarf

Lyfjagjöf sennilega með líkum hætti fram til apríl 1977.

10/4 1977: tryptizol 50 mg vesp, diazepam 5 mg x 3

6/6 1977: diazepam 5 mg x 2, somadril 2 tbl. vesp, tryptizol 75 mg vesp, oleum paraffini 1 msk 2svar dgl, hóstasaft 1 msk x 3, fjölvitamin 1 tbl x 3

16/7 1977: diazepam 10 mg x 2, coffein 10 mg að morgni, tryptizol 75 mg vesp, oculog. zincfrin x 3. vitamin x 2

31/7 1977: diazep 10 mg x 2, tryptizol 75 mg vesp, coffein 20 mg að morgni, oculog. zincfrin og fjölvitamin sem fyrr

....."

 

Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lá fyrir lögregluskýrsla 15. janúar 1980 um samtal við lækninn, þar sem hann sagðist ekki vita betur en að lyfin hafi verið mulin áður en þau voru gefin sakborningum í þessu máli.

 

Í bréfi talsmanns dómfellda til landlæknis 16. janúar 1997, sem er meðal gagna með beiðni um endurupptöku málsins, sagði meðal annars eftirfarandi: "Ég leyfi mér að senda yður hjálagt upplýsingar fangelsislæknis sem lagðar voru fyrir Hæstarétt um lyfjagjafir til skjólst. m., Kristjáns Viðars Viðarssonar, Tryggva Rúnars Leifssonar, Erlu Bolladóttur, Guðjóns Skarphéðinssonar og Alberts Klahns Skaftasonar. Fer ég þess vinsamlegast á leit að þér látið mér í té gögn eða eftir atvikum umsögn um það, hvaða áhrif samspil lyfjanna annars vegar og samspil lyfjanna og einangrunarinnar hins vegar, kunni að hafa haft á líkamlegt og andlegt ástand gæsluvarðhaldsfanganna í einangrun almennt séð og einkum um það hvort við því megi búast að játningar þeirra séu síður ábyggilegar vegna samverkandi áhrifa einangrunarvistar og lyfjagjafar." Í svarbréfi landlæknis til talsmannsins 4. febrúar 1997 sagði meðal annars: "Á árunum 1970-1980 tíðkaðist að ávísa svefn- og róandi lyfjum í tiltölulega stórum skömmtum. Læknar þekktu ekki fylgikvilla lyfjanna er síðar komu fram og varla hægt að álasa G.Þ. Í ljósi síðari þekkingar eru 30 mg af Diazepam ásamt 3 töflum af Librax, Mogadon o.fl. að öllu jöfnu of stór skammtur. Þetta lyfjamagn veldur gjarnan óæskilegu hugarástandi sem einkennist af litlum viðnámsþrótti, uppgjöf, sljóleika, kæruleysi og jafnvel skertu minni. Helmingatími þessara lyfja er langur og magnið skilast ekki út á einum sólarhring. Þar af leiðandi hafa þessi lyf hlaðist upp en áhrif framangreindra lyfja aukast við viðhaldsskammta sem gefnir eru í langan tíma eins og fram kemur í gögnum."

 

Í ofangreindu bréfi landlæknis er ekki tekin rökstudd afstaða til þess hvaða áhrif lyfin, sem dómfellda voru gefin samkvæmt vottorði Guðsteins Þengilssonar, kunni að hafa haft á framburð hans. Umfjöllunin í bréfinu er mjög almenns eðlis og virðist að auki taka mið af lyfjaskammti, sem var ekki gefinn dómfellda samkvæmt læknisvottorðinu. Er ekki unnt að líta svo á að bréf þetta geti haft sjálfstætt gildi við mat á beiðni dómfellda.

 

Upplýsingar um magn lyfja handa dómfellda og aðferðir við gjöf þeirra lágu samkvæmt áðursögðu fyrir við úrlausn málsins. Ekki verður annað séð en að tilgangur lyfjagjafarinnar hafi verið sá að gera föngunum gæsluvarðhaldsvistina bærilegri, en lyfjagjöfin fór eftir fyrirmælum læknis. Hæstiréttur hefur aflað sér almennra upplýsinga um áhrif þessara lyfja. Verður ekki fallist á að fram séu komnar nýjar upplýsingar, sem gætu orðið tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til endurupptöku málsins. Geta framangreind atriði því ekki leitt til þess að beiðni dómfellda verði tekin til greina.

 

6.9. Við úrlausn málsins var lagt mat á gildi framburðar dómfellda og annarra ákærðu, eins og áður er rakið í köflum II.2.K., II.2.L., II.3.J. og II.3.K. Meðal gagna málsins voru skýrslur um geðrannsókn á dómfellda, Kristjáni Viðari Viðarssyni, Tryggva Rúnari Leifssyni, Erlu Bolladóttur og Guðjóni Skarphéðinssyni, en greint var ítarlega frá þessum skýrslum í héraðsdómi. Við mat á framburði þessara ákærðu hefur að sjálfsögðu verið litið til skýrslna um geðrannsókn og annarra fyrirliggjandi gagna, sem máli gátu skipt um áreiðanleika framburðarins. Af hálfu dómfellda hafa ekki verið færðar fram nýjar upplýsingar um atriði, sem varða áhrif þátta í persónuleika hans og annarra ákærðu á framburð þeirra. Gefur umfjöllun talsmanns dómfellda um þetta því ekki tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til að málið verði tekið upp á ný.

 

6.10. Af gögnum, sem lágu fyrir við úrlausn málsins, var ljóst um þátttöku Karls Schütz í rannsókn þess, svo og að þörf hafi verið á túlki þegar hann var við skýrslutökur. Aðfinnslur talsmanns dómfellda, sem að þessu snúa, gefa ekki tilefni til endurupptöku málsins.

 

6.11. Samkvæmt réttarfarslögum, sem voru í gildi þegar málið var rannsakað og til meðferðar fyrir dómi, var dómara, sem fengið var mál til úrlausnar, unnt að ákveða að einstök atriði þess yrðu rannsökuð frekar, svo og að skera úr um hvort ákærði skyldi sæta gæsluvarðhaldi, án þess að þær aðgerðir hefðu áhrif á hæfi hans til að leysa úr málinu. Eftir þeim lögum hafði dómarafulltrúi jafnframt vald til að kveða á um gæsluvarðhald yfir sakborningi. Breytingar, sem síðan hafa orðið á réttarfarslöggjöf og framkvæmd hennar, raska í engu því, sem gert var löngu áður en þær komu til við rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi. Veita því röksemdir talsmanns dómfellda, sem þetta varða, ekki ástæðu til endurupptöku málsins.

 

6.12. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti lá skýrlega fyrir að þinghöld í málinu fyrir héraðsdómi voru að meginhluta lokuð, svo sem greint var í bókun dómenda í héraði 21. mars 1977. Geta álitaefni um hvort lagaheimild hafi réttilega staðið til þessarar ákvörðunar héraðsdóms ekki orðið tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til endurupptöku málsins.

 

6.13. Í þinghaldi í málinu fyrir sakadómi Reykjavíkur 3. október 1977 var að gefnu nánar tilteknu tilefni meðal annars bókað eftirfarandi: "Við þingfestingu málsins 21. mars s.l. var verjendum tilkynnt að málsmeðferð héldi áfram næstu daga og vikur og væri þeim frjáls aðgangur að öllum þinghöldunum. Dómarar málsins minnast þess ekki að verjendur hafi látið í ljós ósk um að vera viðstaddir önnur þinghöld en þau, er skjólstæðingar þeirra væru mættir. Var þeim því ávallt tilkynnt um slík þinghöld en ekki önnur að jafnaði." Af þessari bókun, sem lá fyrir við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti, var ljóst hvernig staðið var að rekstri þess fyrir héraðsdómi að þessu leyti. Varð þetta tilefni til athugasemdar í dómi Hæstaréttar, svo sem greinir í kafla II.5.C. hér að framan, en í ljósi umræddrar bókunar getur ekki orkað tvímælis hvað átt var við með orðalagi athugasemdarinnar. Var því við úrlausn málsins tekin afstaða til þess hverju það varðaði að verjendur voru ekki boðaðir til allra þinghalda í héraðsdómi. Geta athugasemdir talsmanns dómfellda af þessu tilefni því ekki orðið ástæða samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til endurupptöku málsins.

 

6.14. Talsmaður dómfellda hefur sem fyrr segir bent á að við flutning málsins fyrir Hæstarétti hafi verið gagnrýnt af verjendum ákærðu að misbrestur væri á að framlögð gögn lægju fyrir í samfelldri númeraröð. Þá hefur talsmaðurinn einnig fundið að því að verjendur hafi ekki fengið aðgang að gögnum málsins fyrr en eftir útgáfu ákæru. Bæði þessi atriði lágu fyrir þegar dómur var felldur á málið og geta aðfinnslur vegna þeirra ekki leitt til endurupptöku þess. Varðandi ábendingar talsmannsins um að gögn um tiltekin atriði hafi ekki verið lögð fram í málinu, sbr. kafla IV.6.14. hér að framan, verður ekki litið framhjá því að þær koma fyrst fram nú, þegar meira en 17 ár eru liðin frá því dómur var lagður á málið. Ekki verður annað séð en að tilefni hafi eins verið til að kalla eftir þeim gögnum áður en málið var flutt ef þau þóttu skipta einhverju fyrir vörn dómfellda, en sá tími, sem síðan er liðinn, hefur leitt af sér augljósa hættu á að ekki yrði lengur að þeim gengið. Viðhlítandi rök hafa ekki verið færð fyrir því að þessi gögn hafi falið í sér sönnun um atriði, sem einhverju hefði getað breytt við úrlausn málsins. Getur þetta því heldur ekki gefið tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til að málið verði tekið upp á ný.

 

6.15. Þegar málið var flutt fyrir Hæstarétti var augljóst hversu langur tími var þá liðinn frá því að rannsókn var upphaflega beint að dómfellda og öðrum ákærðu, svo og hvenær ákærur voru gefnar út og dómur var lagður á málið í héraði. Aðfinnslur um tafir í þeim efnum geta ekki orðið ástæða samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til endurupptöku málsins.